Sunnudagur 02.10.2016 - 15:39 - FB ummæli ()

Píratar og aldraðir

Grein þessi birtist í Kjarnanum í gær, sjá hér: http://kjarninn.is/skodun/2016-10-01-piratar-og-aldradir

Píratar, þrátt fyrir að vera að mörgu leyti hreyfing ungs fólks, hafa á að skipa mörgum liðsmönnum sem komnir eru yfir miðjan aldur, fólki sem hefur skilning, þekkingu og áhuga á þeim málum sem helst brenna á fólki á síðari hluta æviskeiðsins.
Augljóst er hverjum sem sjá vill, að málefni aldraðra og eftirlaunaþega hafa beðið skipbrot í meðförum hinna hefðbundnu flokka á Alþingi, flokka sem almennt ganga undir nafninu Fjórflokkurinn, vegna sameiginlegrar vanhæfni til að sinna málefnum almennings af alvöru. Fyrir utan það að búa við alvarlegan skort á hjúkrunarheimilum, þar sem komið er fram við vistmenn af alúð og virðingu og þar sem makar geta dvalið saman, þá eru kjör þeirra sem komin eru á efri ár og hættir að vinna, orðin skammarleg.

Píratar kalla eftir því að skerðingar á eftirlaunum verði lagðar af þegar í stað, þannig að allir fái þá grunnframfærslu sem kveðið er á um í lögum um almannatryggingar, burtséð frá því hvort viðkomandi hefur greitt í lífeyrissjóð og fái greiðslur þaðan. Þetta er réttlætismál vegna þess að við núverandi kerfi skerðinga þá eru uppsöfnuð lífeyrisréttindi ekkert annað en skattheimta á ská, því í fjölmörgum tilfellum fá þeir sem greitt hafa af launum sínum í lífeyrissjóð ekkert út úr almannatryggingum, og eru oft á sama báti og þeir sem aldrei hafa greitt í lífeyrissjóð.

Stóra vandamálið er þó það að lífeyrissjóðakerfið er hrunið og stendur ekki og hefur aldrei staðið undir þeim væntingum sem til þess voru gerðar. Svona uppsöfnunarkerfi sem gerir ráð fyrir greiddum lífeyri fjörtíu ár fram í tímann, samhliða því að vera galopið í annan endann hvað tímalengd greiðslna varðar, getur ekki gengið upp. Nýjasta dæmið, 480 milljarða tap lífeyrissjóðanna i Hruninu, er staðfesting á því.

Söfnunarsjóðskerfi sem þetta, með þeim formerkjum sem við búum við hér á landi með krónu, verðbólgu, óstöðugleika og spillingu, er gagnslaust sem einhvers konar fyrirkomulag til að tryggja öldruðum áhyggjulaust ævikvöld. Samskonar kerfum er oft lýst sem svo að þau gagnist fyrst og fremst sem púlía fyrir peningamenn, risastór pottur fjármuna fyrir fjármgansbraskara til að leika sér að, enda hafa braskarar, í gegnum hina ýmsu fjárfestingasjóði verið duglegir að fá lífeyrissjóðina til að leggja með sér í púkkið. Þetta tekst þeim vegna þess að stjórnir lífeyrissjóðanna eru að meirihluta skipaðar atvinnurekendum sem jafnframt eru þessi sömu fjárfestar eða tengdir þeim. Þessu kerfið þarf að gjörbreyta. Stjórnir lífeyrissjóða þarf að kjósa beint af félagsmönnum og til að gæta hagsmuna sjóðfélaga eingöngu. Einnig þarf að styrkja laga- og reglugerðaumhverfið svo að lífeyrissjóðunum verði bannað að vera í samkrulli við aðra í fjárfestingum sínum.

En aðalatriðið er samt að aldrei verður hægt að koma hér á stöðugu, trúverðugu kerfi fyrr en hægt er að gera raunhæfar áætlanir um fjárþörf lífeyrissjóðanna til útgreiðslu lífeyris og það er ekki hægt öðruvísi en með því að loka kerfinu í annan endan hvað útgreiðslur varðar. Jafnframt því tryggja að eftirlaunaþegar geti búið við örugg og góð kjör í ellini. Með því að takmarka þann tíma sem fólk fær greitt úr lífeyrissjóði mætti hækka þær lífeyrisgreiðslur umtalsvert og tryggja að fyrsta áratuginn eða svo, að lokinn starfsævi, hefði fólk nægt fé á milli handanna til að njóta lífsins með sóma og gæti þannig varið þessum mikilvæga áfanga í lífinu í áhugamálin, án þess að þurfa að velta fyrir sér hverri krónu. Að þessu tímabili loknu, og lengd þess er útfærsluatriði en tíu til fimmtán ár sýnist raunhæft, héldi viðkomandi áfram að fá greiðslur úr almannatryggingum en greiðslur úr líferyissjóði legðust af.

Eins og gengur er fólk misjafnlega vel á sig komið þegar aldurinn færist yfir. Þó má gefa sér að fyrstu tíu til fimtán árin að lokinni starfsævi, sé fólk tiltölulega vel rólfært til ferðalaga eða annars sem hugurinn stendur til. Síðan tekur við tímabil þar sem lúin bein og vöðvar þreytast meir og staðbundnari áhugamál taka við og þó heilsan sé misjöfn má í flestum tilfellum reikna með að þá sé fjárþörfin einfaldlega umtalsvert minni. Þannig væri hægt að tryggja sæmilega góðar tekjur til aldraðra þann tíma eftirlaunaáranna sem heilsan er best.

Annar hluti af nýju kerfi fyrir aldraða væri svo að byggja nægilega mikið af leiguíbúðum sem þeir hefðu aðgang að eins lengi og þörf krefur gegn hóflegri leigu- og með ákveðinni tiltekinni þjónustu. Slíkt myndi gera fólki kleift að selja eigið húsnæði sé það fyrir hendi og njóta þeirra ávaxta líka, til hvers þess sem fólk vildi, án þess að vera fórnarlömb okurleigu í svo kölluðum þjónustuíbúðum sem reknar eru í dag.

Slík umbreyting sem hér er talað fyrir er róttæk en skynsöm. Hún þarf að vera vandlega ígrunduð og kallar á vandaða útreikninga hlutlausra aðila, aðila sem bera fyrst og fremst hag almennings fyrir brjósti en eru ekki leiksoppar fjármagnsafla.

Helsta áherslumál Pírata er nýja stjórnarskráin og sú áhersla er meðal annars til komin vegna sífelldra loforðasvika stjórnmálamanna. Með nýrri stjórnarskrá getur allur almenningur og þar með einnig eldri borgarar, krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um hagsmunamál sín með undirskiftasöfnun. Þannig og þannig eingöngu er hægt að veita sitjandi stjórnvöldum hvers tíma aðhald og tryggja að almannahagsmunir verði í fyrirrúmi. Þess vegna eiga aldraðir samleið með Pírötum.

Að lokum læt ég fylgja með fimm helstu markmið Pírata fyrir næsta kjörtímabil en þau eru:
1. Uppfæra Ísland með nýrri stjórnarskrá.
2. Tryggja réttláta dreifingu arðs af auðlindum.
3. Endurreisa gjaldfrjálsa heilbrigðisþjónustu.
4. Efla aðkomu almennings að ákvarðanatöku.
5. Endurvekja traust og tækla spillingu.

Komist Píratar til valda mun ég tala fyrir þessum áherslum.

Þór Saari.
Höfundur er hagfræðingur, fyrrverandi
alþingismaður og í framboði fyrir Pírata.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Þór Saari
Hagfræðingur með lýðræðis- og stjórnmálavitund sem gerir kröfu um virka þátttöku í samfélaginu.

Er í framboði fyrir Pírata í SV kjördæmi (kraganum). Er fyrrverandi þingmaður í SV kjördæmi (kraganum) fyrir Hreyfinguna (2009-2013) og er einnig í stjórn Samtaka um lýðræði og almannahag.
Netfangið er: saari@centrum.is
RSS straumur: RSS straumur