Miðvikudagur 8.6.2011 - 20:51 - 7 ummæli

Hin heilaga rannsóknarskýrsla

Mikilvæg rannsóknarskýrsla Alþingis vegna efnahagshrunsins hefur í hugum sumra verið nánast heilög. „Hin heilaga rannsóknarskýrsla“.   Á sama hátt hefur rannsóknarnefndin í hugum sumra verið jafn heilög og „Hinn heilagi rannsóknarréttur“.

Ég veit að það sómafólk sem skipaði nefndina er ekki á þessari skoðun. Það veit vel að það er breiskt eins og annað fólk og að í rannsóknarskýrslunni eru mistúlkanir og rangfærslur þótt meginefni skýrslunnar gefi ljósa og mikilvæga mynd á aðdraganda og ástæður hrunsins.

Ég varð sjálfur fyrir aðkasti þegar ég benti á með traustum gögnum augljósar rangfærslur og mistúlkanir í ákveðnum hluta hinnar heilögu skýrslu. Hins vegar hafa ábendingar mínar og leiðréttingar ekki verið hraktar. Eðllilega ekki.

En þótt ákveðnir þættir í skýrslunni séu rangir og misstúlkaðir þá gerir það þessa mikilvægu skýrslu ekki ónýtt plagg. Bara alls ekki.

Þessa dagana eru sífellt fleiri að átta sig á því að hin heilaga rannsóknarskýrsla sé ekki svo heilög – og að sómafólkið sem skipaði rannsóknarnefndina er ekki alviturt né óskeikult.

En þótt það sé af hinu góða að fólk átti sig á meinbugum rannsóknarskýrslunnar þá má ekki afgreiða rannsóknarskýrsluna sem ómerka og lenda þannig með öfugum formerkjum í sömu gryfjunni og þeir sem töldu skýrsluna nánast hina heilögu rannsóknarskýrslu. Það örlar á slíkum skoðunum um þessar mundir.

Við eigum öll að taka rannsóknarskýrslunni eins og hún er. Mikilvæg greining og greinargerð um helstu þættina í aðdraganda og hrunsins. Greining og greinargerð sem er fjarri því að vera fullkomin en gefur samt raunsannari mynd en mátt hefði búast við í upphafi.

Greining sem við þurfum að sannreyna, túlka og vinna með sem einn þáttinn í því byggja upp heilbrigðara samfélag en við bjuggum og búum við.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 8.6.2011 - 08:43 - 3 ummæli

Afskrifum skuldir stjórnmálaflokka

Við eigum að afskrifa núverandi skuldir stjórnmálaflokkanna. Í kjölfarið innleiða algerlega gagnsætt kerfi þar sem hver króna í starfi stjórnmálaflokka verði uppi á borðinu – hvaðan hún kom og hvert hún fer. Þannig snarminnkum við núverandi tangarhald ýmissa hagsmunaaðilja sem nú hafa tök á stjórnmálaflokkunum gegnum skuldir þeirra.

Það er nefnilega tangarhald í núverandi skuldum stjórnmálaflokkanna sem eru meðal annars upp á fjármálafyrirtæki komin vegna þess. Að líkindum skulda þeir einnig hjá hinum ýmsum aðiljum í samfélaginu – jafnvel útgerðarfyrirtækjum.

Með slíkum afskriftum og skýrum reglum um fjármál stjórnmálaflokka – sem byggja á algjöru gagnsæji – þá standa allir jafnfætis á byrjunarreit.

Kannske stjórnlagaþingið geti tekið þetta inn í vinnu sína um fjármál stjórnmálaflokka!

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 7.6.2011 - 20:11 - 14 ummæli

Hræsnarar vildu Geir en ekki Ingibjörgu

Það er eðlilegt að Geir Haarde sé fúll út í þá sem greiddu atkvæði með því að draga hann fyrir Landsdóm. En þrátt fyrir það verður maðurinn að skilja að það voru rök fyrir því að svo yrði gert. Hins vegar voru engin rök fyrir því að draga Geir Haarde einan og sér fyrir dóminn. Slíkt var og er hræsni dauðans.

Geir Haarde á því að vera maður til þess að gera greinarmun á þeim sem ákváðu að greiða atkvæði með því að hann og allir hinir þrír sem Alþingi kaus um hvort ætti að ákæra yrðu dregnir fyrir Landsdóm og hinna sem á af pólitískum hvötum ákváðu að greiða einungis atkvæði með því að hann – en ekki Ingibjörg Sólrún – yrði dreginn fyrir Landsdóminn.

Því sjaldan hefur hræsni á Alþingi verið meiri en hjá þeim sem vildu Geir Haarde fyrir landsdóm – en ekki Ingibjörgu Sólrúnu – því ábyrgð þeirra var sú sama.

Annað hvort átti að sýkna alla – eða að draga að minnsta kosti Ingibjörgu Sólrúnu einnig fyrir landsdóm. Sú staða að Geir Haarde sitji þarna einn er Íslendingum til skammar!

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 7.6.2011 - 08:29 - 6 ummæli

Harpa taki sjaldséðari strætó!

Borgin vill að starfsfólk og þá væntanlega gestir Hörpu taki strætó. Á sama tíma dregur borgin úr tíðni strætisvagna úr 15 mínútum í 30 mínútur.  Er eitthvað hérna sem passar ekki?

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 6.6.2011 - 11:31 - 2 ummæli

Þjóðaratkvæðagreiðslu um NATO

Við eigum að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um veru Íslands í NATO samhliða þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild að Evrópusambandinu. Þá afgreiðum við í einu lagi ágreining um framtíðarstöðu Íslands á alþjóðavettvangi.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 3.6.2011 - 15:43 - 2 ummæli

Jón Gnarr og rónarnir

Það var vel við hæfi að Jón Gnarr borgarstjóri tæki virkan þátt í tískusýningu Hjálpræðishersins á Austurvelli til að vekja athygli á fatasölu – og nytjahlutasölu Hjálpræðishersins.  Ágóði af sölunni rennur til dagseturs Hjálpræðishersins fyrir útigangsfólk, en eins og ég hef margoft vakið athygli á þá vinnur Hjálpræðisherinn afar gott og mikilvægt starf fyrir útigangsfólk í Reykjavík.

Þá er alkunna að Jón Gnarr ber hag útigangsfólks fyrir brjósti eins og skýrt kom fram í kosningabaráttu hans.  Nú sýnir hann það í verki með því að styðja Hjálpræðisherinn í starfi sínu – en Velferðarráð Reykjavíkurborg styrkir starf  dagsetur Hjálpræðishersins. Það var gleðilegt að taka þátt í því sem varaformaður Velferðarráðs síðari hluta síðasta kjörtímabils.

Á þeim tíma var gert átak í þjónustu við útigangsfólks.

Ég veit að Jón Gnarr mun halda áfram því uppbyggingarstarfi í málefnum útigangsfólks sem grunnur var lagður í stefnu í málefnum þess hóps á síðasta kjörtímabili.  Reyndar hef ég heimildir fyrir því að það hafi komið Bezta flokknum á óvart það starf sem þá þegar hafði verið unnið í málaflokknum – sem ég treystu Bezta vel til að halda áfram.

Ég hvet alla til að styðja Hjálpræðisherinn í starfi sínu fyrir útigangsfólk.

Ákvað að birta á ný einn af þeim pistlum sem ég skrifaði um starf dagsetursins og annað mannúðarstarf á Moggablogginu mínu hér um árið:

Öflugt og fórnfúst starf Hjálpræðishersins í dagsetri fyrir útigangsfólk!

