Ég fyllstu einlægni þá hélt ég að borgarstjórnarsirkusinn 2006 – 2008 yrði ekki toppaður. En ég hafði rangt fyrir mér. Jón Gunnar borgarstjóri toppaði þann borgarstjórnarsirkus þegar síst skyldi. Í tengslum við Gleðigöngu Hinsegindaga – sigurgöngu mannréttinda, fjölbreytni mannlífsins og þess frjálslynda samfélags sem við flestir Íslendingar viljum lifa í.
Ég hafði skilning á því að kjósendur í Reykjavík skyldu refsa fulltrúum þeirra flokka sem sátu í borgarstjórn kjörtímabilið 2006 – 2010 fyrir þann sirkus sem gekk á fyrri hluta tímabilsins.
Þrátt fyrir að borgarfulltrúar flestir hefðu séð að sér breytt yfir í fyrirmyndar samvinnustjórnmál síðari hluta kjörtímabilsins – þegar borgarfulltrúar nýs meirihluti Framsóknar og Sjálfstæðisflokks – og borgarfulltrúar minnihlutaflokkanna Samfylkingar og VG gerbreyttu kúrsinum og unnu saman að hag borgarbúa þvert á flokkslínur langt umfram það sem áður hafði þekkst í íslenskum stjórnmálum.
Ég hafði skilning á því að kjósendur í Reykjavík skyldu velja Jón Gunnar og Bezta flokkinn sem leiðandi flokk í borginni í kjölfar borgarstjórnarsirkusins 2006 – 2008 – þrátt fyrir úrbæturnar 2008-2010.
Jón Gunnar og Bezti flokkurinn fékk tækifæri til að breyta borgarstjórnarpólitíkinni – og í raun stjórnmálum á Íslandi – á jákvæðan hátt. Jón Gunnar hefur klúðrað því tækifæri – þótt ég hafi enn mikla trú á borgarfulltrúum Bezta flokksins – þeim Einari Erni Benediktssyni, Elsu Hrafnhildi Yeoman, Óttari Ólafi Proppé, Evu Einarsdóttur og Karli Sigurðssyni.
Held reyndar að Einar Örn, Óttar Ólafur og Elsa séu rétt að byrja í pólitík – og eigi jafnvel eftir að setjast á þing – ef þau vilja og Jón Gunnar slátrar þeim ekki pólitískt sem sirkustrúður #1.
Ég hélt reyndar þar til nú að Jón Gunnar væri einlægur í því að breyta stjórnmálum á jákvæðan hátt – og taldi lengst af sirkusstæla hans vera sérkennilega leið til þess að láta gott af sér leiða.
En sá hroki og vilji til að niðurlægja ekki einungis alla samstarfsmenn sína í borgarstjórn – heldur einnig Gleðigöngu Hinsegindaga – kemur skýrt fram í bréfi Jóns Gunnars borgarstjóra til borgarfulltrúa og sýnir að hann er fyrst og fremst valdafígúra en ekki hugsjónamaður sem vill láta gott af sér leiða.
Valdafígúra eins og svo margir mislukkaðir valdamenn sem hafa viljað láta sviðsljósið beinast að sjálfum sér með einkennisklædda stuðningsliða í gæsagangi á eftir sér – eða fyrir framan sig veifandi úr hásæti ofan almúgans.
Því miður.
Bréf Jóns Gunnars borgarstjóra til „samstarfsmanna“ sinna var eftirfarandi:
Kæru borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar.
Ég býð ykkur að taka þátt með mér í hinni einu og sönnu Gleðigöngu Hinsegin daga sem fram fer laugardaginn 6. ágúst nk. kl. 14.00. Við munum koma fram sem Fröken Reykjavík og gæsirnar við Tjörnina. Hugmyndin er að borgarfulltrúar, varaborgarfulltrúar og vinir geti gengið í hóp á eftir bílnum sem ég verð í. Er það einlæg ósk mín að sem flest ykkar sjái sér fært mæta og sýna samstöðu með samkynhneigðum um víða veröld. Gleðigangan er frábært framtak sem hefur vakið heimsathygli á Reykjavík og réttindabaráttu samkynhneigðra hér á landi. Takið endilega vini eða fjölskyldumeðlimi með.Mæting er á BSÍ ekki seinna en 13.30 en gangan mun fara meðfram Tjörninni
að þessu sinni og staðnæmast við Arnarhól.dagny.ingadottir@reykjavik.is
Vinsamlega staðfestið þátttöku í tölvupósti á
Með gleðikveðju,
Jón Gnarr
Ég treysti því að vandaðir stjórnmálamenn sem bera ábyrgð á Jóni Gunnari sem borgarstjóra – Dagur B. Eggertsson, Oddný Sturludóttir, Björk Vilhelmsdóttir, Einar Örn Benediktsson, Elsa Hrafnhildur Yeoman, Óttar Ólafur Proppé, Eva Einarsdóttir og Karl Sigurðsson – taki í taumana og snúi aftur úr borgarstjórnarsirkusnum yfir í raunveruleg stjórnmál sem miði að tryggja hag borgarbúa eins og unnt er.
Ég er viss um að afgangurinn af borgarstjórninni er reiðubúinn í að taka höndum saman með meirihlutanum um alvöru samvinnustjórnmál – ef sirkuslátunum verður hætt.
Borgarbúar eiga það skilið!