Þriðjudagur 06.03.2012 - 11:00 - FB ummæli ()

Að skilja ekki

Það hefur vakið athygli mína í fjölmiðlaumfjöllun um það voðaverk sem framið var á lögfræðistofu hér í bæ í gær þar sem starfsmaður var slasaður lífshættulega í morðtilraun, að flestir sem hafa tjáð sig segjast ekki skilja hvernig svona getur gerst.  Nú er það svo að framning á slíku voðaverki er okkur flestum sem betur fer óskiljanleg, þ.e. verknaðurinnn sjálfur og það sem þarf til þess að fremja hann.  Hitt er svo annað mál að það að slíkt skuli gerast í því ástandi sem hefur verið viðvarandi hér á landi undanfarin tæp fjögur er hreint ekki undarlegt eða óskiljanlegt.  Hér á landi hefur smátt og smátt verið að byggjast upp ákveðið ástand, ástand övæntingar, vonleysis og reiði sem hjá þúsundum manna er komið á hættulegt stig, ástand sem mun ef svo fer sem horfir, sennilega hafa áframhaldandi ofbeldi í för með sér.  Íslenskt samfélag samtímans hefur á sér yfirbragð samfélags þar sem meginstoðirnar eru grautfúnar, réttaríkið vafa undirorpið og stjórnvöld afskiptalaus og jafnvel vitlaus.  Samfélag þar sem ósanngirni, óréttlæti og jafnvel hrein glæpamennska viðgengst þar sem yfirvöld hafa gefist upp fyrir ástandi sem þau ráða ekki við vegna skilningsleysis, kjarkleysis og þvergirðingsháttar æðstu ráðamanna.  Slíkt samfélag mun fyrr eða síðar verða dómstól götunnar að bráð hvort sem mönnum líkar vetur eða verr.

Það fjárhagslega hrun sem varð hér olli þúsundum fjölskyldna miklum fjárhagslegum skaða, það hefur leitt til þess að þúsundir fjölkyldna hafa misst allt sitt, þúsundir fjölskyldna hafa þurft að yfirgefa landið og þúsundir fjölskyldna vita ekkert hvernig þeim mun reiða af fjárhagslega næstu árin og jafnvel áratugina.  Ótal fjölskyldur hafa splundrast og ótal manns hafa í örvæntingu tekið eigið líf og nú virðist sem nýjum „áfanga“ í ömurðinni hafi verið náð með morðtilraun á lögmanni í innheimtugeiranum.  Í þessu samhengi er tilgangslaust að benda á þá sem ekki skulda, þá sem hafa flutt til landsins og þá sem hafa samt haldið sjó.  Slíkur samanburður breytir engu fyrir hina sem fyrr voru upptaldir og þó að ríkisstjórnin haldi á lofti statistík með tölum um minnkandi halla á ríkissjóði, aðflutta í stað brottfluttra og fjölgun fæðinga þá breytir það heldur engu fyrir hina sem fyrr voru upp taldir.  Formaður lögmannafélagsins sagði orðrétt: „Maður skilur ekki hvað hefur gerst“ og í hádegisspjalli við nokkra þingmenn um málið þar sem ég taldi þessa þróun eðlilega í ljósi samhengisins voru viðbrögðin svipuð, þ.e. algert skilningsleysi, afneitun á samhenginu og síðan umræða í kjölfarið um að „þetta reiða fólk“ væri nú það fólk sem hefði tekið lán fyrir öllu, húsi, nýjum innréttingum sumarbústað, vélsleða og bíl.  Það að þykjast ekki skilja hvers vegna slíkir atburðir geta gerst er afneitun á háu stigi á ástandi sem verður að fara að koma böndum á.

Það er að sjálfsögðu alveg fráleitt að ætla að halda því fram að slíkt voðaverk eins og gerðist í gær sé einhverjum öðrum að kenna en tilræðismanninum.  Það á sér engu að síður rætur einhvers staðar og ég held að það séu fleiri en ég sem vita hvar þær rætur liggja og hverjar afleiðingarnar muni verða ef áfram er haldið á sömu braut.  Það sem gerist í svona stöðu og þegar fólk hefur verið boxað af alveg út í horn er að þá mun einhver fyrr eða síðar slá til baka.  Sá fyrsti sló til baka í síðustu viku, annar í gær og því miður sennilega fleiri á næstunni.  Í slíkri stöðu er ekki bara hægt að halda áfram að segja að þetta eða hitt sé „samkvæmt lögum.“ Það verður að gera meira, það verður að stöðva þennan bardaga yfirvalda og fjármálafyrirtækja gegn skuldugu fólki sem þrátt fyrri nýgenginn hæstaréttardóm sér í hag, fær áfram rukkun um afborgun af ólöglegu láni.  Slíkt flokkast sem fjárkúgun og mafíustarfsemi í nágrannalöndum okkar en hér á landi sitja stjórnvöld með hendur í skauti, horfa í hina áttina og tala um dómstóla, dómstóla þar sem hvorki meira né minna en 140 samskonar mál bíða úrlausnar.

Þessum bardaga verður að linna strax og dómarinn sem í þessum bardaga þarf að vera Alþingi þar sem framkvæmdavaldið hefur brugðist, verður að komast að niðurstöðu um, ekki hvort heldur hvernig réttlæti verður útdeilt til skuldugra heimila.  Réttlæti segi ég því eins og þegar hefur komið fram oft og mörgum sinnum þá urðu heimilin fyrir forsendubresti í lántökum sínum vegna aðgerða bankamanna og aðgerðarleysis ráðamanna.  Bankamanna sem eru sennilega nær því að vera glæpamenn en bankamenn og yfirvalda sem voru virðist óstarfhæf og sem spiluðu með vegna þess að allt gekk svo vel.  Það að halda áfram að rukka fólk um fulla greiðslu við slíkar aðstæður er slíkt hróplegt óréttlæti að engu tali tekur.

Voðaverk ber að fordæma og afsakanir gerenda með vísan til aðstæðna eru heldur ekki gildar, á þeim voðaverkum bera gerendur sjálfir einir alla ábyrgð.  Slík verk eiga sér hins vegar eins og önnur verk rætur einhversstaðar og þau má útskýra með vísan til aðstæðna.  Þeim aðstæðum sem hér um ræðir bera einhverjir ábyrgð á.  Það sem skiptir hins vegar mestu máli er að það er á ábyrgð okkar allra, þingmanna og annarra borgara samfélagsins að laga þessar aðstæður.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Þór Saari
Hagfræðingur með lýðræðis- og stjórnmálavitund sem gerir kröfu um virka þátttöku í samfélaginu.

Er í framboði fyrir Pírata í SV kjördæmi (kraganum). Er fyrrverandi þingmaður í SV kjördæmi (kraganum) fyrir Hreyfinguna (2009-2013) og er einnig í stjórn Samtaka um lýðræði og almannahag.
Netfangið er: saari@centrum.is
RSS straumur: RSS straumur