Miðvikudagur 15.4.2009 - 16:48 - Rita ummæli

Kom af fjöllum

Nei þessi færsla er ekki um íslensk stjórnmál þó fyrirsögnin geti alveg átt við um stöðu íslenskra kjósenda og margra frambjóðenda.

Það er sífellt fleirum að verða ljóst hversu mikil náttúruparadís Vestfirðirnir eru og mér finnst líklegt að Íslendingum muni fjölga mjög sem gestum hér í sumar. En það þarf ekki endilega að koma hingað að sumri. Hingað er flogið tvisvar á dag og stundum oftar allan ársins hring og það þarf mikið að vera að veðri ef ekki er fært hingað eftir vegunum sem hafa batnað mikið undanfarin ár. Það er t.d. mjög gott að vera hér fyrir vestan á páskum og njóta alls sem boðið er upp á.

Ég kom af fjöllum annan í páskum eftir að hafa farið frá Bolungarvík og yfir að Galtarvita. Vitinn stendur við Keflavík sem er milli Súgandafjarðar og Skálavíkur. Þar var Óskar Aðalsteins rithöfundur vitavörður í ein 24 ár. Í dag býr enginn á staðnum, vitinn sjálfvirkur og jörðin með íbúðarhúsum og því sem eftir er af útihúsum komin í einkaeigu. Þarna er aðstaða fyrir listamenn og hefur hún eitthvað verið nýtt.

Staðurinn er einstakur og þarna er gott að koma, setjast á brekkubrún og horfa út yfir óendanlegt hafið í átt til Grænlands.

Dagana á undan höfðum við notið útiverunnar á svigskíðum og framundan er tímabil sem nýtist gönguskíðafólki vel upp um fjöll og firnindi. Framundan er Fossavatnsgangan 2. maí en sú ganga er elsta almenningsganga á Íslandi – síðan 1935.

Í faðmi fjalla blárra.

Flokkar: Óflokkað · Lífstíll
Efnisorð: ,

Mánudagur 13.4.2009 - 20:22 - 4 ummæli

Stjórnmál

Að lokinni vel heppnaðri páskahelgi þar sem saman tvinnaðist vinna, Skíðavika og tónleikar þá renndi ég yfir vefmiðlana. Þar er samantekt á því helsta sem gerst hefur undanfarna daga í landsmálunum.

Og hvað hefur gerst? Eru komnar fram bættar hugmyndir um að bæta stöðu almennings? Eða fyrirtækjanna? Eða ríkissjóðs? Eða sveitarfélaganna?

Nei ekki varð ég var við það. En það mátti finna ýmsar fréttir og blogg um framlög FL og Landsbankans til Sjálfstæðisflokksins. Enn er tönnlast á því og reynt að finna fleiri sökudólga.

Var ekki búið að upplýsa um málið? Eða ætla öll öfl andstæð Sjálfstæðisflokknum í stjórnmálum að reyna að nýta sér þetta út í hið óendanlega?

Það liggur fyrir yfirlýsing frá formanni Sjálfstæðisflokksins um að þetta hafi verið mistök. Fyrrum formaður hefur tekið á því ábyrgð og þeir sem stóðu fyrir söfnuninni hafa upplýst um sinn hlut.
Mistök voru gerð varðandi þessa stóru styrki. Það hefur verið viðurkennt. Með því erum við að leggja grunn að endurreisn okkar flokks. Það gerðum við einnig með sérstakri endurreisnarnefnd og skýrslu hennar. Hafa aðrir flokkar gert hið sama?

Mín vegna má fólk halda áfram að hamast á þessu máli. En það bætir ekki hag landsmanna. Það eru kosningar 25. apríl og almenningur á að fá að vita hvað stjórnmálaflokkarnir ætla að gera. Stjórnmál snúast um hugmyndir og aðgerðir. Hvað aðgerða megum við vænta eftir kosningar?

