Meðfylgjandi eru innsendar athugasemdir mínar við frumvarpsdrög stjórnarskrárnefndar Fjórflokksins.
Athugasemdir við frumvarpsdrög stjórnarskrárnefndar.
Almenn athugasemd.
Undirritaður gerir alvarlegar athugasemdir við öll frumvarpsdrögin þrjú sem og það athæfi yfir höfuð að skipa stjórnarskrárnefnd þar sem þegar liggur fyrir samþykki yfirgnæfandi meirihluta kjósenda í löglega boðaðri þjóðaratkvæðagreiðslu þann 20. október 2012 þar sem 2/3 hlutar kjósenda lýstu sig fylgjandi tillögum að nýrri stjórnarskrá sem þjóðkjörið stjórnlagaráð hafði samið. Það stjórnlagaráð (þá stjórnlagaþing) hafði verið kjörið í allherjaratkvæðagreiðslu almennings þann 27. nóvember 2011 og skilaði af sér fullbúnum tillögum að nýrri stjórnarskrá fyrir Lýðveldið Ísland í sem var í samræmi við vilja almennings sem og Alþingis.
Það hefur ALDREI GERST í sögu vestrænna lýðræðisríkja að þjóðaratkvæðagreiðsla hafi verið hunsuð með þeim hætti sem meirihluti Alþingis gerði vorið 2013 og hefur þeim verknaði þingsins verið lýst sem hreinu og kláru valdaráni, sem hlýtur að teljast rétt styðji menn almennt þá hugmynd að í lýðræðisríki komið valdið frá almenningi.
Þessi niðurstaða nefndarinnar er því illskiljanleg með tilliti til almennra lýðræðissjónarmiða þar sem þegar liggur fyrir niðurstaða þjóðaratkvæðagreislu um þessi þrjú atriði. Niðurstaða nefndarinnar er af sömu ástæðu illskiljanleg með tilliti til hugmyndarinnar um fullveldi þjóðar þar sem allt vald í lýðræðisríki kemur frá þjóðinni og vekur upp spurningar um á hvaða forsendum nefndarmenn eru að sinna hlutverki sínu.
Það er því ekki um annað að ræða en að hvetja nefndarmenn alla til að skila inn skipunarbréfi sínu og benda forsætisráðherra Sigmundi Davíð Gunnlausgssyni á það að þjóðin hefur þegar sett sér nýja stjórnarskrá (drög) í þjóðaratkvæðagreiðslu. Sú aðgerð að hunsa þá niðurstöðu var valdarán fámennrar pólitískrar valdastéttar sem ekki er hægt að búa við, enda má líta svo á að Alþingi sé í kjölfar þess verknaðar umboðslaust.
Það er því einboðið að stjórnarskrárnefnd afturkalli tillögur sínar og geri tillögur stjórnlagaráðs um þessi þrjú atriði að sínum og skili inn skipunarbréfi sínu. Annað er stuðningur nefndarmanna við þann gjörning sem meirihluti Alþingis gerði þegar þjóðaratkvæðagreiðslan var hunsuð.
Frumvarp um náttúruauðlindir.
Frumvarp stjórnarskrárnefndar um náttúruauðlindir er ekki í neinu samræmi við þann þjóðarvilja sem birtist í þjóðaratkvæðagreiðslunni þann 20. október 2012 né framhaldsmeðferð Alþingis á þeim ákvæðum eins og þau birtast í grein 34 í tillögum stjórnlagaráðs. Þjóðin hefur þegar samþykkt þá tillögu og ber nefndinni því að draga þetta frumvarp til baka með vísan í niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar.
Athyglisvert er einnig að formaður nefndarinar hefur sagt opinberlega að þetta ákvæði muni ekki breyta neinu hvað varðar fiskveiðistjórnunarkerfið og úthlutun og nýtingu aflaheimilda. Frumvarpið er því sjálfdautt.
Frumvarp um þjóðaatkvæðagreiðslu að kröfu kjósenda.
Frumvarp þetta er ónýtt sé markmiðið að innleiða breytingu á stjórnsarskrá þar sem almenningi er gefinn kostur á að stöðva lög sem Alþingi hefur sett af fjórum meginástæðum.
Í fyrsta lagi er 15% þröskuldur kosningabærra manna til að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu of hár þar sem útilokað er að safna þeim allt að 40.000 undisrskriftum sem til þarf, sérstaklega þar sem ekki er gert ráð fyri því í frumvarpinu að um rafrænar undirskriftir geti verið að ræða. Nefndarmenn virðast ekki hafa gert sér grein fyrir því að 10% þröskuldur sem er algengt viðmið, er það vegna ástæðu, sem sagt þeirri að hærri þröskuldur gerir slíkt ákvæði óvirkt. Nema þá að það sé markmið nefndarinnar að svo verði.
Í öðru lagi er 4 vikna tími til söfnunar undirskrifta allt of skammur og útilokar einnig að ákvæðið geti nokkurn tíma orðið virkt og það þrátt fyrir að rafrænar undirskriftir yrðu leyfðar. Nefndarmenn virðast ekki hafa gert sér grein fyrir því að almennt þar sem þjóðaratkvæðagreiðslur eru að frumkvæði kjósenda er gefinn lengri tími til söfnunar undirskrifta og rannsóknir sýna að 3 mánuðir er talinn vera lágmarks tími til slíks.
Í þriðja lagi það að fjórðung kosningabærra manna þurfi til að synja lögunum samþykkis er fráleitt ákvæði og það er algerlega óþekkt meðal ríkja sem telja sig lýðræðisríki að þeir sem heima sitja geti haft áhrif á niðurstöðu atkvæðagreiðslu. Hér virðast íslendingar (nefndarmenn) enn einu sinni tilbúnir að gera sig að athlægi meðal lýðræðisríkja heims með að finna upp sér-íslenska útgáfu af lýðræði og nefndarmenn virðast ekki sér neina grein fyrir að ástæða þess að aðrar þjóðir notast ekki við svona ákvæði er sú að það gengur ekki upp, hvorki röklega né lýðræðislega séð. Það er furðulegt að nefnd skipuð alþingismönnum og öðrum sérfræðingum skuli hafa yfir höfuð látið sér detta þetta atriði í hug.
Í fjórða lagi er þetta alvarleg aðför að tillögum Stjórnlagaráðs þar sem ekki er minnst einu orði á persónukjör, jafn vægi atkvæða né þingmál að frumkvæði kjósenda eins og stjórnlagaráð lagði til.
Það er því einboðið að stjórnlaganefndin dragi þetta frumvarp til baka og taki orðrétt upp greinar 39, 65, 66 og 67 úr tillögum stjórnlagaráðs og geri að sínum enda voru þær samþykktar af yfirgnæfandi meirhluta kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslunni þann 20. október 2012.
Frumvarp um umhverfi- og náttúruvernd.
Frumvarp þetta er í veigamiklum atriðum frábrugðið tillögum stjórnlagaráðs eins og þær birtast í greinum 33, 34 og 35 og þjóðin samþykkti í þjóðaratkvæðagreisðlu þann 20. október 2012. Nefndinni ber því að taka upp þær greinar með vísan til þjóðaratkvæðagreiðslunnar og vinnu Alþingis í málinu í kjölfar hennar þar sem farið var í mikla og nákvæma skoðun á málinu og draga til baka þetta frumvarp sitt.
Að lokum vill ég hvetja nefndarmenn alla til að velta því alvarlega fyrir sér hvers konar vinnu þeir eru að taka þátt í með framlagningu þessara frumvarpa, með tilliti til þess að þjóðin sjálf hefur þegar sett sér nýja stjórnarskrá (drög) og hvað það raunverulega þýðir þegar kjörnir fulltrúar kjósa að ganga þvert gegn vilja þjóðarinnar í löglega boðaðri þjóðaratkvæðagreiðslu.
Með vinsemd og virðingu,
Þór Saari, fyrrv. alþingismaður
Breiðabólsstöðum
225 Garðabæ
Nýlegar athugasemdir