Þriðjudagur 31.01.2012 - 22:51 - FB ummæli ()

Kvótafrumvarp Hreyfingarinnar

Mælti í dag fyrir frumvarpi Hreyfingarinnar um breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu.  Frumvarpið gerir ráð fyrir rækilegri uppstokkun við úthlutun aflaheimilda þannig að þær færist til sveitarfélagana í samræmi við þá veiðireynslu sem var til staðar á hverjum stað þegar framsalið var fyrst heimilað árið 1991. Frumvarpið eykur líka s.k. strandveiðikvóta, allur afli skal á innlenda uppboðsmarkaði og stofnsettur verður s.k. kvótaskuldasjóður sem tekur á skuldum útgerðarinnar tilkomnum vegna lántöku vegna kvótakaupa.

Tengill á frumvarpið  er hérog tengill á umræðuna  er hér.

Ég vek sérstaklega athygli á töflunni hér fyrri neðan og fylgiskjalinu aftast í frumvarpinu þar sem kemur fram hvað hvert sveitarfélag fengi úthlutað í þorskísgildum (kílóum) m.v. fiskveiðiárið 2010/2011 en nýrri gögn voru ekki til þegar frumvarpið var samið.  Meðalverð á þorskígildi (kíló) á leigkvóta var í dag um 318 kr./kg. þannig að það er eftir umtalsverðum fjármunum að slægjast fyrri sveitarfélögin ef frumvarpið verður að lögum og það mun jafnvel gera sum sveitarfélög og íbúa þeirra auðug, jafnvel þótt verðið lækki um 50% vegna aukins framboðs.

Hér fyrir neðan er greinargerðin sem fylgir frumvarpinu en hún skýrir umfang þess ágætlega.

Greinargerð.

Frumvarp þetta var áður lagt fram á 139. löggjafarþingi (þskj. 1510, 839. mál) en er nú lagt fram að nýju.  Markmið þessa frumvarps er að færa úthlutun á aflaheimildum úr sameiginlegum fiskveiðiauðlindum þjóðarinnar til þess horfs sem hún var í áður en framsal aflaheimilda kom til árið 1991, en fram að þeim tíma hafði úthlutunin byggst á veiðireynslu til margra ára og var því bæði sanngjörn og réttlát. Með frumvarpinu er einnig reynt að tryggja að aflaheimildir fari til þeirra byggða sem þeim var upprunalega úthlutað til. Miðað er við að aflahlutdeildin sé nýtt í viðkomandi sveitarfélagi. Þó er sveigjanleiki í nafni hagkvæmni tryggður þar sem aflahlutdeildin er framseljanleg þegar hagkvæmnisrök gefa tilefni til. Með því móti verður réttur íbúa sjávarbyggða á Íslandi til sjósóknar tryggður eins og verið hefur frá örófi alda sem eini raunverulegi grundvöllur tilvistar flestra þeirra.  Niðurstöður framangreindrar tilfærslu á aflaheimildum til sveitarfélaga heimfært á fiskveiðiárið 2010/2011, miðað við upphaflega úthlutaðan kvóta byggt á veiðireynslu, er sýnt sem dæmi í töflu hér fyrir aftan.

Skýrt er kveðið á um eignarhald þjóðarinnar á fiskistofnunum í kringum landið í fyrstu tveimur greinum laga um stjórn fiskveiða. Þar segir orðrétt:

1. gr.  Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.

2. gr.  Til nytjastofna samkvæmt lögum þessum teljast sjávardýr, svo og sjávargróður, sem nytjuð eru og kunna að verða nytjuð í íslenskri fiskveiðilandhelgi og sérlög gilda ekki um.  Til fiskveiðilandhelgi Íslands telst hafsvæðið frá fjöruborði að ytri mörkum efnahagslögsögu Íslands eins og hún er skilgreind í lögum nr. 41 1. júní 1979, um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn.

Frumvarp þetta tryggir að arður af nytjastofnum á Íslandsmiðum skili sér til réttmæts eiganda þeirra, íslensku þjóðarinnar. Upptaka uppboðskerfis við sölu aflaheimilda tryggir hámarksverð fyrir nýtingarrétt auðlindarinnar en þó eingöngu að því marki sem útgerðirnar geta borið. Frumvarpið gerir einnig ráð fyrir að hluta aflaheimilda megi selja framvirkt til allt að fimm ára í senn þannig að þeir sem hyggjast fjárfesta í útgerð geti gert ráð fyrir aðgengi að heimildum til lengri tíma en eins árs. Þá er sveigjanleiki tryggður með því að útgerðir utan viðkomandi sveitarfélaga geta keypt aflaheimildir gegn greiðslu 10% álags eða gjalds.

