Jæja, þá er tíu daga leikriti Jóhönnu Sigurðardóttir og Steingríms J. Sigfússonar lokið. Það hófst daginn eftir mótmælin miklu 4. október þegar þau báðu stjórnarandstöðuna um aðstoð við að finna leiðir út úr vandanum og endaði í gærkvöld með yfirlýsingu Jóhönnu um að það standi ekki til að Ísland verði samfélag réttlætis og sanngirni. Í millitíðinni vildum við leggja okkar af mörkum, fannst ábyrgðarlaust að mæta ekki á fundina þó að við hefðu litla trú á að þau raunverulega meintu það sem þau sögðu. Sátum sex fundi með „fimm-ráðherra hópnum“ og tvo þrjátíu manna fundi á stóra sviðinu í Þjóðmenningarhúsinu. Alveg frá upphafi óskaði ég eftir að ríkisstjórnin setti fram stefnu í málinu og hvernig hún hygðist leysa það en fékk í staðinn boð á næsta fund. „Sérfræðingahópurinn“ er bara skipaður til að vinna tíma með von um að málið gleymist. Það er þrautreynd leið óheiðarlegra stjórnmálamanna og tókst m.a. í Magma málinu. Þrátt fyrir að tillögur Hagsmunasamtaka heimilanna fari rækilega yfir alla þætti málsins og útfærslurnar líka og að engin málefnaleg rök kæmu fram gegn þeim mun ríkisstjórnin og meirihluti Alþingis áfram ganga erinda fjármagnseigenda og láta heimilin blæða fyrir skuldir sem þau ættu ekki að borga.
Það er ömurlegt að verða vitni að því þegar stjórnvöld þjóðar fara fram með slíkum hætti og skipulega setja á svið blekkingarleik sem kostar tíma og peninga sem betur væri varið í annað. Það er ömurlegt að sitja með fólki á fundum sem talar tungum tveim, ekki bara stundum heldur oftar en ekki. Það er ömurlegt að sjá hvað völdin gera fólk siðblint og forherðir það í því að halda völdum. Í þessu máli hefur þó einn staðið upp úr heill, óskiptur og heiðarlegur og það er Ögmundur Jónasson sem á öllum fundum talaði af ákafa fyrir almannahagsmunum og var jafnvel harðorður við samráðherra sína. En hinir ráðherrarnir sem og varaformaður Sjálfstæðisflokksins sem einnig sótti suma þessara funda voru staðráðin í því að hunsa tillögur Hagsmunasamtakanna frá fyrsta degi.
Leikritinu er lokið og í gær kom einnig fram að einungis níu prósent þjóðarinnar bera traust til Alþingis. Svo það sé á hreinu þá tilheyri ég hinu 91 prósenti. Alþingi sem situr í trausti níu prósenta þjóðarinnar er algerlega umboðslaust og á að sjálfsögðu að víkja strax. Annað er bara algert rugl og ber keim af valdaráni. Það skiptir engu máli þótt nýtt þing hafi verið kosið fyrir aðeins 18 mánuðum, það hefur algerlega glatað umboði sínu og það hraðar en nokkurt Alþingi í sögunni.
Ekki veit ég hvað Tunnuhersingin gerir en við í Hreyfingunni lögðum fram eftirfarandi tillögur á fimmtudaginn. Vonandi ná þær fram því ekkert, ekkert er býnna en að losna við núverandi ríkisstjórn.
Neyðarstjórn eða kosningar
Yfirlýsing frá þingmönnum Hreyfingarinnar
Sú mesta efnahagsvá sem samfélaginu stafar hætta af í dag er skuldavandi íslenskra heimila. Undanfarna viku hafa þingmenn Hreyfingarinnar tekið þátt í fjölda samráðsfunda með ráðherrum ríkisstjórnarinnar, öðrum þingmönnum og hagsmunaaðilum til að kanna hvort raunverulegur vilji sé til að leysa málin. Þrátt fyrir að fyrir liggi leiðir til lausnar sem gagnist mjög skuldugum heimilum án kostnaðar fyrir ríkissjóð og skattgreiðendur, er ríkisstjórnin ekki fær um að leysa úr málinu með sanngjörnum og réttlátum hætti. Ríkisstjórnin hefur nú endanlega sýnt að hún getur ekki stjórnað landinu með almannahag að leiðarljósi og hlýtur því að vera komin að leiðarlokum.
Vegna þeirrar alvarlegu stjórnarkreppu sem nú ríkir og útilokað er að Alþingi geti leyst, leggja þingmenn Hreyfingarinnar fram eftirfarandi tillögur sem lúta að tímabundinni neyðarstjórn landsins (þingmanna og/eða utanþingsmanna) í stað núverandi ríkisstjórnar samkvæmt eftirfarandi forskrift.
1) Forsætisráðherra skilar inn umboði sínu til forseta Íslands.
2) Forseti Íslands kannar hvort þingmeirihluti sé fyrir því að verja slíka neyðarstjórn vantrausti verði henni komið á.
3) Sé slíkur meirihluti ekki fyrir hendi verði boðað til Alþingiskosninga.
4) Sé slíkur meirihluti fyrir hendi gerir forseti Íslands tillögu að neyðarstjórn. Tillaga forseta Íslands getur annað hvort falist í uppástungu að forsætisráðherra sem velji sér samráðherra eða tillögu að öllum ráðherrum slíkrar ríkisstjórnar.
5) Þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram um tillögu forseta Íslands að neyðarstjórn. Kosið verði um neyðarstjórnina í heild sinni. Verði henni hafnað verið boðað til Alþingiskosninga.
6) Verði tillagan samþykkt starfar neyðarstjórnin þangað til stjórnlagaþing hefur lokið störfum og Alþingi afgreitt frumvarp um nýja stjórnarskrá. Að því loknu verði boðað til Alþingiskosninga.
7) Neyðarstjórnin skal fá til liðs við sig færustu sérfræðinga. Í störfum sínum notist neyðarstjórnin við þjóðaratkvæðagreiðslur til að skera úr um brýn ágreiningsmál.
Verkefni neyðarstjórnar yrðu m.a.:
a) Setning neyðarlaga til að leysa bráðavanda skuldsettra heimila sem taki m.a. mið af tillögum Hagsmunasamtaka heimilanna.
b) Opinber lágmarks framfærsluviðmið.
c) Fjárlög.
d) Lýðræðisumbætur.
e) Endurskoðun á samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.
Reykjavík, 14. október 2010,
Baldvin Jónsson
Birgitta Jónsdóttir
Margrét Tryggvadóttir
Þór Saari
Nýlegar athugasemdir