Laugardagur 22.02.2014 - 14:44 - FB ummæli ()

Verslunarleiðangur eða svik.

Afstaða Sjálfstæðisflokksins í ESB málinu og sinnaskipti hans frá landsfundi og kosningabaráttu virka út á við sem svik við stofnanir flokksins, landsfund hans, almenna félagsmenn og kjósendur og eru það svo sannarlega. Það þarf þó ekki að skyggnast langt undir yfirborð íslenskra stjórnmála til að átta sig á að þessi sinnaskipti eru að sjálfsögðu ekki annað en enn einn verslunarleiðangurinn hjá íslenskum stjórnmálaflokki þar sem stefnumálin eru seld á markaðstorgi sérhagsmunana sem raunverulega ráða för í flokknum. Þessi sinnaskipti geta orðið Sjálfstæðisflokknum sem stjórnmálaafli dýru verði keypt og því verður það athyglisvert að sjá hvað Framsóknarflokkurinn reiðir fram í staðinn fyrir stuðninginn fyrir slit viðræðna við ESB. Þó að vissulega hafi þröngsýn einangrunarhyggja og forpokuð afturhaldssjónarmið Framsóknarflokksins ráðið för í þessu máli hefði það aldei gerst nema yfirstétt Sjálfstæðisflokksins fengi eitthvað í staðinn. Það verður örugglega engin smávegis þóknun og þar koma fyrst upp í hugann auðlindirnar, þ.e. kvótinn og orkugeirinn en einnig er líklegt að afnám gjaldeyrishaftanna verði drullumixað til að fjármagnseigendur Sjálfstæðisflokksins komist með milljarðana úr landi.

Það sorglega er að þarna er í enn einu málinu verið að fórna langtímahagsmunum þjóðarinnar þar sem firring og spilling í yfirstétt Sjálfstæðisflokksins á undanförnum árum hefur ekki aðeins eyðilagt trúverðugleika Íslands vestan hafs heldur er einnig litið á Ísland sem einhvers konar skrípaútgáfu af þjóðríki í Evrópu líka. Sjálfstæðismenn sjálfir verða svo einnig að una við það að langtímahagsmunum flokksins sem trúverðugu stjórnmaálafli hefur verið fórnað.

Sic transit gloria mundi.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Þór Saari
Hagfræðingur með lýðræðis- og stjórnmálavitund sem gerir kröfu um virka þátttöku í samfélaginu.

Er í framboði fyrir Pírata í SV kjördæmi (kraganum). Er fyrrverandi þingmaður í SV kjördæmi (kraganum) fyrir Hreyfinguna (2009-2013) og er einnig í stjórn Samtaka um lýðræði og almannahag.
Netfangið er: saari@centrum.is
RSS straumur: RSS straumur