Sunnudagur 16.10.2011 - 13:45 - 44 ummæli

Pólitískar hreinsanir framtíðin?

Alþingismenn Samfylkingar og Vinstri grænna eru komnir út á hála braut ef hádegisfréttir RÚV eru réttar. Þar kemur fram að þingmenn þessara flokka séu að beita sér fyrir því að afturkalla fullkomlega lögmæta ráðningu Páls Magnússonar í starf forstjóra Bankasýslu ríkisins. Ástæðan virðist sú að þingmennirnir geti ekki sætt sig við að Framsóknarmaður hafi verið ráðinn í starfið.

Ætla þingmenn Samfylkingar og Vinstri grænna virkilega að standa fyrir pólitískum hreinsunum?

Það er eitt að hafa þá skoðun að ákveðinn einstaklingur sé ekki rétti maðurinn í tiltekið starf. Það er eðlilegt og menn geta tjáð þá skoðun sína málefnalega. En að beita sér fyrir því af pólitískum ástæðum að menn sem uppfylla hæfnisskilyrði sem sett eru og eru metnir hæfastir af þar til bærri stjórn séu strax „reknir“ og starfið auglýst upp á nýtt – það er galið.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 15.10.2011 - 07:56 - 10 ummæli

Biðst afsökunar Teitur Atlason

Teitur Atlason pistlahöfundur á dv.is hefur beðið mig að fjarlægja innlegg á síðu sinni þar sem ég endurbirti athugasemd sem penni sem skrifar undir nafninu „Heiða“ gerði við pistil minn „Gólandi varðhundar sérhagsmuna“ .

Líkt og oft gerist í athugasemdum „Heiðu“ í minn garð hér á Eyjublogginu þá gagnrýnir „Heiða“  Teit nokkuð harkalega. Ávirðingar  „Heiðu“ beinast hins vegar ekki  einungis að Teiti heldur einnig fjölskyldu Teits. Á þeim forsendum óskar Teitur eftir að ég fjarlægi innleggið.

Þótt færsla mín hafi ekki verið hugsuð til að meiða Teit heldur gefa honum kost á að verja sig á sinni eigin síðu þá er ljóst að það var vanhugsað af minni hálfu að  birta meðal annars orðrétt athugasemdir  „Heiðu“ á bloggvef Teits. Hið rétta hefði verið að senda Teiti tengil á ummæli „Heiðu“ í athugasemdarkerfi mínu og gefa honum þannig kost á að svara fyrir sig.

Ég bið Teit Atlason afsökunar á þessum mistökum mínum.

Teitur Atlason segir mér að hann hafi það prinsipp að svara ekki athugasemdum frá fólki sem skrifar ekki undir eigin nafni. Því hefur hann ekki svarað ávirðingum „Heiðu“. Ég skil það sjónarmið en hef sjálfur tekið þann pól í hæðina að eyða ekki athugasemdum við pistla mína þótt þær séu oft á tíðum óþægilegar og stundum afar meiðandi í í minn garð. Ég hef frekar leiðrétt rangfærslur og komið mínum sjónarmiðum á framfæri.

Ég mun því ekki eyða athugasemdum „Heiðu“ og heldur ekki eyða færslu minni á bloggsíðu Teits. Sú færsla er farin í loftið og ég verð að bera ábyrgð á henni. Það var hins vegar vanhugsað af minni hálfu.  Því biðst ég afsökunar.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 14.10.2011 - 09:19 - 25 ummæli

Hanna Birna formaður

Hanna Birna verður formaður Sjálfstæðisflokksins. Bjarni Ben er búinn að vera sem slíkur hvort sem það er sanngjarnt eða ekki. Það er yfirleitt ekki málið í pólitík.  Meint vafasöm viðskipti Bjarna mun alltaf verða honum fjötur um fót.

Þótt fylgi Sjálfstæðisflokksins mælist tiltölulega hátt í skoðanakönnunum þá bera að hafa í huga að það er rétt helmingur sem gefur upp afstöðu sína og að það er stundum þaulspurt um Sjálfstæðisflokkinn. Það fylgi er hins vegar ekki vegna Bjarna Ben. Það er þrátt fyrir Bjarna Ben.

Hanna Birna er miklu betur til þess fallin að leiða Sjálfstæðisflokkinn en Bjarni Ben. Hanna Birna þarf ekki að burðast með meinta vafasama fortíð úr viðskiptalífinu. Þvert á móti hefur Hanna Birna sýnt að hún er stjórnmálamaður sem er með mikla leiðtogahæfileika og getur unnið afar vel með öðrum. Þótt hún geti verið afar hvöss í umræðum þá hefur hún sannað í verki að hún vill breytt vinnubrögð í pólitík.

Ef einhver gæti náð saman starfhæfri ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar þá er það Hanna Birna.