Með ákvæði um meðafla er stefnt að því að girða að mestu leyti fyrir brottkast afla. Þó væri æskilegast að settar yrðu skýrar og afdráttarlausar reglur sem alfarið banni brottkast afla gegn þungum viðurlögum.

Frumvarpið gerir ráð fyrir mikilli beinni atvinnusköpun vegna löndunar alls afla og sölu í gegnum innlenda uppboðsmarkaði í samræmi við ákvæði frumvarps til laga um sölu sjávarafla o.fl. frá 139. löggjafarþingi (þskj. 51, 50. mál) en þar segir m.a.:  „Allur sjávarafli, þó ekki rækja, humar og uppsjávarfiskur, sem veiddur er úr stofnum sem að hluta eða öllu leyti halda sig í efnahagslögsögu Íslands, skal seldur á innlendum uppboðsmarkaði sjávarafla er fengið hefur leyfi Fiskistofu. Heimilt er að selja afla í beinum viðskiptum í innlenda fiskvinnslu og skal þá verð milli útgerðar og fiskvinnslu ákvarðast af markaðsverði söludagsins eða síðasta þekkta markaðsverði á uppboðsmarkaði.     Heimilt er að selja fullunninn frystan afla utan innlends fiskmarkaðar skv. 12. gr. a. Til fullunnins frysts afla telst sjávarafli sem hefur verið veiddur og í kjölfarið unninn um borð í frystiskipi, honum pakkað og hann verið flakaður, flattur, sneiddur, roðdreginn, hakkaður eða verkaður á annan hátt og hann frystur að vinnslu lokinni. Þegar aðeins fer fram frysting um borð í frystiskipi á heilum eða hausskornum fiski eða heilfrysting á rækju telst slíkur afli ekki til fullunnins frysts afla í skilningi laga þessara.“  Þessi breyting ein sér mun að öllum líkindum leiða til um 800–1.000 nýrra starfa við fiskverkun með mjög litlum tilkostnaði á skömmum tíma.

Framsal aflaheimilda hefur leitt til gríðarlegrar byggðaröskunar víða um land og gert að engu eina bjargræði sjávarbyggða, sjósóknina, sem þær hafa notið í aldaraðir. Með því að taka lífsbjörgina af sjávarbyggðunum hefur öll afkoma og eignastaða íbúa á þessum stöðum raskast við atvinnuleysi, brottflutning og eignabruna. Með samþykkt þessa frumvarps mun sú þróun snúast við og fólksflótti af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins stöðvast og komið í veg fyrir þann gríðarlega samfélagslega tilkostnað sem slíkir hreppaflutningar hafa í för með sér.

Aukning á afla til strandveiða, sem hér eftir verða utan tillagna Hafrannsóknastofnunarinnar um heildarafla og standa yfir stærri hluta ársins en nú er, mun hafa umtalsverð áhrif á atvinnulíf um allt land. Auðlindagjald og strandveiðar munu og skila umtalsverðum tekjum til þeirra sveitarfélaga þar sem aflanum er landað.

Sá skaði sem útgerðir og núverandi handhafar aflaheimilda verða fyrir vegna missis aflaheimilda verður bættur með því að skuldir útgerða sem eru til komnar vegna kaupa á aflaheimildum verða færðar í sérstakan kvótaskuldasjóð. Skýrt er í lögum að aflahlutdeild útgerðar er ekki eign hennar og þær skuldir sem stofnað hefur verið til vegna kaupa á slíkum heimildum eru og hafa alltaf verið áhættulánveiting viðkomandi lánveitenda. Kvótaskuldasjóður verður greiddur niður með 5% gjaldi á allar seldar veiðiheimildir þar til sjóðurinn er að fullu upp gerður. Skuldir kvótaskuldasjóðs bera enga vexti.

Varðandi þá umræðu sem skapast hefur og lýtur að hugsanlegum brotum á eignarréttarákvæði stjórnarskrár skal tekið fram að um langa tíð hefur skýrt verið kveðið á um það í lögum að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu sameign þjóðarinnar. Þrátt fyrir að möguleiki sé á þeirri ólíklegu niðurstöðu dómstóla að ríkið væri skaðabótaskylt vegna innköllunar aflaheimilda eða annars þess sem leiðir af frumvarpi þessu, þá er engu að síður þess virði að þær breytingar sem hér eru lagðar til komist til framkvæmda. Betra er að þurfa hugsanlega að sæta slíkri niðurstöðu dómstóla en að búa áfram við óbreytt eða lítið breytt fyrirkomulag fiskveiða.

Í framhaldi af þeim breytingum á fiskveiðistjórnarkerfinu sem frumvarp þetta gerir ráð fyrir er brýnt að fram fari víðtæk og ítarleg úttekt á Hafrannsóknastofnuninni og veiðiráðgjöf hennar með tilliti til aðferðafræðilegra sjónarmiða. Þar verði einnig kannað hversu vel hefur tekist til með verndun fiskistofna, fiskimiða og lífríkis og uppbyggingu fiskistofna. Í þeirri úttekt er brýnt að fiskveiðar við Ísland verði skoðaðar heildstætt með tilliti til þess skaða sem þær hafa valdið á lífríkinu og lagt mat á hagkvæmni togveiða annars vegar og krókaveiða hins vegar. Slíka úttekt ættu hlutlausir erlendir aðilar að gera í samráði við sjómenn, íslenska fiskifræðinga og vistfræðinga.

 

Úthlutaður kvóti á sveitarfélög fiskveiðiárið 2010/2011 miðað við upprunalega úthlutun samkvæmt veiðireynslu á hverjum stað árið 1991.
Sveitarfélag
Þorskígildi (tonn)
Hlutfall af heild
Akranes 9.895 ,0 3,22%
Akureyri 22.986 ,3 7,47%
Árborg 3.733 ,9 1,21%
Árnaneshreppur 30 ,9 0,01%
Blönduósbær 2.158 ,5 0,70%
Bolungarvíkurkaupstaður 6.834 ,0 2,22%
Borgarbyggð 63 ,4 0,02%
Borgarfjarðarhreppur 338 ,6 0,11%
Breiðdalshreppur 1.016 ,1 0,33%
Dalabyggð 21 ,7 0,01%
Dalvíkurbyggð 8.574 ,9 2,79%
Djúpavogshreppur 1.976 ,6 0,64%
Fjallabyggð 12.742 ,2 4,14%
Fjarðabyggð 22.137 ,1 7,20%
Garður 2.965 ,1 0,96%
Garðabær 35 ,0 0,01%
Grindavík 17.953 ,9 5,84%
Grundarfjarðarbær 5.983 ,0 1,95%
Grýtubakkahreppur 1.707 ,5 0,56%
Hafnafjörður 10.967 ,5 3,57%
Hornafjörður 10.154 ,7 3,30%
Húnaþing vestra 848 ,4 0,28%
Ísafjarðarbær 20.633 ,2 6,71%
Kaldrananeshreppur 1.780 ,1 0,58%
Kópavogsbær 953 ,6 0,31%
Langanesbyggð 2.498 ,7 0,81%
Mýrdalshreppur 30 ,1 0,01%
Norðurþing 9.168 ,9 2,98%
Reykhólahreppur 217 ,5 0,07%
Reykjanesbær 11.475 ,4 3,73%
Reykjavík 23.782 ,6 7,73%
Sandgerði 5.459 ,3 1,77%
Seltjarnarnes 327 ,3 0,11%
Seyðisfjarðarkaupstaður 2.796 ,0 0,91%
Skagafjörður 6.159 ,8 2,00%
Skagaströnd 5.214 ,0 1,70%
Snæfellsbær 11.340 ,2 3,69%
Strandabyggð 3.170 ,5 1,03%
Stykkishólmsbær 5.205 ,2 1,69%
Súðarvíkurhreppur 3.400 ,5 1,11%
Svalbarðsstrandarhreppur 7 ,8 0,00%
Vestmannaeyjar 29.017 ,6 9,43%
Vesturbyggð 9.461 ,0 3,08%
Vogar 1.542 ,1 0,50%
Vopnafjarðarhreppur 2.197 ,4 0,71%
Ölfus 8.722 ,0 2,84%
Samtals 307.684 ,8 100%

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Þór Saari
Hagfræðingur með lýðræðis- og stjórnmálavitund sem gerir kröfu um virka þátttöku í samfélaginu.

Er í framboði fyrir Pírata í SV kjördæmi (kraganum). Er fyrrverandi þingmaður í SV kjördæmi (kraganum) fyrir Hreyfinguna (2009-2013) og er einnig í stjórn Samtaka um lýðræði og almannahag.
Netfangið er: saari@centrum.is
RSS straumur: RSS straumur