Fimmtudagur 24.5.2018 - 01:03 - FB ummæli ()

Álftnesingar og kosningarnar

Eftir yfirferð gegnum kosningaloforð þeirra fjögurra framboða sem okkur standa til boða að kjósa á laugardaginn, er niðurstaða mín að ekkert þeirra, já ekkert, hugnist Álftnesingum og vilja þeirra sem hugnast að búa í „Sveit í borg“. Hér eru stefnumál framboðana varðandi „Sveit í Borg“.

X-B (Framsóknarflokkur) er ekki með eitt orð um umhverfis- og náttúruvernd.

X-G (Garðabæjarlistinn) er ekki með eitt orð um umhverfis- og náttúruvernd.

X-M (Miðflokkurinn) er með loðið orðalag um að gera Garðabæ „betri, öruggari og umhverfisvænni“ hvað svo sem það nú þýðir.

X-D (Sjálfstæðisflokkurinn) talar um að „Vernda náttúruperlur sem eru í bæjarlandinu og auðvelda aðgengi að þeim.“  Það er því miður er ekkert að marka þetta loforð sé horft til fyrirliggjandi deiliskipulagstillagna um enn eitt stærðar blokkarhverfi á Álftanesinu sem og aðalskipulags, þar sem hugmyndinni um „Sveit í borg“ er einfaldlega hent í ruslið.

Álftanesið er að stórum hluta til náttúruperla og stór hluti þess gæti vel verið á pari við Heiðmörkina sem frábært útivistarsvæði og væri auðveldlega eitthvert besta fuglaskoðunarsvæði landsins, ef rétt væri haldið á málum. Þess í stað liggur vilji allra framboðana í Garðabæ til þess eins að hella hér inn meira malbiki og meiri steypu. Það er óendanlega sorglegt að horfa upp á þessa stöðu og að ekkert framboðana fer eftir vilja meirihluta íbúana hér. Það að skila auðu mun því miður ekki breyta neinu þar um heldur. Það er þó varla annað hægt.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 27.10.2017 - 08:45 - FB ummæli ()

Á morgun eru þínar kosningar.

Kosningarnar á morgun eru þínar kosningar, ekki kosningar fagurgalandi stjórnmálaflokka og það skiptir miklu máli hver niðurstaðan verður.
Kosningarnar á morgun snúast ekki um skatta, flugvöll, ESB eða sauðfé. Þær snúast um spillt og ónýt stjórnmál og það hvort íslendingar eru tilbúnir að snúa af þeirri braut. Snúa af braut spillingar atvinnulífs og stjórnmála, af braut vanhæfrar flokkspólitískrar stjórnsýslu, af braut flokkspólitísks réttarkerfis, af braut sérhagsmunavörslu stjórnmálaflokka fyrir vini og vandamenn, og af braut stjórnmála umhverfis sem sinnir ekki skyldu sinni. Stjórnmálaumhverfið hér á landi er hrunið og stjórnmálamenn geta ekki lengur sinnt hlutverki sínu sem umboðsmenn kjósenda, að óbreyttu.
Það skiptir því ekki málið hvað kosið er oft, ef kosið er aftur og aftur í sama hjólfarið.
Þess vegna þarf nýja stjórnarskrá. Stjórnarskrá sem veitir stjórnmálaflokkum og stjórnmálunum virkt aðhald, aðhald með persónukjöri og aðhald með þjóðaratkvæðagreiðslum að frumkvæði almennings. Stjórnarskrá sem eflir lýðræðið um allt land með jöfnu vægi atkvæða. Píratar eru eini flokkurinn sem hefur nýja stjórnarskrá að aðal stefnumáli, en VG og Samfylkingin eru þó líka heit fyrir málinu.
Því eru þetta einu flokkarnir sem vert er að kjósa. Helst Pírata samt, því þú tryggir ekki eftir á.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 26.10.2017 - 19:14 - FB ummæli ()

Kosningar. En um hvað?

Komandi kosningar snúast ekki um skatta. Þær snúast um hvort það skili einhverju öðru en meiri spillingu að kjósa aftur í sama hjólfarið. Tveir milljónamæringar sem aldrei hafa stigið færi inn í fjölbýlishús, eru ekki að fara að berjast fyrir þínum hagsmunum. Í alvörunni.

Ágætu lesendur. Það skiptir þó samt í raun engu máli hvað við kjósum oft inn í þetta sama ónýta stjórnmálaumhverfi, vegna þess að það er ónýtt mun ekkert breytast. Því þarf nýja stjórnarskrá. Stjórnarskrá sem veitir stjórnmálaflokkum og stjórnmálunum almennt, aðhald með persónukjöri og þjóðaratkvæðagreiðslum að frumkvæði almennings.

Píratar eru þeir einu sem hafa nýja stjórnarskrá að aðal máli en VG og Samfylkingin eru þó líka heit fyrir málinu. Því eru þetta einu flokkarnir sem vert er að kjósa. Helst Pírata samt, því þú tryggir ekki eftir á.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 22.9.2017 - 08:17 - FB ummæli ()

Framboð í prófkjöri Pírata.