19.9.2008 | 10:02

Það er ótrúlega öflugt og fórnfúst starf sem Hjálpræðisherinn vinnur í dagsetri hersins fyrir útigangsfólk að Eyjaslóð 7. Ég leit þar við ásamt félögum mínum í meirihluta Velferðaráðs til að kynna okkur aðstöðuna og starfsemina. Varð afar snortin af þeirri fórnfýsi sem felst í þessari vinnu Hjálpræðishersins í þágu útigangsfólks, en það koma um 20 sjálfboðaliðar að vinnunni. Einungis einn starfsmaður í dagsetrinu þiggur laun! 

Í dagsetrinu sem Hjálpræðisherinn opnaði fyrir um ári síðan gefst fólki tækifæri að fá sér að borða, fara í sturtu, hvílast, fá fótsnyrtingu, þvo fötin sín svo eitthvað sé nefnt! Athvarf þetta er útigangsfólki ómetanlegt enda koma oft allt að 30 manns í mat og hvíld í dagetrinu. 

Eitthvað er um það að fyrirtæki styrki Hjálpræðisherinn með hráefni í matargjafir hersins – en stærsti hluti matarins er aðkeyptur. Það mættu fleiri leggja þeim lið á því sviði! 

Á jarðhæðinn er nytjamarkaður Hjálpræðishersins þar sem unnt er að gera góð kaup á ýmsum notuðum munum og fatnaði. 

Hagnaður af sölunni í nytjamarkaðnum rennur til reksturs dagsetursins. 

Ég hvet fólk sem er að taka til í geymslum og bílskúrum að hafa Hjálpræðisherinn í huga!

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 2.6.2011 - 10:36 - 12 ummæli

Fjárhúskötturinn kominn í Framsókn

Það að hinn gallharði vinstri maður Ásmundur Einar Daðason fyrrum alþingismaður VG skuli ganga til liðs við Framsóknarflokkinn staðfestir að Framsóknarflokkurinn er að fjarlægjast hefðina sem frjálslyndur umbótaflokkur á miðju stjórnmálanna. Ég er ósáttur við þá vegferð sem Framsóknarflokkurinn hefur verið á að undanförnu – þrátt fyrir einstaka gott stefnumál flokksins – enda sagði ég mig úr flokknum eftir aldarfjórðungsstarf 1. desember.

Reyndar hafði ég spáð því fyrir nokkru að Ásmundur Einar væri á leið Framsóknarflokkinn og þá jafnvel með Atla Gíslasyni og Lilju Mósesdóttur. Þá voru þau enn öll í þingflokki VG. Það voru gerð hróp að mér þegar ég spáði því – en ég þekki mitt heimafólk í Framsókn – og var nokkuð viss að þróun mála á fámennu flokksþingi yrði ekki í átt víðtækra sátta innan Framsóknarflokksins í anda flokks Steingríms Hermannssonar heldur í átt til fjárhúskattana í VG.

Þessi staða þarf þó ekki að vera slæm fyrir íslensk stjórnmál. Þvert á móti getur þetta verið skref í átt til nauðsynlegrar uppstokkunar hins úrelta aldargamla flokkakerfis á Íslandi – en eins og ég hef áður bent á til dæmis í pistlinum „Hrun 100 ára flokkakerfis?“ 

Forysta Framsóknarflokksins hefur valið að feta nýja leið. Frá frjálslyndum Framsóknarflokki Steingríms Hermannssonar sem tók mjög virkan þátt í alþjóðastarfi frjálslyndra flokka í Evrópu og á heimsvísu – þótt Steingrímur væri á móti því að Ísland tæki þátt í EES samstarfinu árið 1993  þar sem hann taldi réttilega að í þeim samningi fælist fullveldisframsal.

Ný leið forystu Framsóknarflokksins virðist vera leið stjórnlyndis, ósveigjanleika, einangrunarhyggju og eldfimrar þjóðernishyggju.

Áratugahefð Framsóknarflokksins sem samvinnuflokks í víðasta skilnings þess orðs þar sem Framsókn var brúarsmiðurinn og límið í stjórnmálunum vegna þess frjálslyndis og sveigjanleika sem flokkurinn sýndi virðist vera fyrir bí. Þótt einstaka þingmaður sýni slíka tilburði – þá kafna þeir tilburðir í háværum einstrengingshætti og upphrópunum annarra þingmanna.

Hið fyrra umburðarlyndi Framsóknarflokksins virðist einnig vera að fjara út hjá stuðningsmönnum hinnar nýju leiðar flokksins sem í athugasemdakerfum bloggheima láta gammin geysa margir með svívirðingum,  jafnvel heift, gegn þeim sem hafa aðra nálgun á málin. Hugmyndafræði brúarsmíð Framsóknar er fyrir bí.

Birtingarform þessa eru meðal annars persónulegar árásir á tvo þingmenn Framsóknarflokksins –  sem voru þeir einu sem fylgdu Evrópustefnu flokksins sem samþykkt var á fjölmennu flokksþingi árið 2009 en var breytt á fámennu flokksþingi 2011 –  hafa verið áberandi. Heift og fullkominn skortur á umburðarlyndi hefur verið gegnum gangandi hjá þessum stjörnum athugasemdakerfanna. Mjög óframsóknarlegt verð ég að segja.

Þótt ég sé ekki sáttur við þessa leið míns gamla flokks – þá er alveg ljóst að það er ákveðinni hljómgrunnur fyrir þessari stefnu.  Mér þykir sárt að það verði Framsóknarflokkurinn sem taki þessa stöðu – en það verður svo að vera.

Þessi leiðangur Framsóknar sem fær ákveðna staðfestingu í inngöngu Ásmundar Einars í flokkinn skapar sterkari grunn undir mögulegt nýtt, frjálslynt stjórnmálafl sem getur meðal annars tileinkaða sér umburðarlynd, sáttfýsi og frjálslynda félagshyggju Steingríms Hermannsonar.

Staðreyndin er nefnilega sú – sem ég hef oft bent á – að frjálslyndi hluti Framsóknarflokksins, frjálslyndi hluti Samfylkingar og frjálslyndi hluti Sjálfstæðisflokks eiga oft á tíðum meira sameiginlegt með hver öðrum en með öðrum hópum sömu flokka. 

Vegferð Framsóknarflokksins undanfarið og innganga Ásmundar Einars hefur losað verulega um flokksbönd fjölda frjálslyndra Framsóknarmanna við Framsóknarflokkinn.

Tilburðir Jóhönnu Sigurðardóttur til að halda saman frjálslynda hluta Samfylkingarinnar og sínum eigin stjórnlynda hluta þess flokks með því að bjóða „frjálslyndum Evrópusinnum“ til liðs við Samfylkinguna undir nýrri forystu og kennitölu sýnir að það er farið að rakna úr flokksböndum frjálslynds fólks á þeim bænum.

… og stór hluti þess mikla fjöldi kjósenda sem ekki sér framtíð í núverandi flokkum – er einmitt að leita að nýju, öflugu, frjálslyndu og umburðarlyndu afli til að takast á við mikilvæg verkefni framtíðarinnar.

Um misskilning Jóhönnu að Samfylkingin væri vettvangur frjálslyndra afla ræddi ég í pistlinum „Mikilvægur misskilningur Jóhönnu!“  Ákveðinn hluti Samfylkingar er nefnilega allt annað en frjálslyndur.

Þannig er ljóst að  „heimkoma“ fjárhúskattarins úr VG í Framsókn gæti verið af hinu góða fyrir íslensk stjórnmál.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 1.6.2011 - 12:11 - 4 ummæli

Slysagildru lokað!

Jón Gnarr* brást snarlega við og mun loka slysagildru strax í dag!  Fyrirmyndarvinnubrögð og borginni til sóma.

Eftirfarandi kom fram áðan í athugasemdakerfi við pistil minn Barnaslys í boði borgarinnar? :

„Komdu sæll Hallur,

Nú í morgun var athygli mín vakin á bloggi þínu. Við erum búin að fara á staðin og skoða aðstæður. Þakka þér fyrir réttmæta ábendingu um að þarna vantar handrið. Við sáum ekki ummerki um að þarna hafi áður verið festingar fyrir handrið.
Við munum lagfæra þetta í dag.

Kveðja,

Sighvatur Arnarsson,
skrifstofustjóri á framkvæmdasviði Reykjavíkurborgar“

Það ber að þakka þessi skjótu viðbrögð!  Nú er ég ánægður með Jón Gnarr.

*Jón Gnarr er hér tákngervingur borgarkerfisins og ber ekki að taka þetta sem persónulega athugasemd við borgarstjórann – þótt hann hafi vald til þess að koma æskilegum breytingum af stað. Þetta er sérstaklega tekið fram fyrir þá sem áður hraunuðu yfir persónu fyrri borgarstjóra án þess að blikna – en fara af límingunum ef Jón Gnarr er tákngerður sem borgarkerfið.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 31.5.2011 - 11:02 - 26 ummæli

Barnaslys í boði borgarinnar?

Þrátt fyrir ítrekaðar athugasemdir þá hefur Jón Gnarr* borgarstjóri ekki gert einfaldar ráðstafanir til að koma í veg fyrir mögulegt barnaslys á aðreininni af Miklubraut inn á Reykjanesbraut þar sem gangstígur frá Tunguvegi við Ásenda liggur að gangstíg meðfram Miklubraut/Reykjanesbraut.

Slysagildran er augljós eins og sjá má á eftirfarandi mynd – þar sem vanta bút af öryggisriði meðfram aðreininni – nákvæmlega á þeim stað sem börnin koma á ferðinni niður gangstéttina á Tunguvegi – brunandi á reiðhjólum, hjólabrettum, hlaupahjólum og hjólaskautum.

Það er guðsmildi að börn hafi ekki lent í þessari slysagildru sem margoft er búið að vara við undanfarin misseri. Við sjáum stúlkuna við endan á gangstígnum við Tunguveg - og sem betur fer náði hún að bremsa áður en hún geystist út á götu í veg fyrir hraða umferðina. Treysti á að Jón Gnarr loki þessari slysagildru STRAX!

Það er guðsmildi að ekki hefur orðið alvarlegt barnaslys við þessar aðstæður því hjólaumferð barna niður þennan göngustíg er mikil – enda Elliðaárdalurinn skammt frá!

Ég treysti því að Jón Gnarr kippi þessu í liðinn og komi upp öryggisriði strax.  Borgin hefur nefnilega ekki brugðist við ítrekuðum ábendingum um þessa slysagildru – sem hefur verið spennt frá því Jón Gnarr tók við sem borgarstjóri.

*Jón Gnarr er hér tákngervingur borgarkerfisins og ber ekki að taka þetta sem persónulega athugasemd við borgarstjórann – þótt hann hafi vald til þess að koma æskilegum breytingum af stað. Þetta er sérstaklega tekið fram fyrir þá sem áður hraunuðu yfir persónu fyrri borgarstjóra án þess að blikna – en fara af límingunum ef Jón Gnarr er tákngerður sem borgarkerfið.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 30.5.2011 - 20:50 - 46 ummæli

„Eyjabakkar“ Jóns Gnarr

Það mætti halda að náttúruperlan „Eyjabakkar“ væru nú staðsett í Laugardalnum norðan gatnamóta Suðurlandsbrautar og Grensásvegar. Allavega ef marka má heilaga vandlætingu tuga fólks sem hefur ómakað sig við að hrauna yfir mig fyrir þá ábendingu að rétt væri að skipuleggja tímabundin bílastæði í Laugardalnum þegar fyrirsjáanlegt er að dalurinn fyllist af barnafjölskyldum vegna íþróttamóta á íþróttavöllum og hátíðarhalda í Fjölskyldugarðinum í stað þess að siga lögreglu og stöðumálavörðum á barnafólk.

Frekar skal þvinga barnafólkið gangandi yfir 4 akreina umferðæð með tilheyrandi hraðakstri en að leysa málið á skipulegan og einfaldan hátt.

„Náttúruperlan“ sem sem verja skal af þessari vandlætingu – og á köflum heift – er á myndinni hér að neðan:

Hin dýrmæta náttúruperla þar sem alls ekki má skipuleggja tímabundin bílastæði 5 - 7 sinnum á sumri!

Mögulega er hluti heiftarinnar sú að ég tákngerði Jón Gnarr borgarstjóra sem tákn borgaryfirvalda – en eins og allkunna er þá fara margir þeirra sem áður hreyttu persónulegum óhróðri yfir Hönnu Birnu Kristjánsdóttur borgarstjóra  þegar hún gegndi embætti borgarstjóra – gersamlega af límingunum þegar borgaryfirvöld eru tákngerð í Jóni Gnarr. Ég ætla samt að halda áfram að nota Jón Gnarr borgarstjóra sem tákngerving borgaryfirvalda í pistlum mínum – veit hann hefur húmor fyrir því.

En aftur yfir í bráðabirgðabílastæðin.

Ég leyfði mér einnig að benda á þá óhæfu þegar lögreglu er sigað með sektarblokkina á akandi barnafólk í Víkinni sem ekki komst að í þeim 65 merktu stæðum sem þar eiga að sinna bílastæðaþörf alls íþróttasvæðisins í Víkinni – íþróttasvæði Víkinga í Fossvogi.

Það var nánast eins og ég hefði guðlastað að leggja það til að þegar stórir íþróttaviðburðir eru í Víkinni – eins og til dæmis KFC mótið sem hundruð ungra barna taka þátt í – að þá yrði tímabundið heimilað að leggja á grasflatir og við götur neðst í Víkinni – sem á öðrum tímum er bannað að leggja.

Já og að bílastæðin yrðu skipulögð – sem einfalt er að gera.  Svona eins og þarf að gera í Laugardalnum – þar sem td. er mikilvægt að breyta miklu fleiri bílastæðum næst inngangi Fjölskyldugarðsins í bílastæði fyrir fatlaða – þegar stórviðburðir eru í gangi – og nota „Eyjabakka“ Jóns Gnarr* undir tímabundin bílastæði fyrir almenning.

Nei. Svona ábendingar um betra skipulag og að koma á móts við barnafjölskyldurnar – þær eru nánast þjóðhættulegar.

Það ætti kannske að sekta kallinn fyrir að detta þetta í hug!

*Jón Gnarr er hér tákngervingur borgarkerfisins og ber ekki að taka þetta sem persónulega athugasemd við borgarstjórann – þótt hann hafi vald til þess að koma æskilegum breytingum af stað. Þetta er sérstaklega tekið fram fyrir þá áður hraunuðu yfir persónu fyrri borgarstjóra án þess að blikna – en fara af límingunum ef Jón Gnarr er tákngerður sem borgarkerfið.

Næsti pistill mun bera heitið „Barnaslys í boði borgarinnar?“*

* Takið eftir að ég nota hér ekki fyrirsögnina „Barnaslys í boði Jón Gnarr?“.  Því þótt Jón Gnarr sé tákngervingur borgarkerfisins og ekki beri endilega að taka það sem persónulega athugasemd við borgarstjórann þótt nafn hans sé notað í því skyni   – þá vildi ég taka tillit til tilfinninga þeirra fjölmörgu sem  áður hraunuðu yfir persónu fyrri borgarstjóra án þess að blikna – en fara af límingunum ef Jón Gnarr er tákngerður sem borgarkerfið.  Enda veit ég að Jón Gnarr er allur af vilja gerður til að koma í veg fyrir „barnaslys“ ef hann getur. Og hann getur það – og mun væntanlega grípa til ráðstafana til að koma fyrir slík slys – í kjölfar næsta pistils.

Stay tuned!

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur