Borgarspítalinn í Fossvogi á að verða Landspítali. Það hefur verið ljóst að minnsta kosti frá því árið 1970. En einhverra hluta vegna hafa stjórnvöld ítrekað þráast við og viljað hola Landspítala framtíðarinnar oná Landspítala fortíðarinnar. Nú er tími til kominn að hætta þessu bulli og gera Borgarspítalann að Landspítala.
Það sjá flestir meðalgreindir Íslendingar að það er í uppsiglingu dýrt og skelfilegt umhverfisslys þar sem viðkvæmri manngerðri borgarnáttúrunni við miðbæ Reykjavíkur er stútað með klikkuðum byggingarframkvæmdum ef áætlanir um nýgamlan Landspítala – sem einu sinni átti að vera „hátæknisjúkrahús“ – verður komið fyrir við Hringbrautina.
Faðir minn sálugi – sem var snilldar húsasmíðameistari og hafði oftast rétt fyrir sér – sagði á sínum tíma að það eina skynsamlega væri að byggja upp Landspítala kring um Borgarspítalann í Fossvogi. Það var löngu áður en Borgarspítalinn hætti að vera Borgarspítali og hann sameinaður Landspítalanum undir heitinu „Landspítali Háskólasjúkrahús – LSH“.
Þetta var þegar borgin var að aulast við að skipuleggja íbúðabyggð vestan Eyrarlands – austan við Borgarspítalann og sunnan við spítalann. Pabbi sagði að það ætti að geyma þetta land til að hafa rými fyrir sjúkrahús allra landsmanna.
Ég veit ekki hvað hann hefði sagt þegar borgaryfirvöld þrengdu enn að spítalasvæðinu með háhýsum vestan við Borgarspítalann – og það á þeim tíma þegar flestir hefðu átt að sjá að Hringbrautarhugmyndin var galin og rétt væri að byggja Landspítalann við Borgarspítalann.
Það gladdi mig því nokkuð þegar ég sá myndskeið snjalls arkitekts sem sýndi hvernig unnt var að flytja fyrirhugað spítalaskrímsli við Hringbraut að Borgarspítalanum í Fossvogi – þrátt fyrir þá aðþrengingu sem þegar er orðin að Borgarspítalanum.
… og fullt af plássi eftir!
Hinir misvitru stjórnmálamenn eiga enn séns að gera hið rétta – flytja Landspítalann á sinn stað – að Borgarspítalanum í Fossvogi.
Myndbandið þar sem skrímslið er flutt frá Hringbraut í Fossvoginn með glans má sjá hér!