Vegna fjölda áskorana innan sem utan Pírata, einlægs áhuga á betra samfélagi, sem og þeirrar þrálátu áráttu að geta ekki þagað um brýn málefni samfélagsins, hef ég ákveðið að leggja mitt af mörkum og bjóða mig fram í prófkjöri Pírata í SV-kjördæmi sem fram fer 23. til 30. september.

Hrun íslenskra stjórnmála er staðreynd og útilokað er að Fjórflokkurinn nái að endurreisa stjórnmálaumhverfið á þeim lýðræðislegu og siðferðilegu forsendum sem þörf er.

Í þeirri stöðu eru mikilvægustu málin sem íslenskt samfélag stendur frammi fyrir, breytt og betri stjórnmál, mál sem munu ekki nást fram nema með innleiðingu nýju stjórnarskrárinnar, hverra drög hafa þegar verið samþykkt af almenningi í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Til þess verks er Pírötum best treystandi af öllum íslenskum stjórnmálaflokkum.

Losum okkur við spillt, sjálfhverf og hrunin stjórnmál og tökum þátt í endurnýjun stjórnmála og samfélags á nýjum og betri forsendum.

Þór Saari, hagfræðingur.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 21.10.2016 - 23:00 - FB ummæli ()

Píratar og námsmenn

Þessi grein birtist í Kjarnanum s.l. miðvikudag.

Píratar eru, umfram aðra flokka, hreyfing ungs fólks og meðalaldur frambjóðenda er í samræmi við það. Þrátt fyrir marga unga frambjóðendur er menntunarstig Pírata einnig hátt og reynsla Pírata af langskólanámi og reynslan af nauðsyn skilvirks fjárstuðnings fyrir námsmenn er mikil. Vaskleg framganga þingmanna Pírata gegn frumvarpi Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks sem hefði stórskaðað möguleika ungs fólks til náms, var til fyrirmyndar og byggði einmitt á reynslu og þekkingu.

Menntun og langskólanám er orðin hluti af lífshlaupi nánast alls ungs fólks og það að fullkomið jafnræði til náms óháð fjárhag, sé til staðar, er grundvallaratriði sem ekki má víkja frá. Sveigjanleg námsframvinda er einnig krafa, þar sem ungt fólk þarf að hafa möguleika á að skipta um námsgreinar sem og að geta stýrt því sjálf hvað, hvar og hvenær þau mennta sig.

Það er því þörf á nýrri hugsun í stuðningi hins opinbera við námsmenn og viðsnúningur þarf að verða í þeim samskiptaörðugleikum sem ávallt hafa einkennt tangó námsmana við LÍN. Slík hugsun þarf að taka mið af örum samfélagsbreytingum og breyttum og síbreytilegum kröfum einstaklinganna til að þroskast og menntast, sem og þörfum samfélagsins og atvinnulífsins fyrir vel menntað fólk. Langskólanám, og þá sér í lagi erlendis, er einhver sá mesti og besti þroskaferill sem ungt fólk getur lagt í og eykur víðsýni, þekkingu og reynslu til muna umfram nám sem stundað er hér á landi. Svo er menntun sem slík einfaldlega þjóðahagslega hagkvæm á heildina litið og einhver besta fjárfesting sem samfélagið getur lagt út í. Hins vegar er ekki hægt að líta á menntun fólks sem fjárfestingu einstaklingsins til framtíðar enda engar forsendur til, svo hægt sé að leggja slíkt kalt peningalegt mat á menntun.

Nýtt námlána- og styrkjakerfi fyrir námsmenn mun þurfa að sækja fé í sjóði hins opinbera og þarf því einnig að taka mið af því hversu aflögufærir þeir eru. Það kostar mikla peninga að mennta fólk í tuttugu ár sem er um það bil sá tími sem tekur fyrir menneskju að ljúka háskólaprófi með meistaragráðu að meðtöldum grunn- og framhaldsskóla.  Nýtt kerfi þarf því einnig að búa að innbyggðum hvötum fyrir námsmenn til að starfa hér á landi að loknu námi, því það er mikil blóðtaka fyrir samfélagið fjárhagslega og menningarlega að mennta fólk í tvo áratugi hverfi það svo til starfa utan landsteinana.

Slíkt kerfi þarf að tryggja að stuðningur við námsmenn sé nægilegur og það er að framfærslan, hvort sem um er að ræða lán eða styrk, dugi raunverulega til framfærslu miðað við fjölskyldustærð. Slík kerfi þarf að greiða út stuðningin fyrirfram, en ekki láta námsmenn verða að leiksoppi bankanna hvað varðar peninga eins og núverandi kerfi. Slíkt kerfi þarf líka að vera hvetjandi fyrir námsmenn til að sækja sér menntun út fyrir landsteinana, því hvað svo sem má segja um íslenska háskóla, þá eru þeir of margir og of misjafnir að gæðum til að standa allir undir alvöru kröfum um akademískt nám. Nám við erlenda háskóla eykur og hraðar miðlun nýrra hugmynda, veitir innlendum háskólum og innræktuðum akademíkörum nauðsynlegt aðhald og eflir og eykur víðsýni og þekkingu námsmanna til muna umfram nám innanlands.

Útfærsla slíks kerfis er ekki endilega flókin en hún þaf að vera skýr og framkvæmdin þarf ætíð að vera réttsýn og með þá sýn á þörf námsmannsins og að nám sé gott, alltaf. Því má gera því skóna að slíkt kerfi þurfi auk nægjanlegrar framfærslu, að duga til menntunar, það er fyrir framfærslu og skólagjöldum fram yfir doktorspróf hvað tímalengd varðar, sé óháð aldri nemenda, og að hluti stuðningsins breytist í styrk að loknu námi. Jafnframt þarf það að taka mið af kostnaði sameignlegra sjóða og samfélagslegum ábata. Nýtt kerfi yrði því einnig einhvers konar sambland lána- og styrkjakerfis og í upphafi afgreitt sem lán í upphafi hverrrar annar, hvers endurgreiðsla hæfist fimm árum eftir námslok, en hluti þess, framfærsluhlutinn, breyttist í styrk ef viðkomandi hefði starfað innanlands þessi fimm ár. Námsmenn erlendis fengju enn frekari hvata til að snúa heim með niðurfellingu skólagjalda að loknu ákveðnu starfstímabili hérlendis, auk lána til heimferða einu sinni til tvisvar á ári. Endurgreiðsla lána, ef til kemur, þarf að vera vel viðráðanleg og taka mið af tekjum viðkomandi.

Slík umbreyting sem hér er talað fyrir er róttæk en skynsöm, hennar er þörf og um hana þarf að nást víðtæk sátt svo niðurrifsöfl misskiptingar nái ekki að eyðileggja möguleika ungs fólks til náms undir yfirskini úrbóta. Námsmenn þurfa því sjálfir einnig að sýna samstöðu og krefjast úrbóta og taka sér stöðu utan flókkspólitískra stúdentahreyfinga sem eru alger tímaskekkja í nútímasamfélagi. Stúdentaráð háskóla þurfa að vera með hagsmuni allra stúdenta í fyrirrúmi og listakosningar eyðileggja hagsmuni heildarinar. Líklega væri einnig best að leggja niður LÍN í núverandi mynd vegna endalausra flokkspólitískra afskipta af starfsháttum þar á bæ í gegnum stjórnina og stofna nýja skrifstofu hverrar stjórn yrði skipuð námsmönnum og fagfólki úr skólakerfinu.

Helsta áherslumál Pírata er nýja stjórnarskráin og sú áhersla er meðal annars til komin vegna sífelldra loforðasvika stjórnmálamanna. Með nýrri stjórnarskrá getur allur almenningur og þar með einnig námsmenn, krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um hagsmunamál sín með undirskiftasöfnun sem og lagt fram þingmál. Þannig og þannig eingöngu er hægt að veita sitjandi stjórnvöldum hvers tíma aðhald og tryggja að almannahagsmunir verði í fyrirrúmi. Þess vegna eiga námsmenn samleið með Pírötum.

Að lokum læt ég fylgja með fimm helstu markmið Pírata fyrir næsta kjörtímabil en þau eru:

  1. Uppfæra Ísland með nýrri stjórnarskrá.
  2. Tryggja réttláta dreifingu arðs af auðlindum.
  3. Endurreisa gjaldfrjálsa heilbrigðisþjónustu.
  4. Efla aðkomu almennings að ákvarðanatöku.
  5. Endurvekja traust og tækla spillingu.

Komist Píratar til valda mun ég tala fyrir þessum áherslum.

Þór Saari.

Höfundur er hagfræðingur, fyrrverandi alþingismaður og í framboði fyrir Pírata.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 2.10.2016 - 15:39 - FB ummæli ()

Píratar og aldraðir

Grein þessi birtist í Kjarnanum í gær, sjá hér: http://kjarninn.is/skodun/2016-10-01-piratar-og-aldradir

Píratar, þrátt fyrir að vera að mörgu leyti hreyfing ungs fólks, hafa á að skipa mörgum liðsmönnum sem komnir eru yfir miðjan aldur, fólki sem hefur skilning, þekkingu og áhuga á þeim málum sem helst brenna á fólki á síðari hluta æviskeiðsins.
Augljóst er hverjum sem sjá vill, að málefni aldraðra og eftirlaunaþega hafa beðið skipbrot í meðförum hinna hefðbundnu flokka á Alþingi, flokka sem almennt ganga undir nafninu Fjórflokkurinn, vegna sameiginlegrar vanhæfni til að sinna málefnum almennings af alvöru. Fyrir utan það að búa við alvarlegan skort á hjúkrunarheimilum, þar sem komið er fram við vistmenn af alúð og virðingu og þar sem makar geta dvalið saman, þá eru kjör þeirra sem komin eru á efri ár og hættir að vinna, orðin skammarleg.

Píratar kalla eftir því að skerðingar á eftirlaunum verði lagðar af þegar í stað, þannig að allir fái þá grunnframfærslu sem kveðið er á um í lögum um almannatryggingar, burtséð frá því hvort viðkomandi hefur greitt í lífeyrissjóð og fái greiðslur þaðan. Þetta er réttlætismál vegna þess að við núverandi kerfi skerðinga þá eru uppsöfnuð lífeyrisréttindi ekkert annað en skattheimta á ská, því í fjölmörgum tilfellum fá þeir sem greitt hafa af launum sínum í lífeyrissjóð ekkert út úr almannatryggingum, og eru oft á sama báti og þeir sem aldrei hafa greitt í lífeyrissjóð.

Stóra vandamálið er þó það að lífeyrissjóðakerfið er hrunið og stendur ekki og hefur aldrei staðið undir þeim væntingum sem til þess voru gerðar. Svona uppsöfnunarkerfi sem gerir ráð fyrir greiddum lífeyri fjörtíu ár fram í tímann, samhliða því að vera galopið í annan endann hvað tímalengd greiðslna varðar, getur ekki gengið upp. Nýjasta dæmið, 480 milljarða tap lífeyrissjóðanna i Hruninu, er staðfesting á því.

Söfnunarsjóðskerfi sem þetta, með þeim formerkjum sem við búum við hér á landi með krónu, verðbólgu, óstöðugleika og spillingu, er gagnslaust sem einhvers konar fyrirkomulag til að tryggja öldruðum áhyggjulaust ævikvöld. Samskonar kerfum er oft lýst sem svo að þau gagnist fyrst og fremst sem púlía fyrir peningamenn, risastór pottur fjármuna fyrir fjármgansbraskara til að leika sér að, enda hafa braskarar, í gegnum hina ýmsu fjárfestingasjóði verið duglegir að fá lífeyrissjóðina til að leggja með sér í púkkið. Þetta tekst þeim vegna þess að stjórnir lífeyrissjóðanna eru að meirihluta skipaðar atvinnurekendum sem jafnframt eru þessi sömu fjárfestar eða tengdir þeim. Þessu kerfið þarf að gjörbreyta. Stjórnir lífeyrissjóða þarf að kjósa beint af félagsmönnum og til að gæta hagsmuna sjóðfélaga eingöngu. Einnig þarf að styrkja laga- og reglugerðaumhverfið svo að lífeyrissjóðunum verði bannað að vera í samkrulli við aðra í fjárfestingum sínum.

En aðalatriðið er samt að aldrei verður hægt að koma hér á stöðugu, trúverðugu kerfi fyrr en hægt er að gera raunhæfar áætlanir um fjárþörf lífeyrissjóðanna til útgreiðslu lífeyris og það er ekki hægt öðruvísi en með því að loka kerfinu í annan endan hvað útgreiðslur varðar. Jafnframt því tryggja að eftirlaunaþegar geti búið við örugg og góð kjör í ellini. Með því að takmarka þann tíma sem fólk fær greitt úr lífeyrissjóði mætti hækka þær lífeyrisgreiðslur umtalsvert og tryggja að fyrsta áratuginn eða svo, að lokinn starfsævi, hefði fólk nægt fé á milli handanna til að njóta lífsins með sóma og gæti þannig varið þessum mikilvæga áfanga í lífinu í áhugamálin, án þess að þurfa að velta fyrir sér hverri krónu. Að þessu tímabili loknu, og lengd þess er útfærsluatriði en tíu til fimmtán ár sýnist raunhæft, héldi viðkomandi áfram að fá greiðslur úr almannatryggingum en greiðslur úr líferyissjóði legðust af.

Eins og gengur er fólk misjafnlega vel á sig komið þegar aldurinn færist yfir. Þó má gefa sér að fyrstu tíu til fimtán árin að lokinni starfsævi, sé fólk tiltölulega vel rólfært til ferðalaga eða annars sem hugurinn stendur til. Síðan tekur við tímabil þar sem lúin bein og vöðvar þreytast meir og staðbundnari áhugamál taka við og þó heilsan sé misjöfn má í flestum tilfellum reikna með að þá sé fjárþörfin einfaldlega umtalsvert minni. Þannig væri hægt að tryggja sæmilega góðar tekjur til aldraðra þann tíma eftirlaunaáranna sem heilsan er best.

Annar hluti af nýju kerfi fyrir aldraða væri svo að byggja nægilega mikið af leiguíbúðum sem þeir hefðu aðgang að eins lengi og þörf krefur gegn hóflegri leigu- og með ákveðinni tiltekinni þjónustu. Slíkt myndi gera fólki kleift að selja eigið húsnæði sé það fyrir hendi og njóta þeirra ávaxta líka, til hvers þess sem fólk vildi, án þess að vera fórnarlömb okurleigu í svo kölluðum þjónustuíbúðum sem reknar eru í dag.

Slík umbreyting sem hér er talað fyrir er róttæk en skynsöm. Hún þarf að vera vandlega ígrunduð og kallar á vandaða útreikninga hlutlausra aðila, aðila sem bera fyrst og fremst hag almennings fyrir brjósti en eru ekki leiksoppar fjármagnsafla.

Helsta áherslumál Pírata er nýja stjórnarskráin og sú áhersla er meðal annars til komin vegna sífelldra loforðasvika stjórnmálamanna. Með nýrri stjórnarskrá getur allur almenningur og þar með einnig eldri borgarar, krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um hagsmunamál sín með undirskiftasöfnun. Þannig og þannig eingöngu er hægt að veita sitjandi stjórnvöldum hvers tíma aðhald og tryggja að almannahagsmunir verði í fyrirrúmi. Þess vegna eiga aldraðir samleið með Pírötum.

Að lokum læt ég fylgja með fimm helstu markmið Pírata fyrir næsta kjörtímabil en þau eru:
1. Uppfæra Ísland með nýrri stjórnarskrá.
2. Tryggja réttláta dreifingu arðs af auðlindum.
3. Endurreisa gjaldfrjálsa heilbrigðisþjónustu.
4. Efla aðkomu almennings að ákvarðanatöku.
5. Endurvekja traust og tækla spillingu.

Komist Píratar til valda mun ég tala fyrir þessum áherslum.

Þór Saari.
Höfundur er hagfræðingur, fyrrverandi
alþingismaður og í framboði fyrir Pírata.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 17.9.2016 - 15:09 - FB ummæli ()

Spilltir Framsóknarmenn

Nú hafa framsóknarmenn í NA-kjördæmi valið Sigmund Davíð til að leiða lista flokksins í kjördæminu. Þeir hafa valið mann sem er milljarðamæringur og á, eða átti, aflandsreikning í skattaskjóli sem gagngert var settur upp, eins og aðrir aflandseyjureikningar í skattskjólum, til að komast hjá skattgreiðslum. Reikingurinn var í nafni fyrirtækis, Wintris, sem er/var kröfuhafi á íslensku bankana eftir Hrunið og sem hann sjálfur sem forsætisráðherra sá um að færu betur út úr uppgjörinu með því að velja samningaleiðina frekar en skattaleiðina. Sömu framsóknarmenn hafa einnig hafnað Höskuldi Þórhallssyni sem er prestssonur, fjölskyldumaður, margra barna faðir, hefur unnið dyggilega fyrir Framsóknarflokkinn í áratugi og á engan aflandsreikning. Þar með hafa framsóknarmenn opinberað upp á gátt algert siðleysi meirihluta framsóknarmanna í kjördæminu. Það er ótrúlegt að verða vitni að þessu en framsóknarmenn, eða alla vega meirihluti þeirra þarna fyrir noðrðan, er gjörpilltur. Það er á ábyrgð allra kjósenda að stöðva þessa ömurlegu vegferð spillingar í íslenskum stjórnmálum í næstu kosningum og hafna Framsóknarflokknum.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 19.6.2016 - 20:58 - FB ummæli ()

Hvers vegna Andri Snær.

Pistill þessi birtist á Visir.is fyrr í dag.

Forsetakjörið sem fram fer næstkomandi laugardag gefur íslendingum færi á að gera að einhverju leiti upp það gamla og siðspillta pólitíska samfélag sem verið hefur við lýði undanfarin 25 ár, eða allt frá því að frjálshyggjuarmur Sjálfstæðisflokksins með Eimreiðarklíkuna í broddi fylkingar hófst handa við að afbyggja íslenskt samfélag. Hluti af þessu gamla samfélagi inniber einnig fráfarandi forseta og alla þá pólitísku yfirstétt sem hefur raðað sér á jötuna þennan tíma. Fólk sem með aðgerðum sínum og aðgerðarleysi keyrði samfélagið í stærsta gjaldþrot sögunar í Hruninu 2008. Hin útbrunnu blys, Davíð og Ólafur, marka nefnilega ákveðin tímamót, og það er fagnaðarefni að hvorugur þeirra muni verða næsti forseti Íslands.

Að teknu tilliti til mannkosta annarra frambjóðenda sem hafa þó ekki allir mikið fram að færa, virðist vera erfiðast fyrir fólk að gera upp á milli Andra Snæs Magnasonar og Guðna Th. Jóhannessonar. Vissulega hefur Guðni Th. margt fram að færa sem hófstilltur, yfirvegaður maður með vel ígrundaðar hugmyndir um embættið og sem slíkur eflaust ágætt „sameiningartákn“ sem mörgum finnst mikilvægt að sé til staðar í embætti forseta Íslands.

Táknmyndir eru hins vegar ekki það sem Ísland þarf á að halda á þessum skrítnu tímum sem við búum við í dag og glingur, hefðir og yfirborðsmennskan sem hefur einkennt mest allan feril Ólafs, þarf að víkja, þó hans verði vonandi minnst fyrst og fremst sem forsetans sem færði þjóðinni tvær þjóðaratkvæðagreiðslur og þar með völd sem hún hafði ekki haft síðan 1944. Ísland dagsins í dag þarf annað og meira en framhald á prjáli Ólafs og Vigdísar forvera hans. Ísland þarf ný viðhorf og nýja sýn á framtíðina. Viðhorf og sýn sem eiga rætur að rekja til aukinnar lýðræðisvitundar og þeirrar staðreyndar að núverandi stjórnskipan er ónýt og ný stjórnarskrá sem færir vald í meira mæli til almennings er mikilvægasta viðfangsefnið. Þar hefur Andri Snær mjög skýra sýn og yfirburði á Guðna Th. sem einhverra hluta vegna virðist ekki hafa kjark til að taka almennilega afstöðu til stjórnarskrármálsins, þrátt fyrir að þjóðin hafi í þjóðaratkvæðagreiðslu kosið sér þessa nýju stjórnarskrá með yfirgnæfandi meirihluta.

