Föstudagur 23.12.2011 - 16:44 - FB ummæli ()

Gistináttagjald og bréf „Samtaka ferðaþjónustunnar“.

Þingmönnum barst í gær bréf frá svo kölluðum „Samtökum ferðaþjónustunnar“ sem ég kýs að setja innan gæsalappa vegna ákveðna greinisins í nafni samtakanna en sem kunnugt er starfar mikill minnihluti fyrirtækja á Íslandi og starfsmanna þeirra innan hinna s.k. „Samtaka atvinnulífsins“ sem eru regnhlífasamtök fyrir m.a. „Samtök ferðaþjónustunnar“ (hér eftir „SAF“).

„SAF“ bera þingmönnum það á brýn að vera ekki sjálfráðir gerða sinna við lagasetningu um s.k. gistináttagjald sem leggsta á virðisaukaskattskyld fyrirtæki í ferðaþjónustu til þess að standa undir úrbótum og verndun á ferðamannastöðum af völdum þess fjölda ferðamanna sem m.a. aðildarfélagar áður nefndra samtaka flytja til landsins. Mér blöskraði bréf þetta þar sem það er í raun aðför að starfsemi áhugamannafélaga eins og ferðafélaganna en einnig er hnýtt rækilega í starfsemi stéttarfélaga sem með dugnaði og eljusemi hafa í áratugi byggt upp sumarhúsa aðstöðu fyrir eigin félagsmenn vegna þess að ella væri flestum íslendingum einfaldlega ókleift að ferðast um landið vegna dýrrar gistingar hjá einkageiranum.

Hvað um það, ég svaraði þessu bréfi þeirra (sem einnig var notað sem fréttatilkynning sem að allir fjölmiðlar birtu athugasemdalaust) og birti það svar hér fyrir neðan. Ég hef fengið viðbrögð fjölda þingmanna við svari mínu og greinilegt er að margir þeirra eru sama sinnis og ég um yfirgang þessara samtaka. Hér er svarið.

Sæl Erna Hauksdóttir.
Þú getur alveg treyst því að þingmenn gerðu sér grein fyrir því hverjir greiða gistináttaskattinn og hverjir ekki þar sem skilið er á milli VSK-skyldra aðila og hinna. Það er í mínum huga dapurlegt að bárátta SAF skuli vera farin að snúast um að reyna að rústa frjálsum félagasamtökum sem rekin eru af áhugafólki um land og náttúru og að SAF hafi ekki dýpri skilning á samfélaginu en að telja að ferðalög um og gisting á Íslandi eigi sér ekki tilverurétt nema í hagnaðarskyni fyrir einhverja aðra.

Gróðavon margra er vissulega sterk en afstaða SAF í þessu máli er óábyrg og klén og með því að leggja til atlögu við stéttarfélög sem með atorku og eljusemi hafa í gegnum áratugi byggt upp net sumarhúsa fyrir sína félagsmenn eru SAF komin út fyrir öll velsæmismörk. Gróðahyggja ferðaþjónustunnar hefur gert það að verkum að fjöldi landsmanna hefur einfaldlega ekki efni á að gista úti á landi nema í sumarhúsum eigin stéttarfélaga og það að þriðja flokks gistiaðstaða á vegum SAF úti á landi á Ísland skuli eftir óskiljanlegum leiðum vera skilgreind sem fjögurra stjörnu gistiaðstaða og verðlögð dýrar en hótelherbegi á Manhattan segir allt sem þarf. Rétt er að minnast einnig á hamborgara á 2.300 kr. og steikt bleikjuflak á 3.600 kr. úr því að SAF telur félagsmenn sína svona illa haldna. Á ensku heitir slík verðlagning „rip-off“ en ég leyfi ykkur að finna orðatiltækinu þýðingu á önnur mál sem og stað (vonandi) í auglýsingum næsta árs.

Þetta er heldur ekki geðþóttaákvörðun eins og þið haldið fram heldur mjög vel ígrunduð og yfirveguð ákvörðun um að þeir sem ætla sér að græða fé á okkar undursamlegu náttúru og landi geti ekki nýtt hana sér að kostnaðarlausu og þetta er einnig algjörlega eðlileg hagfræðileg nálgun um að auðlindarentan sé skattlögð sem næst notkuninni. Þessi skattur er heldur ekki erfiður í innheimtu heldur þvert á móti mjög auðveldur í innheimtu og reiknast einfaldlega sérstaklega á hvern haus sem gistir og er þannig sundurliðaður í reikningi fyrir hverja gistingu. Þetta fyrirkomulag er alþekkt um allan hinn vestræna heim og þó víðar væri leitað.

Það væri óskandi að samtök í íslensku atvinnulífi hefðu tamið sér meiri hógværð í framgöngu eftir það hrun sem þau sjálf áttu svo stóran hlut í að varð og þó SAF hafi e.t.v. ekki spilað stóra rullu í þeim leik þá finnst mér framganga aðila í ferðaþjónustu um að magn (þ.e. fjöldi ferðamanna) sé ofar öllu og skammtíma gróði réttlæti allt, alls ekki vera sú leið sem hægt sé að styðja lengur og sú hugmynd að ein milljón ferðamanna á ári sé æskileg er að mínu viti algerlega galin.

Með bestu kveðju,
Þór Saari
þingmaður Hreyfingarinnar

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Þór Saari
Hagfræðingur með lýðræðis- og stjórnmálavitund sem gerir kröfu um virka þátttöku í samfélaginu.

Er í framboði fyrir Pírata í SV kjördæmi (kraganum). Er fyrrverandi þingmaður í SV kjördæmi (kraganum) fyrir Hreyfinguna (2009-2013) og er einnig í stjórn Samtaka um lýðræði og almannahag.
Netfangið er: saari@centrum.is
RSS straumur: RSS straumur