Fimmtudagur 28.10.2010 - 20:52 - FB ummæli ()

..en ekkert gerist

Það er fátækt á Íslandi í dag. Þetta vita allir og lausnin er einnig þekkt. Þrátt fyrir það gerist ekkert, þeir fátæku eru enn fátækir, svangir og bíða í biðröðum eftir mat. Það á að skera niður hér og þar, menn halda fundi, ráðherrar mæta og hlusta en ekkert gerist. Stjórnvöld ræða um að leiðrétta lán heimilanna, nefndin fundar og fundar, en ekkert gerist. Þjóðin er óánægð, kvartar, röflar og bölsótast en ekkert gerist.

Hver vill að eitthvað gerist og hver vill að ekkert gerist? Hvor vill meira? Ég bara spyr.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 24.10.2010 - 21:27 - FB ummæli ()

Joseph Stiglitz og landsbyggðarsjúkrahúsin okkar

Joseph Stiglitz  Nobelsverðlaunahafi í hagfræði skrifar athyglisverða grein í Guardian þann 19. október s.l..

http://www.guardian.co.uk/commentisfree/cifamerica/2010/oct/19/no-confidence-fairy-for-austerity-britain/print

Í þeirri grein ræðir hann þá þráhyggju ríkisstjórna að skera niður í kreppu. Hann nefnir ýmis dæmi máli sínu til stuðnings og telur þessa aðferð fullreynda. Afleiðingarnar séu mun verri en hugsanlegur ávinningur. Hann er í raun að andmæla aðferðum og hugmyndafræði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Evrópusambandsins í nálgun þeirra á lausn kreppunnar.

Niðurstaða hans er meðal annars eftirfarandi;

Thanks to the IMF, multiple experiments have been conducted – for instance, in east Asia in 1997-98 and a little later in Argentina – and almost all come to the same conclusion: the Keynesian prescription works. Austerity converts downturns into recessions, recessions into depressions.

Hann telur að við höfum ekki efni á niðurskurði því niðurskurðurinn er kreppudýpkandi og þegar lánadrottnar skynja það þá muni traust og trúverðuleiki minnka þvert á ætlun ráðamanna. Einnig munu meiri verðmæti tapast en fæst til baka með niðurskurði. Hann bendir á að endurskipulagning hins opinbera eigi ekki rétt á sér í kreppu. Slíkar aðgerðir eigi rétt á sér þegar vel árar.

We cannot afford austerity. In a better world, we might rightfully debate the size of the public sector. Even now there should be a debate about how government spends its money.“

Hann gagnrýnir einnig að menn ætli ekki að nýta sér þá fjárfestingu sem lagt hefur verið í. Hann telur það eyðslu á mannafla, þekkingu og fjármunum að skera niður opinbera þjónustu. Auk þess mun kostnaðurinn við enduruppbyggingu vera töluverður.

If the government doesn’t spend this money there will be massive waste of resources as its capital and human resources are under-utilised.“

Þetta segir sig allt sjálft í sjálfu sér. Þrátt fyrir það ætla núverandi stjórnvöld að skera niður mjög mikið á næsta ári. Niðurskurðurinn í heilbrigðismálum er dæmi um það sem Joseph talar um. Þar hefur átt sér dýr fjárfesting í mannafla, menntun og tækjum. Að leggja niður heilu stofnanirnar að meira eða minna leiti skapar enn dýpri kreppu á Íslandi. Sá fjöldi heilbrigðisstarfsmanna sem missir vinnu mun sjálfsagt orsaka það að viðkomandi fjölskyldur munu þurfa að bregða búi og flytja úr landi. Skaðinn verður augljóslega mun meiri en skammvinnur sparnaðurinn. Ráðherrar ættu að taka mark að jafn viðurkenndum fræðimanni og Stiglitz er. Við óskum bara eftir skynsemi, annað ekki.

Þegar haft er í huga að hægt sé að ná fyrirhuguðum sparnaði inn, nokkrum sinnum, með því að skattleggja séreignasparnaðinn og geta látið það eiga sig að rústa samfélögum víða um land, þá krefjumst við skynsemi af stjórnvöldum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 23.10.2010 - 21:35 - FB ummæli ()

Evrópusambandið og strákarnir frá Chicago

Í Evrópu gætir vaxandi óróleika og mótmæla. Þar eins og hér er ráðist á velferðakerfið og það er gert í skjóli bankakreppunnar. Eins og við vitum allt of vel þá urðu bankarnir óstarfhæfir vegna skulda. Hinn hluti hagkerfisins var að mjólka beljur, veiða fisk og bræða ál. Þrátt fyrir það sogaðist raunhagkerfið niður með bönkunum. Núna á raunhagkerfið og almenningur að greiða tap bankanna og því þarf að skera niður.

Á Evru svæðinu mega löndin ekki hafa meiri halla en 3% af landsframleiðslu(GDP) og heildarskuldirnar verða að vera minni en 60% af GDP. Nýlega ákvað  Evrópusambandið að innleiða refsiákvæði fyrir óþekk lönd sem fylgja ekki reglunum. Þessar reglur munu væntanlega verða að raunveruleika í nánustu framtíð.

Hugmyndin er að framkvæmdavaldið hjá ESB fylgist með löndunum og birti síðan opinbera skýrslu um þau lönd sem standa sig illa, þ.e. setja þau í skammarkrókinn. Mun framkvæmdastjórnin fylgjast grannt með kostnaði við vinnuafl í því augnamiði að auka samkepnishæfni, á þeirri forsendu að hátt kaup minnki samkeppnishæfnina. Samtímis er viðkomandi löndum kynnt sú vegferð sem ESB ætlast til að þau fari í til að ná settum markmiðum. Almennt telur ESB að launakostnaður vegna vinnandi fólks sé of mikill og ósveigjanleiki vinnumarkaðarins hindri samkeppnishæfni.

Framkvæmdavald Evrópusambandsins ákvarðar síðan refsinguna. Hún getur verið t.d. 0.1% af landsframleiðslu viðkomandi ríkis á hverju ári þangað til að ESB finnst að viðkomandi ríki hafi staðið sig.

Í raun hafa lönd Evrusvæðisins afhent framkvæmdavaldi ESB/Seðlabanka Evrópu fullveldi sitt við fjárlagagerð. Þjóðþing viðkomandi landa eru kosin með lýðræðislegum hætti en vald þeirra flyst í auknu mæli til framkvæmdavalds ESB sem tilheyrir frekar bankaelítu Evrópu. Þar sem ekki er hægt að gengisfella gjaldmiðilinn, Evruna, þá verða þjóðlöndin að „gengisfella“ sig innan frá. Það er gert með kauplækkunum og niðurskurði í velferðar og eftirlaunakerfinu. Lettland er dæmi um slíkt.

Þegar reglur ESB eru lesnar er augljóst að lítill sem enginn munur verður á hugmyndafræði, starfsaðferðum og afleiðingum ESB reglnanna og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Enda hafa ESB og AGS starfað saman í nokkrum Evrópulöndum og virðist ekki vera mikill ágreiningur á milli þeirra.

Koss AGS hefur verið kaldur en að vilja nátta hjá ESB til frambúðar er óskiljanlegt.

http://ec.europa.eu/economy_finance/articles/eu_economic_situation/pdf/com2010_525en.pdf

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 22.10.2010 - 23:45 - FB ummæli ()

Að bölva í kirkjunni

Verkalýðsbarátta gengur út á að bæta kjör. Grunnhugmyndin er að kjör einstaklingsins er ekki einkamál viðkomandi. Þess vegna ákváðu menn að deila kostnaðinum á milli sín. Þegar einhver er veikur og óvinnufær eða lendir í slysi þá slá allir saman í púkkið. Grunnhugmyndin er að jafna kostnaðinum. Áður fyrr var það vandamál einstaklingsins að bjarga sér ef eitthvað fór úrskeiðis. Það hafði oft í för með sér skelfilegar afleiðingar fyrir einstaklinginn og heimilið. Oftar en ekki þurfti að leggja niður fjölskylduna í sinni fyrri mynd og skipta henni upp ef fyrirvinnan slasaðist eða dó. Með mikilli baráttu verkalýðsfélaga tókst að breyta þessu.

Þar sem hluti þessara kjarbóta var sóttur í vasa atvinnurekenda var andstaðan mikil þar. Þeir og ýmsir auðmenn töldu að gæfa einstaklingsins væri mál hvers og eins en ekki annarra sem gætu spjarað sig. Hvers vegna ættu þeir að gefa spón úr aski sínum?  Auðinn höfðu þeir unnið sér inn hörðum höndum og ættu hann því skilið óskiptan. Til allra hamingju komust menn að samkomulagi.

Sagan hefur tilhneigingu til að endurtaka sig.

Í dag hefur hluti þjóðarinnar lent í ógöngum. Það getur leitt til þess að grundvellinum að rekstri heimilisins brestur. Fjölskyldur missa allt sitt, eins og áður, og lenda á vergangi. Fyrir 130 árum fóru menn vestur um haf en í dag frekar til Noregs.

Aftur eru til menn sem telja þetta vera eingöngu vandamál viðkomandi einstaklinga og skuli leysast með „einstaklingsmiðuðum lausnum“. Aftur eru menn á móti því að deila kostnaðinum vegna þess að seilst er í vasa annarra og það ætla þeir „ekki að láta gerast á sinni vakt“. Aftur þurfa einstaklingar að berjast fyrir þeirri hugsjón að óhamingja eins sé ekki einkamál viðkomandi.

Þegar forusta ASÍ tekur upp 100 ára gamla orðræðu atvinnurekenda þá finnst mér þeir vera að bölva í kirkjunni.

Þegar söfnuðurinn klappar síðan líka fyrir bölvuninni þá er kominn tími til að fara í trúboð.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 21.10.2010 - 20:23 - FB ummæli ()

Stjörnurnar og ASÍ

Forustumenn verkalýðshreyfingarinnar eru innmúraðir inní valdaelítu landsins. Það hefur átt sér töluverðan aðdraganda og er því ekkert nýtt. Nýjasta birtingamynd þess í dag er togstreita forystunnar á milli þess að stjórna lífeyrissjóðum eða verkalýðsfélagi. Röksemdarfærslunni er stillt þannig upp að ekki komi til greina að reka afa og ömmu út á gaddinn vegna óráðssíu unga fólksins. Það hvarlar að manni stundum að unga kynslóðin hafi fundið upp syndina í boði Davíðs Oddsonar. Um leið er það gleymt að þegar einhver tekur lán þá er einhver annar sem lánar.

Hagsmunasamtök heimilanna hafa bent á þá leið að þær afskriftir sem lífeyrissjóðirnir þyrftu að taka á sig yrðu eingöngu innheimtar með skerðingu á réttindum yngri kynslóðarinnar. Þeir sem eru núna á lífeyri þyrftu ekki að taka á sig skerðingu. Röksemdin er sú að yngra fólkið getur hugsanlega bætt lífeyriskjör sín síðar. Auk þess er áætlað að afskriftirnar séu eingöngu um 4% af eignum sjóðanna.

Því hvarlar það að manni að hugsun sjóðsstjóranna snúist mest um hag sjóðsins, ávöxtun og hagnað, þ.e. að ársreikningurinn verði sem bestur. Það er í sjálfu sér göfugt markmið en verðu frekar ómerkilegt þegar kannað er hvað hangir hinum megin á spýtunni.

Það dynja á okkur fréttir af heimilum sem eru á leið í eða komin í gjaldþrot. Úrræði stjórnvalda bera þess öll merki að þau gagnast seint og illa. Það á sér stað harmleikur hjá þúsundum fjölskyldna. Daglega lesum við um fátækt, matargjafir, uppboð og útburð. Allt of oft þarf maður að gnísta tönnum þegar fréttist af einhverjum sem hefur tekið sitt eigið líf vegna skulda.