Ferill Andra Snæs sem aktívista og rithöfundar er glæsilegur. Bækurnar hans eru einstaklega góðar, Bónusljóð, Sagan af Bláa Hnettinum, LoveStar og Draumalandið eru hver á sinn hátt innsýn í breyskleika mannanna og samfélag þeirra, en innibera jafnframt mjög skýra og fallega framtíðarsýn á samfélagið og endurspegla bjartsýni á framtíðina, ásamt praktískum hugmyndum um hvernig gera má lífið betra og skemmtilegra fyrir kynslóðir framtíðarinnar. Maður sem hefur skilað af sér slíkum verkum og varið þau í orði og á borði með einstaklega rökföstum og prúðmannlegum hætti á svo sannarlega fullt erindi í starf forseta Íslands, sérstaklega þegar höfð eru í huga þau tímamót sem samfélagið okkar stendur á, bæði pólitískt og efnahagslega.

Fari svo að það verði framhald á dauðakippum gamla spillta Íslands og að náhirð þess verði áfram nægilega sterk til að hafa áhrif, er það svo sannarlega áhyggjuefni, því núverandi pólitísk yfirstétt, í bandalagi við jábræðralag Fjórflokksins, mun halda áfram á sömu vegferð og fyrr. Viðskilnaður pólitísku yfirstéttarinnar við fólkið í landinu er hins vegar alger og birtist mjög skýrt á 17. júní  þegar almenningi var meinaður aðgangur að Austurvelli og hátíðarhöldunum þar svo stjórnmálastéttin gæti mært sjálfa sig í friði. Þessu umhverfi þarf að breyta, en það fólk sem er fyrir á fleti mun streitast á móti þeim breytingum og kjarklítill, ákvarðanafælinn forseti sem hvorki viðurkennir samtíman né söguna mun verða Fjórflokknum auðsveipur aðstoðarmaður á áframhaldandi vegferð hans gegn almannahagsmunum.

Það er því mikilvægt að næsti forseti Íslands verði kjarkmikill, verði með skýra sýn á söguna og á samfélag dagsins og verði einnig með skýra framtíðarsýn. Að öðrum ólöstuðum þá er Andri Snær Magnason sá frambjóðandi. Andri Snær sem næsti forseti Íslands yrði frábært fyrsta skref í átt til þess nýja og betra Íslands sem virðist vera í fæðingu og mun vonandi raungerast í þingkosningum haustsins með afhroði Fjórflokksins. Kjósum því Andra Snæ og kjósum betri framtíð fyrir afkomendur okkar, og fyrir komandi kynslóðir.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 23.3.2016 - 00:08 - FB ummæli ()

Hvað er . . . . Alþingi? Hvað er vantraust?

Ofangreindur titill má standa eins og hann er eða það má bæta inn í hann eftir vild, hver svo sem skoðun manna er á Alþingi. Það er hins vegar rétt að benda á í tilefni skattaskjólsreiknings fjölskyldu forsætisráðherra, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar að Alþingið okkar og þingmennirnir okkar, með umboð frá þjóðinni, mun ekki taka á því máli eins og þarf. Ekki vegna þess að einstaka þingmenn vilja það ekki og ekki vegna þess að það sé ekki rétt. Heldur vegna þess að íslensk stjórnmálastétt er sjálf svo innvikluð inn í það pólitíska jábræðralag sem ræður ríkjum á Alþingi, að hún er siðferðilega ófær um að leysa málið.

Ástæðan er harla einföld og menn þurfa aðeins að spyrja sig einnar spurningar. Hvað myndi Samfylkingin gera ef hún væri í ríkisstjórn með Framsókn þegar þetta mál kom upp? Eða Vinstri-græn? Eða Björt framtíð? Þau myndu gera nákvæmlega það sama og Sjálfstæðisflokkurinn gerir nú. Draga sig aðeins til baka og láta Framsókn taka slaginn en taka samt aldrei í mál að fórna ríkisstjórnarsamstarfinu, þ.e. völdunum. Hér má að sjálfsögðu víxla nöfnum allra Fjórflokkana að vild í hvað áttir sem menn vilja en niðurstaðan yrði alltaf sú sama. Hvaða samstarfsflokkur sem er með hvaða forsætisráðherra sem væri, í núverandi kálgarði Fjórflokksins, myndi ekki slíta stjórnarsamstarfi út af svona máli.

Því er það nauðsynlegt að það verði Píratar sem leggi fram vantrausttillögu á forsætisráðherra svo hún hafi eitthvert vægi, og já það er nauðsynlegt að slík tillaga komi fram. Fyrst og fremst af prinsippástæðum, því þó ekki séu miklar líkur á því að hún verði samþykkt, þá kallar slík tillaga fram þá umræðu sem þarf um málið. Sú umræða þarf að fara fram þar sem forsætisráðherra sjálfur neitar að ræða það, sem og varaformaður Framsóknarflokksins og ritari hans líka. Sú náhirð Fjórflokksins sem kallar sig stjórnarandstöðu ætti svo að sjálfsögðu að vera með á málinu og styðja það alla leið, fyrir siðasakir, þar sem það er ólíðandi að svona skattaskjólsleyndarhjúpur fái að hvíla í þögn yfir fjármálum milljarðamæringsins sem er forsætisráðherra landsins.

