Laugardagur 10.9.2011 - 19:35 - 5 ummæli

Farvel Framsókn

Umfjöllun um vandaða og góða stefnumótunarvinnu innan Framsóknarflokksins hér á árum áður hefur verið áberandi í pistlum mínum að undanfarið.  Ástæðan er einföld.  Ég hef verið að fara yfir minnisblöð og vinnugögn frá því ég var starfandi í Framsóknarflokknum – en ég sagði mig úr flokknum 1. desember 2010.  Fannst ástæða til að koma nokkrum málefnum fortíðarinnar á framfæri nú.

Ég er stoltur yfir þeirri viðamiklu málefnavinnu sem ég tók þátt í þann aldarfjórðung sem ég var flokksbundinn í Framsóknarflokknum. Ég er stoltur yfir þeirri frjálslyndu hugmyndafræði sem ég stóð að þennan tíma og ég er stoltur af fjölmörgum málum og hugmyndum sem ég vann að með Framsóknarflokknum,.

Ég er sérstaklega stoltur yfir þeirri glæsilegu málefnavinnu sem unnin var í aðdraganda flokksþings Framsóknarflokksins árið 2009 og þeirri góðu, frjálslyndu og umburðarlyndu stefnuskrá sem lagt var l0kahönd á og samþykkt á rúmlega 900 manna flokksþingi í janúar 2009.

Nú hefur sú góða stefnuskrá verið lögð til hliðar að mestu og þess í stað teknar upp áherslur sem ég er ekki sáttur við. Enda sagði ég mig úr Framsóknarflokknum þegar ég sá hvert stefndi.

En þótt ég hafi beint sjónum að því mikla og góða málefnastarfi sem fram fór innan Framsóknarflokksins þegar ég var það innanbúðar – þá má ekki taka orð mín þannig að vandað málefnastarf fari ekki lengur fram innan flokksins. Það má finna dæmi þess að slíkt starf fari fram á svipuðum umburðarlyndum og vönduðum nótum og áður – þótt óbilgirni hafi um of einkennt starfið sumstaðar annars staðar innan flokksins.

Besta dæmi er afar vönduð vinna að tillögugerð í atvinnumálum sem Birkir Jón Jónsson varaformaður Framsóknarflokksins leiddi í aðdraganda flokksþings í vor. Það var stór og breiður hópur sem tók þátt í málefnastarfinu á opinn og lýðræðislegan hátt í anda aðferðarfræðinnar sem beitt var í aðdraganda flokksþings 2009. 

Enda var niðurstaða vinnunnar afar merkar tillögur í atvinnumálum sem Framsóknarflokkurinn hefði fram að færa inn í nýja ríkisstjórn ef sú staða kæmi upp. Og að sjálfsögðu ætti núverandi ríkisstjórn að sækja í þá smiðju.

Góð greining á ástandinu og gagnmerkar tillögur í atvinnumálum má finna í Skýrslu atvinnumálanefndar Framsóknarflokksins sem ég hvet ríkisstjórnina og áhugafólk um atvinnumál að lesa.

Ég læt nú staðar numið í umfjöllun um mikið og vandað málefnastarf Framsóknarflokksins á árum áður sem mér fannst ástæða til þess að benda á – ekki hvað síst núverandi flokksmönnum – og óska því fjölmarga ágæta fólki innan Framsóknarflokksins sem ég starfaði með hér áður allra heilla í framtíðinni.

… en að lokum læt ég fylgja frjálslyndar og vandaðar ályktanir flokksþings Framsóknarflokksins sem haldið var í janúar 2009 – ályktanir sem flokkurinn hefði betur unnið eftir – en voru meira og minna settar til hliðar á flokksþingi Framsóknar síðastliðið vor.  En þessar ályktanir virðast ekki lengur að finna á vef Framsóknar frekar en margar góðar skýrslur fyrri ára.

Ályktanir 30. flokksþings Framsóknarflokkinn 16.-18.janúar 2009

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 9.9.2011 - 10:07 - 6 ummæli

Stjórnarráðsfrumvarp fyrir Vigdísi!

Vinkona mín hún Vigdís Hauksdóttir var að gagnrýna harðlega fyrirliggjandi frumvarp ríkisstjórnarinnar um Stjórnarráð Íslands á Alþingi í gærkvöldi. Gott og vel.  En af hverju leggur hún ekki bara fram frumvarpið sem vel  mönnuð stjórnlaganefnd Framsóknarflokksins vann eftir mikið málefnastarf árið 2007?

Frumvarpið er hluti skýrslu Stjórnarráðsnefndar Framsóknarflokksins.

Meginatriði í tillögum nefndarinnar eru eftirfarandi:

• Áréttað er að ríkisstjórn skiptir sjálf með sér verkum en ekki löggjafinn.

• Grunneiningar Stjórnarráðsins verði um 60 skrifstofur.

• Mál, sem eðli máls samkvæmt heyra saman, falla undir sömu skrifstofu.

• Unnt verður að breyta samsetningu, fjölda og heitum ráðuneyta.

