Þriðjudagur 31.3.2009 - 16:46 - Rita ummæli

Það þarf samt bjartsýni

Við keppumst flest við að átta okkur á ástandinu hér í landinu eftir bankahrunið. Þetta hefur verið rússíbanareið fyrir okkur og við orðin ansi ringluð og slæpt.

Það er mikið skrifað um hið slæma ástand og hvers vegna það varð svona. Sú umræða mun halda áfram enda töluvert í að rannsóknum á því ljúki. Gerendur verða að axla sína ábyrgð og hún er gríðarleg hjá mörgum.

Mér finnst þetta allt mjög skiljanlegt en vil leggja áherslu á að við þurfum þrátt fyrir grafalvarlegt ástand að opna fyrir bjartsýni í umræðunni. Mörgum kann að virðast það ótímabært en það er ekki svo. Í alvarlegu ástandi þarf að nýta allt sem skilar okkur fram á við og minna á það sem er að fara í rétta átt.

Í þessum tilgangi hefur vefurinn www.bjartsyni.is verið stofnaður. Þar má lesa um vefinn: ,,Markmiðið með þessum vef er að koma á framfæri jákvæðum sögum, hugmyndum og ábendingum úr íslensku atvinnulífi. Í þeim fjárhagslegu erfiðleikum sem nú steðja að þjóðinni er mikilvægt að gleyma ekki því sem gengur vel, enda getur góður árangur eins orðið öðrum hvatning eða fyrirmynd.“

Mér finnst þetta gott framtak og nauðsynlegt því víða liggja tækifærin.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag
Efnisorð:

Mánudagur 30.3.2009 - 20:38 - 1 ummæli

Þverskurður

Það gekk ýmislegt á hjá okkur Sjálfstæðismönnum á landsfundinum sem lauk í gær, sunnudag. Þannig hefur það verið á öllum landsfundum sem ég hef setið enda fjölmörg mál sem tekist er á um í nefndum. Ágreiningur er skiljanlega í mörgum málum í svo stórri stjórnmálahreyfingu.

En það er gaman á landsfundi. Það er ánægjulegt að takast á um málefni og ná niðurstöðu. Þegar maður lítur yfir hópinn þá sér maður líka að þarna situr þverskurður þjóðarinnar og undirstrikar kjörorð Sjálfstæðisflokksins, stétt með stétt.

Afstaða flokksins í Evrópumálunum sýnir okkur svipaða niðurstöðu og hjá þjóðinni sjálfri. Það er mikil andstaða við aðild að ESB. Ég tel sjálfur að þessi afstaða sé byggð á óþarfa hræðslu hjá þjóðinni og okkur Sjálfstæðismönnum þar með. Það er að mínu mati full ástæða til að fara í aðildarviðræður og þjóðaratkvæðagreiðslu um niðurstöðuna. Ég er einn þeirra sem skrifa undir á vefsíðunni www.sammala.is

Okkar fyrrverandi formaður, Davíð Oddsson, hélt ansi yfirgripsmikla ræðu á landsfundinum. Ekki get ég verið sammála mörgu sem þar kom fram. Hann hélt hins vegar þessa ræðu en ekki landsfundarfulltrúar. Þess vegna finnst mér óþarfi að hnýta í landsfundarfulltrúa í umræðunni fyrir að hafa klappað fyrir Davíð í lokin, landsfundarfulltrúar eru kurteist fólk. Það var ekki klappað fyrir öllu, öðru nær. T.d. var kurr í salnum þegar hann hnýtti í Vilhjálm Egilsson og Endurreisnarnefndina. Ég skrifaði hluta af því sem er í Endurreisnarbókinni og sé ekki eftir pappírnum í bókina því það er Sjálfstæðisflokknum nauðsynlegt að fara í gegnum málin eftir langa valdatíð og mikil áföll þjóðarinnar á síðasta ári.

Það er þverskurður þjóðarinnar sem situr landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Harðduglegt fólk úr öllum greinum atvinnu- og þjóðlífsins. Fólk sem hefur mismunandi skoðanir en sameinast um niðurstöður landsfundar. Þar er sem fyrr frelsi einstaklingsins til athafna grunntónninn. Frelsi með ábyrgð.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag
Efnisorð: ,

Föstudagur 27.3.2009 - 20:35 - 2 ummæli

Evrópusambandið

Í dag samþykkti landsfundur Sjálfstæðisflokksins ályktun um Evrópumál. Þessa ályktun má lesa hér fyrir neðan.