Er hætt við vinstri stjórn? Það er líklegt. Hvað finnst fólki um það? Margir muna ekki stöðuna hér áður fyrr. Hún var ekki glæsileg með verðbólgu yfir 30%, stundum miklu hærri, og lífsskilyrði óralangt frá því sem við höfum kynnst undanfarin ár, jafnvel eftir bankahrun.

Ég sé að í athugasemdum og bloggi víða er talað um spilltan Sjálfstæðisflokk og að þeir sem honum tilheyra sé spillt fólk.

Athugasemdir um spillt fólk sem leggur Sjálfstæðisflokknum lið finnst mér vera dónaskapur gagnvart því harðduglega fólki sem trúir á sjálfstæðisstefnuna og hefur lagt henni lið. Það er misjafn sauður í mörgu fé, það vita allir. Það á við um alla flokka. En í Sjálfstæðisflokknum er þverskurður þjóðarinnar. Sjálfstæðisfólk sem vill vinna og hefur unnið þjóð sinni gagn.

Í næsta pistli er ég að hugsa um að skrifa um útiveru og náttúruparadísina okkar hér vestra.

Ég mun líka halda áfram að skrifa um stjórnmálin. Það hefur sennilega aldrei verið mikilvægara að standa vörð um sjálfsstæðisstefnuna og minna á hvað sú stefna hefur byggt upp góð lífsskilyrði á Íslandi. Þrátt fyrir bankahrun stöndum við ótrúlega sterk og mun sterkari en margar þjóðir sem eru enn að jafna sig eftir áratuga vinstri tilraunir.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag
Efnisorð: ,

Laugardagur 11.4.2009 - 20:53 - Rita ummæli

Snillingar

Það er ekki ofsögum sagt að upphafsmenn að tónlistarhátíðinni Aldrei fór ég suður, sem nú er haldin í sjötta sinn á Ísafirði, eru miklir snillingar. Að fá hugmynd er eitt en að koma henni í framkvæmd og hafa úthald í að halda áfram er annað.

Það er virkilega gaman að vera á tónleikunum og hlusta á ólík atriði sem einhvern veginn raðast þannig upp að úr verður ótrúlega heildstætt dæmi.

Í hádeginu hitti ég 10 erlenda blaðamenn frá hinum og þessum löndum sem eru að kynna sér Aldrei fór ég suður og fjalla um í sínum miðlum. Þannig berst hróður hátíðarinnar og þar með bæjarins okkar víða. Ekki veitir af að geta sent jákvæða strauma frá Íslandi.

Undirbúningur og vinna við hátíð sem þessa krefst mikils af fjölmörgum. Ég veit að ég tala fyrir hönd margra þegar ég segi að allt þetta góða fólk á inni þakkir frá okkur sem fáum að njóta afrakstrarins. Þetta á við um tónlistarhátíðina og öll dagskráratriði Skíðavikunnar.

Ekki skrýtið þó maður sé stoltur af því að tilheyra þessum öfluga hópi sem byggir okkar góða samfélag.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 9.4.2009 - 20:39 - 16 ummæli

Tölum hreint út

Fréttir af mjög háum styrkum tveggja fyrirtækja til Sjálfstæðisflokksins eru vondar fyrir okkur öll. Þess vegna var mikilvægt að forysta flokksins tók strax ákvörðun um að endurgreiða þessa styrki sem eru óeðlilega háir. Fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins hefur lýst yfir ábyrgð á þessu máli.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur talað um að ganga hreint til verks. Það er flokknum og þjóðinni nauðsynlegt við þessar aðstæður. Við verðum að tala hreint út og þeir sem þessu máli tengjast og geta upplýst það betur verða að gera það.

Það er ekki óeðlilegt að upp komi vangaveltur um að þessi háu styrkir tengist pólitískum ákvörðunum sem varða okkar orkuauðlindir. Munum í því samhengi að það voru borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks sem stöðvuðu atburðarásina í REI málinu svokallaða. Og það var gagnrýnt af hálfu FL þegar Glitnir var að falla að ríkisstjórnin þáverandi sem var undir forsæti Sjálfstæðisflokksins skyldi ekki fallast á þeirra aðferð frekar en að yfirtaka bankann eins og stóð til áður en allt hrundi svo.

Með þessu er ég ekki að verja að tekið skyldi við þessum háu styrkjum. Það er ekki verjandi og þessu vegna verður að tala hreint út og hreinsa til í kringum þetta mál í Sjálfstæðisflokknum. Þar reynir verulega á okkar nýja formann.

Flokkar: Óflokkað · Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 7.4.2009 - 16:44 - 4 ummæli

Komdu vestur

Hér í Ísafjarðarbæ er að venju mikið um að vera. Í gær lauk 3ja daga Unglingameistaramóti Íslands á skíðum og framundan er skíða- og menningarveisla.

Skíðavikan www.skidavikan.is verður sett á morgun. Dagskrá hennar er að vanda umfangsmikil, sýningar, skíðaferðir og ótal atburðir er þar að finna. Það er ekki möguleiki gera allt sem boðið er upp á þannig að maður verður að velja það sem hentar. Mig langar ansi mikið í gönguskíðaferð norður í Jökulfirði þar sem gengið er á milli Aðalvíkur og Hesteyrar svo eitt dæmi sé tekið.

Svo er það tónlistarhátíðin Aldrei fór ég suður www.aldrei.is sem er tónlistarveisla í tvo daga. Föstudag og laugardag. Og það er ókeypis inn á tónleikana.

Veðrið er margbreytilegt en þó það spái einhverju smá fjúki þá hefur það ekki dregið úr fólki hingað til að koma vestur og njóta þess að vera hér í menningarveislu milli fjallanna.

Vestfirðir eru nær en þig grunar.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 6.4.2009 - 13:00 - 2 ummæli

Hver er sýn frambjóðenda á sveitarfélögin?

Það er stutt til kosninga og frekar óraunverulegt að ganga til þeirra við þessar aðstæður hjá þjóðinni. Betra hefði verið að kjósa í haust og nýta tímann til aðgerða til að bæta aðstæður atvinnulífs og heimila frekar en standa í kosningabaráttu þegar við megum engan tíma missa.

En ekki meira um það. Mig langar til að minna frambjóðendur til Alþingis á stöðu sveitarfélaganna og framtíðarsýn. Margir frambjóðendur eru sem betur fer mjög vel að sér um sveitarstjórnarmál. Dæmi um það er glæsilegur framboðslisti Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi þar sem sveitarstjórnarmenn eru í efstu sætum.

Hver er sýn frambjóðenda á sameiningu sveitarfélaga? Þau eru 78 í dag en voru um 220 árið 1990. Mikið hefur verið sameinað en samt eru enn til sveitarfélög með um 50 íbúa og allt upp í 115 þús. íbúa. Ef frambjóðandi vill sameina frekar – með hvaða hætti?

Í dag eru sveitarstjórnarlög þannig að lágmarksíbúafjöldi er 50 íbúar. Vilja frambjóðendur breyta þessu eins og núverandi ráðherra sveitarstjórnarmála sem talar um 1000 íbúa lágmark?

Ég minni á að stefna Sambands íslenskra sveitarfélaga er sú að ekki beri að lögþvinga sameiningu. Um leið er hvatt til frjálsra sameininga í þeim tilgangi að auka hagræðingu og efla sveitarfélögin sem stjórnsýslustig sem geti bætt við sig frekari verkefnum á borð við málefni fatlaðra og aldraðra sem nú er verið að ræða um flutning á til sveitarfélaga. Það hefur sýnt sig að verkefni sem kalla má nærþjónustu eiga betur heima hjá sveitarfélögum en ríkinu.

Það er mikilvægt að frambjóðendur hafi sýn á málefni sveitarfélaga og byggðanna í landinu og segi frá þeirri sýn á fundum sínum með kjósendum.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 4.4.2009 - 18:28 - 3 ummæli

Grundvallarlög íslensks lýðveldis

Enn er tekist á um breytingar á stjórnarskrá á Alþingi. Ríkisstjórnin ætlar að keyra í gegn breytingar á stjórnarskránni fyrir kosningar og segir að þjóðin vilji breytingar á stjórnarskránni.

Ég tel það alveg skýrt að þjóðin vilji breytingar á stjórnarskránni. Ég vil sjá ákveðnar breytingar á grundvallarlögum okkar Íslendinga. En ég vil sjá þær gerðar í sátt og tel algjört lágmark að umsagnir um þær breytingar sem nú stendur til að gera séu jákvæðari en þær eru.

Umsagnir sem ég hef séð eru ekki jákvæðar gagnvart vinnubrögðum á Alþingi. Þar er varað við að tíminn sé of stuttur og ýmislegt ekki ígrundað nógu vel.

Af hverju lætur Alþingi sér ekki nægja að ákveða endurskoðun á stjórnarskránni og svo fer sú vinna af stað? Hvers vegna að ætla sér að keyra í gegn vanhugsaðar breytingar og í raun vera búin að breyta stjórnarskránni að hluta áður en sérstakt stjórnlagaþing eða eitthvað annað vinnulag tekur til við að undirbúa breytingar?

Pólitískur leikur með stjórnarskrána má ekki eiga sér stað. Hún er grundvallarlög okkar og á að vera hafin yfir flokkspólitískar deilur á Alþingi.

Samþykkið aðferð við endurskoðun stjórnarskrárinnar og drífið svo í að samþykkja sem mest af lagabreytingum sem verða til þess að snúa hjólum atvinnulífsins og heimilanna af stað.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 3.4.2009 - 17:54 - 3 ummæli

Við skulum ræða það

Nokkur umræða hefur orðið um tillögu til hagræðingar í rekstri sem Akureyrarbær hefur sett fram. Þar er miðað við að sem flestir starfsmenn sveitarfélaga geti tekið á sig allt að 5% skerðingu á launum en á móti taki þeir frí sem nemur einum degi í mánuði eða 10 dögum á ári.

Ég hef tekið undir mikilvægi þess að ræða þessa tillögu sem mér finnst að mörgu leyti góð. Skrif mín hér fyrr bera vitni um að mér finnst sú aðferð að lækka laun sumra starfsmanna en ekki annarra vera ranglát. Samt erum við að framkvæma þá leið vegna þess að hún er fær.

Ef við getum farið leiðina sem Akureyrarbær leggur til þá geta margir starfsmenn tekið á sig byrðar sem skila miklu meiri hagræðingu en möguleg er ennþá. Vitanlega hafa allir orðið fyrir skerðingu vegna þess að allt kostar meira o.s.frv. en ég held að flestir viti hvað ég meina með þessu.

Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga bókaði eftirfarandi á stjórnarfundi í síðustu viku:
,,Vegna fyrirséðs samdráttar í tekjum sveitarfélaga hafa sveitarfélög um land allt lagt áherslu á að ná fram hagræðingu í rekstri og starfsmannahaldi. Stjórn sambandsins telur mikilvægt að haft verði samráð við stéttarfélög um slíkar aðgerðir. Stjórnin áréttar að í lengstu lög verði staðið vörð um störfin hjá sveitarfélögunum, uppsagnir starfsmanna verði takmarkaðar eins og frekast er unnt og að þær aðgerðir sem ráðast þarf í verði sem minnst íþyngjandi fyrir starfsmenn.