• Samsetning, fjöldi og heiti ráðuneyta eru ekki bundin í lögum.

• Illsamrýmanleg mál eiga ekki að heyra undir sama ráðherra.

• Forsætisráðherra fer að jafnaði ekki með önnur málefni en æðstu yfirstjórn.

• Áréttuð er heimild til þess að skipa ráðherra án ráðuneytis.

• Bætt er við heimild til þess að skipa aðstoðarutanríkisráðherra.

• Ráðherrar sitja ekki á þingi á meðan þeir gegna ráðherraembætti.

• Ekki er dregið úr sérþekkingu embættismannakerfisins og stöðugleika.

• Pólitísk forysta í Stjórnarráðinu gagnvart embættismannakerfi er stórefld.

Frumvarpið í heild með skýringum – smellið hér.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 8.9.2011 - 11:10 - 16 ummæli

CHF í stað ISK?

Það hafa margir bent á tilvist svissneska frankans sem rök fyrir því að Íslendingar geti og eigi að halda íslensku krónunni sem sjálfstæðum gjaldmiðli. Þá hafa aðrir talið rétt að Íslendingar taki upp svissneska frankann í stað evru. Ég hef bent á að við ættum að taka upp færeyska krónu – en er núna jafnframt reiðubúinn að skoða upptöku svissneska frankans – ef mönnum þykir algerlega ómögulegt að taka beint upp evru.

Ástæðan er einföld. Svisslendingar eru búnir að binda gengi svissneska frankans við evru. Svona eins og færeyska krónan endurspeglar þá dönsku sem tekur mið af evru með ákveðnum vikmörkum. 

Það fór ótrúlega lítið fyrir fréttinni af tengingu svissneska frankans við evru. Eins og sú frétt er í raun merkileg – og setur umræðu um gjaldeyrismál á Íslandi í nýtt samhengi.

Þegar ég var í Framsóknarflokknum fór iðulega fram víðtæk og vönduð umræða um hina ýmsu málaflokka.  Vinna sem iðulega endaði með vönduðum skýrslum og tillögugerð. Ein slík skýrsla er skýrsla Gjaldmiðilsnefndar Framsóknarflokksins sem gefin var út í septembermánuði 2008 og bar heitið „Staða krónunnar og valkostir í gjaldeyrismálum“.  Þessi skýrsla hefur nú verið fjarlægð af vef Framsóknar.

Í samantekt skýrslunna segir ma:

„Stysti útdráttur úr skýrslunni gæti því litið út á þennan hátt:

Styrkari efnahags- og peningamálastjórn – stórefling krónunnar eða taka evru upp sem gjaldmiðil“

Þessi niðurstaða virðist ekki falla núverandi flokksforystu Framsóknarflokksins í geð fyrst skýrslan var fjárlægð af vef flokksins.

Samantekt skýrslunnar hljóðaði í heild sinni svo:

„Markmið vinnu nefndarinnar er að leggja mat á þá kosti sem eru í stöðunni varðandi framtíðargjaldmiðil fyrir íslenska hagkerfið. Til að leggja grunn að niðurstöðunni er í upphafi þessarar skýrslu fjallað nokkuð um sögulegt hlutverk íslensku krónunnar og farið yfir þær miklu breytingar sem orðið hafa í íslensku þjóð- og atvinnulífi á síðustu árum og það tíundað sem vel hefur tekist til með og einnig það sem betur mátti fara.

Sýnt er fram á að frá árinu 1995 hefur íslenskt þjóðfélag verið á hraðri ferð frá hefðbundnu framleiðslusamfélagi til þess sem kallað hefur verið þjónustu- eða þekkingarsamfélag. Það endurspeglast í tilfærslu vinnuafls frá frumframleiðslugreinum til þjónustugreina, stórauknum fjölda sem útskrifast með háskólamenntun, mikilli hækkun launa og því að ráðstöfunartekjur hafa hækkað að raungildi yfir 50%. Framleiðslugreinarnar, s.s. sjávarútvegur, hafa þurft að mæta þessari breytingu með því að auka framleiðni vinnuaflsins eða sem nemur nálægt tvöföldun á útflutningstekjum á hvern starfsmann.

Einnig er rakið að það hefði mátt standa betur að hagstjórninni á þessum miklu uppgangstímum síðustu ára. Það var fyrirsjáanlegt að það yrði spenna í hagkerfinu vegna framkvæmda í orkuiðnaðinum og að þar yrðu til vel launuð störf sem kepptu við aðrar framleiðslugreinar um vinnuaflið. Því verður að teljast á margan hátt óheppilegt að samtímis var farið í aðgerðir sem stuðluðu að aukinni þenslu, s.s. með miklu framboði húsnæðislána fjármálafyrirtækja og skattalækkunum hins opinbera. Á sama tíma var einnig nánast ótakmarkaður aðgangur að erlendu lánsfé á lágum vöxtum sem orsakaði mikla aukningu í neyslu og framkvæmdum á nánast öllum sviðum.

Við þessar aðstæður var nánast óframkvæmanlegt fyrir Seðlabankann að hafa stjórn á peningamálunum með verðbólgumarkmiði sem ná átti með stýrivaxtabreytingum. Með stýrivöxtum sem voru mun hærri en þekkist í öðrum þróuðum hagkerfum fór áhugi erlendra fjárfesta vaxandi á að fjárfesta í íslenskum krónum, svokölluðum jöklabréfum, sem jók á eftirspurn eftir krónum og styrkti gengið enn frekar. Þessar aðstæður sköpuðu lágt innflutningsverð sem frestaði því að undirliggjandi verðbólga kæmi fram.

Það er við þessar aðstæður sem umræðan um hvort skipta eigi um gjaldmiðil fer af stað af þunga á ný. Eftir að hafa kynnt sér þau sjónarmið sem hafa verið uppi um gjaldmiðilsbreytingar og kallað á fund sinn hóp sérfræðinga og hagsmunaaðila um málefnið er það skoðun nefndarinnar að það séu fyrst og fremst tveir kostir sem komi til greina.

Annaðhvort að viðhalda krónunni sem framtíðargjaldmiðli og þá með fjölbreyttari framkvæmd peningastefnunnar og stórefldum gjaldeyrisvarasjóði eða með því að taka upp evru sem gjaldmiðil með fullri aðild að peningamálstefnu Seðlabanka Evrópu. Rökin fyrir því að taka upp evruna ef skipt er um gjaldmiðil á annað borð eru m.a. að nýr gjaldmiðill þurfi að endurspegla utanríkisviðskipti þjóðarinnar sem best og vera stór alþjóðlegur gjaldmiðill. Sá gjaldmiðill sem er besti samnefnari þessara þátta fyrir Ísland er evran.

Við störf nefndarinnar kom skýrt fram að mjög erfitt er að starfrækja alþjóðlegt fjármálakerfi eins og hefur verið að þróast hér á landi á síðustu árum á jafn litlu gjaldmiðilssvæði og því íslenska. Frekari vöxtur þess er því ólíklegur án breytinga hvað varðar gjaldmiðil þjóðarinnar.

Það er einnig skoðun nefndarinnar að hvor leiðin sem verður farin þá verði hún að byggja á traustri efnahagsstjórn. Jafn miklar sveiflur og hafa verið í íslensku efnahagslífi undanfarna áratugi samrýmast ekki þátttöku í opnu alþjóðlegu viðskiptaumhverfi. Því verður að vanda meira til hag- og peningamálastjórnarinnar en hefð er fyrir hér á landi. Að öðrum kosti mun hinn litli gjaldmiðill, íslenska krónan, magna hagsveifluna m.a. fyrir tilverknað utanaðkomandi afla eins og nú er að gerast. Og þótt farin væri sú leið að taka upp nýjan gjaldmiðil kann staðbundin verðbólga, sem ekki er hægt að koma út með gengisbreytingum, að rýra samkeppnisstöðu landsins án agaðrar hag- og peningastjórnunar.

Stysti útdráttur úr skýrslunni gæti því litið út á þennan hátt:

Styrkari efnahags- og peningamálastjórn – stórefling krónunnar eða taka evru upp sem gjaldmiðil.“

Þótt þessi merka skýrsla hafi verið fjarlægð af vef Framsóknarflokksins þá er finnst hún enn á Vefsafni Árnastofnunar. Unnt er að sjá hana í heild með því að smella á:

Staða krónunnar og valkostir í gjaldeyrissmálum. Gjaldmiðilsnefnd Framsókanrflokksins. September 2008.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 7.9.2011 - 19:59 - 6 ummæli

Ótrúlegur árangur Gnarrs!

Það er í raun ótrúlega góður árangur að Gnarr borgarstjóri skuli ná nær 40% ánægjufylgi í könnun MMR. Sú niðurstaða er kjaftshögg fyrir fjórflokkinn og vísbending um að hefðbundnu stjórnmálaflokkarnir geti ekki hummað Bezta fram af sér. Enda er eins og ég hef oft bent á margir lofandi stjórnmálamenn innan raða Bezta sem eiga fullt erindi í íslenska pólitík – þótt Gnarrinn hafi valdið vonbrigðum.

Það er nefnilega kjarni málsins!  Gnarr hefur ekki bara valdið mér vonbrigðum sem borgarstjóri – heldur fjölmörgum öðrum sem bundu við hann vonir eins og niðursveifla ánægjuvogarinnar sýnir. En þrátt fyrir það er nær 40% borgarbúa ánægðir með borgarstjóranna sinn!

Það er deginum ljósara að fjórflokkurinn hefur misst hefðbundna yfirburðarstöðu sína.