Ég heyri að sumir telja þessa ályktun vera moðsuðu vegna þess að þarna er talað um tvöfalda atkvæðagreiðslu. Að mínu mati er þetta niðurstaða í Sjálfstæðisflokknum um mál sem er mjög umdeilt innan flokksins. Ég held að óhætt sé að fullyrða að töluverður meirihluti hefði verið fyrir því að fella algjörlega ályktun um Evrópumál. Það kaus meirihlutinn ekki að gera heldur samþykkti ályktun sem opnar á málið þannig að þjóðin geti ákveðið hvort farið verður í aðildarviðræður eða ekki.

Ég hefði viljað samþykkja aðildarviðræður og síðan þjóðaratkvæðagreiðslu en þetta er niðurstaða sem ég sætti mig við. Aðildarviðræðum er ekki hafnað og það er eftirtektarvert að tillögur um slíkt voru felldar á landsfundinum.

Svona er ályktunin:
Ályktun um Evrópumál

Sjálfstæðisflokkurinn hefur talið að aðild að Evrópusambandinu þjóni ekki hagsmunum íslensku þjóðarinnar en jafnframt talið mikilvægt að sífellt sé í skoðun hvernig hagsmunum Íslands verði best borgið í samstarfi Evrópuríkja.

Endurnýjað hagsmunamat hefur ekki leitt til grundvallarbreytinga á afstöðu Sjálfstæðisflokksins. Kostir aðildar tengjast helst gjaldmiðilsmálum og ljóst að ýmis álitamál verða aðeins skýrð í viðræðum, hvort sem þær snúast um gjaldmiðilinn eða aðild. Sterk lýðræðisleg rök mæla engu að síður með því að þjóðin fái að skera úr um svo stórt og umdeilt mál og að það sé ekki eingöngu á forræði stjórnmálaflokkanna.

Landsfundurinn undirstrikar þá eindregnu stefnu Sjálfstæðisflokksins að ekki verði gefin eftir til annarra þjóða eða samtaka þeirra yfirráð yfir auðlindum Íslands og að standa beri vörð um innlenda matvælaframleiðslu.

Landsfundur telur að setja skuli ákvæði í almenn lög um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna og þær lágmarkskröfur sem gera á um stuðning við mál á Alþingi og við þjóðaratkvæðagreiðslu.

Komist Alþingi eða ríkisstjórn að þeirri niðurstöðu að sækja beri um aðild að Evrópusambandinu er það krafa Sjálfstæðisflokksins að fara skuli fram þjóðaratkvæðagreiðsla um þá ákvörðun á grundvelli skilgreindra markmiða og samningskrafna.

Sjálfstæðisflokkurinn ítrekar þá afstöðu sina að hugsanleg niðurstaða úr samningsviðræðum um aðild Íslands að Evrópusambandinu verði ávallt borin undir þjóðaratkvæði.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag
Efnisorð: ,

Fimmtudagur 26.3.2009 - 15:54 - 1 ummæli

Hagræðingaraðgerðir

Afleiðing hrunsins er harkalegri hagræðing, í rekstri hins opinbera sem og fyrirtækjanna og heimilanna, en þekkst hefur lengi.

Tekjur sveitarfélaga hafa dregist mikið saman og sumir spá því að staðan 2010 verði verri en 2009.
Maður vonar ekki en það verður að draga rekstrarkostnað strax saman til að takast á við þann vanda sem nú þegar er kominn fram og standa sterkari á næsta rekstrarári.

Sveitarfélög eru að vinna að tímabundnum launalækkunum. Ekki öll en mér sýnist flest neyðast til þess. Eðlilega vekur það upp spurningar, jafnvel reiði og gremju meðal starfsmanna.

Mér finnst að fólk skilji þörfina en því finnst aðferðin óréttlát vegna þess að algengasta leiðin er sú að segja upp hluta fastrar yfirvinnu og bílastyrkja. Þetta er lögleg leið en vissulega er hún óréttlát vegna þess að fólk lækkar misjafnlega mikið og margir lækka niður fyrir þá sem eru á föstum taxtalaunum sem ekki er löglegt að hreyfa við.

Ég tek undir að réttlátasta leiðin er sú að allir starfsmenn taki á sig ákveðna lækkun. Þá þarf hver og einn að lækka minna. Um þetta þarf að nást víðtæk sátt meðal allra starfsmanna og stéttarfélaga þeirra. Þannig tækju allir þátt í lækkun rekstarkostnaðar en ekki bara sumir.

Það væri réttlátara gagnvart öllum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag
Efnisorð: ,

Sunnudagur 22.3.2009 - 21:21 - Rita ummæli

Norðvesturkjördæmi

Nú er prófkjöri Sjálfstæðismanna í því víðfeðma Norðvesturkjördæmi lokið. Þátttaka sýnist mér betri en í flestum öðrum prófkjörum. Niðurstaðan varð sú að Ásbjörn Óttarsson frá Snæfellsbæ náði fyrsta sæti en Einar K. í öðru, Eyrún í þriðja og Birna í fjórða. Vestfirðingar í 2.-4. sæti og nýr maður oddviti listans. Öflugur sveitarstjórnarmaður sem nú gefur í fyrsta skipti kost á sér í landsmálin.
Það hefur verið klár endurnýjunarkrafa í Sjálfstæðisflokknum, meiri en í öðrum flokkum finnst mér, að Framsóknarflokknum e.t.v. undanskildum. Svo verður að athuga að Einar K. var ekki í fyrsta sætinu, hann var í öðru sæti en gerði tilraun til að ná fyrsta sæti í prófkjörinu. Þar vann endurnýjunarkrafan gegn þessum góða manni sem að mínu mati hefur ávallt lagt sig fram um að vinna vel fyrir kjördæmi sitt og þjóðfélagið.
Mér líst vel á þennan lista, það er mikil endurnýjun og reynslumikið fólk sem raðar sér í efstu sætin. Íbúar á Norðurlandi vestra hafa kannski áhyggjur af því að enginn af þeirra svæði er í efstu sætum en sú staðreynd leggur enn meiri kröfur á forystufólkið að hafa heildarsýn yfir þetta landfræðilega stóra kjördæmi. Fyrir mestu er að vera með öflugt og vinnusamt fólk.
Reyndar voru frambjóðendur upp til hópa í þessu prófkjöri mjög frambærilegt fólk og finnst mér það mikill styrkleiki fyrir kjördæmið að hafa svona mikið úrval.
Framundan eru kosningar, of snemma að mínu mati því ný framboð hafa haft of lítinn tíma til undirbúnings. Krafa þjóðarinnar er um endurnýjun og endurmat í þeirri von að við upplifum ekki óhófs- og græðgisvæðingu að nýju. Sjálfstæðisflokkurinn er að ganga í gegnum mikla endurnýjun á framboðslistum og endurskoðun og endurmat á sinni stefnu. Framboðslistinn í Norðvesturkjördæmi er skipaður fólki sem veit hvað það er að takast á við erfiðleika ár eftir ár í landsbyggðarsveitarfélögum. Þannig fólk mun taka til hendinni í þjóðmálunum fái það tækifæri til þess.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag
Efnisorð:

Miðvikudagur 18.3.2009 - 17:29 - 4 ummæli

Aftur á vefinn

Eftir gott hlé frá reglulegum færslum á veraldarvefinn hef ég fengið síðu hér á Eyjunni. Ég var með eigin síðu þar sem dagbók var færð og gestapennar komu við frá 2004-2007. Nú skal byrjað aftur.

Ég mun áreiðanlega mest skrifa um sveitarstjórnarmálin og stjórnmálin í landinu. Það eru mjög undarlegir og erfiðir tímar hjá íslenskri þjóð og full ástæða til að taka þátt í umræðunni. Prófkjörin flest búin, þó ekki hjá mínum flokksfélögum í Sjálfstæðisflokknum í Norðvesturkjördæmi en þar verður valið laugardaginn 21. mars. Þar er glæsilegur hópur að bjóða sig fram til að vinna í þágu kjördæmisins og þjóðarinnar allrar. Hjá okkur stefnir í mikla endurnýjun.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Halldór Halldórsson
Talsmaður málefnalegrar umræðu.
RSS straumur: RSS straumur