Föstudagur 21.10.2016 - 23:00 - FB ummæli ()

Píratar og námsmenn

Þessi grein birtist í Kjarnanum s.l. miðvikudag.

Píratar eru, umfram aðra flokka, hreyfing ungs fólks og meðalaldur frambjóðenda er í samræmi við það. Þrátt fyrir marga unga frambjóðendur er menntunarstig Pírata einnig hátt og reynsla Pírata af langskólanámi og reynslan af nauðsyn skilvirks fjárstuðnings fyrir námsmenn er mikil. Vaskleg framganga þingmanna Pírata gegn frumvarpi Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks sem hefði stórskaðað möguleika ungs fólks til náms, var til fyrirmyndar og byggði einmitt á reynslu og þekkingu.

Menntun og langskólanám er orðin hluti af lífshlaupi nánast alls ungs fólks og það að fullkomið jafnræði til náms óháð fjárhag, sé til staðar, er grundvallaratriði sem ekki má víkja frá. Sveigjanleg námsframvinda er einnig krafa, þar sem ungt fólk þarf að hafa möguleika á að skipta um námsgreinar sem og að geta stýrt því sjálf hvað, hvar og hvenær þau mennta sig.

Það er því þörf á nýrri hugsun í stuðningi hins opinbera við námsmenn og viðsnúningur þarf að verða í þeim samskiptaörðugleikum sem ávallt hafa einkennt tangó námsmana við LÍN. Slík hugsun þarf að taka mið af örum samfélagsbreytingum og breyttum og síbreytilegum kröfum einstaklinganna til að þroskast og menntast, sem og þörfum samfélagsins og atvinnulífsins fyrir vel menntað fólk. Langskólanám, og þá sér í lagi erlendis, er einhver sá mesti og besti þroskaferill sem ungt fólk getur lagt í og eykur víðsýni, þekkingu og reynslu til muna umfram nám sem stundað er hér á landi. Svo er menntun sem slík einfaldlega þjóðahagslega hagkvæm á heildina litið og einhver besta fjárfesting sem samfélagið getur lagt út í. Hins vegar er ekki hægt að líta á menntun fólks sem fjárfestingu einstaklingsins til framtíðar enda engar forsendur til, svo hægt sé að leggja slíkt kalt peningalegt mat á menntun.

Nýtt námlána- og styrkjakerfi fyrir námsmenn mun þurfa að sækja fé í sjóði hins opinbera og þarf því einnig að taka mið af því hversu aflögufærir þeir eru. Það kostar mikla peninga að mennta fólk í tuttugu ár sem er um það bil sá tími sem tekur fyrir menneskju að ljúka háskólaprófi með meistaragráðu að meðtöldum grunn- og framhaldsskóla.  Nýtt kerfi þarf því einnig að búa að innbyggðum hvötum fyrir námsmenn til að starfa hér á landi að loknu námi, því það er mikil blóðtaka fyrir samfélagið fjárhagslega og menningarlega að mennta fólk í tvo áratugi hverfi það svo til starfa utan landsteinana.

Slíkt kerfi þarf að tryggja að stuðningur við námsmenn sé nægilegur og það er að framfærslan, hvort sem um er að ræða lán eða styrk, dugi raunverulega til framfærslu miðað við fjölskyldustærð. Slík kerfi þarf að greiða út stuðningin fyrirfram, en ekki láta námsmenn verða að leiksoppi bankanna hvað varðar peninga eins og núverandi kerfi. Slíkt kerfi þarf líka að vera hvetjandi fyrir námsmenn til að sækja sér menntun út fyrir landsteinana, því hvað svo sem má segja um íslenska háskóla, þá eru þeir of margir og of misjafnir að gæðum til að standa allir undir alvöru kröfum um akademískt nám. Nám við erlenda háskóla eykur og hraðar miðlun nýrra hugmynda, veitir innlendum háskólum og innræktuðum akademíkörum nauðsynlegt aðhald og eflir og eykur víðsýni og þekkingu námsmanna til muna umfram nám innanlands.

