Þriðjudagur 24.01.2012 - 08:19 - FB ummæli ()

Landsdómur, upprifjun

Nú þegar lítur út fyrir að Alþingi hefur ekki burði til þess að láta stjórnmálamenn bera ábyrgð á meintum lögbrotum sínum og svara til saka fyrir þar til bærum dómstól, í þessu tilfelli Landsdómi, er rétt að rifja upp forsögu þessa máls.

Lög númer 142/2008  sem voru samþykkt í lok árs 2008 kváðu á um að Alþingi skipaði rannsóknarnefnd til að fara ofan í saumana á hruninu, hér er komin hin fræga Rannsóknarnefnd Alþingis (RNA). Í þeim lögum er tilgreint að RNA skuli skila Alþingi skýrslu og að forsætisnefnd þingsins ákveði í framhaldinu hvað verði gert með niðurstöðu skýrslunnar. Um ári síðar eða síðla árs 2009 var ljóst að skýrslan yrði viðamikil og að hugsanlega kæmu upp atriði varðandi ráðherrábyrgð og að kveða þyrfti saman Landsdóm. Tók forsætisnefnd sig til undir forystu forseta Alþingis og hófst handa við að finna út með hvaða hætti þessu yrði best fyrir komið og til urðu lög  146/2009  um breytingu á áður nefndum lögum 142/2008. Forsætisnefnd var þá svona skipuð: Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir (forseti Alþingis) og Steinunn Valdís Óskarsdóttir frá Samfylkingu, Árni Þór Sigurðsson og Þuríður Backman frá Vinstri-grænum, Ragnheiður Ríkarðsdóttir og Unnur Brá Konráðsdóttir frá Sjálfstæðisflokki og Siv Friðleifsdóttir frá Framsóknarflokki. Sjálfur sat ég í forsætisnefnd sem áheyrnarfulltrúi með málfrelsi og tillögurétt.

Í þeim lögum ákvað forsætisnefnd að skipuð yrði níu manna nefnd þingmanna til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndarinnar og móta tillögur að viðbrögðum Alþingis við niðurstöðum hennar. Nefndin átti að vera skipuð í þeim sömu pólitísku hlutföllum og voru í þinginu nema að Hreyfingin fengi einn fulltrúa. Þetta var þingmannanefndin sem átti svo að meta kvort Alþingi skyldi ákæra fyrrum ráðherra fyrir landsdómi. Lögin gerðu einnig ráð fyrir að öll gögn RNA skyldu læst inn í Þjóðskjalasafni sem trúnaðarmál næstu 80 árin, sem er annað mál en gefur hugmynd um hvernig hugsunin í forsætisnefnd gagnvart Hruninu, upplýsingum og upplýstu samfélagi var og er.

Strax og fyrstu drögin að því er síðar urðu lög 146/2009 komu fyrir forsætisnefnd gerði ég sem fulltrúi Hreyfingarinnar alvarlegar athugasemdir við þá fyrirætlun forseta Alþingis að ætla þingmönnum einum að ákveða hvort félagar þeirra, vinir og fyrrum leiðtogar yrði látnir svara til saka fyrir dómi og benti á að slíkt væri alveg klárt brot á öllum venjum um almennt vanhæfi og að Alþingismenn myndu aldrei fara gegn félögum sínum með þeim hætti. Þótt þetta hlutverk þeirra væri lögbundið yrði að fara aðra leið í málinu. Við í Hreyfingunni vissum þótt við hefðum ekki verið sérstaklega lengi á þingi að samtryggingarkerfið var slíkt að það væri óhugsandi að það fengist eðlileg, samdóma og málefnaleg niðurstaða frá slíkri þingmannanefnd.  Öllum andmælum mínum og tillögum til að skoða málið frekar var mætt af ákafri gagnrýni af hálfu nefndarmanna í forsætisnefnd með ásökunum um að ég væri að tala niður þingið og jafnvel vanvirða það með því að halda slíku fram.

Því varð úr að við í Hreyfingunni sömdum breytingartillögur við frumvarp forsætisnefndar sem gerðu m.a. ráð fyrir að skipaðar yrðu tvær nefndir, ein sex manna þverpólitísk þingmannanefnd auk fimm manna nefndar valinkunnra manna utan þingsins sem, eins og segir orðrétt: „hafi það hlutverk að fjalla um þá þætti skýrslu rannsóknarnefndarinnar sem snerta alþingismenn og ráðherra, núverandi og/eða fyrrverandi, og fjölskyldur þeirra. Nefndin skal fjalla um öll atriði sem snerta Alþingi sjálft sem stofnun og koma fram í skýrslunni.“  Í tillögu okkar var einnig ákvæði um að öll gögn RNA skyldu gerð opinber og aðgengileg almenningi eftir því sem kostur væri. Breytingartillögurnar má  sjá hér.

Skemmst er frá því að segja að enginn úr fjórflokknum fékkst til að vera á tillögunni. Ég gagnrýndi frumvarp forsætisnefndar þegar það var lagt fram og varð fyrir miklum árásum af hendi forsætisnefndarmanna og fleiri í ræðum í þingsal þar sem reynt var að gera lítið úr Hreyfingunni og við sögð niðurlægja þingið sem væri alveg fullfært um að sinna þessu hlutverki. Þá umræðu má  sjá hér.

Frumvarpið fór til Allsherjarnefndar og svo aftur inn í þingið þar sem við héldum áfram með gagnrýni á málið en okkur hafði m.a. verið meinað að kalla gesti á fundi Allsherjarnefndar sem er fáheyrður yfirgangur af hálfu nefndarformanns. Umræðuna í framhaldinu má  heyra hér  og  hér.  Frumvarpið fór aftur til nefndarinnar og þegar það kom inn í þingið til þriðju umræðu gagnrýndum við það aftur og lögðum fram breytingartillögur okkar.  Í þeirra umræðu var aftur harkalega veist að okkur í Hreyfingunni af hálfu fulltrúa fjórflokksins. Þá umræðu má  sjá hér.

Þingmannanefndin starfaði af einurð og vandvirkni og það var ekki fyrr en á seinustu metrunum að ljóst var að niðurstaða hennar yrði að verulegu leiti í samræmi við flokkslínur eins og við höfðum spáð. Fulltrúar Samfylkingarinnar vildu hlífa Björgvin G. Sigurðsyni og fulltrúar Sjálfstæðisflokksins vildu hlífa báðum sínum ráðherrum og spiluðu því á það að hafna málssókn á hendur öllum.

Umræðan í þinginu um tillögur þingmannanefndarinnar var að hluta til á flokkspólitískum nótum en vegna vandaðs rökstuðnings meirihluta nefndarinnar voru andstæðingar málshöfðunar ekki færir um að koma með málefnaleg rök á móti málshöfðun heldur endurtóku sömu innantómu frasana hver á fætur öðrum. Atkvæðagreiðslan var svo skandall og svartasti dagurinn í sögu Alþingis þegar þingmenn og ráðherrar hrunstjórnarinnar greiddu allir atkvæði um að hlífa félögum sínum og kippa þeim í skjól undan réttvísinni. Allir sluppu nema Geir Haarde og þinginu lauk með skömm.

Það er því að einhverju leiti rétt að atkvæðagreiðslan hafi verið á pólitískum nótum, en það var bara hjá þeim sem vildu hlífa sínum félögum. Við hin sem studdum málsókn gerðum það öll á málefnalegum grunni með tilvísunum í niðurstöður þingmannanefndarinnar. Þetta má glöggt sjá ef menn fara yfir ræðurnar um málið. Það er því ekki rétt hjá Atla, Guðfríði Lilju og Ögmundi, né heldur hjá þeim þingmönnum Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks sem hrópa hæst, að atkvæðagreiðslan hafi bara verið pólitísk. Alþingi sem stofnun brást hins vegar í þessu máli og þar er helst við að sakast forseta þingsins og forsætisnefnd sem sýndu af sér mikið dómgreindarleysi með að vilja þetta mál eingöngu í pólitíska nefnd sem og fyrrverandi formann Allsherjarnefndar (Steinunni Valdísi Óskarsdóttur) sem hafnaði því að fá gesti á fund nefndarinnar til að gefa umsögn um tillögur Hreyfingarinnar og kom þannig í veg fyrir upplýsta og faglega umræðu um málið í nefndinni.

Síðan þá hefur þetta mikilvæga mál verið bitbein stjórnmálaumræðu sem er svo vanþroskuð og gegnsýrð af spillingu og valdafíkn að ógleði setur að flestum. Útspil Sjálfstæðisflokksins með tillögu Bjarna Ben. og stuðningur forseta Alþingis við að taka mjög vafasamt mál á dagskrá þingsins og setja það fram fyrir öll önnur mál sem bíða lýsir betur samtryggingarpólitíkinni hér á landi en nokkuð annað. Innanmein Vinstri-grænna hafa gert hluta þingflokksins óbærilegt að starfa þar innanborðs og þau kjósa að ná sér niður á forystu flokksins með því að fylgja Sjálfstæðisflokknum í þessu máli, máli sem er sennilega mikilvægara en nokkurt annað mál í lýðveldissögunni að dómstóll komist að niðurstöðu í. Innanmein, reiði og valdabarátta innan Samfylkingar hafa líka gert það að verkum að fjórir þingmenn þar á bæ hafa gengið Sjálfstæðisflokknum á hönd. Til að bíta höfuðið af skömminni greiddu svo ekki bara væntanleg vitni í málinu atkvæði með að málið um að ákæran verði kölluð til baka haldi áfram, heldur tóku líka enn og aftur, ráðherrar og þingmenn Hrunstjórnarinnar þátt í atkvæðagreiðslunni eins og ekkert væri sjálfsagðara, þar á meðal sjálfur forseti Alþingis.

Það að forseti þingisns skuli ekki hafa gert minnstu tilraun til að rífa þingið upp úr því siðferðilega foraði sem þetta fólk hefur komi því í er dapurlegt en lýsir kannski meir en nokkuð annað þeim einbeitta vilja að stjórnmálastéttin eigi að vera hafin fyrir ofan lög og rétt í landinu og ef þarf á að hada þá til fjandans með allt annað.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Þór Saari
Hagfræðingur með lýðræðis- og stjórnmálavitund sem gerir kröfu um virka þátttöku í samfélaginu.

Er í framboði fyrir Pírata í SV kjördæmi (kraganum). Er fyrrverandi þingmaður í SV kjördæmi (kraganum) fyrir Hreyfinguna (2009-2013) og er einnig í stjórn Samtaka um lýðræði og almannahag.
Netfangið er: saari@centrum.is
RSS straumur: RSS straumur