Sunnudagur 09.11.2014 - 15:45 - FB ummæli ()

Far vel Dögun

Stjórnmálahreyfingin Dögun sem hélt landsfund sinn nú um helgina tók á þeim fundi sem og á aukalandsfundi í nóvember 2013 ákvarðanir um framhaldslíf flokksins sem breyta bæði eðli og inntaki Dögunar eins og lagt var upp með við stofnun í aðdraganda Alþingiskosninganna 2013. Hugmyndin að Dögun var að reyna að stofna til samstarfs þeirra afla sem vildu ekki tefla fram stjórnmálum á sömu forsendum og hefð er fyrir á Íslandi, þ.e. Fjórflokks-stjórnmálum, heldur sáu menn fyrir sér íslensk stjórnmál og þáttöku í þeim með öðru sniði. Við í Hreyfingunni töldum rétt að leggja okkar lóð á vogarskálarnar og Hreyfingin og tveir þingmenn hennar, ég og Margrét Tryggvadóttir ásamt öðrum, beittum okkur fyrir stofnun Dögunar sem sameiningarafli um raunverulega öðruvísi stjórnmál. Þar komu að borðinu meðal annars nokkrir grasrótarhópar, einstaklingar úr Stjórnlagaráði og Frjálslyndi flokkurinn.

Stefnuskrá Dögunar var mjög hnitmiðuð og svo kölluð kjarnastefna var samin utan um fá atriði. Eins voru samþykktir (lög) Dögunar mjög lýðræðislegar og fengum við meðal annars aðstoð Lýðræðisfélagsins Öldu við samningu þeirra. Samþykktirinar innihéldu mikilvæg atriði eins og bann við fjárframlögum frá lögaðilum, mikla breidd við alla meiriháttar ákvarðanatöku og Dögun hafði engan formann eða leiðtoga sem var svar okkar við þeim gersamlega misheppnuðu leiðtogastjórnmálum sem skaðað hafa svo íslenska pólitík.

Þrátt fyrir að vera alvöru valkostur við Fjórflokkinn í kosningunum 2013 (og já, „Björt“ framtíð er líka Fjórflokkur) fékk Dögun lítið fylgi í kosningunum og tilraun Dögunar til þáttöku í sveitarstjórnarkosningunum síðast liðið vor mistókst einnig. Því miður hefur Dögun ekki tekist að fara í þá sjálfsskoðun sem þurfti til að finna hvað fór úrskeiðis. Þeirri mikilvægu spurningu sem allar stórnmálahreyfingar ættu að spyrja sig reglulega ekki síst eftir svo slaka vegferð, spurningunni „Hvert er erindið?“ hefur ekki verið svarað og tilraunir til að bera hana upp hafa heldur ekki fengið hljómgrunn. Þess í stað hefur starfið frá kosningunum 2013 miðað að því að að gera Dögun að hefðbundunum íslenskum  stjórnmálaflokki til þáttöku í hefðbundum stjórnmálaumræðum á hefðbundnum forsendum.

Afraksturinn af þeim landsfundi sem nú er lokið og auka landsfundinum á síðasta ári hefur verið sá að Dögun er ekki lengur raunverulegur valkostur við Fjórflokkinn þar sem breytingar á samþykktum félagsins á þessum fundum hafa fært Dögun undir sama hatt. Þar ber helst að nefna að Dögun hefur afnumið bann við framlögum lögaðila og er nú galopið fyrir fé frá fyrirtækjum og samtökum þeirra. Meiri háttar ákvarðanir félagsins svo sem þáttaka í stjórnarsamstarfi þurfa ekki að vera bornar undir félaga Dögunar heldur er nóg að fámennur hópur fólks (þ.á.m. þingmenn) taki ákvörðum þar um. Dögun verður heldur ekki öðruvísi hvað forystu varðar heldur hefur fellt sig undir sama leiðtogablætið og Fjórflokkurinn með beinni kosningu formanns og varaformanns framkvæmdaráðs Dögunar, sem munu svo í framtíðinni koma fram fyrir Dögun sem s.k. talsmenn hennar.

Tilraunir, aðallega mínar, til að nýta téðan landsfund til gagngerrar naflaskoðunar og hugmyndaflæðis um stöðu, eðli og framtíð Dögunar báru ekki árangur heldur varð hann að hefðbundnum fundi með sömu sjálfhverfu niðurstöðunum og hefðbundnir landsfundir hefðbundinna stjórnmálaflokka.

Niðurstaðan af þessum fundum sem og áhugaleysi félaga minna í Dögun til að starfa að stjórnmálum á öðrum forsendum en hefðbundið er, hafa gert það að verkum að ég á ekki lengur samleið með Dögun, hvorki starfsháttum né hugmyndafræði.

Innan Dögunar er margt duglegt baráttufólk með hjartað á réttum stað og ég óska þeim velfarnaðar þrátt fyrir Fjórflokksblætið og þótt sjálfur telji ég kröftum mínum og atkvæði ekki vel varið í svoleiðis stjórnmál. Dögun sem deild innan Frjálslynda flokksins er eitthvað sem ekki var lagt upp með en er engu að síður niðurstaðan. Far vel Dögun.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Þór Saari
Hagfræðingur með lýðræðis- og stjórnmálavitund sem gerir kröfu um virka þátttöku í samfélaginu.

Er í framboði fyrir Pírata í SV kjördæmi (kraganum). Er fyrrverandi þingmaður í SV kjördæmi (kraganum) fyrir Hreyfinguna (2009-2013) og er einnig í stjórn Samtaka um lýðræði og almannahag.
Netfangið er: saari@centrum.is
RSS straumur: RSS straumur