Laugardagur 30.11.2013 - 13:34 - FB ummæli ()

Skuldaleiðréttingar, 250 milljarðar?

Í allri umræðunni um væntanlegar skuldaleiðréttingar hefur ekki farið mikið fyrir því hvaða upphæðir er um að ræða enda um leynilega vinnu að ræða. Þó hefur á síðustu tveimur dögum tölunni 130 milljarðar verið velt upp og ekki er óeðlilegt miðað við það stjórnmálaumhverfi sem við búum við að þeirri tölu hafi verið lekið skipulega sem einhvers konar „tester“. Þessi tala ef rétt er, er langt í frá nægileg upphæð til þess að leiðrétta þann mikla forsendubrest sem varð við Hrunið.

Miðað við mikilvægi málsins er rétt að minna á að fjölmörgum tillögum hefur verið velt upp undfanfarin fimm ár, formlegum sem óformlegum og þar á meðal eru tillögur Hreyfingarinnar sem voru vandaðar og komu fram a.m.k. tvisvar sinnum sem formleg tillaga til þingsályktunar á Alþingi, síðast sem þingmál númer 5 á haustþinginu 2012.

Í þeim tölum sem eru vel rökstuddar og eru staðfestar af færustu sérfræðingum kemur fram að frá áramótum 2007/2008 og fram að lokum 2. ársfjórðungs 2012 höfðu eftirstöðvar verðtryggðra fasteignaskulda íslenskra heimila hækkað um 384 milljarða eða um 38% vegna hækkunar á vísitölu neysluverðs. Sem grundvöll að tölu sem nothæf væri vegna forsendubrests og til að allrar sanngirni væri gætt var verðbólgumarkmið Seðlabankans dregið frá þeirri tölu og niðurstaðan varð 275,9 milljarðar. Þetta þýddi um 23% lækkun á skuldum. Einnig var leiðrétt fyrir þeim lækkunum sem þegar var búið að veita og eins og upplýsingar lágu fyrir um og niðurstaðan varð að forsendubresturinn sem lækka þyrfti skuldir heimilanna um væri um 250 milljarða.

Frekari rökstuðningur við fyrirbærið forsendubrest má sjá í tillögunni í heild  hér  en þar segir meðal annars þetta:  „Hækkun þessi er til komin vegna hruns bankakerfisins og gengisfalls krónunnar, atburða sem ekki voru fyrirsjáanlegir lántakendum sem byggðu lántökur sínar á upplýsingum frá fjármálafyrirtækjum og úr fjölmiðlum en ekki síst frá ráðamönnum þjóðarinnar sem alveg fram á síðustu daga fyrir hrunið staðhæfðu að engin hætta væri í aðsigi.“

Þessi tala, 250 milljarðar eða þar um bil er sú sem sanngjarnt er að verði leiðrétt og felld niður miðað við þær forsendur sem fram hafa verið settar og voru ekki einu sinni hraktar af hagfræðingi ríkisstjórnarinnar á sínum tíma. Það verður því áhugavert að sjá hvað kosningaloforð Framsóknarflokksins ná langt. Hvort skuldaleiðréttingnn verðu alvöru eða bara í plati. Vonandi, heimilanna vegna verður það fyrra upp á teningnum.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Þór Saari
Hagfræðingur með lýðræðis- og stjórnmálavitund sem gerir kröfu um virka þátttöku í samfélaginu.

Er í framboði fyrir Pírata í SV kjördæmi (kraganum). Er fyrrverandi þingmaður í SV kjördæmi (kraganum) fyrir Hreyfinguna (2009-2013) og er einnig í stjórn Samtaka um lýðræði og almannahag.
Netfangið er: saari@centrum.is
RSS straumur: RSS straumur