Þriðjudagur 30.08.2016 - 12:11 - Rita ummæli

Lök grunnþjónusta og gæluverkefni meirihlutans í Reykjavík

Við afgreiðslu hálfs árs uppgjörs 2016 lögðum við borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins eftirfarandi bókun fram:

,,Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja að ákveðinn viðsnúningur komi fram í 6 mánaða uppgjöri Reykjavíkurborgar. Löngu er kominn tími til að löngu tímabili taprekstrar ljúki. Hafa ber í huga að ástæða viðsnúnings er vegna þess að skatttekjur eru 575 milljónir kr. yfir áætlun og að tekjum er flýtt vegna eftirálagðs útsvars um 1,5 milljarða kr. Þá ber að hafa í huga að tekjufærsla á samstæðu er 5,6 milljarðar kr. vegna hækkunar á eignum Félagsbústaða sem er einungis reiknuð stærð og hefur engin áhrif á rekstur eða efnahag Reykjavíkurborgar nema þessar eignir verði seldar sem varla gerist enda langir biðlistar eftir félagslegu húsnæði. Álagning útsvars á Reykvíkinga er í hæstu leyfilegu hæðum. Lög heimila borginni ekki að hækka útsvarið enn frekar. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja að um leið og svigrúm skapast hjá borginni til að bæta þá grunnþjónustu sem enn er ekki nógu góð eigi að hefja lækkun útsvars.“

Í þessari bókun tölum við um að bæta þurfi grunnþjónustuna. Það virðist snúið hjá meirihluta Pírata, Samfylkingar, Vinstri grænna og Bjartrar framtíðar að hafa hana í lagi. Nágrannasveitarfélög okkar virðast þó ráða ágætlega við það. Líklega er minna um gæluverkefni, á borð við óþarfa þrengingu gatna og annað sem tekur til sín mikið fjármagn en getur engan veginn talist grunnþjónusta hjá þeim sveitarfélögum, en hjá meirihlutanum í Reykjavíkurborg.  

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Rita ummæli

Þú verður að vera innskráð/ur til að rita ummæli.

Höfundur

Halldór Halldórsson
Talsmaður málefnalegrar umræðu.
RSS straumur: RSS straumur