Þótt ég sé hvorki Sjálfstæðismaður né Samfylkingarmaður þá held ég að ríkisstjórn þessara tveggja flokka sé skásta leiðin út úr þeim ógöngum sem Alþingi og ríkisstjórn eru í um þessar mundir. Það er ljóst að kosningar verða ekki á næstunni. Þá er betra að fá Sjálfstæðisflokkinn í ríkisstjórn með Samfylkingu í vinnustjórn sem tekur af festu á atvinnumálum og efnahagslífinu fram að kosningum.  Stjórnin gæti fengið afnot af góðum atvinnumálatillögum Birkis Jóns Jónssonar og félaga úr Framsókn í púkkið.

En lykillinn að slíkri ríkisstjórn er að Hanna Birna verði formaður Sjálfstæðisflokksins.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 12.10.2011 - 21:42 - 68 ummæli

Borgarspítalinn er rétta lausnin!

Borgarspítalinn í Fossvogi á að verða Landspítali. Það hefur verið ljóst að minnsta kosti frá því árið 1970. En einhverra hluta vegna hafa stjórnvöld ítrekað þráast við og viljað hola Landspítala framtíðarinnar oná Landspítala fortíðarinnar. Nú er tími til kominn að hætta þessu bulli og gera Borgarspítalann að Landspítala.

Það sjá flestir meðalgreindir Íslendingar að það er í uppsiglingu dýrt og skelfilegt umhverfisslys þar sem viðkvæmri manngerðri borgarnáttúrunni við miðbæ Reykjavíkur er stútað með klikkuðum byggingarframkvæmdum ef áætlanir um nýgamlan  Landspítala  – sem einu sinni átti að vera „hátæknisjúkrahús“  – verður komið fyrir við Hringbrautina.

Faðir minn sálugi – sem var snilldar húsasmíðameistari og hafði oftast rétt fyrir sér – sagði á sínum tíma að það eina skynsamlega væri að byggja upp Landspítala kring um Borgarspítalann í Fossvogi. Það var löngu áður en Borgarspítalinn hætti að vera Borgarspítali og hann sameinaður Landspítalanum undir heitinu „Landspítali Háskólasjúkrahús – LSH“.

Þetta var þegar borgin var að aulast við að skipuleggja íbúðabyggð vestan Eyrarlands – austan við Borgarspítalann og sunnan við spítalann. Pabbi sagði að það ætti að geyma þetta land til að hafa rými fyrir sjúkrahús allra landsmanna.

Ég veit ekki hvað hann hefði sagt þegar borgaryfirvöld þrengdu enn að spítalasvæðinu með háhýsum vestan við Borgarspítalann – og það á þeim tíma þegar flestir hefðu átt að sjá að Hringbrautarhugmyndin var galin og rétt væri að byggja Landspítalann við Borgarspítalann.

Það gladdi mig því nokkuð þegar ég sá myndskeið snjalls arkitekts sem sýndi hvernig unnt var að flytja fyrirhugað  spítalaskrímsli við Hringbraut að Borgarspítalanum í Fossvogi – þrátt fyrir þá aðþrengingu sem þegar er orðin að Borgarspítalanum.

… og fullt af plássi eftir!

Hinir misvitru stjórnmálamenn eiga enn séns að gera hið rétta – flytja Landspítalann á sinn stað – að Borgarspítalanum í Fossvogi.

Myndbandið þar sem skrímslið er flutt frá Hringbraut í Fossvoginn með glans má sjá hér!

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 11.10.2011 - 20:28 - 6 ummæli

Gólandi varðhundar sérhagsmuna

Pólitískir varðhundar íslenskra sérhagsmuna rísa nú upp á afturlappirnar á Alþingi og góla gegn tillögu stjórnlagaráðs um frumvarp að nýjum stjórnskipunarlögum sem þjóðin vill fá að kjósa um.

Það er gjammað um að tillögur um einstakar stjórnarskrárgreinar séu óskýrar – yfirleitt án þess að benda á hvað sé óskýrt!

Bendi viðkomandi Alþingismönnum að lesa einfaldar og góðar skýringar stjórnlagaráðsmannsins Gísla Tryggvasonar um hverja grein í tillögu stjórnlagaráðs til nýrrar stjórnarskrár. Gísli hefur nú daglega skrifað skýringu á mannamáli við fyrstu 71 grein frumvarpsins og tjáð skoðun sína.  Almenningur hefur áttað sig á skýringum Gísla svo Alþingismenn ættu að gera það líka.

… og ef skýringar Gísla eru of einfaldar fyrir flókinn huga pólitískra varðhunda íslenskra sérhagsmuna – þá má leita ítarlegri skýringa í Frumvarpi til stjórnskipunarlaga ásamt skýringum – sem Alþingismenn ætti að vera búnir að lesa spjaldanna á milli – svo fremi sem þeir telji sig umkomna til að gagnrýna frumvarpið.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 10.10.2011 - 09:58 - 8 ummæli

Af hverju þjóðkirkja?

Ég var í skemmtilegri messu og kaffi á eftir í Óháða söfnuðinum mínum. Ritúalið náttúrlega það sama og í þjóðkirkjunni – bæn – víxlsöngur – ritningargrein úr gamla testamentinu og nýja testamentinu sem „fermingarmæðgur“ fluttu – predikun – og sálmar sungnir.

