Mánudagur 18.11.2013 - 08:15 - FB ummæli ()

Hreyfingin hættir

Á landsfundi Hreyfingarinnar nú á laugardag var samþykkt einróma að Hreyfingin skyldi lögð niður. Þetta er í samræmi við samþykktir hennar og það sem var lagt upp með á sínum tíma þegar Borgarahreyfingin var stofnuð. Sjálfur hafði ég aldrei ætlað mér starf í stjórmálum en aðstæður, atvik og röð tilviljana gerðu það að verkum að ég varð þingmaður. Þetta var áhugaverður tími og ég þakka öllu samferðafólkinu kynnin, líka þeim sem ég varð viðskila við á leiðinni. Hér fyrir neðan er yfirlýsing frá landsfundinum sem send var á fjölmiðla í dag.

Takk fyrir mig.

FRÉTTATILKYNNING FRÁ HREYFINGUNNI

Hreyfingin lögð niður

Á landsfundi Hreyfingarinnar þann 16. nóvember var samþykkt einróma að Hreyfingin skyldi lögð niður í samræmi við 1. grein í kaflanum um félagsslit í samþykktum Hreyfingarinnar, en þar segir:

Þegar markmiðum Hreyfingarinnar er náð eða augljóst er að þeim verði ekki náð mun Hreyfingin hætta starfsemi og hún lögð niður.“

Hreyfingin á rætur sínar í Borgarahreyfingunni sem var stofnuð sem róttækt umbótaafl í íslenskum stjórnmálum í aðdraganda kosninganna árið 2009 og starfaði Hreyfingin ætíð í þeim anda. Hreyfingin hafnaði styrktarfé frá lögaðilum, hafði engan formann og notaðist við samhljóða (consensus) ákvörðunartöku í starfi sínu. Hreyfingin tók afstöðu til allra mála á þeirra eigin forsendum og hafnaði gamalgróinni hefð flokksátaka Fjórflokksins.

Í aðdraganda síðustu Alþingiskosninga beitti Hreyfingin sér fyrir stofnun breiðfylkingar gegn ríkjandi stjórnmálaumhverfi og bauð fram undir merkjum Dögunar. Úrslit kosninganna eru öllum kunn og Fjórflokkurinn hefur hér enn öll völd.

Hreyfingin óskar þjóðinni velfarnaðar með þá framtíðarsýn sem hún valdi sér í kosningunum en er enn þeirrar skoðunar að eina leið íslensks samfélags og stjórnmála úr því öngstræti sem við erum föst í sé með nýju stjórnaskránni sem var samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu þann 20. október 2012. Sú stjórnarskrá er raunveruleg stjórnarskrá íslensku þjóðarinnar, stjórnarskrá sem hún hefur sjálf samið og samþykkt. Höfnun Fjórflokksins á Alþingi á lýðræðislegri niðurstöðu þjóðaratkvæðgreiðslunnar er því ekkert annað en hreint og klárt valdarán pólitískrar yfirstéttar í landinu.

Hreyfingin þakkar öllu samferðafólki fyrir undanfarin ár og hvetur til áframhaldandi andófs.

Lýðræði er samræða um val – Flokksræði er samráð um völd

 

Erindi úr Heimsósómakvæði

Töpuð er trúin og baráttan búin í byltingarflokki
velferðarbrúin er brotin og fúin og brestir í stokki,
þjóðin er lúin og framseld og flúin og flestir í sjokki,
hrakin og snúin og hamingju rúin í helvítis fokki.

Bjarki Karlsson, Árleysi alda 2013

 

Hreyfingin, 18. nóvember 2013

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Þór Saari
Hagfræðingur með lýðræðis- og stjórnmálavitund sem gerir kröfu um virka þátttöku í samfélaginu.

Er í framboði fyrir Pírata í SV kjördæmi (kraganum). Er fyrrverandi þingmaður í SV kjördæmi (kraganum) fyrir Hreyfinguna (2009-2013) og er einnig í stjórn Samtaka um lýðræði og almannahag.
Netfangið er: saari@centrum.is
RSS straumur: RSS straumur