Stjórnin leggur áherslu á að niðurstaða liggi fyrir sem allra fyrst, annars vegar í viðræðum við KÍ um að endurskoða launakostnað vegna kennara og skólastjórnenda og hins vegar tillögugerð skólamálanefndar um hagræðingaraðgerðir á sviði fræðslumála svo að sveitarfélög nái að skipuleggja skólahald í tæka tíð fyrir næsta skólaár.“

Flokkar: Stjórnmál og samfélag
Efnisorð:

Fimmtudagur 2.4.2009 - 17:46 - 8 ummæli

Sjávarútvegur

Í mínum huga er sjávarútvegurinn undirstöðuatvinnuvegur þjóðarinnar. Ég hugsa að flestir landsmenn séu sammála mér.

Hvernig stendur þá á því að fólk telur að einhverjir aðrir en sjávarútvegurinn sjálfur geti greitt skuldir sínar? Hverjum dettur í huga að ríkissjóður geti tekið sjávarútveginn til sín og greitt skuldir hans?

Af hverju á að taka aflaheimildir af þeim sem stunda þennan atvinnuveg í dag til þess eins að úthluta þeim upp á nýtt? Fjölgar eitthvað fiskunum í sjónum við það? Eða atvinnutækifærum? Færast störfin ekki bara á milli einstaklinga. Aflaheimildir færast og 20 missa vinnuna en aðrir 20 fá vinnu í staðinn. Hver er hagurinn af því?

Ég hefði áhyggjur af því að sjávarútvegurinn á Vestfjörðum líði fyrir endurúthlutun. Hér eru 2-3% þjóðarinnar en u.þ.b. 10% af aflaheimildum.

Þið sjáið mörg spurningamerki í þessum stutta pistli. Ég set ekki spurningamerki við það að ég tel að eins og aðstæður eru í þjóðfélaginu þá sé rétt að láta okkar undirstöðuatvinnuveg í friði.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð:

Miðvikudagur 1.4.2009 - 21:58 - 4 ummæli

Ætlar ríkisstjórnin virkilega að lækka húsaleigubætur?

Á sama tíma og sumir stjórnmálamenn tala um að auka félagslegan húsnæðisstuðning í þjóðfélaginu, m.a. með því að hækka vaxtabætur og húsleigubætur, stendur ríkisstjórnin ekki við samkomulag við sveitarfélögin um kostnaðarskiptingu húsaleigubóta.

Fyrir liggur að sveitarfélögin þurftu á síðasta ári að leggja fram aukalega fram 150 m.kr. fyrir ríkið, svo unnt yrði að standa við ákvæði laga og reglugerða um rétt fólks til óskertra húsaleigubóta. Þessa skuld ber ríkinu að greiða sveitarfélögum nú þegar.

Á þessu ári stefnir í að ríkið ætli að snuða sveitarfélögin um a.m.k. 230 m.kr. til viðbótar.

Sveitarfélögin geta ekki við núverandi aðstæður lagt fram þetta fjármagn fyrir ríkið, til viðbótar um 1,3 milljarða kr. sem áætlað er að þau verji til húsaleigubóta á þessu ári.

Ef ríkisvaldið hyggst svíkja sveitarfélögin um þessa peninga og neitar áfram að leggja þá í húsaleigubætur verður að ætla að ríkisstjórn félagshyggjuflokkana ætli að lækka húsaleigubætur sem þessari fjárvöntun af ríkisins hálfu nemur. Það þýðir að hætta verður útgreiðslum af hálfu sveitarfélaganna í haust.

Slík lækkun mun koma sér mjög illa fyrir það fólk sem nauðsynlega þarf á þessum húsnæðisstuðningi að halda, sérstaklega í núverandi efnahagsþrengingum. Það er afar óæskilegt að lækka húsaleigubætur um þessar mundir.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag
Efnisorð:

Höfundur

Halldór Halldórsson
Talsmaður málefnalegrar umræðu.
RSS straumur: RSS straumur