Það er líka hefð fyrir því að RÚV sjónvarpi beint frá umræðum á Alþingi um vantraust og því mun slík tillaga og umræðurnar um hana vera upplýsandi fyrir almenning í landinu um viðhorf alþingismanna til málsins, sem og að varpa ljósi á það hvað formanni Sjálfstæðisflokksins finnst um það, en hann hefur, eins og kunnugt er, dregið lappirnar í að kaupa gögn um íslendinga sem eiga eignir í skattaskjólum. Slík umræða dregur líka fram þá undarlegu niðurstöðu síðustu kosninga, að meirihluti þjóðarinnar kaus sér tvo milljarðamæringa til að stýra landinu og neyðir almenning (vonandi) til að mynda sér skoðun á því hvort slíkt hafi verið æskilegt, og sé æskilegt í næstu kosningum að ári.

Með nýju stjórnarskránni hefði almenningur getað krafist þingrofs og kosninga með undiskriftasöfnun, í stað þess að horfa bjargarlaus á. En einmitt þess vegna kastaði Fjórflokkurinn niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar í ruslið og við sitjum því enn upp með beyglað Alþingi og brogað þingræði sem er ófært um að taka á málum. Vantrausttillaga skerpir á því.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 8.3.2016 - 20:04 - FB ummæli ()

Stjórnarskrárnefnd – athugasemdir

Meðfylgjandi eru innsendar athugasemdir mínar við frumvarpsdrög stjórnarskrárnefndar Fjórflokksins.

 

Athugasemdir við frumvarpsdrög stjórnarskrárnefndar.

 Almenn athugasemd.

Undirritaður gerir alvarlegar athugasemdir við öll frumvarpsdrögin þrjú sem og það athæfi yfir höfuð að skipa stjórnarskrárnefnd þar sem þegar liggur fyrir samþykki yfirgnæfandi meirihluta kjósenda í löglega boðaðri þjóðaratkvæðagreiðslu þann 20. október 2012 þar sem 2/3 hlutar kjósenda lýstu sig fylgjandi tillögum að nýrri stjórnarskrá sem þjóðkjörið stjórnlagaráð hafði samið. Það stjórnlagaráð (þá stjórnlagaþing) hafði verið kjörið í allherjaratkvæðagreiðslu almennings þann 27. nóvember 2011 og skilaði af sér fullbúnum tillögum að nýrri stjórnarskrá fyrir Lýðveldið Ísland í sem var í samræmi við vilja almennings sem og Alþingis.

Það hefur ALDREI GERST í sögu vestrænna lýðræðisríkja að þjóðaratkvæðagreiðsla hafi verið hunsuð með þeim hætti sem meirihluti Alþingis gerði vorið 2013 og hefur þeim verknaði þingsins verið lýst sem hreinu og kláru valdaráni, sem hlýtur að teljast rétt styðji menn almennt þá hugmynd að í lýðræðisríki komið valdið frá almenningi.

Þessi niðurstaða nefndarinnar er því illskiljanleg með tilliti til almennra lýðræðissjónarmiða þar sem þegar liggur fyrir niðurstaða þjóðaratkvæðagreislu um þessi þrjú atriði. Niðurstaða nefndarinnar er af sömu ástæðu illskiljanleg með tilliti til hugmyndarinnar um fullveldi þjóðar þar sem allt vald í lýðræðisríki kemur frá þjóðinni og vekur upp spurningar um á hvaða forsendum nefndarmenn eru að sinna hlutverki sínu.

Það er því ekki um annað að ræða en að hvetja nefndarmenn alla til að skila inn skipunarbréfi sínu og benda forsætisráðherra Sigmundi Davíð Gunnlausgssyni á það að þjóðin hefur þegar sett sér nýja stjórnarskrá (drög) í þjóðaratkvæðagreiðslu. Sú aðgerð að hunsa þá niðurstöðu var valdarán fámennrar pólitískrar valdastéttar sem ekki er hægt að búa við, enda má líta svo á að Alþingi sé í kjölfar þess verknaðar umboðslaust.

Það er því einboðið að stjórnarskrárnefnd afturkalli tillögur sínar og geri tillögur stjórnlagaráðs um þessi þrjú atriði að sínum og skili inn skipunarbréfi sínu. Annað er stuðningur nefndarmanna við þann gjörning sem meirihluti Alþingis gerði þegar þjóðaratkvæðagreiðslan var hunsuð.

 

Frumvarp um náttúruauðlindir.

Frumvarp stjórnarskrárnefndar um náttúruauðlindir er ekki í neinu samræmi við þann þjóðarvilja sem birtist í þjóðaratkvæðagreiðslunni þann 20. október 2012 né framhaldsmeðferð Alþingis á þeim ákvæðum eins og þau birtast í grein 34 í tillögum stjórnlagaráðs. Þjóðin hefur þegar samþykkt þá tillögu og ber nefndinni því að draga þetta frumvarp til baka með vísan í niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar.

Athyglisvert er einnig að formaður nefndarinar hefur sagt opinberlega að þetta ákvæði muni ekki breyta neinu hvað varðar fiskveiðistjórnunarkerfið og úthlutun og nýtingu aflaheimilda. Frumvarpið er því sjálfdautt.

 

Frumvarp um þjóðaatkvæðagreiðslu að kröfu kjósenda.

Frumvarp þetta er ónýtt sé markmiðið að innleiða breytingu á stjórnsarskrá þar sem almenningi er gefinn kostur á að stöðva lög sem Alþingi hefur sett af fjórum meginástæðum.

Í fyrsta lagi er 15% þröskuldur kosningabærra manna til að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu of hár þar sem útilokað er að safna þeim allt að 40.000 undisrskriftum sem til þarf, sérstaklega þar sem ekki er gert ráð fyri því í frumvarpinu að um rafrænar undirskriftir geti verið að ræða. Nefndarmenn virðast ekki hafa gert sér grein fyrir því að 10% þröskuldur sem er algengt viðmið, er það vegna ástæðu, sem sagt þeirri að hærri þröskuldur gerir slíkt ákvæði óvirkt. Nema þá að það sé markmið nefndarinnar að svo verði.

Í öðru lagi er 4 vikna tími til söfnunar undirskrifta allt of skammur og útilokar einnig að ákvæðið geti nokkurn tíma orðið virkt og það þrátt fyrir að rafrænar undirskriftir yrðu leyfðar. Nefndarmenn virðast ekki hafa gert sér grein fyrir því að almennt þar sem þjóðaratkvæðagreiðslur eru að frumkvæði kjósenda er gefinn lengri tími til söfnunar undirskrifta og rannsóknir sýna að 3 mánuðir er talinn vera lágmarks tími til slíks.

Í þriðja lagi það að fjórðung kosningabærra manna þurfi til að synja lögunum samþykkis er fráleitt ákvæði og það er algerlega óþekkt meðal ríkja sem telja sig lýðræðisríki að þeir sem heima sitja geti haft áhrif á niðurstöðu atkvæðagreiðslu. Hér virðast íslendingar (nefndarmenn) enn einu sinni tilbúnir að gera sig að athlægi meðal lýðræðisríkja heims með að finna upp sér-íslenska útgáfu af lýðræði og nefndarmenn virðast ekki sér neina grein fyrir að ástæða þess að aðrar þjóðir notast ekki við svona ákvæði er sú að það gengur ekki upp, hvorki röklega né lýðræðislega séð. Það er furðulegt að nefnd skipuð alþingismönnum og öðrum sérfræðingum skuli hafa yfir höfuð látið sér detta þetta atriði í hug.

Í fjórða lagi er þetta alvarleg aðför að tillögum Stjórnlagaráðs þar sem ekki er minnst einu orði á persónukjör, jafn vægi atkvæða né þingmál að frumkvæði kjósenda eins og stjórnlagaráð lagði til.

Það er því einboðið að stjórnlaganefndin dragi þetta frumvarp til baka og taki orðrétt upp greinar 39, 65, 66 og 67 úr tillögum stjórnlagaráðs og geri að sínum enda voru þær samþykktar af yfirgnæfandi meirhluta kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslunni þann 20. október 2012.

 

Frumvarp um umhverfi- og náttúruvernd.

Frumvarp þetta er í veigamiklum atriðum frábrugðið tillögum stjórnlagaráðs eins og þær birtast í greinum 33, 34 og 35 og þjóðin samþykkti í þjóðaratkvæðagreisðlu þann 20. október 2012. Nefndinni ber því að taka upp þær greinar með vísan til þjóðaratkvæðagreiðslunnar og vinnu Alþingis í málinu í kjölfar hennar þar sem farið var í mikla og nákvæma skoðun á málinu og draga til baka þetta frumvarp sitt.

Að lokum vill ég hvetja nefndarmenn alla til að velta því alvarlega fyrir sér hvers konar vinnu þeir eru að taka þátt í með framlagningu þessara frumvarpa, með tilliti til þess að þjóðin sjálf hefur þegar sett sér nýja stjórnarskrá (drög) og hvað það raunverulega þýðir þegar kjörnir fulltrúar kjósa að ganga þvert gegn vilja þjóðarinnar í löglega boðaðri þjóðaratkvæðagreiðslu.

 

Með vinsemd og virðingu,

Þór Saari, fyrrv. alþingismaður

Breiðabólsstöðum

225 Garðabæ

 

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Þór Saari
Hagfræðingur með lýðræðis- og stjórnmálavitund sem gerir kröfu um virka þátttöku í samfélaginu.

Er í framboði fyrir Pírata í SV kjördæmi (kraganum). Er fyrrverandi þingmaður í SV kjördæmi (kraganum) fyrir Hreyfinguna (2009-2013) og er einnig í stjórn Samtaka um lýðræði og almannahag.
Netfangið er: saari@centrum.is
RSS straumur: RSS straumur