Á fundi með formönnum Samfylkingarinnar og Vinstri-grænna síðastliðinn fimmtudag lögðu þingmenn Hreyfingarinnar fram sáttaboð til að leysa þann hnút sem stjórnarskrármálið var komið í í meðförum Alþingis.
Sáttaboðið laut að því að auk breytinga á 79. grein stjórnarskrárinnar sem gert er ráð fyrir í frumvarpi formanna stjórnarflokkana og Guðmundar Steingrímssonar verði að auki afgreiddar þær greinar sem almenningur greiddi beint atkvæði um í þjóðaratkvæðagreiðslunni þann 20. október síðast liðinn. Þetta eru grein 35 um náttúruauðlindir, grein 40 um Alþingiskosningar (persónukjör og jafnt vægi atkvæða) og greinar 66 til 68 um beint lýðræði (greinarnar eru tölusettar í samræmi við fylgiskjal I í þingskjali 1111).
Gegn þessu yrði breytingartillaga Margrétar Tryggvadóttur dregin til baka og stuðningur okkar við lúkningu málsins á Alþingi tryggður.
Tillaga þessi var rædd á fundum um helgina og í gær kom í ljós að ekki var vilji til samkomulags á þessum grundvelli af hálfu Samfylkingar, Vinstri-grænna og Bjartrar framtíðar.
Það er því augljóst að það er enginn vilji til þess af hálfu þessara aðila að klára stjórnarskrármálið, ekki einu sinni þær fáu spurningar sem þjóðin var spurð beint um og samþykkti allar og flestar með yfirgnæfandi meirihluta. Samfylkingin, Vinstri-græn og Björt (svört) framtíð hafa nú rækilega afhjúpað viðhorf sitt til þjóðarinnar, þjóðaratkvæðagreiðslna og lýðræðislegrar niðurstöðu mála. Vonandi gera kjósendur sér grein fyrir hvað þetta þýðir og hvað það er mikilvægt að gleyma þessu ekki í komandi kosningum.
Nýlegar athugasemdir