Eins og glöggt má sjá á stöðu Landsspítalans þessa dagana er að rætast sá spádómur að heilbrigðiskerfi landsins yrði að hruni komið vegna niðurskurðar innan tiltekins tíma frá hruninu. Eins og staðan er í dag og ef áfram heldur á sömu braut næstu sex mánuði, mun það ekki eiga sér viðreisnar von þrátt fyrir stóraukin fjárframlög, nema þá kannski á mjög löngum tíma.
Sú hugmyndafræði ríkisstjórnar Samfylkingar og VG með stuðningi AGS að hægt yrði að koma á jafnvægi með blandaðri leið niðurskurðar og skattahækkana hefur ekki gengið upp og að mati þess er þetta ritar gat aldrei gengið upp. Það var augljóst strax eftir Hrunið að skuldastaða ríkissjóðs yrði slík að ekki yrði við ráðið og að skuldirnar væru það sem kallað er á fagmáli ósjálfbærar. Þetta átti ekki bara við um skuldir ríkissjóðs heldur einnig sveitarfélaga, heimila og fyrirtækja, skuldir sem höfðu blásið út vegna verð- eða gengistryggingar sem gerði það að verkum að skuldirnar urðu ekki í neinu samræmi við mögulegan efnahagslegan raunveruleika.
Á það var bent af mörgum að þótt það næðist jafnvægi í ríkisfjármálum yrði það eingöngu með stórfelldum niðurskurði þeirra stoðkerfa sem gera okkur að nútímalegu landi með góðum samgöngum, samskiptatækni, mennta- heilbrigðis- og velferðarkerfi. Slíkur niðurskurður yrði of kostnaðarsamur þar sem hann myndi leiða til niðurbrots á starfsemi og brottflutnings sérfræðinga með afleiðingum sem ekki væri fyrir séð hverjar yrðu. Vaxtakostnaður ríkissjóðs upp á um 90 milljarða á ári eða nærri 20% af tekjum yrði allt of mikill til að undir yrði staðið. Því hlyti eina raunhæfa lausnin að liggja í samningum við skuldunauta um umtalsverðar afskriftir eða hagstæðari endurgreiðslur á lánum hins opinbera.
Viðhorf stjórnvalda og AGS til þessa var alla tíð neikvætt og ríkisstjórnin boðaði hörmungar og hefndaraðgerðir af hálfu skuldunauta ef farið yrði þá leið, þótt hún sé algeng og eigi sér stað einhvers staðar í heiminum á hverju ári. Nei, frekar skyldi böðlast áfram með auknum álögum sem nú hafa knésett heimilin og fyrirtækin og með niðusrskurði sem hafa eyðilagt vegi, stefnt heilbrigðiskerfinu í mikla hættu og skaðað velferðar- og menntakerfið.
Málið snýst nefnilega um miklu meira en einhverja einfalda launhækkun eins og uppsagnir á þriðja hundrað hjúkrunarfræðinga á Landsspítalanum sýnir. Áralangur niðurskurður hefur leitt til vinnumórals sem komin er á hættustig og álag á starfsfólk veldur því að það bara gefst upp og hættir þrátt fyrir boð um jafnvel umtalsverðar launahækkanir. Læknar, hjúkrunarfræðingar, geislafræðingar, meinatæknar, sjúkraliðar og sjálfsagt fleiri, allt hæft, duglegt og samviskusamt fólk eins og allir vita sem hingað til hafa kynnst heilbrigðiskerfinu, er einfaldlega búið að fá nóg og búið að missa trúna á að framtíðin beri bjartari daga í för með sér. Það er nefnilega einnig líka búið að stórskemma starfsumhverfi þessa fólks og það er ekki bætt með einum launaflokki upp á við.
Hér er ekki við forstjóra og stjórnendur Landspítalans eða annarra heilbrigðisstofnana að sakast heldur mistæka stjórnmálamenn sem virðast ekki geta tekið á vandanum af því raunsæi og þeim kjarki sem þarf. Meðalmennska þeirra, falin bak við tillögur AGS og íslenskra embættismanna er hjákátleg og vanhæfni þeirra til að sjá stóru myndina og bregðast við henni er hrópandi.
Það er alveg augljóst að hinn helmingurinn af Fjórflokknum, Framsóknar- og Sjálfstæðisflokkur, munu ekki heldur bjóða upp á neinar raunhæfar lausnir á skuldavandanum enda ekkert annað en pólitískir armar sérhagsmunafla á Alþingi sem munu hiklaust gjalda sínum sitt þótt af skattfé landsmanna sé tekið.
Það er því brýn þörf fyrir aðkomu nýs fólks að stjórn landsins. Fólks með ferska og hugrakka sýn á vandann og hvernig á að leysa hann. Sem betur fer er stutt í kosningar og þar verður af nógu að taka hvað valkosti við Fjórflokkinn varðar. Það er hins vegar á valdi kjósenda að velja. Munu þeir versla aftur við kaupmanninn sem seldi þeim skemmdan mat, jafnvel ár eftir ár, eða munu þeir treysta nýju fólki með aðra og betri vitund um samfélag, stjórnmál og siðferði? Það kemur í ljós.
Þór Saari
Höfundur er þingmaður Hreyfingarinnar og í framboði fyrir Dögun í kosningunum á Apríl.
Nýlegar athugasemdir