Í umræðum á Alþingi í dag undir liðnum óundirbúnar fyrirspurnir spurði Margrét Tryggvadóttir utanríkisráðherrann hvort honum fyndist það rétt að biðja Falun Gong afsökunar á framferði íslenskra stjórnvalda árið 2002 þegar ríkisstjórnin undir forystu Davíðs Oddsonar og Halldórs Ásgrimssonar og með fulltingi Björns Bjarnasonar svipti hóp friðsömustu trúariðkenda sem um getur, málfrelsi, tjáningarfrelsi og ferðafrelsi auk þess að læsa hóp þeirra inni í ólöglegu varðhaldi í Njarðvíkurskóla.
Þetta var allt saman gert til að yfirstétt stjórnmála og viðskiptalífs á Íslandi með áðurnefnda prjóna í broddi fylkingar gæti nú nuddað saman lendum í friði með forsætisráðherrra Kína sem var hér í opinberri heimsókn. Þess má svo einnig geta að sá embættismaður í dómsmálaráðuneytinu sem framfylgdi áður nefndum skipunum og tryggði árangur þeirra heitir Stefán Eiríksson og er núna lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins.
Hvað um það, okkar skeleggi utanríkisráðherra Össur Skarphéðinsson gerði sér lítið fyrir og úr pontu Alþingis baðst afsökunar fyrir hönd þjóðarinnar á þessari hörmulegu framgöngu íslenskra stjórnvalda. Hér má sjá tengil á umræðuna.
Það er oft talað um að lítið hafi breyst og það finnst mér sjálfum oftar en ekki. Þetta hefði þó hins vegar aldrei gerst í ríkisstjórn þar sem Sjálfstæðismenn réðu ferðinni og er enn ein ástæðan fyrir því (ásamt um þúsund öðrum) að þeim verði haldið frá völdum hér á landi í a.m.k. tíu ár.
Takk fyrir þetta Össur Skarphéððinsson, þetta var vel gert.
Nýlegar athugasemdir