Á fundi Atvinnuveganefndar Alþingis í morgun voru forstjóri og nokkrir yfirmenn stofnunarinnar, ráðuneytisstjóri landbúnaðarráðuneytisins og fulltrúar frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur. Fundurinn var áfellisdómur yfir Matvælastofnun (MAST) og greinilegt að stofnunin er handónýt og algerlega ófær um að sinna þessum mikilvæga málaflokki. MAST hefur tekið þann pól í hæðina að til að söluaðilar iðnaðarsalts og kadmíumáburðar verði ekki fyrir fjárhagstjóni þá skuli þeim leyft að selja birgðir sínar af ónothæfum áburði og salti og skítt með almannahag og trúverðugleika matvælaframleiðslu í landinu.
Þótt fátt komi lengur á óvart í afstöðu þingmanna til mála kom þó á óvart í þessu máli að þingmenn sjálfstæðisflokksins í nefndinni, þeir Einar K. Guðfinnsson og Jón Gunnarsson tóku að einhverju leiti upp hanskann fyrir stofnunina. Einar K. var landbúnaðarráðherrann sem bannaði MAST að upplýsa um innihald áburðar frá Áburðarverksmiðjunni árið 2007 en sú verksmiðja (sem var einkavinavædd á sínum tíma) krafðist þess að MAST fengi ekki að birta upplýsingarnar og ráðuneytið samþykkti það.
MAST er skilgetið afkvæmi hugmyndafræði nýfrjálshyggju sjálfstæðisflokksins og er skipulögð nákvæmlega eins og Fjármálaeftirlitið var. Sett er löggjöf um eftirlitsstofnun sem lítur vel út á pappír en með alls lags óljósum lagagreinum og reglugerðum, eða bara yfirgangi ráðherra málaflokksins, er stofnuninni gert ókleift að sinna verkefnum sínum sem skyldi.
Það er verulegt áhyggjuefni þegar matvælaeftirlit í landinu er gert óvirkt af hugmyndafræðilegu ástæðum og til að þóknast gróðasjónarmiðum. Þetta vekur einnig upp spurningar á hvaða vegferð önnur stofnun sem er í matvælaeftirliti og heitir MATÍS er, en það er stofnunin sem nýverið hafnaði stórum fjárstyk frá ESB til tækjakaupa vegna matvælaeftirlits. Eins og fram kemur á vef MATÍS er hlutverk stofnunarinna m.a. að bæta lýðheilsu og tryggja matvælaöryggi.
Matvælaframleiðsla hverrar þjóðar er að sjálfsögðu gríðarleg mikilvæg en vegna eðlis málsins einnig gríðalegur gróðapottur fyrir framleiðendur við ákveðnar aðstæður. Aðstæður hér á landi hvað þetta varðar virðast algerlega komnar úr böndunum og gróðasjónarmiðin virðast tekin fram yfir matvælaöryggi.
Ég var með fyrirspurn til Steingríms J. í þinginu í dag en því miður virtist hann, þótt hann sé landbúnaðarráðherra og beri ábyrgð á málaflokknum, ekki tilbúinn til að taka ærlega til, hvorki hjá MAST né í ráðuneytinu. Umræðuna má sjá hér.
Nýlegar athugasemdir