Það að hinn gallharði vinstri maður Ásmundur Einar Daðason fyrrum alþingismaður VG skuli ganga til liðs við Framsóknarflokkinn staðfestir að Framsóknarflokkurinn er að fjarlægjast hefðina sem frjálslyndur umbótaflokkur á miðju stjórnmálanna. Ég er ósáttur við þá vegferð sem Framsóknarflokkurinn hefur verið á að undanförnu – þrátt fyrir einstaka gott stefnumál flokksins – enda sagði ég mig úr flokknum eftir aldarfjórðungsstarf 1. desember.
Reyndar hafði ég spáð því fyrir nokkru að Ásmundur Einar væri á leið Framsóknarflokkinn og þá jafnvel með Atla Gíslasyni og Lilju Mósesdóttur. Þá voru þau enn öll í þingflokki VG. Það voru gerð hróp að mér þegar ég spáði því – en ég þekki mitt heimafólk í Framsókn – og var nokkuð viss að þróun mála á fámennu flokksþingi yrði ekki í átt víðtækra sátta innan Framsóknarflokksins í anda flokks Steingríms Hermannssonar heldur í átt til fjárhúskattana í VG.
Þessi staða þarf þó ekki að vera slæm fyrir íslensk stjórnmál. Þvert á móti getur þetta verið skref í átt til nauðsynlegrar uppstokkunar hins úrelta aldargamla flokkakerfis á Íslandi – en eins og ég hef áður bent á til dæmis í pistlinum „Hrun 100 ára flokkakerfis?“
Forysta Framsóknarflokksins hefur valið að feta nýja leið. Frá frjálslyndum Framsóknarflokki Steingríms Hermannssonar sem tók mjög virkan þátt í alþjóðastarfi frjálslyndra flokka í Evrópu og á heimsvísu – þótt Steingrímur væri á móti því að Ísland tæki þátt í EES samstarfinu árið 1993 þar sem hann taldi réttilega að í þeim samningi fælist fullveldisframsal.
Ný leið forystu Framsóknarflokksins virðist vera leið stjórnlyndis, ósveigjanleika, einangrunarhyggju og eldfimrar þjóðernishyggju.
Áratugahefð Framsóknarflokksins sem samvinnuflokks í víðasta skilnings þess orðs þar sem Framsókn var brúarsmiðurinn og límið í stjórnmálunum vegna þess frjálslyndis og sveigjanleika sem flokkurinn sýndi virðist vera fyrir bí. Þótt einstaka þingmaður sýni slíka tilburði – þá kafna þeir tilburðir í háværum einstrengingshætti og upphrópunum annarra þingmanna.
Hið fyrra umburðarlyndi Framsóknarflokksins virðist einnig vera að fjara út hjá stuðningsmönnum hinnar nýju leiðar flokksins sem í athugasemdakerfum bloggheima láta gammin geysa margir með svívirðingum, jafnvel heift, gegn þeim sem hafa aðra nálgun á málin. Hugmyndafræði brúarsmíð Framsóknar er fyrir bí.
Birtingarform þessa eru meðal annars persónulegar árásir á tvo þingmenn Framsóknarflokksins – sem voru þeir einu sem fylgdu Evrópustefnu flokksins sem samþykkt var á fjölmennu flokksþingi árið 2009 en var breytt á fámennu flokksþingi 2011 – hafa verið áberandi. Heift og fullkominn skortur á umburðarlyndi hefur verið gegnum gangandi hjá þessum stjörnum athugasemdakerfanna. Mjög óframsóknarlegt verð ég að segja.
Þótt ég sé ekki sáttur við þessa leið míns gamla flokks – þá er alveg ljóst að það er ákveðinni hljómgrunnur fyrir þessari stefnu. Mér þykir sárt að það verði Framsóknarflokkurinn sem taki þessa stöðu – en það verður svo að vera.
Þessi leiðangur Framsóknar sem fær ákveðna staðfestingu í inngöngu Ásmundar Einars í flokkinn skapar sterkari grunn undir mögulegt nýtt, frjálslynt stjórnmálafl sem getur meðal annars tileinkaða sér umburðarlynd, sáttfýsi og frjálslynda félagshyggju Steingríms Hermannsonar.
Staðreyndin er nefnilega sú – sem ég hef oft bent á – að frjálslyndi hluti Framsóknarflokksins, frjálslyndi hluti Samfylkingar og frjálslyndi hluti Sjálfstæðisflokks eiga oft á tíðum meira sameiginlegt með hver öðrum en með öðrum hópum sömu flokka.
Vegferð Framsóknarflokksins undanfarið og innganga Ásmundar Einars hefur losað verulega um flokksbönd fjölda frjálslyndra Framsóknarmanna við Framsóknarflokkinn.
Tilburðir Jóhönnu Sigurðardóttur til að halda saman frjálslynda hluta Samfylkingarinnar og sínum eigin stjórnlynda hluta þess flokks með því að bjóða „frjálslyndum Evrópusinnum“ til liðs við Samfylkinguna undir nýrri forystu og kennitölu sýnir að það er farið að rakna úr flokksböndum frjálslynds fólks á þeim bænum.
… og stór hluti þess mikla fjöldi kjósenda sem ekki sér framtíð í núverandi flokkum – er einmitt að leita að nýju, öflugu, frjálslyndu og umburðarlyndu afli til að takast á við mikilvæg verkefni framtíðarinnar.
Um misskilning Jóhönnu að Samfylkingin væri vettvangur frjálslyndra afla ræddi ég í pistlinum „Mikilvægur misskilningur Jóhönnu!“ Ákveðinn hluti Samfylkingar er nefnilega allt annað en frjálslyndur.
Þannig er ljóst að „heimkoma“ fjárhúskattarins úr VG í Framsókn gæti verið af hinu góða fyrir íslensk stjórnmál.