Útfærsla slíks kerfis er ekki endilega flókin en hún þaf að vera skýr og framkvæmdin þarf ætíð að vera réttsýn og með þá sýn á þörf námsmannsins og að nám sé gott, alltaf. Því má gera því skóna að slíkt kerfi þurfi auk nægjanlegrar framfærslu, að duga til menntunar, það er fyrir framfærslu og skólagjöldum fram yfir doktorspróf hvað tímalengd varðar, sé óháð aldri nemenda, og að hluti stuðningsins breytist í styrk að loknu námi. Jafnframt þarf það að taka mið af kostnaði sameignlegra sjóða og samfélagslegum ábata. Nýtt kerfi yrði því einnig einhvers konar sambland lána- og styrkjakerfis og í upphafi afgreitt sem lán í upphafi hverrrar annar, hvers endurgreiðsla hæfist fimm árum eftir námslok, en hluti þess, framfærsluhlutinn, breyttist í styrk ef viðkomandi hefði starfað innanlands þessi fimm ár. Námsmenn erlendis fengju enn frekari hvata til að snúa heim með niðurfellingu skólagjalda að loknu ákveðnu starfstímabili hérlendis, auk lána til heimferða einu sinni til tvisvar á ári. Endurgreiðsla lána, ef til kemur, þarf að vera vel viðráðanleg og taka mið af tekjum viðkomandi.

Slík umbreyting sem hér er talað fyrir er róttæk en skynsöm, hennar er þörf og um hana þarf að nást víðtæk sátt svo niðurrifsöfl misskiptingar nái ekki að eyðileggja möguleika ungs fólks til náms undir yfirskini úrbóta. Námsmenn þurfa því sjálfir einnig að sýna samstöðu og krefjast úrbóta og taka sér stöðu utan flókkspólitískra stúdentahreyfinga sem eru alger tímaskekkja í nútímasamfélagi. Stúdentaráð háskóla þurfa að vera með hagsmuni allra stúdenta í fyrirrúmi og listakosningar eyðileggja hagsmuni heildarinar. Líklega væri einnig best að leggja niður LÍN í núverandi mynd vegna endalausra flokkspólitískra afskipta af starfsháttum þar á bæ í gegnum stjórnina og stofna nýja skrifstofu hverrar stjórn yrði skipuð námsmönnum og fagfólki úr skólakerfinu.

Helsta áherslumál Pírata er nýja stjórnarskráin og sú áhersla er meðal annars til komin vegna sífelldra loforðasvika stjórnmálamanna. Með nýrri stjórnarskrá getur allur almenningur og þar með einnig námsmenn, krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um hagsmunamál sín með undirskiftasöfnun sem og lagt fram þingmál. Þannig og þannig eingöngu er hægt að veita sitjandi stjórnvöldum hvers tíma aðhald og tryggja að almannahagsmunir verði í fyrirrúmi. Þess vegna eiga námsmenn samleið með Pírötum.

Að lokum læt ég fylgja með fimm helstu markmið Pírata fyrir næsta kjörtímabil en þau eru:

  1. Uppfæra Ísland með nýrri stjórnarskrá.
  2. Tryggja réttláta dreifingu arðs af auðlindum.
  3. Endurreisa gjaldfrjálsa heilbrigðisþjónustu.
  4. Efla aðkomu almennings að ákvarðanatöku.
  5. Endurvekja traust og tækla spillingu.

Komist Píratar til valda mun ég tala fyrir þessum áherslum.

Þór Saari.

Höfundur er hagfræðingur, fyrrverandi alþingismaður og í framboði fyrir Pírata.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Þór Saari
Hagfræðingur með lýðræðis- og stjórnmálavitund sem gerir kröfu um virka þátttöku í samfélaginu.

Er í framboði fyrir Pírata í SV kjördæmi (kraganum). Er fyrrverandi þingmaður í SV kjördæmi (kraganum) fyrir Hreyfinguna (2009-2013) og er einnig í stjórn Samtaka um lýðræði og almannahag.
Netfangið er: saari@centrum.is
RSS straumur: RSS straumur