Lífeyrissjóðirnir tóku þátt í hrunadansinum, fjárfestu í bólunni og ætluðu sér að ná í hagnað af fjármagni en ekki heiðarlegri framleiðslu. Þegar bólann sprakk kom í ljós að gæslumenn lífeyris okkar höfðu fallið á prófinu en græddu á verðbólguskotinu sem þeir voru meðsekir um að skapa. Í dag tileinka verkalýðsforingjar sér sömu aðferðafræði og bankar. Ekkert skal gefið eftir og mistök fyrri ára skulu greiðast upp af almenningi með góðu eða illu.

Sameiningin er fullkomnuð, verkalýðsforingar sem sjóðsstjórar tala sömu tungu og bankastjórar og atvinnurekendur. Samtök atvinnurekenda tala máli stórfyrirtækja og kvótaeigenda en litli atvinnurekandinn á hvergi heima eins og verkalýðurinn. Það er augljóst að draga þarf nýja línu í sandinn. Hver sinnir hagsmunum fjármagnsins og hver sinnir hagsmunum fólksins?  Það er nauðsyn að almenningur bindist einingu svo við getum skapað framtíðarland fyrir okkur eftir þennan vetur sem við erum stödd í.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 18.10.2010 - 19:01 - FB ummæli ()

Hagsmunir hverra

Í dag fer fram mikil barátta um allan heim. Baráttan snýst um hvort tap banka skuli vera fjármagnað af almenningi eða þeim sem orsökuðu bankahrunið. Það voru bankarnir sem gátu ekki fjármagnað sjálfa sig á gjalddaga og fóru því í gjaldþrot. Afleiðingarnar fyrir almenning  eru vel þekktar og augljóst að hugmynd bankanna er að koma sem best frá hruninu á kostnað almennings.

Að bankar sýna nú þegar hagnað og ætla síðan að halda áfram að hámarka hann með öllum ráðum, það er mikil óbilgirni gagnvart almenningi. Að bankarnir vísvitandi tóku stöðu gegn krónunni á sínum tíma til að bæta stöðu sína ætti að flokka undir aðför banka að hag almennings en ekki afbrot einhverra einstaklinga.

Afleiðingar af hegðun bankanna í aðdraganda hrunsins veldur því að stjórnvöld á hverjum stað þurfa að skera niður til að greiða herkostnaðinn við að koma gjaldþrota bönkum í starfhæft ástand á nýjan leik. Baráttan stendur um það hvort sú velferð sem byggð hefur verið upp á hverjum stað verði tekin af almenningi eða ekki. Eftir margra áratuga baráttu almennings fyrir bættum kjörum þá virðast stjórnvöld telja það sjálfsagt og réttmætt að fjarlægja þau réttindi.

Mikil mótmæli í Frakklandi og víðar í Evrópu eru dæmi um slíka baráttu. Í raun er þessi barátta hin raunverulega stéttabarátta í dag, barátta almennings við banka. Atvinnurekendur voru í skotlínu hér áður fyrr en hluti þeirra, smáfyrirtæki, eru oftast í sömu sporum og almenningur. Stóru fyrirtækin, sérstaklega alþjóðleg stórfyrirtæki, nýta sér bankakreppuna í Evrópu til að færa kjör verkamanna þar í það horf sem við þekkjum frá þróunarlöndunum. Það mun hámarka gróða þeirra, lágt kaup, engin réttindi og ekkert almennt velferðakerfi sem er bara kostnaður.

Það er í raun hin eina sanna tæra snilld að hafa tekið forkólfa verkalýðsins og munstrað þá í sjóðsstjóra lífeyrissjóða og leyft þeim að spranga um sali elítunnar. Svipaða sögu er að segja af ýmsum forustumönnum stjórnmálanna. Þegar almenningur á Íslandi vill höggva örlítið skarð í hagnað bankanna þá ætlar allt vitlaust að verða. Að forustumenn verkalýðsins og jafnaðarmenn stjórnmálanna séu farnir að tala máli bankanna gefur sterklega til kynna að þeir hafa ekki alið manninn á meðal skuldsettra Íslendinga sem eiga varla fyrir mat. Þessi augljósa gjá er stöðugt að breikka.

Hin hefðbundna skipting í vinstri og hægri er að riðlast. Barátta verkalýðs við atvinnurekendur er ekki jafn ljós og áður. Línurnar dragast á nýjum stöðum en enn gildir hið fornkveðna að allir séu jafnir nema sumir eru bara miklu jafnari. Misskipting auðs eykst hvert sem litið er. Þess vegna verður almenningur að átta sig á hvoru megin línu menn standa, tala þeir máli mínu eða hagsmunum bankanna. Er það hagur afkomenda minna að velferðakerfinu sé rústað til að endurreisa bankakerfi sem setti okkur á hausinn? Er einhver akkur í því fyrir mig að hafa ríka banka og velferðakerfi sem er rjúkandi rúst? Ef ekki, þá er kominn tími til að safnast saman og stöðva þá þróun.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 17.10.2010 - 00:17 - FB ummæli ()

Það virðist allt stefna í tunnurnar-aftur

Það voru kröftug tunnumótmæli mánudagskvöldið 4 október. Ríkisstjórnin túlkaði mótmælin þannig að skuldug heimili væru ekki sátt, í raun mjög ósátt. Ríkisstjórnin steig ofan af stalli sínum og gaf í skyn að hún væri ekki fullkomin, hún hefði verið of fljót á sér að lofa Alþjóðagjaldeyrissjóðnum að gera ekkert frekar fyrir skuldug heimili. Hún meira að segja kallaði fulltrúa Hagsmunasamtaka heimilanna á sinn fund og næstum því, nokkurn veginn alveg gerði tillögur þeirra að sínum. Áður en að því kæmi þurfti ríkisstjórnin að fá leyfi hjá þeim sem hafa völdin á Íslandi, þ.e. bönkum og lífeyrissjóðum. Það svar hefur borist og Jóhanna hefur tjáð almenningi að tillögur HH séu komnar niður á gólf. Ríkisstjórnin er aftur kominn upp á stallinn sinn, við hliðina á bönkunum.

Mér fannst framsetning almennings 4 október vera mjög skýr og ætti ekki að misskiljast en greinilegt er að bankarnir eru skýrari en við.

Þess vegna er augljóst að við verðum að endurtaka okkur og ef til vill vera skýrari í málflutningi okkar. Núna ætlum við að minna Landsbankann á tilveru okkar-senda ítrekun-og mæta fyrir framan aðalstöðvar hans í Austurstræti á þriðjudaginn kl 14:00.

Stéttarbarátta krafðist fórna og staðfestu á árum áður. Í dag snýst baráttan um lántakendur og lánveitendur. Verkföll og mótmæli þóttu ekki par fín í den og oftar en ekki fengu menn kylfuna í hausinn. Þeir heilahristingar lögðu grundvöllinn að þeim réttindum sem við teljum sjálfsögð í dag. Þess vegna er okkur ekkert að vanbúnaði að mæta og verja kjör okkar.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 15.10.2010 - 22:04 - FB ummæli ()

Sorry-bara ekki hægt…

Það er talið of dýrt að hjálpa heimilunum. Lífeyrir landsmanna þurrkast út og Íbúðalánasjóður og bankarnir fara á hausinn, sorry ekki hægt.

Rætt er um að afskriftirnar séu um 4% af eignum lífeyrissjóðanna, þeir fara varla á hausinn af þeirri ástæðunni. Einnig keyptu lífeyrissjóðirnir skuldir með afslætti sem þeir rukka núna að fullu. Auk þess vilja HH fara þá leið að lífeyrir núverandi þega sé ekki skertur heldur frekar hjá yngri einstaklingum. Þeir yngri hafa vonandi möguleika að vinna sér inn aukinn lífeyri í framtíðinni.