Ástæðan er einföld eins og Heiða Kristín fyrrum aðstoðarmaður Gnarrs bendir á í DV í dag:

„Heiða Kristín telur flokkunum öllum hafa mistekist í umbótastarfi og endurnýjun. „Þeim hefur algerlega mistekist og það hefur ekkert breyst í vinnulagi og hvernig stjórnmálamenn nálgast þennan leik. Það er ennþá verið að spila hann eftir gömlu leikreglunum. Ég sé líka að margir sem komu nýir á vettvang stjórnmála líta út fyrir að vera að gefast upp.“

Heiða Kristín segir meðlimi fjórflokksins ætla að humma af sér kröfu fólks um breytingar. „Mér finnst þeir allir halda áfram eins og ekkert hafi í skorist og þeirra taktík er að leiða hjá sér allt annað. Þeir líta fram hjá okkur af ásettu ráði og þeir vona að við gefumst upp. Þetta allt saman lít ég á sem ákveðið samkomulag þeirra á milli sem hefur þann tilgang að halda hlutunum óbreyttum. En það hefur enginn gefist upp hjá okkur og það er mikið afrek út af fyrir sig.““

Krafa almennings er einmitt sú að gerðar verði alvöru umbætur og endurnýjun í hefðbundnu stjórnmálaflokkunum. Ég hef enga trú á að slíkar umbætur verði gerðar úr þessu. Stjórnmálaafl eins og Bezti er því komið til að vera.  Kjósendur vilja nýtt, frjálslynt og opið stjórnmálaafl í stað gamla staðnaða fjórflokksins.

Það eru hin raunverulegu skilaboð í viðhorfskönnun MMR sem sýnir ótrúlegan árangur Gnarrs – þótt hann hafi ekki staðið sig neitt sérstaklega vel!

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 7.9.2011 - 12:12 - 5 ummæli

Óhreinu börnin Framsóknar-Evu

„Eitt af mikilvægustu viðfangsefnum stjórnmálanna á hverjum tíma er að leita þjóðarsáttar um grundvallarutanríkismál og samskipti við erlendar þjóðir. Málefnið tekur til fullveldis þjóðarinnar og afstaða Íslendinga á að mótast af sjálfstæðum vilja og metnaði okkar sem frjálsrar þjóðar.“

Þannig hefst samantekt Evrópunefndar Framsóknarflokksins sem skilað af sér skýrslu eftir gríðarmikið starf árið 2007.  Starf Evrópunefndarinnar var eðlilegt framhald af heilbirgði og ítarlegri framtíðarsýn Framsóknarflokksins sem Evrópunefnd flokksins hafði lagt fram í skýrslu sinni árið 2001 og ég skrifaði um í síðasta pistli.

Evrópunefnd Framsóknarflokksins árið 2007 komst að þeirri niðurstöðu að  í ljósi mikilvægis væri rétt að skoða sérstaklega tiltekna málaflokka sem gjarnan eru ofarlega á baugi hérlendis þegar Evrópumál bar á góma. Þessir málaflokkar voru sjávarútvegur, landbúnaður, gjaldeyrismál og öryggis- og varnarmál.

Evrópunefndin setti því fram  tillögu að samningsmarkmiðum í þessum málaflokkum.  Samantekt samningsmarkmiðanna var

MYNTBANDALAGIÐ

Jafnvægi í þjóðarbúskapnum er forsenda þess að Íslendingar geti átt raunhæft val á milli evrunnar og íslensku krónunnar. Slíkt jafnvægi er líka grundvöllur þess að unnt sé að láta af hendi sjálfstæða peningamálastefnu. Í aðildarsamningi yrði því að vera til staðar ákvæði sem gæfu íslenska hagkerfinu það svigrúm og þann aðlögunartíma sem talinn er nauðsynlegur til að undirbúa þátttöku í myntbandalaginu.

SJÁVARÚTVEGUR

• Tryggð verði full yfirráð Íslendinga yfir auðlindum í efnahagslögsögu landsins.

• Virk aðkoma Íslendinga að mótun sjávarútvegsstefnu ESB í framtíðinni verði tryggð.

• Tryggt verði að hlutfallslegur stöðugleiki haldist þegar úthlutanir færast á yfirþjóðlega stigið.

• Horft verði til þjóðhagslegs mikilvægis atvinnugreinarinnar.

• Tryggð verði sjálfbær nýting á auðlindinni.

• Heimilt verði að setja lög um efnahagsleg tengsl milli útgerðar og vinnslu við heimahöfn skips, auk ákvæða sem binda heimildir til að fjárfesta í sjávarútvegi við búsetu.

• Íslandi verði tryggt áframhaldandi forræði í samningum við lönd utan ESB um veiði úr sameiginlegum stofnum.

LANDBÚNAÐUR

Landbúnaðinum verði gefið svigrúm til aðlögunar sérstaklega með tilliti til ólíks styrkjakerfis og hnattrænnar stöðu.

• Tryggt verði áframhaldandi sjálfræði Íslendinga í sjúkdómavörnum.

• Tryggður verði byggða-, umhverfis-, atvinnu-, og nýsköpunarstuðningur til dreifbýlla svæða.

• Heimilt verði að ríkisstyrkja landbúnaðinn umfram þann stuðning sem ESB veitir líkt og gert er í Finnlandi.

