Það vantar ekki lýsingarnar af fundinum á Ísafirði um óvissu í sjávarútvegi. Við sumar þeirra kannast ég en aðrar ekki. Var ég þó á fundinum sem fundarstjóri.
Sagt er að hiti hafi verið í fundarmönnum. Þarna hafa líklega verið um 150 manns. Tveir menn gripu fram í fyrir framsögumönnum af og til. Það var nú allur hitinn.
Að loknum fundi sátu örfáir eftir og ræddu málin. 90% fundarmanna fóru af fundinum þegar honum hafði verið slitið.
Það má vissulega gagnrýna fundarformið, þ.e. að ekki hafi verið umræður á eftir. Fundurinn var þannig settur upp að framsögumenn voru sex talsins og fjölluðu um málin frá hinum ýmsu hliðum. Það var sem sagt haldinn fundur um óvissu í sjávarútvegi og að honum stóðu ýmsir aðilar.
Mér finnst miklu frekar ástæða til að gagnrýna ríkisstjórnina fyrir að halda ekki upplýsingafundi um það hvernig þessi fyrningarleið er hugsuð og hvað er framundan í sjávarútveginum. Ekki hefur örlað á viðleitni til þess.
Mér fannst áhugavert það sem einn útgerðarmaður sagði við mig í gær. Hann sagðist hafa verið 7 ára gamall þegar kvótakerfið var sett á. Samt sé enn talað um 1983 sem einhvern útgangspunkt í umræðum um sjávarútvegsmál. Hann segist einfaldlega hafa unnið sig upp í kerfinu á undanförnum árum en nú eigi að taka það af honum með fyrningarleið.
Smá spurning: Hvaða ár frá 1950-2010 hefur ekki verið haldinn hitafundur um sjávarútvegsmál á Vestfjörðum?