Miðvikudagur 10.8.2011 - 10:27 - 5 ummæli

Samvinnukonan Eygló Harðar

Eygló Harðardóttir er einn fárra þingmanna sem náð hefur að lyfta sér upp úr skotgrafarhernaði upphrópanna og æsingastjórnmála og lagt megináherslu á uppbyggjandi og lausnarmiðaða pólitík þar sem grunnþemað er samvinna í víðtækasta skilningi þess orðs.

Nú síðast kallar Eygló eftir samvinnu um málefni Suðurnesja þar sem ástandið er vægast sagt alvarlegt.

Það er rétt sem Eygló segir:

„Að benda og kenna einhverjum um kemur að litlu gagni fyrir þá sem fá ekki vinnu, þá sem horfa á eftir húsnæði sínu á uppboð, fyrirtækinu í gjaldþrot eða börnunum til útlanda,“

Að sjálfsögðu eiga stjórnmálamenn og aðrir að taka höndum saman og vinna að lausn mála á Suðurnesjum á grundvelli samvinnu en ekki pólitískra átaka sem einungis skaða Suðurnesin.

En stjórnmálamenn eiga ekki einungis að taka höndum saman um málefni Suðurnesja – heldur um lausn þess vanda sem við Íslendingar stöndum frammi fyrir sem þjóð.

Því miður hefur lítill vilji verið hjá stjórnmálamönnum til að vinna saman að lausn vandans. Hvorki stjórn né stjórnarandstaða. Þess í stað hafa upphrópanir og ásakanir gengið á báða bóga og staðan því miklu verri en annars hefði getað orðið.

Er ekki kominn tími á samvinnu?

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 9.8.2011 - 19:19 - 11 ummæli

Skatt á innistæður í Seðlabanka

Ríkisstjórnin á að setja aukalegan 10% skatt á innistæður í Seðlabanka Íslands. Það hefði tvennar mikilvægar afleiðingar í för með sér. Annars vegar skapar það vænar skatttekjur frá þeim sem eru í efnaðri kantinum. Hins vegar hrekur aðgerðin það lata fjármagn sem liggur í Seðlabankanum á kostnað samfélagsins  í stað þess að vinna fyrir samfélagið í uppbyggingu efnahagslífsins og atvinnulífsins í landinu.

Því ekki hefur ríkisstjórnin staðið sig í að byggja grunn undir fjárfestingar – þvert á móti unnið gegn þeim.

Þessi skattlagning eykur hagvöxt og tryggir ríkinu enn meiri tekjur en annars – á meðan skattahækkanir ríkisins hins vegar hafa dregið úr hagvexti og hlutfallslega rýrt tekjur ríkisins.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 9.8.2011 - 15:17 - 7 ummæli

Rústar Bezti Sögusafninu?

Bezti flokkurinn er að rústa Sögusafninu í Perlunni. Það hlýtur að vera misskilningur. Trúi ekki að listaspírurna í Bezta vilji sögusafnið feigt. Treysti því að borgarstjórinn bjargi Sögusafninu hið snarasta.  Svona eins og Kalli í Baggalút gerði þegar hann lokaði snarlega slysagildru við Tunguveg eftir að ég benti á  barnaslysahættu þar í pistli.

Bezti flokkurinn ber nefnilega ábyrgð á bráðabirgðaforstjóra Orkuveitu Reykjavíkur sem sagði upp leigumsamningi við Sögusafnið í Perlunni sem hefur verið starfrækt í tíu ár í einum vatnstankinum sem ber uppi alþekktan glerhjúpinn í Öskjuhlíðinni.

Nú bíðum við og sjáum hvort Bezta og borgarstjóranum er annt um menninguna …

PS. Af tillitssemi við aðdáendur borgarstjórans þá kalla ég hann ekki skírnarnafninu hans sem er Jón Gunnar eins og ég gerði í síðasta pistli. Aðdáendur borgarstjórans fóru nefnilega af límingunum við það. Því kalla ég Jón Gunnar bara borgarstjórann í þessum pistli.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 7.8.2011 - 23:36 - 47 ummæli

Borgarstjórnarsirkusinn toppaður

Ég fyllstu einlægni þá hélt ég að borgarstjórnarsirkusinn 2006 – 2008 yrði ekki toppaður. En ég hafði rangt fyrir mér. Jón Gunnar borgarstjóri toppaði þann borgarstjórnarsirkus þegar síst skyldi. Í tengslum við Gleðigöngu Hinsegindaga – sigurgöngu mannréttinda, fjölbreytni mannlífsins og þess frjálslynda samfélags sem við flestir Íslendingar viljum lifa í.

Ég hafði skilning á því að kjósendur í Reykjavík skyldu refsa fulltrúum þeirra flokka sem sátu í borgarstjórn kjörtímabilið 2006 – 2010  fyrir þann sirkus sem gekk á fyrri hluta tímabilsins.  