• Ákvarðanir um framleiðslustýringu verði áfram í höndum Íslendinga.

• Láta á það reyna hvort sérstaða Íslands verði viðurkennd samanber ákvæði í 2. málsgreinar 299. gr. í aðalsáttmála ESB.

• Hagsmunir vistvænnar landbúnaðarframleiðslu verði hafðir að leiðarljósi.

UTANRÍKIS-, ÖRYGGIS- OG VARNARMÁL

Ísland taki fullan þátt í sameiginlegri utanríkis- og öryggismálastefnu ESB en að tillit verði tekið til annarra stoða í öryggis- og varnarmálum Íslendinga.  

Skýrslur Evrópunefndar Framsóknarflokksins 2001 og 2007 voru þar til nýlega aðgengilegar á vefsíðu Framsóknarflokksins. Þær hafa nú verið fjarlægðar enda á sú heilbrigða sýn sem þar kom fram á samband Íslands og Evrópu ekki lengur upp á pallborðið hjá þeim sem ráða Framsóknarflokknum í dag. Þar hafa þeir sem vilja aðildarviðræður að Evrópusambandinu og að þjóðin taki ákvörðun um aðild eða aðild ekki á grunni aðildarsamnings verið ofsóttir og fjölmargir gefist upp á flokknum og farið.

En þökk sé Vefsafni Árnastofnunar þá eru skýrslurnar ennþá aðgengilega fyrir sagnfræðinga framtíðarinnar og þá sem hafa áhuga á að kynna sér þessar merku skýrslur sem varpa ekki einungis ljósi á þá vönduðu umræðu um Evrópumál sem áður fór fram í Framsóknarflokkinn – heldur einnig það mikla, lýðræðislega málefnastarf sem haldið var uppi í flokknum.

Slóðirnar á skýrslurnar tvær fylgja hér á eftir:

Skýrsla Evrópunefndar Framsóknarflokksins 2001

Skýrsla Evrópunefndar Framsóknarflokksins 2007

Læt einnig fylgja tvær aðrar skýrslur sem núverandi ráðamenn Framsóknarflokksins hafa afmáð að vef Framsóknarflokksins. Annars vegar skýrsla Stjórnarráðsnefndar frá árinu 2007 – en í þeirri skýrslu fylgir fullunnið frumvar að breytingum á Stjórnarráðinu – þar sem lagðar eru til róttækar breytingar. Hins vegar skýrsla Gjaldmiðilsnefndar frá árinu 2008 sem ekki fellur ráðmönnum Framsóknarflokksins í geð í dag:

Skýrsla Stjórnarráðsnefndar Framsóknarflokksins frá árinu 2007

Skýrsla Gjaldmiðilsnefndar Framsóknarflokksins frá árinu 2008

Kveðja

Hallur Magnússon – BA Sagnfræði og þjóðfræði

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 6.9.2011 - 08:55 - 17 ummæli

Heilbrigð Evrópusýn Framsóknar 2001

Nú er rúmur áratugur frá því að Evrópunefnd Framsóknarflokksins lagði fram ítarlega, heilbrigða framtíðarsýn um Ísland og Evrópusambandið eftir mikið og gott málefnastarf  – eins og áður tíðkaðist í Framsóknarflokknum.

Framsóknarflokkurinn hefði betur fylgt eftir niðurstöðum Evrópunefndarinnar en flokkurinn brást í því þar sem sá hluti flokksmanna sem þá vildi takast á við Evrópumálin og skoða möguleika á aðildarviðræðum við Evrópusambandið gaf eftir gegn háværum og öflugum talsmönnum hagsmunaaðilja innan flokksins – sem að líkindum voru þá í minnihluta og hafa reyndar verið það allt fram undir það síðasta.

Nú þegar aðildarviðræður við Evrópusambandið eru hafnar er hollt að rifja upp framsýnar niðurstöður Evrópunefndarinnar – því þær geta enn komið okkur að notum. 

Ég birti einungis fyrri hlutan – en niðurstöðuna má lesa í heild með því að smella á fyrirsögnina. 

EVRÓPUNEFND FRAMSÓKNARMANNA NEFNDARÁLIT 22. janúar 2001 

1.

Eitt af verkefnum íslenskra stjórnvalda er að móta framtíðarstefnu og samningsmarkmið Íslendinga í samskiptum við Evrópuþjóðir með varanlegum og tryggilegum hætti sem samrýmist framtíðarstefnu, hagsmunum og rétti íslensku þjóðarinnar.

Í þessu skiptir m.a. máli að tryggja þátttöku Íslendinga í undirbúningi mála, umfjöllun og ákvörðunum og áhrif Íslendinga á umhverfi sitt, hagsmunamál og þróun. Evrópuþjóðir eru mikilvægustu viðskiptaþjóðir Íslendinga, og mikilvægustu menningarsamskipti Íslendinga eru við Evrópumenn.

 Íslendingar eru nú þegar virkir þátttakendur í Evrópuþróuninni og eiga mjög mikið undir því að hún skili sem mestum og bestum árangri. Leggja ber mikla áherslu ámálefnalegan undirbúning Íslendinga, upplýsingamiðlun til almennings og kynningu íslenskra hagsmuna og sjónarmiða innan lands og utan. Mikilvægir þættir í þessu starfi felast í því að undirbúa, móta og endurskoða stöðugt þá skilmála og markmið sem Íslendingar vilja leggja til grundvallar í Evrópusamskiptum og almennt í samstarfi við aðrar þjóðir. Nauðsynlegt er að leggja sérstaka áherslu á að nýta tækifæri sem fulltrúar Íslands fá í samskiptum við stofnanir Evrópusambandsins, ekki síst meðan mál eru enn á frumstigi enda vitað að ýmsar mikilvægar ákvarðanir eru mótaðar þá þegar og stefna í meðferð mála ræðst gjarnan þegar í byrjun umfjöllunar.

2.

Aðstæður í Evrópuþróuninni breytast ört og samhliða breytist aðstaða Íslendinga. Það er því tímabært að endurskoða stöðugt stöðu og horfur Íslands í Evrópuþróuninni. Það er ekki einsýnt lengur að telja Ísland utan við vettvang Evrópusambandsins eða að útiloka fyrirfram valkosti, möguleika og tækifæri þjóðarinnar á þeim vettvangi. Upplýsingar benda til þess að enn megi leitast við að treysta og styrkja framtíðarmöguleika samningsins um Evrópska Efnahagssvæðið og jafnframt kann að vera mögulegt að tryggja rétt, hagsmuni og framtíðarmöguleika Íslendinga innan Evrópusambandsins, en um slíkt þarf þó að nást samningsniðurstaða sem þjóðin fellst á. Bent hefur verið á að aðildarviðræður við Evrópusambandið nýtast einnig sem undirbúningur tvíhliða samninga eða annarra samstarfshátta en fullrar aðildar. Samskipti Íslendinga við aðrar þjóðir, þátttaka í Evrópuþróuninni og viðræður um hugsanlega aðild Íslendinga að Evrópusambandinu, ef til kæmi, eru leiðir til að ná markmiðum þjóðarinnar en ekki markmið í sjálfum sér og ákvarðanir um þessi mál eiga að vera frjálsar ákvarðanir á eigin forsendum Íslendinga og að eigin frumkvæði þeirra.

3.

Unnið skal að samningsmarkmiðum Íslendinga á sviði Evrópusamskipta á komandi árum með þessum hætti einkum:

A) Stöðugt verði unnið að stefnumótun og markmiðssetningu Íslendinga á þessum sviðum, og að endurskoðun og þróun stefnumiða í ljósi aðstæðna.

B) Samskipti Íslendinga við Evrópusambandið byggist á samningnum um Evrópska Efnahagssvæðið og stefnt verði að því að samningurinn geti haldið upphaflegum markmiðum sínum og aðildarþjóðir haldið sínum hlut og réttindum andspænis Evrópusambandinu, þ.á m. sem fullgildir þátttakendur í samstarfi við nýjar stofnanir Evrópusambandsins og á nýjum sviðum sem Evrópusambandið tekur að sér.

C) Ef ekki reynist grundvöllur til að byggja á samningnum um Evrópska Efnahagssvæðið, þannig að hann fullnægi til frambúðar skilyrðum og markmiðum Íslendinga, skal ákvörðun tekin um það hvort óskað skal viðræðna við Evrópusambandið um fulla aðild Íslendinga að því, m.a. á grundvelli þeirra skilmála og samningsmarkmiða sem Íslendingar setja sér, eða hvort leitað skal annarra valkosta.

D) Ef til ákvörðunar um aðildarumsókn að Evrópusambandinu kemur skal hún borin undir þjóðaratkvæði ásamt öðrum raunhæfum kostum er til greina koma í Evrópusamvinnunni, m.a. vegna undirbúnings að þeim breytingum á stjórnarskrá og lögum sem nauðsynlegar verða og til að hefja samningaumleitanir.

E) Ef aðildarviðræður skila sameiginlegri niðurstöðu um aðild Íslendinga að Evrópusambandinu skal hún að nýju lögð undir þjóðaratkvæði áður en til skuldbindinga kemur, en verði aðildarsamningur felldur í þjóðaratkvæðagreiðslu, eða leiði aðildarviðræður ekki til sameiginlegrar niðurstöðu, skal leitað viðræðna um tvíhliða samning við Evrópusambandið.

4.

