Það hefur verið athyglisvert að fylgjast með fyrrum gullkálfum sem komið hafa hver á eftir öðrum fyrir Landsdóm. Af þessu tilefni langar mig að endurbirta pistil sem ég skrifaði fyrir nokkru og bar heitið „Þegar gullinu rigndi“.
Pistillinn byggir á klárum tölfræðilegum staðreyndum og sýnir hvernig gullkálfarnir settu efnahagslífið á hvolf með glópagulli – meðan Seðlabankinn sat hjá og spilaði á hörpu ljóðlínuna: „Hækkun bindiskyldu og strangari reglur um lausafjárstöðu er ekki úrræði sem Seðlabankar í löndum sem við miðum okkur við beita. Þess vegna notum við ekki þá aðferð heldur hækkum vexti hvað sem það kostar!“
Þeir gátu reyndar aldrei svarað spurningunni minni: „Í hvaða löndum sem við miðum okkur við eru 80% langtímalána fjölskyldnanna verðtryggð ?“
En pistillinn „Þegar gullinu rigndi“ er svona:
„Það er einungis í ævintýrunum sem gulli rignir yfir almúgan. Slíkt ævintýri gekk yfir þjóðina haustið 2004 þegar gulldrengirnir í viðskiptabönkunum ákváðu á einni nóttu að bjóða fasteignaeigendum og íbúðakaupendum takmarkalaus íbúðalán á helmingi lægri vöxtum en áður hafði tíðkast. Fram að þeim tíma hafði það verið jafn líklegt að almenningur gæti kreist mjólk úr grjóti og að kreista fasteignatryggð lán úr banka á svipuðum kjörum og íbúðalán Íbúðalánasjóðs.
Það má segja að gullinu hafi rignt yfir íslenska fasteignaeigendur og íslenska fasteignakaupendur. Bankarnir sem lánuðu einungis 90 milljónir í fasteignalán í ágústmánuði 2004 lánuðu um 30 milljarða í september og lánuðu alls 115 milljarða síðustu 4 mánuði ársins. Á sama tíma hélt Íbúðalánasjóður áfram hóflegum lánveitingum sínum – sem ekki voru nema brot af því gullregni sem flóði úr bönkunum.
Það er athyglisvert að skoða myndrænt þetta gullregn í formi fasteignatryggðra lána í íslenskum krónum:
Eins og glöggt má sjá þá fylltist efnahagslífið af nýju fjármagni akkúrat á þeim tíma sem síst skyldi vegna þeirrar þenslu sem þegar var fyrir í efnahagslífinu vegna stóriðjuframkvæmda á Grundartanga og á Austurlandi. Stjórnvöld höfðu einmitt í hyggju að fresta rýmkun lánsréttar íbúðalána Íbúðalánasjóðs fram á síðari hluta ársins 2006 og fyrri hluta ársins 2007 vegna efnahagsástandsins. En gulldrengirnir í bönkunum töldu sig ekki þurfa að taka tillit til slíks heldur dældu út fasteignatryggðum lánum, stórhækkuðu íbúðaverð, margfölduðu neyslugetu almennings og settu efnahagslífið á hvolf.
Við súpum seyðið af því núnar. Gullið sem rigndi reyndist glópagull og gulldrengirnar sem fjölmiðlar hömpuðu gagnrýnilaust eru nú færðir lúpulegir til yfirheyrslna vegna meintra efnahagsbrota. Fallnir útrásarvíkingar og gagnrýnilaus samúð fjölmiðla fokin út í veður og vind.
Eftir situr almenningur með gullklumpana um hálsinn eins og myllusteina – og lífskjörin hrunin.
Þrátt fyrir þessar staðreyndir og þess augljósa sem lesa má útúr framangreindu línuriti – að óheft íbúðalán bankakerfisins settu efnahagslífið á hvolf – þá eru ennþá einstaka stjórnmálamaður og einstaka fjölmiðlamaður sem trúir á goðsögn gulldrengjanna um að Íbúðalánasjóður og hófleg lán hans hafi verið orsök þenslunnar og efnahagshrunsins. Meira að segja rannsóknarnefnd Alþingis féll í þá gryfju – þótt fulltrúar í rannsóknarnefndinni viti það núna að þeir gerðu alvarleg mistök í skýrslunni og að þenslan var fyrst og fremst vegna hömlulausra útlána bankakerfisins frá því í september 2004 og fram á árið 2008.
Við fyrstu sýn mætti halda að bankarnir hefðu dregið sig út af íbúðalánamarkaði á árinu 2007 og 2008. Svo var reyndar ekki,. En í stað þess að lána fasteignakaupendum verðtryggð lán í íslenskum krónum – þá tóku þeir að lána íbúðalán sem tóku mið af gengi erlendra gjaldmiðla. Afleiðing þess var að fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu sem hafði verið stöðugt um skeið – rauk upp að nýju og hélst hátt allt þar til efnahagshrunið gekk yfir – í boði bankanna.
Þessa útlánaþróun má sjá í eftirfarandi mynd.
Að lokum er vert að bera saman verðþróun á íbúðamarkaði á höfuðborgarsvæðinu og tímasetningar í gullregni bankanna – fyrst í formi verðtryggðra lána í september 2004 – og síðar í gjaldeyristryggðum lánum árið 2007.
Er einhver sem telur enn að innkoma bankanna með óheft íbúðalán hafi EKKI verið ástæða þenslunnar á fasteignamarkaði – sem endaði síðan í efnahagshruni?“