„Í bljúgri bæn“ – „Áfram kristmenn krossmenn“ og fleira skemmtilegt.

Reyndar stokkað sr. Pétur upp messuna með því að taka fram gítarinn og fá börnin til sín upp að altarinu þar sem sungnir voru barnasöngvar – „Á kletti byggði hygginn maður hús“  „Djúp og breið“ og fleira auk þess sem galdrakarl sýndi listir sínar – sem sr. Pétur notaði síðan til að leggja út af.

Af hverju er ég að fara yfir þetta – nánast hefðbundin íslensk messa?

Jú, eins og sr. Pétur orðaði það svo skemmtilega – í Óháða söfnuðinum er beinlínusamband við almættið – það er ekki farið gegnum Kalla og co.

Þess vegna fór ég að velta fyrir mér „Af hverju þjóðkirkja beintengt ríkisvaldinu?“ Stútfull kirkja í sjálfbærri kirkju án stuðnings ríkisins – óháð þjóðkirkjunni. Fyrst hún getur gengið – þá geta aðrar kirkjur landsins gengið.

Af hverju þjóðkirkja?

Svar óskast.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 8.10.2011 - 22:30 - 2 ummæli

Nýja fólkið í pólitík

Ég hef undanfarið heyrt marga pólitíska refi hneykslast yfir nálgun nýja fólksins í pólitík sem datt inn í sveitarstjórnir víðs vegar um landið í síðustu sveitarstjórnarkosninum. Fólkið sem fór ekki í gegnum hefðbunda stjórnmálaflokka með þeim kostum og göllum sem slíkt ferli hefur í för með sér.

Ég hef verið sammála þessum mönnum í mörgu í gagnrýninni – en ekki öllu.

En hvaða rétt höfum við til þess að dæma þetta fólk með því að bera það saman við „hefðbundna“ stjórnmálamenn? Er það ekki lýðræðisins að kveða upp úr um hvað sé rangt og rétt?

Erum við kannske að „kasta grjóti úr steinhúsi“ ?

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 7.10.2011 - 08:53 - 14 ummæli

„Ég hafði rangt fyrir mér“

Ég vil Hilmar Veigar Pétursson, forstjóra CCP á þing. Hann er gæddur mannkostum sem eru nánast óþekktir á Alþingi.

Man einhver stjórnmálamann segja eitthvað á þessum nótum í kjölfar mistaka – og treystið mér – Alþingismenn hafa allir gert afdrifarík mistök einhvern tíma þótt þeir viðurkenni það ekki:

„Sú gjá sem notendur hafa upplifað að hafi myndast milli þeirra og CCP er mér að kenna og mér þykir það leitt, … Þið hafið talað hátt og skýrt bæði í orði og á borði. Og það eru vissulega mikilvæg augnablik þar sem ég vildi að ég hefði hlustað og tekið aðrar ákvarðanir. Ég hafði rangt fyrir mér og viðurkenni það,“ 

Þetta segir Hilmar Veigar Pétursson meðal annars í blogfærslu á vef EVE Online.

Stjórnmálamenn mega taka Hilmar Veigar til fyrirmyndar. Sérstaklega um þessar mundir!

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 6.10.2011 - 12:46 - 15 ummæli

Baldur inn – Herjólf út?

Það þarf að tryggja Vestmannaeyjingum tryggar ferjusamgöngur milli  og Vestmannaeyja allan ársins hring.  Það er ljóst að Herjólfur getur ekki fullnægt þeim þörfum.  Baldur virðist hins vegar geta það svo fremi sem ákveðnar breytingar verði gerðar á ökurampi í Landeyjahöfn.

Það er ljóst að það verður að skipta Herjólfi út ekki síðar en árið 2015 þar sem haffæriskírteini til ferjusiglinga mun ekki verða framlengt eftir það ár.

Er ekki þá ekki skammtímalausnin sú að fá Baldur strax í siglingar milli lands og Eyja með aukinni tíðni svo skipið anni bílaflutningum, finna ferju sem hentar til siglinga á Breiðafirði og skipta á henni og Herjólfi. Svona á meðan verið er að byggja nýtt skip sem hannað er að aðstæðum í Landeyjarhöfn og Vestmannaeyjum?

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 5.10.2011 - 08:51 - 22 ummæli

Bezta fólkið í pólitík

Besta fólkið í Bezta er rétt að byrja í pólitík. Bezti flokkurinn er miklu meira en Jón Gnarr. Á þetta hef ég ítrekað bent gegnum tíðina. Ný könnun Capacent rennir stoðum undir þessa skoðun. Þar eykur Bezti fylgi sitt meðan fylgi Jón Gnarr dalar verulega.

Dæmi um eldri pistla þar sem ég bendi á þetta:

„Bezti að styrkjast sem stjórnmálaafl“

„Ótrúlegt fylgi Bezta“

„Borgarstjórasirkusinn toppaður“

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur