Réttarhöldin yfir nímenningunum eru einhver sorglegasti réttarfarsharmleikur sem ég man eftir hér á landi. Það er alveg með ólíkindum hvað hin pólitíska yfirstétt ætlar sér að fara langt í hefnd sinni á þeim sem einna fyrst voru til að benda á að þessi sama pólitíska yfirstétt var, rétt eins og keisarinn í ævintýrinu, bara nakin. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar var komin að fótum fram þann 8. desember 2008 þegar nímenningarnir ásamt um tuttugu öðrum reyndu að fara á þingpalla til að mótmæla ónýtu Alþingi. Þetta var einum mánuði eftir að Haukur Evuson vann þann gjörningasigur að flagga Bónusfánanum á Alþingishúsinu og hatur Sjálfstæðismanna á mótmælendum sem höfðu fundað á Austurvell allan veturinn fór stigvaxandi. Nú skyldi sýnt hverjir réðu og Helgi Bernódussson skrifstofustjóri Alþingis, með umboð frá eða að fyrirmælum Sturlu Böðvarssonar forseta Alþingis, lagði til við lögregluna að þetta fólk yrði ákært samkæmt hinn illræmdu 100. grein sem kveður á um allt að lífstíðarfangelsi. Útkoman er að tilvinjanakennt úrtak níu ungmenna af þrjátíu eru ákærð, að tilmælum Alþingis, vegna brota sem hingað til hafa þótt smámál og ekki kæruverð.
Réttarfarsharmleikur segi ég vegna þess að hér hefur Alþingi (löggjafarvaldið) æðsta stofnun þjóðarinnar skipt sér af framkvæmdavaldinu (ákæruvaldinu) og dómsvaldinu og lagt línurnar með „tilmælum“ sínum um ákærur. Réttarfarsharmleikur segi ég vegna þess að framkoma setts saksóknara hefur verið forkastanleg eins og þegar hún lýsir mótmælum Nímenninganna við vopnaða innrás og morðtilraun pólsks glæpagengis í hús í Breiðholti. Réttarfarsharmleikur segi ég því allur málatilbúnaður og framburður sumra vitna setts saksóknara ber vitni um sviðsetningu skáldskapar sem dómarinn ætti að sjálfsögðu að hafa vísað frá.
Fjölmiðlar erlendis eru farnir að greina þetta mál sem einkennilega vegferð litla Íslands inn á áður ótroðnar brautir pólitískra ofsókna og allir sem sjá vilja, skilja að það er margt mjög óeðlilegt við þetta mál. Það Alþingi sem nú situr var kosið um vorið 2009 og ég ásamt fjölmörgum öðrum þingmönnum höfum lýst vanþóknun okkar á þessu máli og að Alþingi skuli í raun vera sækjandi þess. Við höfum lagt fram þingsályktunartillögu (sem fékkst ekki rædd) og talað um það úr ræðustól þingsins og síðast í gær (sjá hér) krafðist ég þess að Forseti Alþingis og þingið allt lýsti vanþóknun sinni á þessu máli. Ekki til að reyna að hafa áhrif á dómstóla eins og margir hafa haldið fram, heldur til þess að það Alþingi sem nú situr og þeir þingmenn sem þar eru geti með heiðarlegum hætti hafnað þessum alræðistilburðum. Fjölmargir þingmenn og sennilega flestir, utan þingmanna Sjálfstæðisflokksins, eru nefnilega þeirrar skoðunar að hér sé allt of langt gengið og að ákærur í þessu máls séu hneisa fyrir þingið.
Hér er hins vegar ekki eingöngu um pólitískar ofsóknir að ræða heldur einnig dauðakippi deyjandi valds sem bregst við með offorsi þegar því er orðið ljóst að valdatími þess er liðinn og kemur aldrei aftur. Þessir dauðakippir birtast oft á þingi og nú síðast í gær þegar umræður sumra þingmanna Sjálfstæðisflokksins komust á hysterískt stig þegar þeir reyndu að klína njósnum og afbrotum á þingmenn Hreyfingarinnar og WikiLeaks, línurnar lagðar í Morgunblaðinu fyrr um daginn. Ég held að kenning Jóns Gnarr um Patrick Swayze, Ghost og Sjálfstæðislokkinn sé rétt. Verst að þetta þurfi að gerast á Alþingi í beinni útsendingu. Kosningar væru fljótvirkari.
Ég leyfi mér að vera örlítið bjartsýnn og rifja upp neðangreinda tilvitnun í Mohandas Ghandi. „First they ignore you, then they laugh at you, then they fight you, then you win.“ Það er vonandi farið að styttast út á þetta horn sem handan við eru betri tímar.
Vefsíða RVK9 er svo hér en þar má sjá afrit af málflutningnum í héraðsdómi.
Nýlegar athugasemdir