Þar kom að því að einhverju mesta réttlætismáli lýðveldistímans er loks lokið, fjármagninu í hag, með samþykkt frumvarps um leiðréttingar á skuldum heimilanna. Það er þó ekki öll sagan sögð því enn einu hefur hinni pólitísku stétt tekist að svíkja nánast fullkomlega gefið kosningaloforð, kosningaloforð sem beinlínis varð til þess að Framsóknarflokkurinn fékk það fylgi í kosningunum sem fleytti honum í ríkisstjórn.
Skuldaleiðréttingamálið er orðið ansi gamalt og er einnig skínandi skýrt dæmi um hvernig stjórnvöld á hverjum tíma hafa algerleg hunsað almannahagsmuni og látið sérhagsmuni eða flokkshagsmuni ganga fyrir. Það má segja að þetta hafi byrjað þegar starfshópur undir stjórn Gylfa Arnbjörnssonar forseta ASÍ (jú þess félags hverjir félagsmenn greiða honum laun og er ætlað að gæta hagsmuna þeirra) hafnaði því að taka vísitölu verðtryggingar úr sambandi vegna hruns á gengi krónunnar, jafnvel þótt vitað væri að það myndi lenda mjög þungt á heimilum landsins og setja þúsundir þeirra í þrot. Þar tók ASÍ og formaður þess afgerandi stöðu með fjármagninu og gegn hagsmunum eigin félagsmanna.
Svo varð hér Hrun, hvað svo sem Sjálfstæðismenn segja. Þetta Hrun leiddi til þess að verðtryggð fasteignaveðlán íslenskra heimila hækkuðu um 384 milljarða vegna verðtryggingarinnar eingöngu, á tímabilinu janúar 2008 til júní 2012. Já, 384 milljarða. Skuldaaukningu sem má skrifa á Geir Haarde og ríkisstjórn hans og aðgerðaleysi hennar sem og aðgerðarleysi starfshópsins sem Gylfi Arnbjörnsson fór fyrir.
Það sem er þó ekki síður alvarlegt og jafnvel alvarlegast er að í ársbyrjun 2008 vissu stjórnvöld að íslenska bankakerfið myndi hrynja fljótlega og eins og fram kemur í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis þá var m.a. fjallað um þetta komandi Hrun á tveimur fundum í þingflokki Samfylkingarinnar í febrúar það ár. Ekki þarf að efast um að þingmenn Sjálfstæðisflokksins vissu einnig hvert stefndi. Þrátt fyrir þessa vitneskju þá ákváðu þingmenn að hylma yfir veruleikann og aðvöruðu ekki almenning heldur héldu málinu leyndu. Og ekki bara það heldur fóru ráðherrar ríkisstjórnarinnar í mikla áróðursherferð fyrir stöndugu fjármálakerfi og beinlínis lugu að þjóðinni um ástandið. Ekki nóg með það heldur var einnig lagst í mikla herferð til nágrannalandanna til að breiða út sömu blekkingu.
Það hefur því verið ótrúlegt að horfa upp á íslenska stjórnmálamenn hvar í flokki sem þeir standa reyna að komast hjá því að standa skil gerða sinna og koma sér hjá því að berjast fyrir þessari sjálfsögðu leiðréttingu sem þeir ásamt bankakerfinu bera ábyrgð á. Síðasta ríkisstjórn einfaldlega hafnaði því enda Samfylkingin þar með að viðurkenna að hún átti stóran þátt í því hvernig fór og VG virtust haldnir einhvers konar eðlilslægu hatri á þeim sem höfðu tekið fasteignaveðlán og töluðu sífellt um flatskjái og tjaldvagna. Sjálfstæðisflokkurinn vildi að sjálfsögðu heldur ekkert af málinu vita enda bar hann beina ábyrgð á því hvernig fór.
Þar sem það var eitt af höfuðstefnumálum Borgarahreyfingarinnar (síðar Hreyfingarinnar) að skuldir heimilanna vegna Hrunsins yrðu leiðréttar koma það í okkar hlut að berjast fyrir málinu á þingi og þótt þingmenn Framsóknarflokks töluðu einnig mikið um málið varð minna um beinar tillögur. Við þingmenn Hreyfingarinnar fluttum þingsályktunartillögu um málið á tveimur þingum, 2011-2012 og 2012-2013. Með Höskuldi Þórhallssyni í fyrra skiptið en ein í seinna skiptið. Í þeim tillögum kom skýrt fram hver sanngjörn leiðrétting væri og var upphæðin alls um 250 milljarðar þegar dregnar höfðu verið frá verðbætur samkvæmt 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans yfir tímabilið. Þessi upphæð var fengin með aðstoð færustu sérfræðinga og stóðst fyllilega allar skoðanir og gagnrýni.
Hugmynd okkar var að dreifa kostnaðinum við þessa niðurfærslu sem víðast og til 25 ára. Þar kæmi inn sérstakur tímabundinn eignaskattur á eignir innlánsstofnana og á eignir lífeyrissjóða, sérstakt tímabundið vaxtaálag á öll fasteignaveðlán og svokallaðar eltandi vaxtabætur sem komu út hlutlaust kostnaðarlega fyrir ríkissjóð. Þessi niðurfærsla nam 22,7% af eftirstöðvum fasteignaveðlána eins og þau stóðu í júní 2012 og hefði haft afgerandi áhrif á stöðu heimilanna til hins betra sem og að starta af krafti efnahagslífinu með minni skuldabyrði og meiri tekjuafgangi heimilanna. Tillagan fór til nefndar í bæði skiptin og var svæfð þar af meirihluta Samfylkingar og VG.
Nú hefur „Móðir allra kosningaloforða“ verið svikið og heimsmet Framsóknarflokksins í skuldaleiðréttingum er ekki neitt neitt þegar upp er staðið. 80 milljarðar í stað 250 og kostnaðurinn er skattborgara. Forsætisráðherra og Framsóknarflokkurinn hafa ekki staðið við það sem var lofað og þingmenn Sjálfstæðisflokksins standa hlæjandi á hliðarlínunni hafandi bjargað fjármagnseigendum frá kostnaði eina ferðina enn. Og báðir flokkar fá valdastóla að launum.
Þingmenn Samfylkingar, VG og „Bjartrar“ framtíðar hafa svo verið iðnir við að afvegaleiða umræðuna um málið, vita upp á sig skömmina en þora ekki að gangast við því að hafa svikið almenning um mesta réttlætis og sanngirnismál lýðveldissögunnar.
Í þessu máli kristallast allt það ógeðslegasta í íslenskum stjórnmálum þegar kemur að almannahagsmunum. Allir snúa sér undan, allir svíkja, allir hafna ábyrgð og eftir stendur almenningur með þykjustu leiðréttingu sem menn borga fyrir sjálfir, og svo siðlaus stjórnmálastétt sem hreykir sér af afrekum sínum.
Fleyg orð Styrmis Gunnarssonar eiga því við hér eins vel og í flest öllu öðru sem íslensk stjórnmaálstétt hefur komið að. „Ég er búinn að fylgjst með þessu þjóðfélagi í 50 ár. Þetta er ógeðslegt þjóðfélag, þetta er allt ógeðslegt. Það eru engin prinsipp, það eru engar hugsjónir, það er ekki neitt. Það er bara tækifærismennska, valdabarátta.“
Hér er svo tengill á tillögur okkar í Hreyfingunni:
http://www.althingi.is/altext/141/s/pdf/0005.pdf
Nýlegar athugasemdir