Það hefur margoft verið bent á þá staðreynd að bankarnir fengu húsnæðislánin með góðum afslætti á sínum tíma. Bankarnir hafa í hyggju að hagnast á mismuninum á kostnað lántakenda. Við höfum þegar heyrt nógu margar sögur um persónulega harmleiki, það er ekki bara sanngjarnt heldur lýðheilsuleg nauðsyn að koma vitinu fyrir lánadrottna. Síðan erum við að hneykslast á barnaþrælkun í Indlandi vegna skulda.

Þú átt 30 milljón kr íbúð sem þú skuldar alla. Þú skuldar banka 30 milljónir vegna íbúðarinnar, og bankinn bókfærir skuldina sem eign bankans. Hann getur síðan nýtt sér þessa eign til að lána út meiri pening. Ef þú verður síðan gjaldþrota þá missir þú íbúðina þína og bankinn mætir á uppboðið og kaupir hana til sín á 5 milljónir. Bankinn á þá 25 milljón króna eign=það sem þú skuldar honum + 30 milljón króna íbúð = 55 milljónir.

Síðan selur hann næsta manni íbúðina á 30 milljónir og lánar viðkomandi fyrir henni líka.

Þá á bankinn tvö lán út á eina og sömu íbúðina á samtals 55 milljónir sem hann fær vexti af auk verðtryggingar.

Ekki skrítið að menn hafi ekki áhuga á afskriftum fyrir pöpulinn.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 15.10.2010 - 00:44 - FB ummæli ()

Lánadrottnar

Það er tekist á í dag. Baráttan er á milli lántakenda og lánadrottna. Það er hin raunverulega barátta í dag. Undir yfirborðinu kraumar skipulag peningakerfisins í heild sinni. Til einföldunar ræðum við eingöngu um afskriftir á stolnu fé lánadrottna frá lántakendum. Við erum í allri hógværð að fara fram á leiðréttingu, ekki afskriftir. Sumir fara frá þessu landi bara til að losna frá þessu rugli. Sumir yfirgefa lífið vegna þessa. Þrátt fyrir það halda lánadrottnar kröfum sínum til streitu og ætla að fá mikinn gróða sér til hagsbóta.

Ríkisstjórnarmeðlimir reyna að koma vitinu fyrir lánadrottna en það gengur seint og illa.

Það virðist nokkuð ljóst að almenningur verður að þvinga fram sátt í þjóðfélaginu, það verður að tunna menn til skynsemi.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 13.10.2010 - 19:30 - FB ummæli ()

Saga skuldarinnar

Sökum þess að afskriftir á skuldum heimilanna virðast valda mörgum áhyggjum er ágætt að rifja upp sögu skuldarinnar.

Saga skuldarinnar og þrælsins eiga sér sama upphaf og samtvinnast síðast liðin 5000 ár.

Í Mesopótamíu gerðu menn sér grein fyrir að skuldir hefðu tilhneigingu til að vaxa hraðar en uppskeran sem stóð undir þeim. Af þeim sökum settu menn fljótlega reglur. Sú hugmynd að markaðurinn sjálfur myndi aðlaga sig að skuldunum var ekki til á þeim tíma. Sú hugmynd fæddist miklu síðar.

Vextir komu fram um 3 öldum fyrir Krist og  þegar bændur komust í vanskil vegna uppskerubrests voru lagðir á þá vanskilavextir. Það leiddi til þess að þeir misstu búfénað eða réttinn til ræktunar. Af þeim sökum voru þeir í verri stöðu til að endurgreiða skuldina. Því var fljótlega farið að fella niður skuldir þegar uppskerubrestur var orsökin fyrir vangreiðslu. Þessi barátta milli þeirra sem vildu safna vöxtum sér til handa og hinna sem vildu reka þjóðfélag  þar sem jafnræði ríkti milli lánadrottna og skuldara hefur staðið æ síðan. Til að halda þjóðfélögum saman og í jafnvægi, komst sá siður á að konungar aflýstu öllum óbærilegum skuldum við upphaf valdatímabils  síns. Á þann hátt héldust samfélögin saman. Skuldabyrðin varð viðráðanleg. Yfirvaldið gat framkvæmt þetta sökum möguleika á valdbeitingu. Vegna þess að yfirvöld höfðu einkaleyfa á valdbeytingu og lánadrottnarnir urðu að sætta sig við ákvörðun þeirra.

Í Rómaveldi breyttist þetta þannig að lánadrottnar gátu sópað til sín jörðum bænda upp í skuldir. Jarðir og auður safnaðist á fáar hendur og í krafti þess tókst þeim að losna undan skattgreiðslum til ríkisins. Í kjölfarið varð fjárskortur í Rómaveldi og það leið undir lok.

Lánastarfsemi banka tengist oft ekki neinni nýframleiðslu. Lánaðar hafa verið stórar fjárhæðir til stríðsreksturs.  Lán til viðskipta og flutninga á vörum þegar framleiddum. Lán til fasteignakaupa er ekki nýframleiðsla heldur lán til hluta sem eru til staðar. Því hafa sumir viljað beina lánum til framleiðslu í meira mæli. Frjálshyggjan hefur verið talin ráða ríkjum undanfarna áratugi. Það er rangt. Sú hagfræði sem stunduð hefur verið síðustu áratugi er pilsfaldakapitalismi. Í frjálshyggju hafa menn frelsi til athafna. Niðurstaða athafna þeirra verður hlutskipti þeirra og engra annarra. Ef vel gengur fá þeir aur í vasann en ef illa gengur eiga þeir tapið óáreittir. Adam Smith hefur verið talinn faðir frjálshyggjunnar. Honum hugnast frelsi, sérstaklega þeirra sem framleiða og skapa þannig hagvöxt. Aftur á móti undanskilur hann einn hóp frá þessari meginreglu.  Það eru þeir sem lána öðru fólki peninga. Hann bendir á að vextir á lán dragi úr hagvexti því þeir leggja ekkert til framleiðslunnar annað en kostnað. Auk þess nefnir hann að þessum hópi sé mjög hætt við að smyrja á kostnaðinn á lánunum, græðgi, geti komið til og því eigi að hafa sérstakt og vandað eftirlit með lánendum. Þetta sagði karlinn 1776.

Nú er svo komið að stjórnvöld hafa ekkert vald eða styrk til að segja lánadrottnum fyrir verkum. Stjórnvöld virðast því ekki hafa einkaleyfi á valdbeitingu eins og var í Mesapótamíu. Það virðist vera mun líklegra að lánastofnanir hafi öðlast það vald sem kóngar höfðu áður fyrr. Þar að auki eru lánastofnanir í dag með ríkisábyrgð og geta því hagað rekstrinum að vild áhyggjulaust. Einnig hefur hugsunin breyst frá því að nauðsynlegt sé að afskrifa skuldir svo þjóðfélög séu starfhæf yfir í það að allar skuldur skuli greiða án tillits til afleiðinga fyrir lántakendur.

Sú bankakreppa sem við erum að ganga í gegnum núna er gott dæmi um vald skuldarinnar yfir þjóðfélögunum. Bankar urðu gjaldþrota vegna þess að þeir gátu ekki staðið í skilum með afborganir á skuldum sínum á gjalddaga. Í raun eins ómerkilegt og hugsast getur, hrein og klár vanhæfni í rekstri. Við hin vorum á fullu að veiða fisk, bræða ál og mjólka beljur. Mættum í vinnuna og gerðum skyldu okkar. Þrátt fyrir það er skuldasöfnun ríkissjóðs nánast öll tilkomin vegna bankanna.

Hannes og Davíð hefðu betur lesið Adam Smith

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur