Þriðjudagur 5.4.2011 - 11:23 - Rita ummæli

Völd, verkefni og tekjur heim í hérað!

Breyting á íslenskri stjórnsýslu sem tryggi að völd, verkefni og tekjur heim í hérað var eitt af baráttumálum mínu fyrir stjórnlagaþingskosningarnar.  Ég fékk góðan hljómgrunn með þær hugmyndir mínar og tel mikilægt að stjjórnlagaráð sem hefur störf á morgun taki þær til umfjöllunar.
.
Í því tilefni birti ég aftur pistli sem ég skrifaði í haust:
 
„Völd, verkefni og tekjur heim í hérað!
 
Það þarf að setja á fót nýjar grunnstjórnsýslueiningar í formi öflugra, sjálfstæðra og lýðræðislegra héraðsstjórna sem taki yfir sem stærstan hluta fjárveitingarvalds, framkvæmdavalds og samfélagslegra verkefni ríkis og sveitarfélaga.

Það þarf að draga úr vægi ríkisvaldsins í Reykjavík og færa valdið nær fólkinu. Ríkisvaldið á einungis að sinna því sem nauðsynlega þarf að vinna miðlægt. Önnur verkefni á að vinna heima í héraði þar sem íbúarnir geta á lýðræðislegan hátt haft beinni og virkari áhrif á framvinduna. Helst tekið virkan þátt í þróun og uppbyggingu sameiginlegra verkefna.

Það þarf að tryggja að stærra hlutfall skattteknanna verði eftir í héruðunum en renni ekki meira og minna til ríkisvaldsins í Reykjavík þar sem misvitrir embættismenn, ríkisstjórn og Alþingi deila einungis hluta þess til baka til samfélagslegra verkefna fólksins í landinu.

Það er eðlilegt að nýjar stjórnsýslueiningar í formi öflugra, sjálfstæðra og lýðræðislegra héraðsstjórna sjái um stærsta hluta skattheimtunnar, ráðstafi henni til verkefna heima fyrir, en greiði eins konar útsvar til ríkisins til reksturs þess. Fólkið og héruðin eiga að sníða ríkisvaldinu stakk með fjárframlögum, en ríkið ekki fólkinu og héruðunum.

Það þarf því að leggja niður núverandi sveitarstjórnir og setja þess í stað á fót 6 til 8 hérðsþing og héraðsstjórnir sem taki yfir sem stærstan hluta fjárveitingarvalds, framkvæmdavalds og samfélagslegra verkefni ríkis og sveitarfélaga.

Það þarf að breyta stjórnarskrá svo þetta sér unnt.“

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 4.4.2011 - 15:55 - Rita ummæli

Húsnæði fyrir alla

Í upphafi árs 2010 skipaðu Árni Páll Árnason þáverandi félags- og tryggingamálaráðherra starfshóp til að vinna tillögur að framtíðstefnu í húsnæðismálum Hópurinn skilaði af sér tillögum í umræðuskjali í marsmánuði fyrir rúmu ári síðan. Heiti umræðuskjalsins var „Húsnæði fyrir alla“.

Ástæða þess að ég rifja þetta upp er að á næstu dögum mun annar starfshópur um framtíðarsefnu í húsnæðismálum sem núverandi Velferðarráðherra skipaði skila áliti – rúmu ári eftir að fyrra álit – sem einhverra hluta vegna fór aldrei í heild sinni í umræðuna – lá fyrir.

Það verður spennandi að bera þessi tvö álit saman!  Hver og einn getur þá metið hvor stefnumótunin hafi verið betri.

En svona leit hið ársgamla umræðuskjal út:

Vinnuhópur um heildarstefnu í húsnæðismálum. 10. mars 2010: „“Húsnæði fyrir alla – umræðuskjal“

Félags- og tryggingamálaráðherra fól vinnuhópi í janúar 2010 að lista upp þá möguleika sem fyrir hendi geta verið varðandi heildarstefnu í félagslegum húsnæðismálum. Markmiðið var að nefna hverju mætti breyta og hverju bæta við þannig að félagslega húsnæðiskerfið sinni enn betur hlutverki sínu.

Á fundi vinnuhópsins með félagsmálaráðherra þann 16. febrúar 2010 var ákveðið að í stað þess að horfa eingöngu til félagslega húsnæðiskerfisins skyldi unnið að því að setja á blað drög að heildstæðri stefnu í húnsæðismálum almennt, hvað varðar aðkomu ríkisins, undir yfirskriftinni Húsnæði fyrir alla. 

Í vinnuhópnum voru: Hallur Magnússon, Svanhildur Guðmundsdóttir, starfsmaður Íbúðalánasjóðs, og Grétar Júníus Guðmundsson. Ingi Valur Jóhannsson og Agnar Freyr Helgason, starfsmenn félagsmálaráðuneytisins, störfuðu með vinnuhópnum.

Helstu niðurstöður vinnuhópsins voru:

Til framtíðar

1.      Húsnæðisstefna stjórnvalda hvíli í þremur stoðum

  • Eignaríbúðum
  • Leiguíbúðum
  • Búseturéttaríbúðum

2.      Húsnæðisbætur í stað vaxta- og húsaleigubóta

  • Tryggt verði jafnræði milli íbúðaforma hvað varðar aðstoð hins opinbera, þannig að leigjendur og eigendur njóti sambærilegra réttinda, sem taki sem allra mest mið af þörfum heimila á hverjum tíma.

3. Átak vegna endurbóta á notuðu íbúðarhúsnæði

  • Ráðist verði í sérstakt átak vegna endurbóta á notuðu íbúðarhúsnæði, meðal annars til að bæta aðgengi fyrir alla. Jafnframt verði hugað að breytingum á lögum og reglugerðum til að tryggja enn betur en hingað til gott aðgengi að nýju íbúðarhúsnæði.

4.      Húsnæðisstefna fyrir alla

  • Íbúðalánasjóður láni til ýmissa samfélagslegra byggingaverkefna, sem sjóðurinn lánar ekki til nú.