Íslendingar eiga að öðru jöfnu ekki að leggja áherslu á að semja um undanþágur eða tímabundin frávik frá almennum skilyrðum í samskiptum sínum við erlendar þjóðir, þótt slíkt geti reynst nauðsynlegt í vissum málum vegna sérstöðu, heldur fremur á langtímasamninga og ásættanlega túlkun, útfærslur og tilhögun eftir því sem aðstæður leyfa hverju sinni. Reynsla þjóða af aðildarviðræðum við Evrópusambandið bendir t.a.m. til þess að nokkurt svigrúm geti verið í túlkun og útfærslum, og þurfa Íslendingar reyndar að leggja mikla áherslu á þetta hvort sem um aðildarviðræður verður að ræða eða önnur samskipti. Hér verður á eftir vikið að nokkrum mikilvægum samningsmarkmiðum og skilmálum Íslendinga í Evrópusamskiptum og samskiptum við aðrar þjóðir yfirleitt, en ekki er um tæmandi lýsingu að ræða. Sérstaklega er vikið að þeim sviðum sem samningurinn um Evrópska Efnahagssvæðið tekur ekki til.

5.

Meðal mikilvægra markmiða Íslendinga á sviði fiskveiða eru þessi: Skýlaus réttur Íslendinga við hagnýtingu auðlinda í efnahagslögsögu Íslands. Tillit verði tekið til mikilvægis fiskveiða í atvinnulífi Íslendinga og til þess að fiskveiðar eru sjálfbær og arðbær atvinnuvegur hér. Efnahagslögsagan sé viðurkennd sem sérstakt stjórnunarsvæði og fylgt ráðgjöf íslenskra stofnana við ákvarðanir um hana og nýtingu veiðistofna og annarra auðlinda innan hennar. Íslendingar annist umsjá og eftirlit með efnahagslögsögunni. Nálægðarregla ráði um alla nánari tilhögun og Íslendingar ákvarði um nánari útfærslu fiskveiðistjórnunar. Íslendingar hafi í raun algert forræði um kvótasettar

svæðisbundnar fisktegundir. Staðfest verði að þessi forgangur haldist við hugsanlega stækkun kvóta og að aðrir geti ekki nýtt sér samdrátt í veiðum Íslendinga eða vannýtta kvóta hvort sem er samtímis eða síðar, svo og að erfiðleikar í veiðum á öðrum hafsvæðum verði ekki látnir koma niður á Íslendingum. Fylgt verði ráðgjöf íslenskra stofnana um áður vannýtta veiðistofna og aðrar áður vannýttar auðlindir á svæðinu. Um nýtingu kvóta í efnahagslögsögu Íslands verði miðað við að útgerðarfyrirtæki starfi samkvæmt reglum sem kveða m.a. á um forræði og eignarhald Íslendinga, ráðstöfunar- og nýtingarrétt, hámarkskvóta og rekstrarleg tengsl við atvinnulíf í landi, þannig að tryggt sé að forræði Íslendinga yfir auðlindinni glatist ekki. Samkomulag náist um samkeppnisstöðu Íslendinga, m.a. varðandi rekstrarumhverfi fiskveiða og stuðningsaðgerðir. Íslendingar áskilji sér sjálfstæðan rétt til sóknar á úthafinu enda verði fylgt sameiginlega viðurkenndum reglum um deilistofna og úthafsveiðar, m.a. um tillit til veiðireynslu, líffræðilegrar dreifingar, og mikilvægis í efnahags- og atvinnulífi.

6.

Meðal mikilvægra markmiða Íslendinga á sviði landbúnaðar og búvöruiðnaðar eru: Áfram verði fylgt núverandi landbúnaðarstefnu, en meginatriði hennar eru m.a.:

– að framleiðsla búvara til neyslu og iðnaðar skuli verða í sem nánustu samræmi við þarfir þjóðarinnar og tryggi ávallt nægilegt vöruframboð við breytilegar aðstæður í landinu;

 – að innlend aðföng skuli nýtast sem best við framleiðslu búvara bæði með hliðsjón af heilbrigði, framleiðsluöryggi og atvinnu; – að kjör þeirra sem landbúnað stunda skuli verða í sem nánustu samræmi við kjör annarra stétta. Þá er einnig mikilvægt að Ísland verði áfram viðurkennt sem sérstakt verndarsvæði vegna sjúkdómahættu í matvælum, búfé og öðrum dýrum.

7.

Meðal mikilvægra markmiða á sviði byggðamála eru:

Veittur verði skilgreindur stuðningur við atvinnuþróun og nýsköpun á landsbyggðinni til að greiða fyrir búháttabreytingum og hagræðingu með afkomuöryggi í heimabyggðum. Með skipulegum aðgerðum verði dregið úr byggðaröskun frá því sem nú er og stuðlað að þróun og eflingu atvinnulífs og félagslegrar aðstöðu á landsbyggðinni. Viðurkennd verði sérstök vandamál harðbýlis og dreifðrar byggðar hér á norðurslóðum og tekið tillit til sérstakra þarfa vegna þjónustu, fjarskipta, flutninga og samgangna.

8.

Meðal mikilvægra markmiða Íslendinga á öðrum sviðum eru þessi: Sérstök áhersla verði lögð á nálægðarreglu í stjórnsýslu og ákvörðunum sem varða Ísland og Íslendinga. Aðgengi Íslendinga verði tryggt að sameiginlegum stofnunum og undirbúningi allra mála sem snerta Íslendinga. Áfram verði haldið samstarfi Evrópuþjóða á sviði mennta-, menningar- og félagsmála. Staða Íslands í öryggis- og varnakerfi verði staðfest. Hagsmunir Íslendinga á sviði samgangna, fjarskipta og flutninga verði tryggðir og tillit tekið m.a. til sérstöðu vegna legu landsins. Tillit verði tekið til hagsmuna Íslendinga vegna ósamleitni í efnahagsmálum, þ.e. vegna þess að hagsveiflur hér eru með öðrum hætti en í helstu viðskiptalöndum. Tryggt verði að ákvarðanir vegna gjaldeyrismála hafi ekki í för með sér óeðlilega röskun á þjóðarhag. Sérstakt tillit verði tekið til aðstöðu og þróunarmöguleika nýrra hátekjugreina á Íslandi. Ákvarðað verði um hagsmuni Íslendinga í viðskiptum við þjóðir utan Evrópusambandsins. Tryggt verði nauðsynlegt svigrúm til aðlögunar, meðal annars vegna sérstöðu íslensks atvinnulífs, byggða og hagkerfis. Í hugsanlegum aðildarviðræðum við Evrópusambandið ber m.a. að tiltaka ákvörðunarferli ef Íslendingar kjósa síðar að ganga úr Evrópusambandinu.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 5.9.2011 - 08:49 - 2 ummæli

Íslensk óeirðalögregla?

Það mætti ætla að stjórnvöld stefni að því að breyta íslensku lögreglunni í óeirðalögreglu. Ekki óeirðalögreglu í hefðbundnum skilningi þar sem sérútbúin lögregla tekst á við óeirðaseggi – heldur í lögreglu sem neyðist til að standa fyrir óeirðum.

Nú  hafa íslenskir lögreglumenn verið samningslausir í næstum ár. Kjör þeirra eru ekki á þann veg að þau laði að það vandaða fólk sem nauðsynlegt er að skipa gott lögreglulið. Lögreglan hefur ekki verkfallsrétt og getur því ekki þrýst á stjórnvöld til að ganga til samninga með verkföllum.

Við eigum ennþá góða og faglega lögreglu – en slík lögregla er ekki sjálfgefin. Það höfum við séð í ríkjum víða um heim.

Fagleg og öflug lögregla sem vinnur á grunni þess lýðræðis sem við byggjum samfélag okkar á er einn af hornsteinum samfélagsins. Þessi hornsteinn er að molna þar sem lögreglumenn eru hreint og beint að gefast upp vegna of mikils álags og allt of lágra launa.

Við verðum að hafa skilning á því að löggæslan kosti peninga – og ríkisvaldið verður að halda uppi faglegri lögreglu. Ríkisstjórn og Alþingi verða að gera sér grein fyrir þessari staðreynd.

Sem betur fer er íslenska lögreglan enn skipuð mörgum reyndum mönnum sem nánast vegna hugsjóna hafa ekki gefist upp. Slíkir lögreglumenn breyta sjálfum sér ekki í óeirðalögreglu. En hversu lengi halda þessir menn út?

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 4.9.2011 - 11:59 - Rita ummæli

Jón Gnarr góður!

Ég hef oft o0g tíðum gagnrýnt Jón Gnarr borgarstjóra og það stundum harkalega. Enda hefur hann átt það skilið. En ég verð þá að hrósa honum þegar hann stendur sig vel. Mér fannst hann bara mjög góður á Sprengisandi í morgun. Vonandi er hann að þroskast sem lykilpersóna í Reykjavík.

Því eins og ég hef margoft sagt í pistlum mínum – þá er hann með í Bezta nokkra mjög lofandi stjórnmálamenn. Fyrir það fólk hefur Jón Gnarr verið þeirra helsta pólitíska ógn – ef þetta fólk hefur á annað borð áhuga á að taka þátt í pólitík til framtíðar.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 3.9.2011 - 20:42 - 6 ummæli

Framsóknarkonur kusu frjálslyndið!

Framsóknarkonur létu ekki segja sér fyrir verkum heldur kusu frjálslyndið!

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 3.9.2011 - 11:28 - 2 ummæli

Allt á uppleið eða í kaldakoli?

Jóhanna og Steingrímur J. halda því fram að allt sé á uppleið.  Það er rangt.

Bjarni Ben og Sigmundur Davíð halda því fram að allt sé í kaldakoli. Það er rangt.

Staðan er ekki svarthvít. Hún er grá.

Það er rétt hjá Jóhönnu og Steingrími J. að ýmislegt hefur áunnist.

Það er rétt hjá Bjarna Ben og Sigmundi Davíð að ríkisstjórninni hefur mistekist á mörgum sviðum. 

Það er hins vegar ekki ástæða til að velta sér um of upp úr þessari gráu stöðu – heldur eiga þau Jóhanna, Steingrímur J., Bjarni Ben og Sigmundur Davíð að taka höndum saman og vinna á heiðarlegan hátt þjóðina út úr þeim vandræðum sem hún er í.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur