Þriðjudagur 23.2.2010 - 15:25 - Rita ummæli

Stefnumál sambandsins 2009-2010

Það getur verið gagnlegt að kíkja á samþykkta stefnu stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga í hinum ýmsu málum er varða sveitarstjórnarstigið í landinu. Verkefnin eru fjölbreytt, miklu fjölbreyttari en fólk gerir sér almennt grein fyrir.

Kíkið á þetta og ýmislegt fleira á síðu sambandsins.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 19.2.2010 - 16:50 - 1 ummæli

Málefni fatlaðra, nærþjónusta sveitarfélaga

Stefnt er að því að málefni fatlaðra færist frá ríki til sveitarfélaga 1. janúar 2011 og að því er unnið. Framundan er vinnufundur sveitarfélaga 24. febrúar um þetta mikilvæga mál.

Um langa hríð hefur verið vilji fyrir því að færa málefni fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga. Það gekk næstum eftir árið 2001 en þá slitnaði upp úr viðræðum. Mikil vinna hafði þá verið lögð í undirbúning þess máls og fyrir lá frumvarp til laga um félagsþjónustu þar sem þjónusta við fatlaða var felld inn í þann lagabálk. Í raun strandaði málið á því að sveitarfélögin vildu hafa endurskoðunarákvæði í samningi um yfirfærsluna þar sem að tilteknum tíma liðnum yrði þróun kostnaðar og tekna við þjónustuna endurmetin í ljósi reynslunnar.

Árið 2006 fór málið af stað aftur og undanfarin misseri hefur mikil vinna átt sér stað.

Bæði hjá sveitarfélögum, ríki og hjá hagsmunasamtökum fatlaðra hefur verið vilji fyrir því að færa málaflokkinn til sveitarfélaganna. Svo virðist sem flestir telji að þjónusta við fatlaða eigi betur heima hjá sveitarfélögum en ríki.

Það er a.m.k. sameiginlegur skilningur flestra að málaflokkurinn eigi ekki að vera hjá bæði ríki og sveitarfélögum eins og í dag því það skapar grá svæði milli þjónustuaðila með slæmum afleiðingum fyrir þá sem þjónustuna þurfa.

Rannsókna­miðstöð Háskólans á Bifröst vann að beiðni félagsmálaráðuneytisins, vorið og sumarið 2006, rannsókn á viðhorfum sveitarstjórnarmanna og alþingismanna til framtíðar íslenska sveitarstjórnar­stigsins. Könnunin var þýðiskönnun og náði til allra alþingismanna, sveitarstjórnarmanna og fram­kvæmda­stjóra sveitar­félaga í landinu.

Meðal helstu niðurstaðna var þetta:

  • Mikill meirihluti sveitarstjórnar­- og alþingis­manna telur þörf á að efla sveitarstjórnarstigið á Íslandi.
  • Góður meirihluti er jafnframt þeirrar skoðunar að sveitarfélögin séu ekki nægilega öflug til að standa undir núverandi lögbundnum verkefnum og að fjöldi fámennra sveitarfélaga valdi því að íslenska sveitarstjórnarstigið sé veikara en ella.
  • Þrír af hverjum fjórum telja æskilegt að sveitarfélögin taki við fleiri verkefnum frá ríkisvaldinu.
  • Málefni aldraðra og fatlaðra eru þeir málaflokkar sem stjórnmálamenn telja æskilegast að sveitarfélögin taki yfir. Þetta á sérstaklega við um málefni aldraðra en hartnær þrír af hverjum fjórum svarenda vilja flytja þann málaflokk til sveitarfélaga.
  • Þá telja stjórnmálamenn að það sé æski­legt að hækka lágmarksíbúatölu sveitarfélaga og er þá oftast nær nefnd lágmarkstala um og yfir 1000 íbúar.
  • Á sama tíma telur mikill meirihluti stjórnmálamanna að tillögur um sameiningu sveitar­félaga skuli leggja í dóm kjósenda með atkvæðagreiðslum.

Landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga var haldið um haustið 2006 að afloknum sveitarstjórnarkosningum um vorið. Margt var til hliðsjónar á þinginu, m.a. þessi könnun.

Á landsþinginu var samþykkt að fara í stórar yfirfærslur verkefna frá ríki til sveitarfélaga eins og sveitarstjórnarstigið er í dag eða var árið 2006, það hefur ekki breyst mikið síðan þá. Það var með öðrum orðum ákveðið að bíða ekki eftir frekari sameiningum sveitarfélaga og þannig öflugra sveitarstjórnarstigi heldur að sveitarfélögin yrðu að vinna saman að yfirtöku verkefna á ákveðnum landssvæðum eða að sameinast eða annað sem dygði til að ráða við verkefnin.

 Samþykktin er þessi:

,,Mikilvægt er að nú þegar verði hafin vinna við færslu verkefna milli stjórnsýslustiga. Sveitarfélögin lýsa vilja sínum til að taka við verkefnum á sviði heilbrigðis-, mennta- og félagsmála.”

Fyrir þessum vilja sveitarfélaganna í landinu eru ýmsar ástæður. Skulu nokkrar þeirra nefndar hér:

Í fyrsta lagi er velferðarþjónusta og þar á meðal félagsleg þjónusta við íbúana hér á landi í meira mæli verkefni ríkisins og hlutdeild sveitarfélaganna þar af leiðandi minni í ráðstöfun opinberra útgjalda og skipulagningu þjónustunnar en í öðrum norrænum ríkjum sem við berum okkur gjarnan saman við. Í öðrum norrænum ríkjum eru sveitarfélögin með um 60–70% af starfsemi hins opinbera í heild sinni en hér á Íslandi ráðstafa þau um 33% opinberra útgjalda. Skýringin á þessu liggur annarsvegar m.a. í því að þriðja stjórnsýslustigið annars staðar á Norðurlöndum hefur farið með tiltekin opinber verkefni og hinsvegar í fjölda fámennra og vanburðugra sveitarfélaga á Íslandi.

Í öðru lagi er þjónustan bæði á hendi ríkis og sveitarfélaga og í sumum tilvikum ekki nægjanlega glögg skil á því hver á að veita hvaða þjónustu. Það kann að leiða til þess að hvor vísar á annan og þeir sem leita eftir þjónustu vita ekki hvert þeir eiga að leita.

Í þriðja lagi hefur félagsleg þjónusta og önnur opinber þjónusta verið færð frá ríki til nokkurra sveitarfélaga með þeim hætti að sveitarfélögin hafa tekið að sér verkefni, eins og á sviði þjónustu við fatlaða, málefna aldraðra og heilsugæslu, á grundvelli þjónustusamninga við ríkið. Reynsla af því fyrirkomulagi er góð og hefur mælst vel fyrir bæði af þeim sem við þjónustuna starfa og þeirra sem hennar njóta. Gallinn er hinsvegar sá að ríki og sveitarfélög þurfa að semja hverju sinni um fjármögnun þeirrar þjónustu sem sveitarfélögin taka að sér að veita og óvissa getur ríkt um framhald þessa fyrirkomulags.

Í fjórða lagi má vísa til þess að sveitarfélögin eru það stjórnvald sem stendur næst íbúunum og á best að geta metið þörf þeirra fyrir þjónustu almennt og lagað hana að staðbundnum aðstæðum sem geta verið ólíkar eftir svæðum og sveitarfélögum. Það getur miðstýrt ríkisvald í takmarkaðra mæli.

Eins og flestir þekkja hefur vinna við yfirfærsluna staðið yfir frá árinu 2007. Fyrsta fundargerð verkefnisstjórnarinnar er frá apríl 2007.

Viljayfirlýsing milli ríkis og sveitarfélaga um málefni fatlaðra var undirrituð 13. mars 2009, hlutverk hennar er að undirstrika sameiginlegan vilja aðila um að halda áfram með vinnuna. Samkvæmt henni skal skilgreina þjónustusvæði á árinu 2010 og sveitarfélög þurfa að hefja nauðsynlegan undirbúning. Víðast er þessi vinna komin nokkuð af stað. Þá er miðað við að yfirfærslan eigi sér stað 1. janúar 2011 og svo er mikilvægt endurskoðunarákvæði miðað við árið 2014.

Í endurskoðunarákvæðinu er tekið á fjárhagslegum áhrifum tilfærslunnar. Komi í ljós að forsendur hafi ekki staðist mun fara fram leiðrétting á tekjutilflutningi milli ríkis og sveitarfélaga vegna verkefnisins.

Ég hef heyrt þær raddir sem segja, að á krepputímum sé ekki skynsamlegt að sveitarfélög taki við nýjum verkefnum. Ég er ekki sammála því. Þessi flutningur byggir á margra ára vönduðum undirbúningi. Hugmyndafræðin að baki honum er einnig þannig, að hinir tveir aðilar hins opinbera sem almannaþjónustu veita eru að færa til verkefni á sanngjarnan hátt. Þetta er ekki spurning um að annar aðilinn græði eða tapi. Þetta er samstarfsverkefni sem verður fylgst mjög vel með sameiginlega hvernig mun þróast og það verur farið í tekjuleiðréttingar reynist þess þörf. Sveitarfélögin munu taka við ákveðnu þjónustustigi og þau munu þróa það eins og efni og ástæður leyfa. Flutningur þessa verkefnis mun leysa ýmis vandamál sem alltaf verða til vegna þeirra gráu svæða sem skapast milli ríkis og sveitarfélaga í þjónustu við fatlaða. Það kemur þeim best sem þurfa á þjónustunni að halda en einnig sveitarfélögunum sjálfum sem geta samnýtt margt betur í sinni stjórnsýslu.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 18.2.2010 - 17:42 - 4 ummæli

Sjálfstæður seðlabanki núna

Á Alþingi var forsætisráðherra spurð að því hvort hún teldi ummæli fulltrúa í peningastefnunefnd Seðlabankans um að Ísland sé ekki of lítið til að borga allar kröfur Breta og Hollendinga í Icesavedeilunni ekki vera skaðleg fyrir hagsmuni Íslands.

Úr frétt á visir.is: ,,Jóhanna tók undir með Sigmundi og sagði að ummæli Anne væru afar óheppileg. Aftur á móti starfi peningastefnunefnd og Seðlabankinn sjálfstætt. Það væri því ekki í hennar verkahring að víkja Anne úr nefndinni.“

Það var nú hægt að víkja nokkrum seðlabankastjórum úr starfi. Hefur sjálfstæði Seðlabankans aukist síðan?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag
Efnisorð:

Miðvikudagur 17.2.2010 - 20:47 - 11 ummæli

Fyrningarleið var ekki efst á baugi hjá kjósendum

Sá hluti stjórnarliða sem talar fyrir því að stórskaða fyrirtæki í sjávarútvegi og þar með landsbyggðina alveg sérstaklega heldur því fram að um þetta hafi verið kosið vorið 2009.

Það var talað um fyrningarleið í kosningabaráttunni en það sem fólk talaði mest um var bankahrunið og að stjórnarflokkarnir hefðu látið þetta gerast á sinni vakt. Einhverra hluta vegna ákváðu kjósendur að refsa Samfylkingunni ekki fyrir að vera annar stjórnarflokkanna en refsuðu Sjálfstæðisflokknum fyrir það. Eðlileg viðbrögð kjósenda að mörgu leyti því flokkurinn hafði verið miklu lengur í stjórn en Samfylkingin.

Þessu til viðbótar ákváðu margir kjósendur (alltof margir að mínu mati) að veðja á Samfylkinguna vegna stefnu um aðild að ESB.

Þetta heyrði ég fullmarga tala um (þ.e. ESB áhersluna hjá Samfylkingunni) og svo hrunið. Enginn var að tala um fyrningarleiðina.

Þess vegna held ég því fram að kjósendur hafi ekki verið neitt sérstaklega að hugsa um sjávarútveginn þegar þeir greiddu atkvæði.

Vitanlega einhverjir en að mínu mati ekki nema lítill hluti þeirra sem völdu núverandi stjórnarflokka í kjörklefanum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag
Efnisorð:

Miðvikudagur 27.1.2010 - 20:57 - 6 ummæli

Efling sveitarstjórnarstigsins

Því miður falla flest mál í skuggann af Icesave og skyldum málum. Það er samt verið að vinna í fjöldamörgum málum þó þau fái eðlilega ekki sömu athygli og vandræðamálin sem við erum að fást við hér á landi.

Það sem kemur hér á eftir er úr ræðu sem ég flutti á Ísafirði á fundi um eflingu sveitarstjórnarstigsins. Um það eru skiptar skoðanir. Mín skoðun er sú að við eigum að efla sveitarstjórnarstigið verulega og flytja þangað fleiri verkefni. Sumir telja að við eigum að hafa hlutina eins og þeir eru í dag.Hvað sem verður þá hef ég ávallt tekið fram að ég vil að íbúarnir eigi síðasta orðið í atkvæðagreiðslu. Við erum að tala um að auka völd kjósenda og vera oftar með atkvæðagreiðslu um umdeild mál. Því ættum við þá að lögþvinga sameiningar?

En þetta sagði ég á fundinum um eflingu sveitarstjórnarstigsins:

Það eru tímamót þegar ríkisvaldið og sveitarfélögin í landinu taka höndum saman og efna til átaks til að efla sveitarstjórnarstigið.

Skoðanir um eflingu sveitarstjórnarstigsins eru misjafnar. Sumir sem tjá sig um þau mál telja að ekki eigi að gera breytingar, sveitarstjórnarstigið eigi að vera eins og það er, ekki eigi að flytja fleiri verkefni til sveitarfélaga o.s.frv. Flestir telja þó að framþróun verði að eiga sér stað á sveitarstjórnarstiginu sem annars staðar. Mikilvægur þáttur í því að færa verkefni til sveitarstjórnarstigsins er nærþjónustuþátturinn, meiri áhrif til sveitarfélaganna og þar með út á land og minni miðstýring.

Það verður ávallt að nálgast átaksverkefni sem þessi með opnum huga og með bjartsýni en því má halda fram með góðum rökum að þörfin fyrir að efla sveitarstjórnarstigið hafi sjaldan verið meiri en nú.

Í undirbúningi er að færa viðamikla málaflokka frá ríki til sveitarfélaga og þegar slíkt er í bígerð þarf að tryggja að sveitarstjórnarstigið verði sem best í stakk búið til að taka við málaflokkunum. Sóknaráætlun fyrir landshlutana er einnig í mótun og ef við ætlum að efla alla hluta landsins með markvissum hætti verður að hyggja að stöðu sveitarfélaganna sem hljóta að verða grunneiningar þegar kemur að því að samþætta opinbera starfsemi og byggja upp öfluga svæðasamvinnu.

Nú sem fyrr er flestum ljóst að einn mikilvægasti þátturinn í eflingu sveitarstjórnarstigsins felst í sameiningu sveitarfélaga. Stundum vill það gleymast að samtök sveitarstjórnarmanna hafa lengi stutt þá stefnu að efla sveitarstjórnarstigið með sameiningu sveitarfélaga. Þegar á árinu 1950 samþykkti landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga áskorun til ríkisstjórnarinnar um að fram færi rannsókn á því hvort ekki væri tímabært að stækka sveitarfélög landsins með því að sameina þau. Þegar þetta var samþykkt voru sveitarfélögin í landinu 229 talsins.

Árið 1966 samþykkti Samband sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi tillögu sem fól í sér stuðning við sameiningu sveitarfélaga á stofnfundi sambandsins það ár.

Eftir þetta hefur Samband íslenskra sveitarfélaga, og landshlutasamtök sveitarfélaga margítrekað þessa afstöðu en líklega hefur aldrei jafnróttæk ályktun um þetta efni verið samþykkt og ályktunin um það að kannaður verði sá kostur að allir Vestfirðir og allir Austfirðir verði eitt sveitarfélag. Slíkar ályktanir voru samþykktar á aðalfundum beggja landshlutasamtaka sl. haust.

Hugmyndir um eflingu sveitarstjórnarstigsins ná miklu lengra aftur í tímann en til ársins 1966 því um 1945 voru settar fram hugmyndir um þriðja stjórnsýslustigið, eins konar fylki á Íslandi. Þetta var rætt fram og til baka í fjöldamörg ár en ekki varð til þriðja stjórnsýslustigið. Reyndar má segja að sýslurnar hafi á sínum tíma verið vísbending í átt að slíku stjórnsýslustigi.

Sveitarstjórnarmenn komust að þeirri niðurstöðu að besta leiðin væri að sameina frekar sveitarfélög en byggja upp þriðja stjórnsýslustigið. Sú sameining hefur tekið tíma, sveitarfélögum hefur fækkað en sveitarstjórnarstigið sem slíkt hefur ekki breyst eins mikið og vænta mætti þegar litið er á þessa miklu fækkun. Ástæðan er sú að ennþá eru mjög lítil sveitarfélög sem eiga skiljanlega erfitt með að taka við stórum verkefnum.

Af þeim ástæðum samþykkti landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga árið 2006 að fara í viðamikla verkefnaflutninga og að sveitarfélögin yrðu að leysa það sjálf hvernig þau tækju við verkefnum. Þau gætu unnið saman eða sameinast. Ekki yrði beðið lengur eftir frekari sameiningum.

Síðasta sameiginlega átak ríkisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga til eflingar sveitarstjórnarstigsins fór fram á árunum 2003-2005. Átakið endaði með viðamiklum sameiningarkosningum sem fram fóru í október 2005. Alls var kosið um sameiningu í 62 sveitarfélögum víðs vegar um landið en úrslitin ollu vonbrigðum; sameining var einungis samþykkt á einu svæði en felld alls staðar annars staðar. Sameining var semsagt einungis samþykkt í Fjarðabyggð en þetta átak hrinti af stað sameiningarviðræðum á nokkrum stöðum sem síðar leiddu til sameiningar sveitarfélaga.

Nú eru sveitarfélögin í landinu 77 að tölu og enn eru í þeim hópi mörg fámenn og veik sveitarfélög sem gera það að verkum að erfitt getur reynst að efla sveitarstjórnarstigið með því að flytja til þess verkefni frá ríkinu.

En hvers vegna ber að efla sveitarstjórnarstigið með sameiningu sveitarfélaga?

Nefnum nokkur rök sem mæla með því með ótvíræðum hætti:

–        Æskilegt er að hvert sveitarfélag geti staðið faglega að stjórnsýslu, félagsþjónustu og fleiri þáttum sem mynda grunn þjónustu í sveitarfélaginu

–        Ákvarðanataka er nær íbúunum í sveitarfélögunum en hjá ríkinu þannig að efling sveitarfélaga býður upp á möguleika til að auka lýðræði

–        Öflugri sveitarfélög eiga meiri möguleika á að nýta sér nútímatækni í þjónustu við íbúana auk þess sem þau eiga auðveldara með að fylgjast með alþjóðavæðingu og taka þátt í henni

–        Öflug sveitarfélög eiga almennt meiri möguleika á að takast á við stór og áhrifarík verkefni sem geta komið upp auk þess sem þau eiga oft kost á betri viðskiptakjörum en smærri sveitarfélög.

Látum þetta duga sem upptalningu á rökum en mörg fleiri má nefna.

Aðkoma Sambands íslenskra sveitarfélaga að átaki í sameiningu hefur ávallt verið á þeim forsendum að sveitarstjórnarmenn sjálfir hafa mótað þá stefnu á landsþingum sambandsins að sameina skuli sveitarfélög. Jafnframt hefur alltaf verið sú stefna að sameining sveitarfélaga skuli vera borin undir íbúa sveitarfélaganna í kosningum. Þeirri stefnu hefur ekki verið breytt af hálfu sambandsins.

Á þeim forsendum er aðkoma sambandsins að því samstarfsverkefni sem hér er kynnt.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 26.1.2010 - 19:09 - 3 ummæli

Á ekki að fyrna uppsjávartegundir?

Ég hef af og til spurt fólk sem tengist fyrningarflokkunum hver útfærslan verði á fyrningarleiðinni. Þ.e. hvað tekur við þegar búið verður að fyrna aflaheimildirnar.

Flestir sem tilheyra fyrningarflokkunum segja reyndar við mig að þeir séu ekki ,,sérstakir áhugamenn um þessa fyrningu“ eins og margir orða það.

En jafnframt hafa sumir sagt að það þýði ekkert að fyrna uppsjávartegundirnar. Þetta verði fyrst og fremst að snúa að bolfiskinum.

Ég held nú reyndar að þetta hljóti að snúa að öllum tegundum. En þessar vangaveltur hljóta að segja manni að:

1. Fyrningarflokkarnir hafi ekki hugmynd um hvaða kerfi eigi að taka við þegar búið er að fyrna.
2. Það verður fróðlegt að sjá útfærsluna á fyrningu á uppsjávartegundum, t.d. makríl og öðrum tegundum sem ákveðnar útgerðir hafa lagt í kostnað við að veiða til að öðlast veiðireynslu og nýtingarrétt.

Það væri gott ef einhver af hálfu fyrningaflokkanna myndi tjá sig um þessi mál. Það heyrist ekki frá neinum af þeirra hálfu um þessi mál. Hvorki af hálfu sjávarútvegsráðherra og varla af hálfu formanns sjávarútvegsnefndar nema þegar þeir eru að bregðast við einhverju í fréttum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 20.1.2010 - 22:08 - Rita ummæli

Coastal and Marine Management

Haf- og strandsvæðastjórnun við Háskólasetur Vestfjarða, Coastal and Marine Management at the University Centre of the Westfjords.

Nei þetta er ekki þátturinn Silfur Egils ótextaður á nokkrum tungumálum. Hér er ég að skrifa um stórmerkilega starfsemi Háskólaseturs Vestfjarða sem á nokkrum árum hefur sannað mikilvægi sitt undir styrkri stjórn Peters Weiss. Ég er virkilega stoltur af því að hafa lengi barist fyrir stofnun og síðar tilvist Háskólaseturs Vestfjarða. Alltof margir höfðu ekki trú á slíku og vildu eitthvað annað, án þess að útskýra hvað það ætti að vera, en það er frábært að sjá Háskólasetrið styrkjast með hverju verkefninu.

Í dag var ég ásamt mörgum öðrum viðstaddur kynningu útskriftarnemans Gísla H. Halldórssonar á meistaraprófsverkefni sínu. Glærurnar voru á ensku en kynningin á íslensku (svolítið eins og Silfur Egils) en námið fer allt fram á ensku við Háskólasetur Vestfjarða enda koma flestir nemarnir erlendis frá.

Þetta var áhugaverð kynning en Gísli fjallar um strandveiðarnar sl. sumar í verkefni sínu. Um ágæti þeirra veiða eru vitanlega skiptar skoðanir en það er mikilvægt að geta fjallað um það með þeim hætti sem gert var á kynningu hans í dag.

Umfjöllunin í dag voru rökræður og vangaveltur. Ég sjálfur er ekki sammála nálægt því öllu sem þar kom fram en hafði ákaflega gaman af kynningunni og umræðunum. Þetta voru nefnilega málefnalegar umræður sem hljóta alltaf að skila okkur fram á við – öfugt við skítkast sem því miður tíðkast alltof oft og færir okkur aftur á bak. (En þetta hef ég svo sem sagt áður)

Flokkar: Stjórnmál og samfélag
Efnisorð:

Þriðjudagur 19.1.2010 - 18:11 - 17 ummæli

Þessa menn skal stoppa

http://bb.is/Pages/26?NewsID=143263

Ríkisstjórn Íslands hefur boðað að svona sægreifa skuli afskrifa. Aðferðin er kölluð fyrningarleið og gengur út á að taka veiðiheimildar af útgerðarmönnum um 5% á ári þar til þær eru að fullu afskrifaðar.

Þessi sægreifar byrjuðu í útgerð þó nokkru eftir að kvótakerfi og framsal var ákveðið á Alþingi á sínum tíma.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 14.1.2010 - 17:39 - 24 ummæli

Sjávarútvegur

Ég var að hugsa um að hafa fyrirsögnina: ,,Ef þú ert ekki með þá ertu á móti.“ Eða: ,,Ef þú hefur aðra skoðun en ég þá er hún byggð á annarlegum forsendum.“ (Þetta skýrist hér í lok færslunnar).

En færslan á að fjalla um sjávarútveg eða öllu heldur afstöðu til mála.

Afstaða mín til sjávarútvegs markast af því að ég bý í samfélagi þar sem sjávarútvegur er undirstaðan. Ég og við öll búum reyndar í þannig landi. Ég hef mótað mína afstöðu til sjávarútvegs út frá þeirri reynslu sem ég hef síðan ég starfaði í fiskvinnslu og á sjó og núna síðustu 12 árin sem bæjarstjóri í sjávarútvegsbæ.

Sú afstaða er byggð á þeirri reynslu að mitt svæði og Vestfirðir reyndar allir hafa farið illa út úr breytingum á fiskveiðistjórnunarkerfinu en hafa á undanförnum árum náð vopnum sínum að nýju. Hér eru fyrirtæki að styrkja sig í sessi. Langflest þessara fyrirtækja eru nýliðar í sjávarútvegi, byrjuðu eftir að kvótakerfið var sett á.

Þess vegna er ég ekki hlynntur fyrningarleið í sjávarútvegi. Ég tel hana rangláta gagnvart atvinnugreininni. Ég tel hana veikja fyrirtækin í sjávarútvegi og fara alveg sérstaklega illa með okkar svæði sem hefur liðið fyrir allar breytingar.

Nú er það svo að þó kvótakerfið hafi aldrei náð vinsældum hér vestra þá er það staðreynd að það er ekki bara vegna kvótakerfis og sölu aflaheimilda sem okkar svæði tapaði umfram flest önnur. Nei hér var þorskur meginuppistaðan í aflanum og þorskafli hefur stórlega verið minnkaður. Úr 450 þús. tonnum á ári niður í 150 þús. tonn á ári á þessu fiskveiðiári. Það segir til sín um allt land en sérstaklega þar sem þorskur er meginuppistaðan.

En eins og fyrr segir þá erum við að ná vopnum okkar í þessu kerfi sem Alþingi setti á með lögum. Þess vegna tel ég varhugavert af Alþingi að breyta því enn eina ferðina.

Þá kemur að því sem ég skrifaði hér í byrjun:

Af því að ég hef lýst þessum skoðunum mínum margoft þá halda margir af þeim sem eru ósammála mér og vilja fara fyrningarleiðina eða bara einhverjar aðrar leiðir, að ég haldi þessum skoðunum fram af annarlegum ástæðum. Þá er sagt að ég sé talsmaður útgerðarinnar, talsmaður LÍÚ o.s.frv.

Þetta er ekki rétt. Ég hef engra persónulegra hagsmuna að gæta. Mín afstaða byggist á því að ég tel að samfélagið okkar muni bera af því skaða ef fyrningarleiðin verður farin. Mín skylda skv. samfélaginu er að standa vörð um hagsmuni þess og það geri ég vitanlega í þessu risastóra máli eins og öllum öðrum.

Mér finnst að þeir sem taka þátt í umræðu almennt verði að bera virðingu fyrir skoðunum hvers annars og taka þátt í umræðunni án þess að persónugera einstaklinga í slíkri umræðu. Það er umræðulist og færir okkur fram á við. Hitt er skítkast og færir okkur aftur á bak.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 12.1.2010 - 19:46 - 4 ummæli

Við erum flottust…….nei aumingjar

Ég hef að undanförnu skrifað aðeins um umræðuhefðina í stjórnmálum á Íslandi. Núna langar mig að skrifa aðeins um sjálfsmynd okkar og hvernig við ræðum um sjálf okkur.

Við Íslendingar erum lítil þjóð sem hefur náð þeim árangri að vinna okkur úr mikilli fátækt í lífsskilyrði sem eru með því besta sem þekkist.

Í mesta uppganginum var umræðan meðal manna (ekki allra, það þarf varla að taka það fram) og í fjölmiðlum að við Íslendingar værum ótrúlegir. Við gætum allt og værum í útrás. Við værum að kaupa upp Danmörku og gagnrýni þaðan væri öfundssýki. Útlendingar gætu lært af okkur.

Við værum flottust og stærst og best.

Núna les maður greinar þar sem við erum ekki lengur flottust, stærst og best. Nei hálfgerðir aumingjar. Ástandið svo slæmt að nú verði fólk hreinlega að flytja í stórum stíl úr landi. Svona grein má lesa á bloggi Egils Helgasonar í dag, 12. jan.

En er ekki best fyrir okkur að rata einhvern meðalveg þarna þó ekki væri nema í umræðunni? Við verðum að takast á við þessi vandamál og getum svo sem velt okkur endalaust upp úr þeim en þetta er verkefnið. Vonandi gerir ríkisstjórnin okkur kleift að vinna okkur út úr vandanum án þess að skattleggja fólk og fyrirtæki í átt að vandanum frekar en frá honum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Halldór Halldórsson
Talsmaður málefnalegrar umræðu.
RSS straumur: RSS straumur