Viðbrögð við núverandi aðstæðum

5. Aðstoð vegna greiðsluerfiðleika

  • Sem liður í aðstoð við heimili vegna greiðsluerfiðleika verði tímabundið komið á kaupleigukerfi sem gerir þeim, sem misst hafa íbúðir sínar á uppboði, eða eiga það á hættu, kleift að búa í viðkomandi íbúð áfram með möguleika á endurkaupum.

 

Greinargerð

Grundvallarmarkmið húsnæðisstefnu íslenskra stjórnvalda er að tryggja landsmönnum öryggi og jafnrétti í húsnæðismálum.

1.      Húsnæðisstefna stjórnvalda hvílir á þremur stoðum

Íslensk stjórnvöld leggja áherslu á að landsmenn hafi raunhæft frjálst val um þrjár meginleiðir í húsnæðismálum. Eignarleið, leiguleið og búseturéttarleið. 

Mikilvægt er að hafa í huga að unnt er að samþætta leiguleið og búseturéttarleið innan húsnæðissamvinnufélaga, en núverandi búseturéttarfélög eru lögum samkvæmt húsnæðissamvinnufélög.

i)                    Eignarleið

Eignarleiðin er sú leið sem ráðandi hefur verið á Íslandi.  Eignarhald íbúða er alfarið í höndum einstaklinga sem fjármagna húsnæðið með eigin fjárframlagi og lánum frá Íbúðalánasjóði (ÍLS), bönkum, sparisjóðum og lífeyrissjóðum.

Áfram er gert ráð fyrir að eignarleiðin skipi áberandi sess í húsnæðisstefnu stjórnvalda. Aðkoma stjórnvalda að eignarleiðinni er mikilvæg til að tryggja stöðugleika í fjármögnun og framboði íbúðalána á bestu mögulegu kjörum og samfélagslega ábyrga útlánastefnu.

Aðkoma stjórnvalda að eignarleiðinni verði eftirfarandi:

  • Fjármögnun almennra íbúðalána  verði á grunni heildsölufyrirkomulags fyrir tilstuðlan stjórnvalda en þó án ríkisábyrgðar.
    • Heildsölueining verði í meirihlutaeigu stjórnvalda gegnum ÍLS
    • Lánastofnunum og lífeyrissjóðum gefinn kostur á eignaraðild.
    • Bankar, sparisjóðir og Íbúðalánasjóður sjá um afgreiðslu íbúðalána.

 

  • Hámarksveðhlutfall lána sem fjármögnuð eru með heildsölufyrirkomulagi með tilstilli ríkisvaldsins verði að hámarki 80% af hóflegu húsnæði.

 

  • Neytendavernd verði tryggð
    • Uppgreiðsla lána ávallt heimil
    • Útlánakjör byggð á raunverulegum markaðsforsendum
    • Vönduð greiðsluerfiðleikaaðstoð
    • Reglur ÍLS um meðferð krafna sem glatað hafa veðtryggingu verði fyrirmynd hins almenna markaðar

 

  • Stuðningur hins opinbera verði gegnum nýtt húsnæðisbótakerfi

 

ii)                  Leiguleið

Tryggður verði traustur og ábyrgur leigumarkaður sem byggir á öryggi leigjenda og eðlilegum fjárhagslegum rekstrargrundvelli leigufélaga.

  • Kannaðir verði kostir þess að einskorða stuðning stjórnvalda við fjármögnun leiguíbúða við húsnæðissamvinnufélög sem jafnframt eru búseturéttarfélög.
    • Lánveitingar til almennra leigufélaga verði einungis gegnum banka og sparisjóði á grundvelli heildsölufjármögnunar sem ríkisvaldið kemur að án beinnar ríkisábyrgðar
    • Almennt hámarkslánshlutfall til almennra leigufélaga verði allt að 80% með slíkri heildsölufjármögnun

 

  • Þak verði sett á heimild til útgreiðslu söluhagnaðar á leiguíbúðum út úr leigufélögum sem njóta stuðnings stjórnvalda..
    • Útgreiðsla söluhagnaðar verði hóflegur og hvetji ekki til sölu leiguíbúða út úr leigukerfinu að óþörfu.

 

  • Söluhagnaður umfram söluhagnaðarþaki renni til leigufélagsins eða búseturéttarfélagsins sem eigið fé og styrki þannig rekstrargrunn leiguleiðarinnar.
  • Íbúðalánasjóður hafi í öllum tilfellum haldsrétt á leigu til greiðslu afborgana.
  • Hámarkslánshlutfall til búseturéttarfélaga vegna leiguíbúða verði allt að 100%
  • Almennur stuðningur stjórnvalda við leigjendur verði gegnum nýtt húsnæðisbótakerfi
  • Heimilt verði að húsnæðisbætur renni beint til greiðslu afborgana af leiguíbúðalánum

 

  • Íbúðalánasjóði verði heimilt að ívilna leigufélögum sem njóta skilgreindri fyrirgreiðslu sveitarfélaga
    • Öllum slíkum ívilnunum verði þinglýst sem kvöð á viðkomandi eignir
    • Sala úr eignunum verði einungis heimil með samþykki Íbúðalánasjóðs og sveitarfélags
    • Við sölu úr eignum er njóta ívilnunar hafi Íbúðalánasjóður og sveitarfélag rétt til að krefjast bóta vegna ívilnunar.

 

iii)                Búseturéttarleið

Íslensk stjórnvöld leggja áherslu á uppbyggingu öflugra húsnæðissamvinnufélaga sem tryggi fjölbreytni, öryggi og jafnrétti í húsnæðismálum.  Innan húsnæðissamvinnufélaganna verði blandaður rekstur búseturéttarforms, kaupleiguforms og leiguforms.

Jafnframt verði innan húsnæðissamvinnufélaganna tryggt fjölbreytt úrval húsnæðis sem henti mismunandi þörfum almennings, litlar, einfaldar  og hagkvæmar íbúðir sem henta einstaklingum og pörum, húsnæði sem henta stórum barnafjölskyldum, íbúðir sem taka mið af þörfum hreyfihamlaðra og húsnæði sem hentar öldruðum og fullnægja skilyrðum til þjónustuíbúða.

Stefnt verði að uppbyggingu stórra húsnæðissamvinnufélaga sem tryggt geta nauðsynlega fjölbreytni.

Stjórnvöld afmarki beinan stuðning til húsnæðisuppbyggingar  við húsnæðissamvinnufélagsformið.

Húsnæðissamvinnufélög sem njóta slíks stuðnings stjórnvalda skuli sæta tilteknu opinberu eftirliti auk þess sem stjórnvöld eigi fulltrúa í stjórn þeirra.

Innan húsnæðisfélaganna verði gefinn kostur á að leigjendur ákveði að breyta leigusamningi sínum í búseturéttarsamning að uppfylltum ákveðnum skilyrðum

  1. Aðkoma sveitarfélaga og félagasamtaka

Sveitarfélögum og félagasamtök sem nú reka leiguíbúðir gefist kostur á að leggja núverandi leiguíbúðir inn í húsnæðissamvinnufélög.

Uppbygging leiguíbúða sveitarfélaga og félagasamtaka verði innan húsnæðissamvinnufélaga í formi búseturéttar sem heimilt verði að leigja.

Íbúar sem fá úthlutað leiguhúsnæði gegnum sveitarfélag eða sértækra félagasamtaka hafi tækifæri til þess að skipta yfir í búseturéttarleið og eignast búseturétt í þeirri íbúð sem leigð er.

Sveitarfélag eða félagasamtök tryggi öðrum skjólstæðingum sínum áframhaldandi aðgang að leiguleiðinni með kaupum á lausum búseturétti eða stofnframlagi í byggingu nýrra búseturéttaríbúða til  leigu fyrir andvirði búseturéttarkaupanna, ef þörf er á slíkum leiguíbúðum.

  1. Aðkoma einstaklinga

Íbúðaeigendum verði gefinn kostur á að leggja íbúðir sínar inn í húsnæðissamvinnufélög og öðlast þannig búseturétt eða leigurétt eftir atvikum. 

Einstaklingar eða fjölskyldur festa kaup á búseturétti.

Heimilt verði að lána til kaupa á búseturétti.  Greiðsla búseturéttarláns taki mið af tekjum, samanber reglur Lánasjóðs íslenskra námsmanna LÍN um endurgreiðslulána.

Unnt verði að hverfa frá búseturéttarkaupum yfir í almenna leiguleið.

Einstaklingar eða fjölskyldur taka íbúðir á leigu með möguleika á að skipta yfir í búseturéttarleið. 

  1. 2.      Húsnæðisbætur í stað vaxta- og húsaleigubóta

Lagt er til að tekið verði upp eitt húsnæðisbótakerfi í stað núverandi vaxta- og húsaleigubóta. Markmiðið verði a tryggja jafnræði milli eigenda og leigjenda og jafnframt að stuðningurinn taki mið af þörfum heimilanna en verði ekki skuldahvetjandi.

Húsnæðisbætur taki mið af stöðu íbúðaeigenda og leigjenda á hverjum tíma, tekjum og húsnæðiskostnaði miðað við skilgreint húsnæði að teknu tilliti til fjölskylduaðstæðna. (Þar með talið verði sérstakar húsnæðisbætur sambærilegar við sérstakar húsaleigubætur í dag.)

Þó vaxta- og húsnæðisbætur hafi að mörgu leyti reynst vel eru ýmsir agnúar á þessum kerfum.

i)                    Helsti gallar við vaxtabótakerfið eru:

  • Hvetur til skuldsetningar.
  • Eignamyndun í húsnæði dregur úr vaxtabótum þó svo að greiðslubyrði geti verið óbreytt og jafnvel aukist.
  • Hægt væri að nýta þá fjármuni sem varið er í vaxtabætur með skilvirkari hætti en nú, með því að miða bætur við skilgreindar íbúðir með hliðsjón af fjölskylduaðstæðum. Þannig væri hægt að draga út vaxtabótum þegar tekjur eru mjög háar og skuldsetning verulega umfram það sem talið yrði „eðlilegt“.
  • Jafngreiðslulán, sem eru algengustu húsnæðislánin, hentar í sumum tilvikum illa fyrir þyggjendur vaxtabóta. Hlutur vaxta í greiðslum af þessum lánum fer lækkandi eftir því sem líður á lánstímann þó greiðslubyrðin sé hin sama að raunvirði. Þörf fyrir vaxtabætur er því hugsanlega í sumum tilvikum ekki minni þá en í upphafi.

Vinnuhópurinn telur líkur á að hægt væri að nýta það fjármagn sem fer til greiðslu vaxtabóta betur en hingað til, til að styðja við þau heimili sem sannanlega þurfa á stuðningi að halda. 

 

ii)                  Helstu gallar við húsaleigubótakerfið eru:

  • Tekjumörk eru óeðlilega lág.
  • Stuðningur húsaleigubótakerfisins við leigumarkaðinn er ekki sambærilegur við þann stuðning sem eignaríbúðir njóta á fyrstu árunum eftir kaup.

 

Vinnuhópurinn telur að samræmt húsnæðisbótakerfi í staða tveggja mismunandi kerfa eigi möguleika á að tryggja betur en hingað til jafnræði milli eigenda og leigjenda, og að þeir fjármunir sem hið opinbera ver til aðstoðar við heimilin í landinu vegna húsnæðis geti nýst betur en hingað til með slíku samræmdu kerfi.

  1. 3.      Átak vegna endurbóta á notuðu íbúðarhúsnæði

 

Íbúðalánasjóður hefur heimild til að lána til endurbóta á íbúðarhúsnæði og til að bæta aðgengi að því. Sérstakt átak í þessum efnum gæti verið liður í að stuðla að bættu atvinnuástandi. Það gæti jafnframt bætt lífsskilyrði og aukið lífsgæði samfara því að vera þjóðhagslega hagkvæmt í þeim tilvikum er slíkar framkvæmdir stuðla að því að fólk geti búið lengur í eigin húsnæði.

i)        Bætt aðgengi

Lagt er til að ráðist verði í sérstakt átak til að stuðla að því að íbúðaeigendur, jafnt einstaklingar, fyrirtæki og opinberir aðilar, ráðist í framkvæmdir sem stuðla að bættu aðgengi.

Til að ná þessu fram þyrfti meðal annars:

  • Lánsheimildir hjá Íbúðalánasjóði verði rýmkaðar. Lán til fjármögnunar á allt að 90% af framkvæmdakostnaði til þeirra sem vilja ráðast í breytingar á aðgengi að íbúðum, jafnt til einstaklinga, fyrirtækja og opinberra aðila.
  • Heimild til 90% lána nái einnig til umtalsverðra umbreytinga á eldra húsnæði, s.s. lyftur í eldri blokkir o.fl.
  • Allt að 100% lán verði veitt til þeirra sem þurfa að breyta eigin húsnæði vegna sérstakra aðstæðna, s.s. vegna fötlunar.
  • Byggingarreglugerð verði breytt þannig að frávik frá henni verði leyfð þegar um er að ræða breytingar á eldra húsnæði til að bæta aðgengi.
  • Kannað verði hvort breyta þurfi lögum og reglugerðum til að tryggja gott aðgengi fyrir alla í nýju íbúðarhúsnæði.
  • Einnig verði kannað með hugsanleg ýmis önnur frávik frá byggingarreglugerð, sem gætu stuðlað að betri nýtingu húsnæðis, svo sem varðandi þvottahús, geymslur o.fl.

Vinnuhópurinn telur rétt að áður en ráðist yrði í að breyta reglum um endurbótalán hjá Íbúðalánasjóði verði ástand íbúðarhúsnæðis kannað, með tilliti til aðgengis, og markmið skilgreind og möguleg framkvæmdaáætlun gerð í framhaldi af því.

ii)      Endurbætur almennt

Lagt er til að kannaðir verði möguleikar á því að hvetja íbúðaeigendur til að ráðast í endurbætur á notuðu íbúðarhúsnæði, þar sem þess er þörf. Frestun á reglubundnu viðhaldi getur leitt til aukins kostnaðar er fram í sækir. Aðstæður í þjóðfélaginu hvetja hins vegar ekki til skuldsetningar almennt. Rýmkun á reglum um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu við endurbætur á notuðu íbúðarhúsnæði gæti hugsanlega stuðlað að auknum framkvæmdum á þessu sviði, svo vegna eigin vinna íbúðaeigenda o.fl. Þá þykir vinnuhópnum rétt að kannað verði með möguleika á að lán vegna endurbóta verði afborgunarlaus í t.d. 3-5 ár, ef það mætti verða til að stuðla að auknum framkvæmdum.

  1. 4.      Húsnæðisstefna fyrir alla

 

Til greina kemur að auka það fjármagn sem varið er til ýmissa framkvæmdaverkefna, sem lánastarfsemi Íbúðalánasjóðs nær til, og jafnframt að sjóðurinn veiti lán til nýrra verkefna sem hann sinnir ekki nú. Þetta myndi geta stuðlað að auknum framkvæmdum. Þá mætti jafnframt athuga með að rýmka reglur sem gilda um lán til slíkra framkæmdaverkefna. Auknar framkvæmdir á þessu sviði myndu væntanlega hafa jákvæð áhrif á atvinnuástandið í landinu, auk þess sem aukin umsvif Íbúðalánasjóðs gætu stuðlað að betri lánskjörum sjóðsins á markaði almennt, sem framkvæmdaaðilar og þjóðfélagið í heild myndu hagnast á. Um gæti verið að ræða ýmiss samfélagsleg byggingaverkefni. Þar má nefna:

  • Íbúðir fyrir aldraða
  • Hjúkrunarheimili
  • Sambýli fatlaðra
  • Þjónustuhúsnæði fyrir fatlaða

Til viðbótar við framannefnd verkefni má jafnframt nefna verkefni sem falla ekki undir grundvallarmarkmið húsnæðisstefnu stjórnvalda, þ.e. að tryggja landsmönnum öryggi og jafnrétti í húsnæðismálum, en sem Íbúðalánasjóður gæti engu að síður komið að fjármögnun á. Þar gætu m.a. verið eftirtalin verkefni:

  • Leikskólar
  • Skólar
  • Kirkjur

 

Lagt er til að lánshlutfall hjá Íbúðalánasjóði verði almennt allt að 90% vegna þeirra hugsanlegu samfélagslegu verkefna sem sjóðurinn gæti komið að. Lánshlutfall verði þó jafnvel allt að 100% í þeim tilvikum þar sem bakábyrgð ríkis eða sveitarfélags liggur fyrir.

Til viðbótar við framannefnt er lagt til að framkvæmdasjóðir aldraðra og fatlaðra verði sameinaðir og þeim verði ætlað að verja fé til að brúa bil, greiða afborganir af húsnæðislánum sem tekin eru til byggingar sérhæfðs húsnæðis eða veita styrki til umbreytingarverkefna.

  1. 5.      Aðstoð vegna greiðsluerfiðleika

Vænta má þess að því betur sem tekst að draga úr greiðsluerfiðleikum heimila því minni þrýstingur verði á aðgerðir af hálfu hins opinbera í húsnæðismálum almennt. Sem liður í þessu leggur vinnuhópurinn til að komið verði tímabundið á kaupleigukerfi sem gerir þeim, sem misst hafa íbúðir sínar á nauðungaruppboðum, eða eiga það á hættu, kleift að búa í þeim áfram með möguleika á kaupleigu.

Í þeim tilvikum þar sem lánafyrirtæki eignast íbúð á nauðungaruppboði verði fyrrverandi eigendum gert kleift að búa í viðkomandi íbúð gegn leigu sem tekur mið af markaðsaðstæðum á leigumarkaði. Jafnframt verði samið um að íbúarnir geti keypt íbúðina aftur á áætluðu markaðsverði. Skuldir sem hugsanlega standa útaf verði meðhöndlaðar í samræmi við greiðsluaðlögun.

Í þeim tilvikum sem íbúarnir ákveða að kaupa íbúðina aftur komi ákveðinn hluti af greiddri leigu á leigutímanum, sem geti t.d. verið allt að 5 ár, upp í greiðslu útborgunar. Nýtt lán verði þá gefið út fyrir allt að 80% af kaupverði, eða gildandi hámarkláni viðkomandi lánafyrirtækis. Útborgun verði því ekki undir 20% af kaupverði og greiðist á 12 mánuðum.

Tillögur um fyrirkomulag á kaupleigu á íbúðum sem Íbúðalánasjóður hefur eða mun eignast á nauðungaruppboðum liggja fyrir. Vinnuhópurinn mælir með þeim tillögum, sem eru að mestu í samræmi við framannefnda lýsingu.

Vinnuhópurinn leggur til að kannað verði með að koma á sambærilegu fyrirkomulagi hjá öðrum lánafyrirtækjum.

Þá er sú tillaga sett hér fram að kannaður verði sá möguleiki að komið verði á kaupleigufyrirkomulagi á íbúðum sem fyrirséð er að eigendur muni ekki geta staðið undir, áður en íbúðir fara alla leið á nauðungaruppboð.

Viðauki

Fjármögnun húsnæðiskerfisins

Aðkoma íslenskra stjórnvalda að þremur stoðum íslenska húsnæðiskerfisins er mismunandi bæði hvað varðar fjármögnun og beinan stuðning, enda er stjórnvöldum skylt að hafa skipan húsnæðismála á þann veg að þau rúmist innan samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.

Stjórnvöld hafa fyrst og fremst um þrjár meginleiðir að velja hvað fjármögnun húsnæðiskerfisins varðar. Endanleg útfærsla á eignarleið, leiguleið og búseturéttarleið mun taka mið af því hvaða aðferðafræði verður höfð við fjármögnun kerfisins.

  1. a.      Þröng leið ríkisábyrgðar
  • Skuldabréfaflokkar með ríkisábyrgð eingöngu til fjármögnunar íbúðalána til húsnæðis sem fellur undir heimild EES samningsins. 
  • Aðkoma hins opinbera að fjármögnun annarra lána engin.

Þröng leið ríkisábyrgðar tryggir einungis fjármögnun til þess húsnæðis sem fellur klárlega undir skilyrði EES samningsins um heimila ríkisaðstoð. Þeir sem ekki falla undir þá skilgreiningur þurfa að leita sér lána annars staðar, það er hjá bönkum, sparisjóðum og mögulega beint til lífeyrissjóða.

Ríkisábyrgð tryggir almennt hagstæðari ávöxtunarkjör.

Vaxtakjör til þeirra sem falla undir félagslega skilgreiningu EES kann að verða ásættanleg, en vegna mögulegrar smæðar ríkistryggðu skuldabréfaflokkanna kann ávinningur ríkistryggingarinnar að vera sambærilegur eða minni en ávinningur í stórum, viðskiptahæfum skuldabréfaflokki án ríkisábyrgðar.

Vaxtakjör þeirra sem ekki geta nýtt sér ríkistryggð lán verða hins vegar nokkuð há, ekki hvað síst ef hver banki og hver sparisjóður þarf að fjármagna íbúðalán sín með útgáfu tiltölulega lítilla skuldabréfaflokka.

b.      Blönduð leið ríkisábyrgðar og almennrar fjármögnunar

  • Skuldabréfaflokkar með ríkisábyrgð eingöngu til fjármögnunar íbúðalána til húsnæðis sem fellur undir heimild EES samningsins.
  • Almennir skuldabréfaflokkar án beinnar ríkisábyrgðar til fjármögnunar íbúðalána sem ekki falla undir heimild EES samnings um ríkisábyrgð

Vaxtakjör til þeirra sem falla undir félagslega skilgreiningu EES kann að verða ásættanleg, en vegna mögulegrar smæðar ríkistryggðu skuldabréfaflokkanna kann ávinningur ríkistryggingarinnar að vera sambærilegur eða minni en ávinningur í stórum, viðskiptahæfum skuldabréfaflokki án ríkisábyrgðar.

Aðkoma hins opinbera að fjármögnun  íbúðalána án ríkisábyrgðar á þau lán sem falla utan félagslegrar skilgreiningar EES samningsins þar sem tryggðir verða stórir viðskiptahæfir skuldabréfaflokkar myndi að líkindum  lækka verulega ávöxtunarkröfu almennra íbúðalána.

c.       Almenn fjármögnun

  • Almennir skuldabréfaflokkar án beinnar ríkisábyrgðar til fjármögnunar íbúðalána til allra.
  • Möguleg aðkoma ríkisins með ríkisábyrgð sem komi ekki beint að grunnfjármögnun heldur tryggi ríkið greiðslur af lánum til skilgreinds húsnæðis sem uppfyllir skilyrði EES.

Kjör á lánum til þess hóps sem fellur undir félagslega skilgreiningur EES og má þar af leiðandi njóta ríkistryggðra lána kann að verða jafn góð eða jafnvel betri ef sú leið er farin að fjármagna stærsta hluta íslenskra íbúðalánas án ríkisábyrgðar í tiltölulega fáum, stórum skuldabréfaflokkum skráðum á alþjóðlegum fjármálamarkaði þar sem uppgjör er tryggt gegnum öflug uppgjörshús.

Jafnframt kann sú leið að tryggja öllum almenningi hagstæðari vaxtakjör en ella.

Mögulegt væri að ríkisvaldið tryggi greiðsluflæði af hluta eða öllu því húsnæði sem fellur undir skilgreiningu EES samningsins um félagslegt húsnæði. Slík r%

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 4.4.2011 - 09:44 - 10 ummæli

Biður DV Finn afsökunar?

DV hefur beðið Guðbjörgu Matthíasdóttur úgerðarmann í Vestmannaeyjum afsökunar á stríðsletursfrétt þar sem því var ranglega haldið fram að Guðbjörg hefði selt hlutabréf sín í Glitni á árinu 2008.  Hið rétt er að Guðbjörg á ennþá hlutabréfin sem eru reyndar verðlaus í dag.

Framsetning fréttarinnar var í anda DV þar sem fréttinni var ætlað að vekja hneykslan og gefið í skyn að sala Guðbjargar á hlutabréfunum – sem ekki fór fram – hefði byggst á innherjaupplýsingum. Í anda DV dró blaðið – að ósekju – kunnan fyrrum landsliðsmarkmann í málið og birti af honum stóra mynd við hlið Guðbjörgu.

Þriðja risamyndin var síðan af Finni Ingólfssyni – sem DV hélt fram að hefði átt hlut í fjárfestingafélaginu Gift  – en það félag seldi hlut sinn í Glitni á árinu 2008.  Staðhæfing DV um eignarhald Finns er náttúrlega röng og algerlega út í hött eins og ég benti á í pistli mínum DV elskar Finn Ingólfsson

Ástæða þess að DV birti mynd af Finni – en ekki af einhverjum hinna fjölmörgu einstaklinga sem seldu hlut sinn í Glitni árið 2008 – virðist vera sú að DV hefur einstakt horn í síðu mannsins og hefur ítrekað flutt  neikvæða „fréttir“ af Finni – sem ekki hefur verið fótur fyrir.  Enda illfýsi DV alkunn og einn þáttur ritstjórnarstefnu blaðsins.

Nú er stóra spurningin.

Mun DV biðja Finn afsökunar á að hafa enn einu sinn satt ósatt um manninn?

Slíkt væri rökrétt í framhaldi af afsökunarbeiðni til Guðbjargar Matthíasardóttur.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 2.4.2011 - 22:08 - 7 ummæli

Ótrúlegt fylgi Bezta!

Bezti flokkurinn getur verið afar ánægður með fylgi sitt í nýrri skoðanakönnun Gallups. Miðað við framgang flokksins þá er rúmlega 19% fylgi nánast með ólíkindum.  Frá því 1970 hafa Alþýðuflokkur, Framsóknarflokkur,  Kvennalisti og Vinstri grænir aldrei náð 19% fylgi í borgarstjórnarkosningum – einir og sér.

Reyndar er þetta meira fylgi en Samfylking hefur fengið undir stjórn bakhjarls Bezta – Dags B.  Einungis Alþýðubandalagið, Sjálfstæðisflokkur, Reykjavíkurlisti – kosningabandalag margra flokka – og Samfylking undir forystu Ingibjargar Sólrúnar – hafa fengið meira fylgi!

Þannig að – og sérstaklega miðað við „árangur“ Bezta í stjórn borgarinnar – þá er þetta fylgi ótrúlegt!

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 2.4.2011 - 10:36 - 7 ummæli

Moggann langar í Framsókn

Morgunblaðið sem misst hefur áður sterk ítök sín í Sjálfstæðisflokknum langar rosa mikið í Framsókn. Moggann langar líka að Vigdís Hauksdóttir verði vararformaður enda hefur Morgunblaðið staðið þétt að baki henni vegna þeirrar hörku sem hún hefur sýnt í málflutningi gegn ESB og IceSave. Hins vegar er Mogganum í nöp við núverandi varaformann Birki Jón Jónsson og þá frjálslyndu, hófsömu og öfgalausu miðjustefnu sem hann hefur fylgt.

Þessa afstöðu Morgnunblaðsins má sjá í smellinni fréttaskýringu uppáhaldsblaðamanns Davíðs Oddssonar, verðlaunablaðamannsins Agnesar Bragadóttur,  um komandi flokksþings Framsóknarflokksins.  Þá smellnu fréttaskýringu má finna í heglarblaðið Moggans.

Það hefur ekki farið fram hjá neinum að Davíð Oddssona og Morgunblaðið hafa lagt sig í framakróka um að komast í náðina hjá Sigmundi Davíð formanni Framsóknarflokksins á undanförnum vikum og mánuðum með jákvæðum leiðurum og fréttaflutningi. Enda stórefnilegur stjórnmálaleiðtogi á ferðinni sem getur – ef hann heldur rétt á málum – orðið afar áhrifamikill í íslenskri pólitík.

Á sama tíma og Mogginn hefur andskotast út í formann og forystu Sjálfstæðisflokksins – sem hefur yfirgefið Moggann og öfgamálflutnings hans – sem reyndar er afar oft afar fyndinn!  Enda hefur skemmtanagildi Moggans stóraukist – en á kostnað trúverðurleikans – sem er í algjöru lágmarki um þessar mundir.

En þótt Davíð, Agnesi og Mogganum langi voða mikið að Vigdís verði varaformaður – væntanlega í trausti þess að það styrki Moggann í mögulegri Moggavæðingu Framsóknar – þá áttar Agnes sig á því eftir að hafa talað við handvalda nafnlausa vini sína úr Framsóknarflokknum að Vigdís á líklega ekki séns.  Það þykir Agnesi slæmt – ef marka má fréttaskýringuna.

Reyndar vekur athygli að Agnes tekur á sig krók – í skjóli nafnlausra heimildarmanna eins og hennar er von og vísa – til að hrauna ekki einungis yfir Birki Jón – heldur einnig Siv Friðleifsdóttur. Og til að auka veg hins knáa Skagfirðings Gunnar Braga Sveinssonar þingflokksformann Framsóknar í huga lesenda Moggans.

Eitt er klárt eftir lesturinn. Vigdís Hauksdóttir getur stólað á gallharðan stuðning Morgunblaðsins í baráttu sinni fyrir varaformannsembætti Framsóknarflokksins.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 1.4.2011 - 07:54 - 5 ummæli

Nauðung í boði Útlendingastofnunar

Útlendingastofnun hefur þvingað hina 23 ára Priyönku Thapa í nauðungarhjónaband.

Annað hvort verður hún nauðug að ganga í hjónaband í Nepal þar sem fjarskyld fjölskylda hennar velur henni eiginmann eða að ganga í málamyndahjónaband á Íslandi svo hún fá framlengt landvistarleyfi.

Ástæðan er sú að „dvalarleyfi í mannúðarskyni“ virðist eitur í beinum Útlendingastofnunar.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 31.3.2011 - 19:30 - 14 ummæli

Skilur Gnarr íslensku?

Í hugum flestra Íslendingar sem á annað borð skilja íslensku þá þýðir orðatiltækið  „að fara á hausinn“ það að verða gjaldþrota. Nema í huga Jóns Gnarr borgarstjóra. Hann neitaði því að hafa sagt að Orkuveita Reykjavíkur væri gjaldþrota.  En sannanlega sagði hann að Orkuveitan væri „á hausnum“.

Það liggur fyrir að ef Orkuveitan myndi nota hagnað sinn til að greiða niður ALLAR skuldir sínar – þá tæki það vel innan við 20 ár að gera Orkuveituna skuldlausa með öllu.

Það liggur fyrir að ef Orkuveitan hefði ekki greitt eigendum sínum arð frá stofnun 1999  – þá hefði Orkuveitan verið skuldlaus um mitt ár 2006 – þegar Alfreð Þorsteinsson hætti sem stjórnarformaður.

Það liggur fyrir að á árunum 2006-2008 var farið í gálausar fjárfestingar miðað við efnahagsástand – og stofnað til stuttra skulda – sem greiða þarf af í ár og á næstu tveimur árum. Það var væntanlega gert í trausti þess að eðlileg endurfjármögnun fengist.  Sem ekki varð vegna efnahagshrunsins.

Það liggur fyrir að meirihluti Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks í borgarstjórn – þau Inga Birna og Óskar Bergs – sáu blikur á lofti í rekstri Orkuveitunnar og lögðu þvi til hliðar í varasjóð – sem nú er verið að grípa til – 12 milljarða vegna Orkuveitunnar.

Það liggur fyrir að Orkuveitan fékk afgreidd lán allan þann tíma sem Guðlaugur Sverrisson var stjórnarformaður Orkuveitunnar.

Það liggur fyrir að lánadrottnar Orkuveitunnar unnu með stjórnendum Orkuveitunnar að endurskipulagningu og endurfjármögnun Orkuveitunnar allt fram að stjórnarskiptum í janúar 2010.

Það liggur fyrir að nýir stjórnendur hættu samstarfi við lánadrottna og tóku til við að reka lykilfólk sem unnið hafði með lánadrottnum og óðu eins um eins og fílar í postulínsbúð á nokkrar vikur – á meðan lánadrottnar horfðu á aðfarirnar með forundrun – þangað til nýju stjórnendurnir föttuðuð að þeir þyrftu að vinna með lánadrottnum en gætu ekki hent þeim út í hafsauga eins og „gamla liðinu“ í OR.

Það liggur fyrir að það skapaðist aldrei traust á milli nýju stjórnendanna og lánadrottna.

Það liggur fyrir og er Detginum ljósara að lánadrottnar treystu ekki Jóni Gnarr og liðsins á þeirra vegum og enduuðu með því að loka á Orkuveituna.

Þegar það lá fyrir reynir Gnarrinn að vísa á fyrri stjórnendur vegna eigin klúðurs – og kemur í kjölfarið og nánast lýgur að alþjóð. Segist ekki hafa sagt að Orkuveitan væri gjaldþrota. Sem er rétt hjá honum. Hann sagði bara að Orkuveitan væri á hausnum.

Það skyldu lánadrottnar – þátt þeir ættu að skilja minna í íslensku en Jón Gnarr!

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 31.3.2011 - 11:19 - 3 ummæli

Alþingi styður búseturéttarformið

Félags- og tryggingarnefnd Alþingis styður heilshugar húsnæðissamvinnufélög og búseturéttarformið þótt nefndin hafi ekki viljað heimila 110% niðurfærslu hjá búseturéttarhöfum eins og fólki í eigi húsnæði þegar nefndin mælti með frumvarpi um slíka niðurfærslu.

Félags- og tryggingarnefndin leggur hins vegar mikla á herslu á að tekið sé tillti til sérstöðu húsnæðissamvinnufélaganna í því efnahagsástandi sem nú er.  Því miður nást ekki nauðsynlegar lagabreytingar á þessu þingi til að tryggja stöðu húsnæðissamvinnufélaganna. En vilji Alþingis er skýr.

Eftirfarandi er úr umsögn nefndarinnar með 110% frumvarpinu:

“ …   Nefndin ræddi jafnframt að nýju um málefni húsnæðissamvinnufélaga og greiðsluvanda þeirra og var þeim sjónarmiðum hreyft fyrir nefndinni að lækkun lána húsnæðissamvinnufélaga væri í samræmi við markmið frumvarpsins sem væri m.a. að lækka greiðslubyrði heimila. Lækkun lána húsnæðissamvinnufélaga mundi þannig leiða til lægra búsetugjalds og lækka greiðslubyrði þeirra heimila sem væru í búsetaíbúð.

Meiri hlutinn ítrekar að markmið með niðurfærslu skulda í samræmi við frumvarpið er að draga úr yfirveðsetningu eigna og lækka greiðslubyrði heimila og stuðla þannig að minni vanskilum við lánastofnanir. Eitt af meginmarkmiðum samkomulagsins, sem liggur til grundvallar frumvarpinu, eru aðgerðir í þágu yfirveðsettra heimila þar sem ákveðið var að færa niður skuldir til samræmis við verðmæti íbúðarhúsnæðis.

Yfirveðsetning er vissulega til staðar hjá lögaðilum, svo sem húsnæðissamvinnufélögum, en hún er ekki til staðar hjá þeim sem keypt hefur búseturétt og býr í búsetuíbúð. Kjósi einstaklingur í búsetuíbúð að segja upp búseturétti sínum kemur ekki til þess að hann sitji uppi með skuldir umfram verðmæti búseturéttar síns líkt og lántakendur með yfirveðsetta eign fái þeir ekki niðurfærslu lána sinna. Úrræðið er enn fremur sniðið að því að horfa til tekna og eigna einstaklinga og eðli málsins samkvæmt er ekki unnt að beita þeim viðmiðum á félög.

Meiri hlutinn áréttar því þá afstöðu sem fram kom í fyrra nefndaráliti um málið að vinna þarf heildstætt úr greiðsluvanda félaga og líta m.a. til skuldaþols, rekstrarvirðis, nýtingar, reksturs, leigusamninga og hagræðingarmöguleika í samræmi við 6. mgr. 47. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998.

Í ljósi þeirra athugasemda sem komið hafa fram og sérstöðu húsnæðissamvinnufélaga beinir meiri hlutinn þeim tilmælum til velferðarráðuneytis að það hraði slíkri vinnu og telur jafnframt mikilvægt að skoðaðar verði allar leiðir í þessu efni, m.a. hvort unnt sé að beita sambærilegum reglum og í fyrirliggjandi frumvarpi á lán húsnæðissamvinnufélaga.

Í ljósi sérstöðu húsnæðissamvinnufélaganna og mikilvægis þeirra fyrir fjölbreytni á húsnæðismarkaði mun meiri hlutinn leggja áherslu á að fylgja málinu eftir og óska eftir fundi með ráðuneytinu hið fyrsta um málefni þeirra…“

Vonandi næst farsæl lausn í málefnum húsnæðissamvinnufélaga á næstunni.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 30.3.2011 - 20:17 - 16 ummæli

DV elskar Finn Ingólfsson

DV elskar Finn Ingólfsson. Blaðið gerir allt til þess að birta mynd af honum í blaðinu. Ef ekki er tilefni til þess – þá býr DV til tilefnið. Ef það þarf að skrökva til þess að koma mynd af Finni í blaðið – þá skrökvar DV. Það hefur margoft sannað sig.

Ást DV á Finni hlýtur að vera heit. Blaðið hættir blaðamannaheiðri sínum með vísvitandi rangfærslum – bara til að geta birt mynd af Finni.

Nú síðast birti DV flennistóra mynd af Finni við hlið fyrrverandi landsliðsmarkmanns í fótbolta og vel stæðrar útgerðarkonu í Vestmannaeyjum. Fréttin fjallaði um kaup og sölu hlutabréfa í Glitni árið 2008.  Finnur kom reyndar ekkert að slíkum viðskiptum.   Það skiptir DV engu. Ást DV á Finni reddaði því.

Til þess að koma glæsilegri mynd af Finni í blaðið sagði blaðamaður DV bara ósatt – væntanlega í von um að enginn nennti að leiðrétta hann.

Blaðamaðurinn sagði:

“ Gift fjárfestingarfélag, sem meðal annars var í eigu Finns Ingólfssonar fjárfestis, eignaðist sömuleiðis og seldi aftur 106 milljóna hluta í Glitni á tímabilinu janúar til mars 2008″   

Á grundvelli þessarar setningar í stórri grein sem þekur tvær síður  fékk DV tækifæri að birta mynd af Finni. Stóra mynd.

Vandamálið er einungis að Finnur Ingólfsson hefur aldrei átt krónu í Gift fjárfestingafélagi. Það á blaðamaðurinn að vita – svo fremi sem hann viti yfir höfuð nokkuð um íslenskt viðskiptalíf. Ef ekki blaðamaðurinn þá ritstjórinn.

En ást DV á Finni er slík að sannleikanum er fórnað svo unnt sé að birta mynd af Finni Ingólfssyni.

PS.   Þetta er reyndar stórglæsileg mynd af Finni!

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 30.3.2011 - 10:54 - 1 ummæli

Utangarðsfólk leitar í Herinn

Utangarðsfólk í Reykjavík gengur að vísu húsaskjóli í dagsetri Hjálpræðishersins að Eyjarslóð í Örfyrisey. Þar býðst fólkinu heitur matur í hádeginu, rúm til að hvílast yfir daginn, þar eru þvegin föt þeirra sem þess óska, félagsráðgjöf veitt og meira að segja boðið upp á fótsnyrtingu.

Utangarðsfólk þarf því ekki að mæla götur Reykjavík í kuldanum frá því gistiskýli utangarðsmanna lokar klukkan 10 á morgnanna til klukkan 17 á daginn, eins og haldið var fram í frétt DV af aðstæðum utangarðsmanna fyrr í vikunni.

Ég vænti þess að DV láðst að leita sér upplýsinga hjá þeim sem til þekkja – frekar en að blaðið hafi ákveðið að sleppa umfjöllun um dagsetrið svo fréttinn yrði „betri“

Starf Hjálpræðishersins í þágu utangarðsfólks er til fyrirmyndar og ber að þakka. Sjálfboðaliðar á vegum Hersins ferja utangarðsfólk úr miðbænum út í Örfyrisey þar sem dagsetrið er staðsett – og aftur til baka þegar dagsetrinu lokar klukkan 17.

Ég hvet fólk til að styðja þetta frábæra framtak Hjálpræðishersins í þágu utangarðsfólks með fjárframlögum.

Bankareikningur hjálpræðishersins vegna þessa er 513-26-11314. Kennitala Hersins er 620169-1539.

Þá er ekki úr vegi að renna vestur í Örfyrirsey með nytjahluti sem við erum hætt að nota – eða til að versla í nytjaverslun Hjálpræðishersins á Eyjarslóð.  Hagnaður af nytjaversluninni rennur til dagseturs utangarðsmanna

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur