Föstudagur 27.11.2015 - 17:40 - FB ummæli ()

Að vígbúast gegn almenningi.

Nú hafa íslensk stjórnvöld ákveðið að vopnast byssum. Það er gert með innanríkisráðherrann og varaformann Sjálfstæðisflokksins Ólöfu Nordal í fararbroddi og með samþykki ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins sem er studd af þingmeirihluta allra þingmanna þessara flokka. Þessari vopnavæðingu er beinlínis beint gegn almenningi í landinu enda engin efnisleg rök fyrir henni hvað glæpi varðar.

Þetta er mikið ógæfuspor sem mun leiða til aukins ofbeldis og lögregludrápa því einhverjir eigendur þeirra 70.000 skotvopna sem fyrir eru í landinu munu örugglega reyna að verja hendur sínar í sjálfsvörn. Sporin hræða því lögreglan hefur þegar drepið einn mann. Hann var andlega veikur og þurfti læknisaðstoð en fékk byssukúlu í hausinn í staðinn. Það er því komin upp alveg ný staða í íslensku samfélagi og spurning hvað borgararnir gera í því. Að kaupa sér byssu er kannski ekki það vitlausasta sem menn gerðu.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 23.10.2015 - 16:48 - FB ummæli ()

Í tilefni landsfunda: Kosningaréttur kvenna hvað?

Grein þessi birtist á Vísir.is fyrr í vikunni.

Í ár hefur þess verið minnst með pompi og prakt og það fyllilega verðskuldað að hundrað á eru liðin frá því að konur fengu kosningarétt á Íslandi og er það vel. Miklu hefur verið til kostað og meira að segja fyrrverandi forseti Alþingis Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir dubbaði sjálfa sig upp í það í lok síðasta kjörtímabils meðan hún var enn forseti þingsins í að leiða afmælisnefnd sem stýrði öllu fjörinu. Á háum launum að sjálfsögðu, í tvö ár kostuðum af Alþingi.

Í öllum þeim hamagangi sem fór í gang gleymdist hins vegar að minnast á eitt örlítið óþægilegt atriði sem gerir það að verkum að þrátt fyrir að kosningaréttur kvenna hafi verið merkisáfangi á sínum tíma þá er lýðræði á Íslandi ennþá í besta falli í skötulíki nú 100 árum síðar. Þrátt fyrir að fyrrum forseti Alþingis, æðstu stofnunar lýðræðisins í landinu, hafi í tvö ár unnið við það að undirbúa þessa afmælishátið þá var af tilefninu ekki mikið rætt um stöðu lýðræðis almennt á Íslandi í dag og tengingu þess við til dæmis kosningar til Alþingis.

Það sem gleymdist og það svo hallærislega í öllum þessum hamagangi er sú furðulega staða að stór hluti þjóðarinnar, þar á meðal stór hluti kvenna sem er löglega á kjörskrá hefur engan atkvæðisrétt enn þann dag í dag. Í síðustu alþingiskosningum árið 2013 voru á kjörskrá hér á landi 237.807 manns. Það eru eða ætti að vera samkvæmt leikreglum lýðræðisríkja 237.807 atkvæði, ekki satt? Ó nei, ekki hér á landi. Því hefur nefnilega verið svo fyrir komið með þeim kosningareglum sem hér gilda að meirihluti þessara kjósenda telur ekki nema um hálft atkvæði miðað við hina. Af þessum 237.807 kjósendum sem voru á kjörskrá árið 2013 voru 153.835 á höfuðborgarsvæðinu, það er í Reykjavíkurkjördæmunum tveim og Suðvestur kjördæmi eða 65% kjósenda en 83.972 kjósendur voru annars staðar á landinu, það er í Norðvestur-, Norðaustur- og Suðurkjördæmum eða 35% kjósenda. Vegna ótrúlegra kosningareglna hér á landi skiptist fjöldi þingmanna þó nánast jafnt milli þessara tveggja kjósendahópa en þingmenn þéttbýlis kjósenda eru aðeins 35 eða 55% þingmanna meðan þingmenn dreifbýlis kjósenda eru 28 eða 45% þingmanna. Miðað við eðlilega lýðræðislega dreifingu þingsæta eftir atkvæðum ættu þessar tölur hins vegar að vera 41 þingmaður á móti 22. Svona kosningakerfi þar sem heimilsfang kjósandans ræður því hvort þingmaður í hans kjördæmi fari inn á 3.000 atkvæðum (norðan Hvalfjarðarganga) eða þurfi 4.400 atkvæði (sunnan gangnanna) er vægast með það mikinn lýðræðishalla að vafamál er að tala um lýðræði í reynd.

Oft hefur verið talað um að það gríðarlega mikla misvægi atkvæða sem viðgengst hér á landi sé ólýðræðislegt og ÖSE (Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu) sem hefur að gera með lýðræðiseftirlit í álfunni og víðar hefur gefið það út að við erfiðustu aðstæður megi mismunur á atkvæðavægi ekki vera meiri en 10% og þá eingöngu vegna landfræðilegra ástæðna. Hér á landi er þessi munur hins vegar miklu meiri og það án landfræðilegra ástæðna og veldur því að 65% kjósenda telja bara sem um það bil hálft atkvæði. Á mannamáli þýðir þetta einnig að nærri helmingur þessara 153.835 kjósenda hafa í raun ekkert um málin að segja, það er hvorki meira né mina en 76.918 „kjósendur“ eða um 33% allra sem eru á kjörskrá hafa í raun ekki kosningarétt.

Já kæru lesendur, við búum í landi, lýðræðisríki þar sem um þriðjungur „kjósenda“ hefur ekki kosningarétt nema að nafninu til vegna þess að atkvæði þeirra telja ekki af því þeir eru „þéttbýlisbúar“. Það er svo sem alþekkt að yfirstéttin hverju sinni reyni að hindra aðgang annarra að völdum og hér áður fyrr fékk fólk ekki að kjósa ef því það var vinnumenn, blökkumenn, fátæklingar, yngra en fertugt, konur og svo mætti lengi telja. Það mun þó all sérstakt að íbúar í þéttbýli séu skilgreindir annars flokks fólk með þessum hætti. Þetta eru þó ekki reglur komnar af himnum ofan heldur búnar til af pólitiskri yfirstétt í landinu, yfirstétt sem er meira umhugað um að standa saman um eigin völd en nokkuð annað. Það hlálega í þessu öllu saman er að það var fyrrverandi forseti Alþingis, konan Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir sem framar öðrum kom í veg fyrir það að ný stjórnarskrá sem tryggði jafnan atkvæðisrétt allra landsmanna yrði lögfest og það þrátt fyrir að um 2/3 hlutar kjósenda hefðu samþykkt hana í löglega boðaðri þjóðaratkvæðagreiðslu. Sú sama Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir og baðaði sig í sviðsljósinu á 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna og þáði laun fyrir frá Alþingi í tvö ár.

Talandi um hræsni af hálfu Alþingis í þessu útbásúnaða lýðræðismáli máli er því varla ofmælt þar sem það var allur Fjórflokkurinn eins og hann lagði sig sem stöðvaði nýja stjórnarskrá vorið 2013 þó einstaka þingmenn innan stjórnarmeirihlutans ynnu vissulega að málinu af fullum heilindum. Því er málum því enn svo fyrir komið að atkvæði tugþúsunda íslendinga telja ekki og þeir hafa í raun ekki kosningarétt. Við þessir 158.835 kjósendur sem erum bara með hálft atkvæði munum vonandi halda áfram að krefjast kosningaréttar til jafns við aðra landsmenn og að þessir 76.918 sem töldust ekki með árið 2013 fái kosningarétt. Það er hvorki meira né minna en þrisvar sinnum fjölmennari hópur en þær konur sem voru teknar inn á kjörskrá árið 1915.

Það er að sjálfsögðu löngu komin tími til að þingmenn þéttbýliskjördæmanna sameinist um jafnan atkvæðisrétt fyrri alla landsmenn og að Reykjavíkur- og SV kjördæmisfélög stjórnmálaflokkana komi þessu sjálfsagða máli á dagskrá sem mikilvægasta kosningamálinu. Og við þessi 158.835 atkvæði skulum halda þeim að verki við það.

Þór Saari

Hagfræðingur og fyrrv. alþingismaður

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 9.11.2014 - 15:45 - FB ummæli ()

Far vel Dögun

Stjórnmálahreyfingin Dögun sem hélt landsfund sinn nú um helgina tók á þeim fundi sem og á aukalandsfundi í nóvember 2013 ákvarðanir um framhaldslíf flokksins sem breyta bæði eðli og inntaki Dögunar eins og lagt var upp með við stofnun í aðdraganda Alþingiskosninganna 2013. Hugmyndin að Dögun var að reyna að stofna til samstarfs þeirra afla sem vildu ekki tefla fram stjórnmálum á sömu forsendum og hefð er fyrir á Íslandi, þ.e. Fjórflokks-stjórnmálum, heldur sáu menn fyrir sér íslensk stjórnmál og þáttöku í þeim með öðru sniði. Við í Hreyfingunni töldum rétt að leggja okkar lóð á vogarskálarnar og Hreyfingin og tveir þingmenn hennar, ég og Margrét Tryggvadóttir ásamt öðrum, beittum okkur fyrir stofnun Dögunar sem sameiningarafli um raunverulega öðruvísi stjórnmál. Þar komu að borðinu meðal annars nokkrir grasrótarhópar, einstaklingar úr Stjórnlagaráði og Frjálslyndi flokkurinn.

Stefnuskrá Dögunar var mjög hnitmiðuð og svo kölluð kjarnastefna var samin utan um fá atriði. Eins voru samþykktir (lög) Dögunar mjög lýðræðislegar og fengum við meðal annars aðstoð Lýðræðisfélagsins Öldu við samningu þeirra. Samþykktirinar innihéldu mikilvæg atriði eins og bann við fjárframlögum frá lögaðilum, mikla breidd við alla meiriháttar ákvarðanatöku og Dögun hafði engan formann eða leiðtoga sem var svar okkar við þeim gersamlega misheppnuðu leiðtogastjórnmálum sem skaðað hafa svo íslenska pólitík.

Þrátt fyrir að vera alvöru valkostur við Fjórflokkinn í kosningunum 2013 (og já, „Björt“ framtíð er líka Fjórflokkur) fékk Dögun lítið fylgi í kosningunum og tilraun Dögunar til þáttöku í sveitarstjórnarkosningunum síðast liðið vor mistókst einnig. Því miður hefur Dögun ekki tekist að fara í þá sjálfsskoðun sem þurfti til að finna hvað fór úrskeiðis. Þeirri mikilvægu spurningu sem allar stórnmálahreyfingar ættu að spyrja sig reglulega ekki síst eftir svo slaka vegferð, spurningunni „Hvert er erindið?“ hefur ekki verið svarað og tilraunir til að bera hana upp hafa heldur ekki fengið hljómgrunn. Þess í stað hefur starfið frá kosningunum 2013 miðað að því að að gera Dögun að hefðbundunum íslenskum  stjórnmálaflokki til þáttöku í hefðbundum stjórnmálaumræðum á hefðbundnum forsendum.

Afraksturinn af þeim landsfundi sem nú er lokið og auka landsfundinum á síðasta ári hefur verið sá að Dögun er ekki lengur raunverulegur valkostur við Fjórflokkinn þar sem breytingar á samþykktum félagsins á þessum fundum hafa fært Dögun undir sama hatt. Þar ber helst að nefna að Dögun hefur afnumið bann við framlögum lögaðila og er nú galopið fyrir fé frá fyrirtækjum og samtökum þeirra. Meiri háttar ákvarðanir félagsins svo sem þáttaka í stjórnarsamstarfi þurfa ekki að vera bornar undir félaga Dögunar heldur er nóg að fámennur hópur fólks (þ.á.m. þingmenn) taki ákvörðum þar um. Dögun verður heldur ekki öðruvísi hvað forystu varðar heldur hefur fellt sig undir sama leiðtogablætið og Fjórflokkurinn með beinni kosningu formanns og varaformanns framkvæmdaráðs Dögunar, sem munu svo í framtíðinni koma fram fyrir Dögun sem s.k. talsmenn hennar.

Tilraunir, aðallega mínar, til að nýta téðan landsfund til gagngerrar naflaskoðunar og hugmyndaflæðis um stöðu, eðli og framtíð Dögunar báru ekki árangur heldur varð hann að hefðbundnum fundi með sömu sjálfhverfu niðurstöðunum og hefðbundnir landsfundir hefðbundinna stjórnmálaflokka.

Niðurstaðan af þessum fundum sem og áhugaleysi félaga minna í Dögun til að starfa að stjórnmálum á öðrum forsendum en hefðbundið er, hafa gert það að verkum að ég á ekki lengur samleið með Dögun, hvorki starfsháttum né hugmyndafræði.

Innan Dögunar er margt duglegt baráttufólk með hjartað á réttum stað og ég óska þeim velfarnaðar þrátt fyrir Fjórflokksblætið og þótt sjálfur telji ég kröftum mínum og atkvæði ekki vel varið í svoleiðis stjórnmál. Dögun sem deild innan Frjálslynda flokksins er eitthvað sem ekki var lagt upp með en er engu að síður niðurstaðan. Far vel Dögun.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 9.9.2014 - 09:22 - FB ummæli ()

Verklítið Alþingi

Alþingi verður sett í dag. Athyglisvert er hversu stutt komandi vinnuár verður.

Ný útkomin starfsáætlun Alþingis fyrir 2014 – 2015 (sept. til sept.) gerir aðeins ráð fyrir 117 dögum til þingfunda og nefndarfunda sem er 32% nýting á almanaksárinu. Þetta gerir að meðaltali 9,75 vinnudaga á mánuði eða 2,25 vinnudaga í viku hverri. Sé gert ráð fyrir 30 daga sumarleyfi fyrir þingmenn er vinnuárið 147 dagar og þá er vinnuvikan 2,8 dagar. Venjulegt vinnuár hjá almenningi er hins vegar um 260 dagar og að frádregnu sumarleyfi er vinnuárið um 230 til 240 dagar.

Vissulega er það svo að þingmennskan er erilsamt starf, í mörg horn að líta, vinnudagurinn stundum langur og áreitið er mikið og ekki vanþörf á að þingmenn fái sæmileg frí inn á milli. Þessi löngu frí og hlé eru hins vegar of löng og of mörg og gera það meðal annars að verkum að framkvæmdavaldið og ráðherrar hverjum þingið á að veita aðhald og hafa eftirlit með valsar um að hentugleika án þess að þurfa að standa þinginu skil meira en helming ársins. Þótt heimild sé til staðar að kalla saman þingnefndir að kröfu tiltekins minnihluta er það sjaldan gert enda vill minnihlutinn ekki síður vera í fríi en stjórnarmeirihlutinn.

Þetta skipulag eða öllu heldur skipulagsleysi veldur mikilli óskilvirkni Alþingis og fljótaskrift á afgreiðslu mála og þó starfsfólk þingsins og þingmenn séu allir af vilja gerðir er skipulagið á starfstíma þingsins götótt sem ostur og afurðirnar oft eftir því.

.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 30.5.2014 - 00:30 - FB ummæli ()

Kosningarnar

Þarf að kjósa í fyrsta sinn í nýju sveitarfélagi þar sem mitt gamla Álftanes úrkynjaðist af spillingu og lagði sig niður sem samfélag. Nú munu Garðbæingar (ergo Sjálfstæðisflokkurinn) víst ráða málum hér en í framboði fyrir þá er m.a. Gunnar Valur Gíslason framkvæmdastjóri byggingarfélagsins Eyktar sem samkvæmt áreiðanlegum heimildum á að verða formaður skipulagsnefndar. Hvað verður þá um Álftanes og sveit í borg hugmyndina er augljóst. Eyktarnes verður nýja nafnið. Þannig að þetta kemur ekki til greina ekki einu sinni þó Sjallar hafi stýrt fjármálum bæjarins ágætlega. Lífð er nefnilega meira en peningar.

Framsóknarmenn sendu mér plastpoka með agúrku og Flúðasveppum en þar sem þeir ala linnulítið á kynþátta- og trúarfordómum með æpandi þögn sinni, þá . . nei takk.

Samfó og óháðir eru líka með en hmmm… eitthvað af þessu fólki hefur sennilega stutt Árna Pál sem formann sinn. „Björt framtíð“ er þarna líka en vegna þess afreks Guðmundar Steingrímssonar í kompaníi við áður nefndan Árna Pál að eyðileggja stjórnarskrármálið og hugmyndina um þjóðaratkvæðagreiðslur til frambúðar mun ég aldrei kjósa það framboð.

Þá er eftir eitthvað sem heitir Fólkið í bænum eða M. Þar er „vörustjóri“ í banka (hvað svo sem það nú er) í framboði og svo heimspekingur og maður sem heitir Bjartur Máni og selur Toyota bíla ásamt okkar ástsæla (Álftnesinga það er) fyrrverandi skólastjóra Tónlistarskóla Álftaness (sem n.b. átti ekki að leggja niður við sameiningu en var þó gert) og píanóleikara. Hún er aðeins 71 árs, flott. Ekki hef ég áður séð svo föngulegan hóp frambjóðenda utan Jón Gnarr, Líf Magneudóttur, Pavlovs Dogs í Grikklandi hér um árið og svo frambjóðendur Borgarahreyfingarinnar. Af þeim er í dag eingöngu pólitískt lífsmark með Líf en þar sem ég bý ekki í Reykjavík gengur það ekki (en gangi henni vel). X við M í Garðabæ verður niðurstaðan. Sorrí Fjórflokkur (+BF) en ykkur er bara ekki treystandi.

Sjá hér:  Fólkið í bænum.

 

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 24.5.2014 - 17:20 - FB ummæli ()

Agúrkur, sveppir og framsóknarmenn

Áhugaverð sending frá Framsóknarflokknum í Garðabæ beið mín við útidyrnar þegar ég kom heim í dag. Grænn plastpoki, frekar þunnur, sem innihélt blaðið „Horfst í augu við Garðabæ“ kosningablað þess blessaða „stjórnmálaflokks“ hér í sveitarfélaginu. Með í pokanum fylgdi líka vegleg íslensk agúrka fá Hveravöllum hæfilega þroskuð og 250 grömm af þrýstnum sveppum (í boxi) frá Flúðasveppum. Ég opnaði blaðið og við blöstu 22 framsóknarmenn sem horfðust í augu við mig, mörg hver frekar skondin á svip, svolítið eins og þau væru lent á óþekktri plánetu. Í blaðinu voru áherslur þeirra í komandi sveitarstjórnarkosningum, átta atriði um íþróttamál en aðeins fimm um skólamál, tvö um grænan poka en ekki orð um aukið lýðræði. Ég er enn að reyna að ráða í allar þær myndlíkingar sem koma upp í hugann þegar ég horfi hér yfir borðið á agúrku, sveppi, stefnumálin og 44 framsóknaraugu en viðurkenni að nú er ég loksins kjaftstopp, í fyrsta skipti á ævinni.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 17.5.2014 - 16:13 - FB ummæli ()

Skulda“leiðréttingin“, þörf upprifjun.

Þar kom að því að einhverju mesta réttlætismáli lýðveldistímans er loks lokið, fjármagninu í hag, með samþykkt frumvarps um leiðréttingar á skuldum heimilanna. Það er þó ekki öll sagan sögð því enn einu hefur hinni pólitísku stétt tekist að svíkja nánast fullkomlega gefið kosningaloforð, kosningaloforð sem beinlínis varð til þess að Framsóknarflokkurinn fékk það fylgi í kosningunum sem fleytti honum í ríkisstjórn.

Skuldaleiðréttingamálið er orðið ansi gamalt og er einnig skínandi skýrt dæmi um hvernig stjórnvöld á hverjum tíma hafa algerleg hunsað almannahagsmuni og látið sérhagsmuni eða flokkshagsmuni ganga fyrir. Það má segja að þetta hafi byrjað þegar starfshópur undir stjórn Gylfa Arnbjörnssonar forseta ASÍ (jú þess félags hverjir félagsmenn greiða honum laun og er ætlað að gæta hagsmuna þeirra) hafnaði því að taka vísitölu verðtryggingar úr sambandi vegna hruns á gengi krónunnar, jafnvel þótt vitað væri að það myndi lenda mjög þungt á heimilum landsins og setja þúsundir þeirra í þrot. Þar tók ASÍ og formaður þess afgerandi stöðu með fjármagninu og gegn hagsmunum eigin félagsmanna.

Svo varð hér Hrun, hvað svo sem Sjálfstæðismenn segja. Þetta Hrun leiddi til þess að verðtryggð fasteignaveðlán íslenskra heimila hækkuðu um 384 milljarða vegna verðtryggingarinnar eingöngu, á tímabilinu janúar 2008 til júní 2012. Já, 384 milljarða. Skuldaaukningu sem má skrifa á Geir Haarde og ríkisstjórn hans og aðgerðaleysi hennar sem og aðgerðarleysi starfshópsins sem Gylfi Arnbjörnsson fór fyrir.

Það sem er þó ekki síður alvarlegt og jafnvel alvarlegast er að í ársbyrjun 2008 vissu stjórnvöld að íslenska bankakerfið myndi hrynja fljótlega og eins og fram kemur í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis þá var m.a. fjallað um þetta komandi Hrun á tveimur fundum í þingflokki Samfylkingarinnar í febrúar það ár. Ekki þarf að efast um að þingmenn Sjálfstæðisflokksins vissu einnig hvert stefndi. Þrátt fyrir þessa vitneskju þá ákváðu þingmenn að hylma yfir veruleikann og aðvöruðu ekki almenning heldur héldu málinu leyndu. Og ekki bara það heldur fóru ráðherrar ríkisstjórnarinnar í mikla áróðursherferð fyrir stöndugu fjármálakerfi og beinlínis lugu að þjóðinni um ástandið. Ekki nóg með það heldur var einnig lagst í mikla herferð til nágrannalandanna til að breiða út sömu blekkingu.

Það hefur því verið ótrúlegt að horfa upp á íslenska stjórnmálamenn hvar í flokki sem þeir standa reyna að komast hjá því að standa skil gerða sinna og koma sér hjá því að berjast fyrir þessari sjálfsögðu leiðréttingu sem þeir ásamt bankakerfinu bera ábyrgð á. Síðasta ríkisstjórn einfaldlega hafnaði því enda Samfylkingin þar með að viðurkenna að hún átti stóran þátt í því hvernig fór og VG virtust haldnir einhvers konar eðlilslægu hatri á þeim sem höfðu tekið fasteignaveðlán og töluðu sífellt um flatskjái og tjaldvagna. Sjálfstæðisflokkurinn vildi að sjálfsögðu heldur ekkert af málinu vita enda bar hann beina ábyrgð á því hvernig fór.

Þar sem það var eitt af höfuðstefnumálum Borgarahreyfingarinnar (síðar Hreyfingarinnar) að skuldir heimilanna vegna Hrunsins yrðu leiðréttar koma það í okkar hlut að berjast fyrir málinu á þingi og þótt þingmenn Framsóknarflokks töluðu einnig mikið um málið varð minna um beinar tillögur. Við þingmenn Hreyfingarinnar fluttum þingsályktunartillögu um málið á tveimur þingum, 2011-2012 og 2012-2013. Með Höskuldi Þórhallssyni í fyrra skiptið en ein í seinna skiptið. Í þeim tillögum kom skýrt fram hver sanngjörn leiðrétting væri og var upphæðin alls um 250 milljarðar þegar dregnar höfðu verið frá verðbætur samkvæmt 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans yfir tímabilið. Þessi upphæð var fengin með aðstoð færustu sérfræðinga og stóðst fyllilega allar skoðanir og gagnrýni.

Hugmynd okkar var að dreifa kostnaðinum við þessa niðurfærslu sem víðast og til 25 ára. Þar kæmi inn sérstakur tímabundinn eignaskattur á eignir innlánsstofnana og á eignir lífeyrissjóða, sérstakt tímabundið vaxtaálag á öll fasteignaveðlán og svokallaðar eltandi vaxtabætur sem komu út hlutlaust kostnaðarlega fyrir ríkissjóð. Þessi niðurfærsla nam 22,7% af eftirstöðvum fasteignaveðlána eins og þau stóðu í júní 2012 og hefði haft afgerandi áhrif á stöðu heimilanna til hins betra sem og að starta af krafti efnahagslífinu með minni skuldabyrði og meiri tekjuafgangi heimilanna. Tillagan fór til nefndar í bæði skiptin og var svæfð þar af meirihluta Samfylkingar og VG.

Nú hefur „Móðir allra kosningaloforða“ verið svikið og heimsmet Framsóknarflokksins í skuldaleiðréttingum er ekki neitt neitt þegar upp er staðið. 80 milljarðar í stað 250 og kostnaðurinn er skattborgara. Forsætisráðherra og Framsóknarflokkurinn hafa ekki staðið við það sem var lofað og þingmenn Sjálfstæðisflokksins standa hlæjandi á hliðarlínunni hafandi bjargað fjármagnseigendum frá kostnaði eina ferðina enn. Og báðir flokkar fá valdastóla að launum.

Þingmenn Samfylkingar, VG og „Bjartrar“ framtíðar hafa svo verið iðnir við að afvegaleiða umræðuna um málið, vita upp á sig skömmina en þora ekki að gangast við því að hafa svikið almenning um mesta réttlætis og sanngirnismál lýðveldissögunnar.

Í þessu máli kristallast allt það ógeðslegasta í íslenskum stjórnmálum þegar kemur að almannahagsmunum. Allir snúa sér undan, allir svíkja, allir hafna ábyrgð og eftir stendur almenningur með þykjustu leiðréttingu sem menn borga fyrir sjálfir, og svo siðlaus stjórnmálastétt sem hreykir sér af afrekum sínum.

Fleyg orð Styrmis Gunnarssonar eiga því við hér eins vel og í flest öllu öðru sem íslensk stjórnmaálstétt hefur komið að.  Ég er búinn að fylgjst með þessu þjóðfélagi í 50 ár. Þetta er ógeðslegt þjóðfélag, þetta er allt ógeðslegt. Það eru engin prinsipp, það eru engar hugsjónir, það er ekki neitt. Það er bara tækifærismennska, valdabarátta.“

Hér er svo tengill á tillögur okkar í Hreyfingunni:

http://www.althingi.is/altext/141/s/pdf/0005.pdf

 

 

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 22.2.2014 - 14:44 - FB ummæli ()

Verslunarleiðangur eða svik.

Afstaða Sjálfstæðisflokksins í ESB málinu og sinnaskipti hans frá landsfundi og kosningabaráttu virka út á við sem svik við stofnanir flokksins, landsfund hans, almenna félagsmenn og kjósendur og eru það svo sannarlega. Það þarf þó ekki að skyggnast langt undir yfirborð íslenskra stjórnmála til að átta sig á að þessi sinnaskipti eru að sjálfsögðu ekki annað en enn einn verslunarleiðangurinn hjá íslenskum stjórnmálaflokki þar sem stefnumálin eru seld á markaðstorgi sérhagsmunana sem raunverulega ráða för í flokknum. Þessi sinnaskipti geta orðið Sjálfstæðisflokknum sem stjórnmálaafli dýru verði keypt og því verður það athyglisvert að sjá hvað Framsóknarflokkurinn reiðir fram í staðinn fyrir stuðninginn fyrir slit viðræðna við ESB. Þó að vissulega hafi þröngsýn einangrunarhyggja og forpokuð afturhaldssjónarmið Framsóknarflokksins ráðið för í þessu máli hefði það aldei gerst nema yfirstétt Sjálfstæðisflokksins fengi eitthvað í staðinn. Það verður örugglega engin smávegis þóknun og þar koma fyrst upp í hugann auðlindirnar, þ.e. kvótinn og orkugeirinn en einnig er líklegt að afnám gjaldeyrishaftanna verði drullumixað til að fjármagnseigendur Sjálfstæðisflokksins komist með milljarðana úr landi.

Það sorglega er að þarna er í enn einu málinu verið að fórna langtímahagsmunum þjóðarinnar þar sem firring og spilling í yfirstétt Sjálfstæðisflokksins á undanförnum árum hefur ekki aðeins eyðilagt trúverðugleika Íslands vestan hafs heldur er einnig litið á Ísland sem einhvers konar skrípaútgáfu af þjóðríki í Evrópu líka. Sjálfstæðismenn sjálfir verða svo einnig að una við það að langtímahagsmunum flokksins sem trúverðugu stjórnmaálafli hefur verið fórnað.

Sic transit gloria mundi.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 8.1.2014 - 00:33 - FB ummæli ()

Alþýðusamband Íslands hvað?

Hafandi fylgst með Gylfa Arnbjörnssyni og forystu ASÍ undanfarin ár og hafandi einnig nokkurra ára reynslu úr kjarabaráttu sjómanna þegar ég tilheyrði þeirri stétt get ég ekki annað en komist að einni niðurstöðu.

Ég held að Gylfi Arnbjörnsson sé huldumaður Samtaka atvinnulífsins í launþegahreyfingunni og að hann muni eins lengi og hann getur snúa bökum saman með yfirstétt landsins og kúga launafólk. Það er ekki annað að gera en að fella þessa samninga, krefjast afsagnar Gylfa og/eða stofna ný verkalýðsfélög utan ASÍ. Bann við heildarsamtökum atvinnulífs og launþega á forsendum valddreifingar og samkeppni ætti svo að vera næsta skref í lagasetningu á Alþingi.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 22.12.2013 - 11:48 - FB ummæli ()

„Kjara“samningarnir

Enn einu sinni hefur forysta ASÍ gengið gegn hagsmunum félagsmanna sinna og nú skrifað undir „kjara“samning sem er smánarlega skammarlegur.  5% launahækkun fyrir þá tekjulægstu og 2.8% fyrir hina í 4,8 % verðbólgu eru auðvitað óskasamningar atvinnurekenda. Frekari staðreyndir um ný gerðan kjarasamning og skattbreytingar stjórnvalda má fá hjá Vilhjálmi Birgissynis formanni Verkalýðsfélags Akraness en hann bendir á að skattalækkun manns með eina milljón á mánuði verði 42.000 krónur á ári eða 3.500 krónur á mánuði þegar launahækkun lágtekjufólks verður 68.000 á ári eða 5.666 krónur á mánuði. Munurinn er 2.166 krónur.

Þegar ríkisvaldið, atvinnurekendur og verkalýðsforustan snýr bökum saman og skammtar launin úr ríkiskassanum þá er komin upp sama staða og var á Ítalíu millistríðsáranna og síðar í Þýskalandi. Og Fjórflokkurinn allur með á málinu. Sorrí, en þessi staða hér á landi býður ekki upp á glæsilega framtíð fyrir almenning eða lýðræðið í landinu. Auk þess hefur forysta verkalýðshreyfingarinnar komið sínum málum fyrir þannig að það er ekki hægt að kjósa hana burt (þ.e. forystu ASÍ). Því þarf auðvitað að breyta lögum og gera almennum félagsmönnum kleyft að velja sér forystu í heildarsamtökum launþega með beinni almennri kosningu. Á meðan það er lagaskylda að greiða félagsgjöld á að sjálfsögðu að vera skylda að forystumenn sé kosnir beinni kosningu. Annars ber að afnema skyldugreiðslur til verkalýðsfélaga.

Það er vonandi að félagsmenn kolfelli þessa saminga og krefjist afsagnar forystumanna sinna (nema Vilhjálms).

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Þór Saari
Hagfræðingur með lýðræðis- og stjórnmálavitund sem gerir kröfu um virka þátttöku í samfélaginu.

Er í framboði fyrir Pírata í SV kjördæmi (kraganum). Er fyrrverandi þingmaður í SV kjördæmi (kraganum) fyrir Hreyfinguna (2009-2013) og er einnig í stjórn Samtaka um lýðræði og almannahag.
Netfangið er: saari@centrum.is
RSS straumur: RSS straumur