Þrátt fyrir að borgarfulltrúar flestir hefðu séð að sér breytt yfir í fyrirmyndar samvinnustjórnmál síðari hluta kjörtímabilsins – þegar borgarfulltrúar nýs meirihluti Framsóknar og Sjálfstæðisflokks – og borgarfulltrúar minnihlutaflokkanna Samfylkingar og VG gerbreyttu kúrsinum og unnu saman að hag borgarbúa þvert á flokkslínur langt umfram það sem áður hafði þekkst í íslenskum stjórnmálum.

Ég hafði skilning á því að kjósendur í Reykjavík skyldu velja Jón Gunnar og Bezta flokkinn sem leiðandi flokk í borginni í kjölfar borgarstjórnarsirkusins 2006 – 2008 – þrátt fyrir úrbæturnar 2008-2010.

Jón Gunnar og Bezti flokkurinn fékk tækifæri til að breyta borgarstjórnarpólitíkinni – og í raun stjórnmálum á Íslandi – á jákvæðan hátt. Jón Gunnar hefur klúðrað því tækifæri – þótt ég hafi enn mikla trú á borgarfulltrúum Bezta flokksins – þeim Einari Erni Benediktssyni, Elsu Hrafnhildi Yeoman, Óttari Ólafi Proppé, Evu Einarsdóttur og Karli Sigurðssyni.

Held reyndar að Einar Örn, Óttar Ólafur og Elsa séu rétt að byrja í pólitík – og eigi jafnvel eftir að setjast á þing – ef þau vilja og Jón Gunnar slátrar þeim ekki pólitískt sem sirkustrúður #1.

Ég hélt reyndar þar til nú að Jón Gunnar væri einlægur í því að breyta stjórnmálum á jákvæðan hátt – og taldi lengst af sirkusstæla hans vera sérkennilega leið til þess að láta gott af sér leiða.

En sá hroki og vilji til að niðurlægja ekki einungis alla samstarfsmenn sína í borgarstjórn – heldur einnig Gleðigöngu Hinsegindaga – kemur skýrt fram í bréfi Jóns Gunnars borgarstjóra til borgarfulltrúa og sýnir að hann er fyrst og fremst valdafígúra en ekki hugsjónamaður sem vill láta gott af sér leiða. 

Valdafígúra eins og svo margir mislukkaðir valdamenn sem hafa viljað láta sviðsljósið beinast að sjálfum sér með einkennisklædda stuðningsliða í gæsagangi á eftir sér – eða fyrir framan sig veifandi úr hásæti ofan almúgans.

Því miður.

Bréf Jóns Gunnars borgarstjóra til „samstarfsmanna“ sinna var eftirfarandi:

Kæru borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar.
Ég býð ykkur að taka þátt með mér í hinni einu og sönnu Gleðigöngu Hinsegin daga sem fram fer laugardaginn 6. ágúst nk. kl. 14.00. Við munum koma fram sem Fröken Reykjavík og gæsirnar við Tjörnina. Hugmyndin er að borgarfulltrúar, varaborgarfulltrúar og vinir geti gengið í hóp á eftir bílnum sem ég verð í. Er það einlæg ósk mín að sem flest ykkar sjái sér fært mæta og sýna samstöðu með samkynhneigðum um víða veröld. Gleðigangan er frábært framtak sem hefur vakið heimsathygli á Reykjavík og réttindabaráttu samkynhneigðra hér á landi. Takið endilega vini eða fjölskyldumeðlimi með.Mæting er á BSÍ ekki seinna en 13.30 en gangan mun fara meðfram Tjörninni
að þessu sinni og staðnæmast við Arnarhól.
dagny.ingadottir@reykjavik.is 

Vinsamlega staðfestið þátttöku í tölvupósti á

Með gleðikveðju,
Jón Gnarr

Ég treysti því að vandaðir stjórnmálamenn sem bera ábyrgð á Jóni Gunnari sem borgarstjóra – Dagur B. Eggertsson, Oddný Sturludóttir, Björk Vilhelmsdóttir, Einar Örn Benediktsson, Elsa Hrafnhildur Yeoman, Óttar Ólafur Proppé, Eva Einarsdóttir og Karl Sigurðsson – taki í taumana og snúi aftur úr borgarstjórnarsirkusnum yfir í raunveruleg stjórnmál sem miði að tryggja hag borgarbúa eins og unnt er.

Ég er viss um að afgangurinn af borgarstjórninni er reiðubúinn í að taka höndum saman með meirihlutanum um alvöru samvinnustjórnmál – ef sirkuslátunum verður hætt.

Borgarbúar eiga það skilið!

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 5.8.2011 - 09:08 - Rita ummæli

Fjölbreytni, gleði og frjálslyndi

Gleðigangan á  Hinsegindögum er tákn þess árangurs sem við höfum náð í réttindamálum samkynhneygðra sem áður var kúgaður minnihlutahópur sem í tilfellum var ofsóttur.

En Gleðigangan á  Hinsegindögum er einnig tákn þeirrar fjölbreytni mannlífsins og þess frjálslynda samfélags sem við flestir Íslendingar viljum lifa í.

Og Gleðigangan á  Hinsegindögum minnir okkur á að mannréttindi eru ekki sjálfkrafa. Það þarf að vinna fyrir þeim og það þarf að verja þau.

Gleðigangan á  Hinsegindögum minnir okkur á að hver og einn einstaklingur er einstakur og á rétt á farsælu lífi óháð kynhneygð, uppruna, litarhafts, trúar eða stjórnmálaskoðanna.

Gleðigangan á  Hinsegindögum skiptir því miklu máli í íslensku samfélagi.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 4.8.2011 - 00:29 - 8 ummæli

Árni Páll að átta sig!

Árni Páll er að átta sig á raunverulegu viðfangsefni ríkisstjórnarinnar þegar hann segir:  “Við þurfum að hugsa upp á nýtt hvert umfang ríkisrekstrar á að vera og skilgreina þrengra þau grundvallarverkefni sem við viljum að ríkið sinni.“

Það er verst að hann virðist sá eini í ríkisstjórninni sem fattar þetta.

Þá er einnig algerlega rétt hjá Árna Páli þegar hann segir:

„Okkar bíður að sanna að við ráðum við það verkefni sem mörg önnur ríki eru nú að heykjast á – að tryggja samkeppnishæfni atvinnulífs, laga útgjöld að tekjum og takast á við sérhagsmuni og kyrrstöðuöfl í hverri grein. Er það á okkar færi?“

Þetta er málið!

Því miður bendir allt til þess að það sé ekki á færi núverandi ríkisstjórnar að ráða við verkefnið.

Það sem verra er er að það bendir heldur ekkert til þess að stjórnarandstaðan ráði við verkefnið.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 2.8.2011 - 01:13 - 11 ummæli

Frjálslyndi, umburðarlyndi og staðfast lýðræði

Það eru ellefu dagar liðnir frá hryðjuverkunum í Noregi. Ég er ennþá miður mín og hef ekki enn getað hugsað mér að skrifa pistla um smávægileg vandamál daglegs lífs eftir harmleikinn á Utøya – og því þagað á blogginu mínu í rúma viku.

Hryðjuverkin voru framin undir yfirskini öfgafullrar þjóðernishyggju og kynþáttahaturs.

Því miður virðist  vera  jarðvegur fyrir öfgafulla þjóðernishyggju um öll Norðurlöndin – þótt fæstir þeir sem aðhyllast slíkar skoðanir gangi svo langt að gerast kaldrifjaðir morðingar – heldur halda sig sem betur fer innan ramma norrænnar hefðar lýðræðis og orðræðu.

Í Noregi var „Fremskrittspartiet“ öfgafullur þjóðernisflokkur sem fyrir löngu hefur fest sig í sessi – en reyndar orðið hófsamari með árunum.  Í Danmörku var það „Dansk Folkeparti“ sem lék það hlutverk.

Í Finnlandi náðu öfgafullir þjóðernissinnar nýlega góðum árangri í kosningum undir merkjum “ Perussuomalaiset“ (Sannir Finnar), „Sannir Finnar“ virðast reyndar eiga marga  íslenska aðdáendur – jafnvel innan veggja Alþingis. Í Svíþjóð náðu „Sverigedemokraterna“ fótfestu í síðustu kosningum.

Slík öfgafull þjóðernishyggja hefur einnig verið að skjóta rótum á ólíklegustu stöðum á Íslandi – jafnvel innan hefðbundinna íslenskra stjórnmálaflokka.

Svarið við slíkri öfgafullri þjóðernishyggju er ekki boð, bönn og skerðing málfrelsis.

Svarið við  þjóðernisrembu og kynþáttahatri er frjálslyndi, umburðarlyndi og staðfast lýðræði.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 25.7.2011 - 10:00 - 1 ummæli

Frjálslyndi svarið við þjóðernisrembu

Frjálslyndi, umburðarlyndi og staðfast lýðræði er svarið gegn þjóðernisrembu og kynþáttahatri.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 23.7.2011 - 07:58 - 1 ummæli

Vi er alle norsk i dag

Vi er alle norsk i dag. Island kondolerer med det norske folk.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 21.7.2011 - 23:12 - 4 ummæli

Fjármögnun húsnæðiskerfisins

Athugasemdir Eftirlitsstofnunnar EFTA við hluta útlána Íbúðalánasjóðs þar sem eftirlitsstofnunin telur að Íbúðalánasjóður þurfi að þrengja skilyrði sín um útlán með óbeinni ríkisábyrgð kallar á endurskoðun fjármögnunar húsnæðiskerfisins.  

Stjórnvöld hafa fyrst og fremst um þrjár meginleiðir að velja hvað fjármögnun húsnæðiskerfisins varðar. Þrönga leið ríkisábyrgðar, blandaða leið ríkisábyrgðar og almennarar fjármögnunar og síðan almenna fjármögnun.  

Hér á eftir er lauslega farið yfir þessar þrjár leiðir.  

Ég mæli með því að farin verði leið almennar fjármögnunar.  

 

a. Þröng leið ríkisábyrgðar 

  • Skuldabréfaflokkar með ríkisábyrgð eingöngu til fjármögnunar íbúðalána til húsnæðis sem fellur undir heimild EES samningsins.
  • Aðkoma hins opinbera að fjármögnun annarra lána engin.

Þröng leið ríkisábyrgðar tryggir einungis fjármögnun til þess húsnæðis sem fellur klárlega undir skilyrði EES samningsins um heimila ríkisaðstoð. Þeir sem ekki falla undir þá skilgreiningu þurfa að leita sér lána annars staðar, það er hjá bönkum, sparisjóðum og mögulega beint til lífeyrissjóða.

Ríkisábyrgð tryggir almennt hagstæðari ávöxtunarkjör.

Vaxtakjör til þeirra sem falla undir félagslega skilgreiningu EES kann að verða ásættanleg, en vegna mögulegrar smæðar ríkistryggðu skuldabréfaflokkanna kann ávinningur ríkistryggingarinnar að vera sambærilegur eða minni en ávinningur í stórum, viðskiptahæfum skuldabréfaflokki án ríkisábyrgðar.

Vaxtakjör þeirra sem ekki geta nýtt sér ríkistryggð lán verða hins vegar nokkuð há, ekki hvað síst ef hver banki og hver sparisjóður þarf að fjármagna íbúðalán sín með útgáfu tiltölulega lítilla skuldabréfaflokka. 

   
 
b. Blönduð leið ríkisábyrgðar og almennrar fjármögnunar
  • Skuldabréfaflokkar með ríkisábyrgð eingöngu til fjármögnunar íbúðalána til húsnæðis sem fellur undir heimild EES samningsins.
  • Almennir skuldabréfaflokkar án beinnar ríkisábyrgðar til fjármögnunar íbúðalána sem ekki falla undir heimild EES samnings um ríkisábyrgð

 Vaxtakjör til þeirra sem falla undir félagslega skilgreiningu EES kann að verða ásættanleg, en vegna mögulegrar smæðar ríkistryggðu skuldabréfaflokkanna kann ávinningur ríkistryggingarinnar að vera sambærilegur eða minni en ávinningur í stórum, viðskiptahæfum skuldabréfaflokki án ríkisábyrgðar.   

Aðkoma hins opinbera að fjármögnun íbúðalána án ríkisábyrgðar á þau lán sem falla utan félagslegrar skilgreiningar EES samningsins þar sem tryggðir verða stórir viðskiptahæfir skuldabréfaflokkar myndi að líkindum lækka verulega ávöxtunarkröfu almennra íbúðalána.

 

c. Almenn fjármögnun

  • Almennir skuldabréfaflokkar án beinnar ríkisábyrgðar til fjármögnunar íbúðalána til allra.
  • Möguleg aðkoma ríkisins með ríkisábyrgð sem komi ekki beint að grunnfjármögnun heldur tryggi ríkið greiðslur af lánum til skilgreinds húsnæðis sem uppfyllir skilyrði EES.

Kjör á lánum til þess hóps sem fellur undir félagslega skilgreiningur EES og má þar af leiðandi njóta ríkistryggðra lána kann að verða jafn góð eða jafnvel betri ef sú leið er farin að fjármagna stærsta hluta íslenskra íbúðalánas án ríkisábyrgðar í tiltölulega fáum, stórum skuldabréfaflokkum skráðum á alþjóðlegum fjármálamarkaði þar sem uppgjör er tryggt gegnum öflug uppgjörshús. 

Jafnframt kann sú leið að tryggja öllum almenningi hagstæðari vaxtakjör en ella.  

Mögulegt væri að ríkisvaldið tryggi greiðsluflæði af hluta eða öllu því húsnæði sem fellur undir skilgreiningu EES samningsins um félagslegt húsnæði. Slík ríkistrygging á greiðsluflæði styrkir heildarstöðu skuldabréfaflokkana og ætti að tryggja lægri ávöxtunarkröfu á alla fjármögnun íbúðalána. 

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur