Þriðjudagur 13.3.2012 - 20:45 - 6 ummæli

Gullkálfarnir í Landsdómi!

Það hefur verið athyglisvert að fylgjast með fyrrum gullkálfum sem komið hafa hver á eftir öðrum fyrir Landsdóm. Af þessu tilefni langar mig að endurbirta pistil sem ég skrifaði fyrir nokkru og bar heitið  „Þegar gullinu rigndi“.

Pistillinn byggir á klárum tölfræðilegum staðreyndum og sýnir hvernig gullkálfarnir settu efnahagslífið á hvolf  með glópagulli  – meðan Seðlabankinn sat hjá og spilaði á hörpu ljóðlínuna: „Hækkun bindiskyldu og strangari reglur um lausafjárstöðu er ekki úrræði sem Seðlabankar í löndum sem við miðum okkur við beita. Þess vegna notum við ekki þá aðferð heldur hækkum vexti hvað sem það kostar!“

Þeir gátu reyndar aldrei svarað spurningunni minni: „Í hvaða löndum sem við miðum okkur við  eru 80% langtímalána fjölskyldnanna verðtryggð ?“

En pistillinn   „Þegar gullinu rigndi“ er svona:

„Það er einungis í ævintýrunum sem gulli rignir yfir almúgan. Slíkt ævintýri gekk yfir þjóðina haustið 2004 þegar gulldrengirnir í viðskiptabönkunum ákváðu á einni nóttu að bjóða fasteignaeigendum og íbúðakaupendum takmarkalaus íbúðalán á helmingi lægri vöxtum en áður hafði tíðkast. Fram að þeim tíma hafði það verið jafn líklegt að almenningur gæti kreist mjólk úr grjóti og að kreista fasteignatryggð lán úr banka á svipuðum kjörum og íbúðalán Íbúðalánasjóðs.

Það má segja að gullinu hafi rignt yfir íslenska fasteignaeigendur og íslenska fasteignakaupendur. Bankarnir sem lánuðu einungis 90 milljónir í fasteignalán í ágústmánuði 2004 lánuðu um 30 milljarða í september og lánuðu alls 115 milljarða síðustu 4 mánuði ársins.  Á sama tíma hélt Íbúðalánasjóður áfram hóflegum lánveitingum sínum – sem ekki voru nema brot af því gullregni sem flóði úr bönkunum.

Það er athyglisvert að skoða myndrænt þetta gullregn í formi fasteignatryggðra lána í íslenskum krónum:

 
Bankarnir dældu úr fasteignalánum og settu efnahagslífið á hvolf

Eins og glöggt má sjá þá fylltist efnahagslífið af  nýju fjármagni akkúrat á þeim tíma sem síst skyldi vegna þeirrar þenslu sem þegar var fyrir í efnahagslífinu vegna stóriðjuframkvæmda á Grundartanga og á Austurlandi.  Stjórnvöld höfðu einmitt í hyggju að fresta rýmkun lánsréttar íbúðalána Íbúðalánasjóðs fram á síðari hluta ársins 2006 og fyrri hluta ársins 2007 vegna efnahagsástandsins.  En gulldrengirnir í bönkunum töldu sig ekki þurfa að taka tillit til slíks heldur dældu út fasteignatryggðum lánum,  stórhækkuðu íbúðaverð, margfölduðu neyslugetu almennings og settu efnahagslífið á hvolf.

Við súpum seyðið af því núnar. Gullið sem rigndi reyndist glópagull og gulldrengirnar sem fjölmiðlar hömpuðu gagnrýnilaust eru nú færðir lúpulegir til yfirheyrslna vegna meintra efnahagsbrota. Fallnir útrásarvíkingar og gagnrýnilaus samúð fjölmiðla fokin út í veður og vind.

Eftir situr almenningur með gullklumpana um hálsinn eins og myllusteina – og lífskjörin hrunin.

Þrátt fyrir þessar staðreyndir og þess augljósa sem lesa má útúr framangreindu línuriti –  að óheft íbúðalán bankakerfisins settu efnahagslífið á hvolf – þá eru ennþá einstaka stjórnmálamaður og einstaka fjölmiðlamaður sem trúir á goðsögn gulldrengjanna um að Íbúðalánasjóður og hófleg lán hans hafi verið orsök þenslunnar og efnahagshrunsins.  Meira að segja rannsóknarnefnd Alþingis féll í þá gryfju – þótt fulltrúar í rannsóknarnefndinni viti það núna að þeir gerðu alvarleg mistök í skýrslunni og að þenslan var fyrst og fremst vegna hömlulausra útlána bankakerfisins frá því í september 2004 og fram á árið 2008.

Við fyrstu sýn mætti halda að bankarnir hefðu dregið sig út af íbúðalánamarkaði á árinu 2007 og 2008.  Svo var reyndar ekki,. En í stað þess að lána fasteignakaupendum verðtryggð lán í íslenskum krónum – þá tóku þeir að lána íbúðalán sem tóku mið af gengi erlendra gjaldmiðla.  Afleiðing þess var að fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu sem hafði verið stöðugt um skeið – rauk upp að nýju og hélst hátt allt þar til efnahagshrunið gekk yfir – í boði bankanna.

Þessa útlánaþróun má sjá í eftirfarandi mynd.

Gjaldeyrislán bankanna tóku við af verðtryggðum íbúðalánum þeirra á árinu 2007 og 2008. Sú innkoma ýtti aftur undir þenslu á fasteignamarkaði.

Að lokum er vert að bera saman verðþróun á íbúðamarkaði á höfuðborgarsvæðinu og tímasetningar í gullregni bankanna – fyrst í formi verðtryggðra lána  í september  2004 – og síðar í gjaldeyristryggðum lánum árið 2007.

Óhef útlán bankanna olli hækkun íbúðaverðs haustið 2004 og vorið 2005.
 
Aftur hækkaði verð þegar bankarnir hófu að lána gengistryggð lán til íbúðakaupa. Síðan kom hrunið einnig í boði bankanna.

Er einhver sem telur enn að innkoma bankanna með óheft íbúðalán hafi EKKI verið ástæða þenslunnar á fasteignamarkaði – sem endaði síðan í efnahagshruni?“

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 13.3.2012 - 09:04 - 14 ummæli

Seðlabankinn var hrunbankinn!

Aftur og aftur kemur fram að alvarleg hagstjórnarmistök Seðlabankans eiga ekki hvað sístan þátt í efnahagsbólunni 2004 – 2006 og í hruninu 2008.  Seðlabankinn var gersamlega ráðalaus haustið 2004 þegar íslensku bankarnir sprengdu efnahagslífið með því að dæla óheftum, hundruð milljarða ófjármögnuðum fasteignatryggðum lánum inn á lánamarkaðinn.

Milljörðum sem Seðlabankinn gerði bönkunum kleift að dæla inn á íslenska lánamarkaðinn á versta tíma í kjölfar þess að Seðlabankinn lækkaði bindiskyldu bankanna árið 2003. Þrátt fyrir að Seðlabankamönnum væri margoft bent á að nauðsynlegt væri að hækka bindiskyldu á ný og auka kröfur um lausafjárstöðu bankanna – þá slógu þeir höfðinu sífellt við steininn.

Vankaður Seðlabankinn virtist ekki skilja eðli óheftra, verðtryggðra lána bankanna heldur beitti aðferðum sem duga einungis á óverðtryggðar íslenskar krónur!  Seðlabankinn hækkaði stýrivexti trekk í trekk – sem hafði engin áhrif á vertryggð lán – einungis á óverðtryggða krónu. Afleiðingarnar á ónothæfan gjaldmiðil varð eftir bókinni – krónan styrktist langt umfram það sem eðilegt gat talist!

Þessa dagana fylgjumst við með því hvaða mistök Seðlabankinn gerði á árunum 2007 – 2009 genum „tísitið“ úr Landsdómi.

… ætli það sé rangur maður fyrir dómi vegna hrunsins?

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 12.3.2012 - 17:19 - 12 ummæli

Enn staðfest að ISK er ónýt

Enn einu sinni er það staðfest að íslenska krónan er ónýt. Nú er ríkisstjórnin að keyra í gegnum þingið frumvarp sem herðir enn á gjaldeyrishöftunum en eins og alþjóð veit gengur krónan ekki án harðra gjaldeyrishafta.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 10.3.2012 - 13:47 - 11 ummæli

Stefán Jón gegn Ólafi Ragnari

Forsetaframboð hins ópólitíska Ólafs Ragnars Grímssonar 2012 er hápólitískt. Á meðan forsetaframboð hins hápólitíska Ólafs Ragnars Grímssonar árið  1996 var ópólitískt.

Hápólitískt framboð Ólafs Ragnars Grímssonar nú hefur þegar breytt stöðu forsetaembættisins. Ólafur Ragnar er strax búinn að fá ágjöf sem hefðí áður verið óhugsandi. Ágjöf sem líkur eru á að felli Ólaf Ragnar í forsetakosningunum þrátt fyrir það mikla forskot sem sitjandi og farsæll forseti ætti að hafa.

Því Ólafur Ragnar hefur verið farsæll forseti.

Stefán Jón Hafstein hefur tekið Ólaf Ragnar í gegn. Gagnrýni Stefáns Jóns á Ólaf Ragnar á rétt á sér. Vegna þess að framboð Ólafs Ragnars nú er hápólitískt.

Stefán Jón Hafstein verður að fylgja réttmætri gagnrýninni eftir. Stefán Jón á að bjóða sig fram til forseta.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 9.3.2012 - 11:15 - 25 ummæli

Kampavínsliðið í KSÍ

Nú er kampavínsliðið í KSÍ búið að tryggja sér áframhaldandi veisluhöld um víða veröld með því að selja allan rétt á umfjöllun um íslenska knattspyrnu til útlendra peningamanna.

Útlendu peningamennirnir selja hæstbjóðanda og taka ekki tillit til aðgengis almennings að knattpyrnuefninu.

Það þýðir að börnin mín og margra annarra fara á mis við umfjöllun um sitt helsta áhugamál – knattspyrnu.

Er ekki kominn tími til að íþróttamálaráðherra grípi inn í þessa öfugþróun?

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 8.3.2012 - 19:25 - 8 ummæli

Konur óhæfar í stjórnir!

Margar konur eru óhæfar til að sitja í stjórnum íslenskra fyrirtækja. En málið er að margir karlar eru líka óhæfir að sitja í stjórnum íslenskra fyrirtækja. Því miður sitja margir slíkir óhæfir karlar í stjórnum íslenskra fyrirtækja en það er undantekning að óhæfar konur hafi náð svo langt að sitja í slíkum stjórnum.

Margir af bestu stjórnendum sem ég hef unnið undir eða með í mínum stjórnunarstörfum eru konur. Ég er ekki fjarri því að oft á tíðum hafi þær verið betri stjórnendur en karlpeningurinn. Að sjálfsögðu hef ég líka unnið með konum sem voru óhæfir stjórnendur. En miklu oftar hef ég unnið með körlum sem hafa  verið óhæfir stjórnendur!

Það eru því ENGIN rök fyrir því kynjaójafnvægi sem ríkir í stjórnum íslenskra fyrirtækja – bæði í almenna geiranum og innan hins opinbera.

… og þetta segi ég og stend við þótt ég hafi oftar en einu sinni verið haldið utan stjórna – og starfa – vegna þess að ég var ekki kona! Vegna kynjaskekkju þar sem hlutfall kvenna var óásættanlegt.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 8.3.2012 - 10:39 - 12 ummæli

Guðni Ág. á skilda afsökunarbeiðni!

Guðni Ágústsson var hafður að háði og spotti fyrir að halda því fram í janúar 2008 að efnahagsleg óveðurský væru að hrannast upp, bankarnir stefndu í vandræði og að stjórnvöld yrðu að taka í taumanna.

Vitnaleiðslur í Landsdómsmálinu sýna að Guðni á skilda afsökunarbeiðni frá afar mörgum!

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 6.3.2012 - 19:22 - 4 ummæli

Bezta einkavinavæðingin í OR?

Einkavinavæðing í OR varð fyrri meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks að falli á sínum tíma. En sú einkavinavæðing er líklega ekki sú bezta. Bezta einkavinavæðingin var líklega nýlega að fara fram í kyrrþey!

Bezti og Samfó – „flokkar gagnsæjis 🙂 “  voru nefnilega að brjóta eigin góðu prinsipp með samningum í reykfylltum bakherbergjum þar sem afar dýrmætir eignarhlutar Orkuveitunnar í Kína voru „seldir“ án auglýsinga.

Bezti sérvaldi fékk að kaupa!

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 5.3.2012 - 21:16 - 40 ummæli

Stöðvum Landsdóm strax!!!

Stöðvum Landsdóm strax!!!  Setjum hann ekki á aftur fyrr en tryggt er að frá Landsdómi sé útvarpað og sjónvarpað. Það er ólíðandi að láta afar mistæka blaðamenn – sem eiga ekki hvað sístan þátt í hruninu – túlka það sem fram fer án þessa að almenningur geti tekið hlutlæga afstöðu til þess sem fram fer.

19. aldar Landsdómsforseti verður að halda inn í 21. öldina ekki síðar en strax!

Það getur ALDREI orðið þokkaleg sátt um þinghald Landsdóms – hvað þá væntanlega niðurstöðu dómsins – öðruvísi en almenningur í landinu geti milliliðalaust fylgst með því sem fram fer.

19.aldar lögfræðingarnir úr HÍ – sem allir voru meitlaðir í aldagamla embættismannalögfræði í náminu sínu – og skilja ekki nýja Ísland – verða að dusta rykið af sjálfum sér og átta sig á því að þeir eru ekki lengur „yfirstétt“ eins og forðum – heldur lögfræðimenntaðir þjónar almennings.

Réttarhald lokað fyrir alla nema þessa 45 sem mæta með svefnpokann sinn í röðina daginn fyrir réttarhald er ekki opið lýðræðislegt réttarhald. Sérstaklega ekki þar sem svefnpokaliðið er að stórum hlut sjálfhverft fjölmiðlalið – sem er sjálfhverfasta stétt á Íslandi á eftir 19. aldar lögmönnunum.

Stétt sem þykist ganga erinda almennings – en hugsar fyrst og fremst um einhverskonar „skúbb“ og skeytir engum um það sem á ensku er kallað „collateral damage“. Ekki frekar en lögfræðingarnir sem hugsa einungis um að „vinna málið“ óháð  „collateral damage“.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 4.3.2012 - 18:27 - 9 ummæli

Burt með ´68 kynslóðina!

Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon eru ein höfuðorsök þess að það „Nýja Ísland! sem þjóðin sóttist eftir í kjölfar hrunsins 2008 hefur ekki orðið. Þeirra ´“Nýja Ísland“ er ekki það sem þjóðin sóttist eftir. Enda parið skilgetið pólitískt afkvæmi  „Gamla Íslands“. Hluti hinnar valdsæknu ´68 kynslóðar!

Fyrrum Framsóknarmaðurinn Ólafur Ragnar Grímsson er ekki síður skilgetið pólitískt afkvæmi „Gamla Íslands“. Eins og helstu hvatamenn þess að Ólafur Ragnar bjóði sig fram á ný – þeir gömlu félagar Ólafs Ragnars úr Sambandi ungra Framsóknarmanna upp úr 1970 – Guðni Ágústsson og Baldur Óskarsson. Hluti hinnar valdsæknu ´68 kynslóðar!

Gamla pólitíska valdsækna ’68 kynslóðin úr „Gamla Íslandi“ er að verja stöðu sína. Þetta gamla fólk er ekki að hugsa um hag unga fólksins. Það vill ekki það „Nýja Ísland“ sem yngri kynslóðir og miðaldra Íslendingar vilja. Það vill bara halda halda í þau völd sem þau hafa. Ekki hugsjónir ´68 kynslóðarinnar.

Við þurfum nýtt Ísland. Gamla valdsækna ´68 kynslóðin er ekki rétta fólkið að leiða þjóðina inn í nýtt og betra Ísland. Því ´68 kynslóðin er stærsti þröskuldur hins „Nýja Íslands“.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur