Fimmtudagur 25.3.2010 - 10:11 - 21 ummæli

Fundur um óvissu í sjávarútvegi

Það vantar ekki lýsingarnar af fundinum á Ísafirði um óvissu í sjávarútvegi. Við sumar þeirra kannast ég en aðrar ekki. Var ég þó á fundinum sem fundarstjóri.

Sagt er að hiti hafi verið í fundarmönnum. Þarna hafa líklega verið um 150 manns. Tveir menn gripu fram í fyrir framsögumönnum af og til. Það var nú allur hitinn.

Að loknum fundi sátu örfáir eftir og ræddu málin. 90% fundarmanna fóru af fundinum þegar honum hafði verið slitið.

Það má vissulega gagnrýna fundarformið, þ.e. að ekki hafi verið umræður á eftir. Fundurinn var þannig settur upp að framsögumenn voru sex talsins og fjölluðu um málin frá hinum ýmsu hliðum.  Það var sem sagt haldinn fundur um óvissu í sjávarútvegi og að honum stóðu ýmsir aðilar.

Mér finnst miklu frekar ástæða til að gagnrýna ríkisstjórnina fyrir að halda ekki upplýsingafundi um það hvernig þessi fyrningarleið er hugsuð og hvað er framundan í sjávarútveginum. Ekki hefur örlað á viðleitni til þess.

Mér fannst áhugavert það sem einn útgerðarmaður sagði við mig í gær. Hann sagðist hafa verið 7 ára gamall þegar kvótakerfið var sett á. Samt sé enn talað um 1983 sem einhvern útgangspunkt í umræðum um sjávarútvegsmál. Hann segist einfaldlega hafa unnið sig upp í kerfinu á undanförnum árum en nú eigi að taka það af honum með fyrningarleið.

Smá spurning: Hvaða ár frá 1950-2010 hefur ekki verið haldinn hitafundur um sjávarútvegsmál á Vestfjörðum?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 11.3.2010 - 18:54 - 7 ummæli

Hvað varð um jöfnun flutningskostnaðar?

Um allt land er talað um þörfina fyrir að jafna flutningskostnað til að draga úr þeim gríðarlega mun sem er á samkeppnisstöðu landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis. Umræða um þessa þörf hefur staðið lengi yfir og ekki lagast staðan.

Flutningskostnaður er hreinlega að sliga sum fyrirtæki á landsbyggðinni og mismunurinn er það mikill að húsnæðiskostnaður sem oft á tíðum er lægri þar nær ekki að brúa bilið hjá mörgum.

Samþykktar hafa verið skýrslur sem taka á málinu með tillögum um aðgerðir. Þær hljóta að vera einhvers staðar í kerfinu, ekkert hefur frést af aðgerðum.

Kannski dettur einhverjum í hug að við þessar aðstæður sé ekki rétti tíminn til að framkvæma flutningsjöfnun, nokkuð sem stjórnmálamenn tala um að gera á hátíðarstundum. Nú sé samdráttur í landinu og peninga vanti. 

En það er einmitt rétti tíminn núna því við þurfum á öllu okkar að halda í atvinnulífinu og mikilvægt að styrkja stöðu fyrirtækjanna og muna eftir því að landsbyggðin hefur barist í atvinnulífinu undanfarin ár með alltof sterka krónu sem hefur unnið gegn útflutningsatvinnugreinunum og þar með landsbyggðinni.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 7.3.2010 - 13:12 - 21 ummæli

Þjóðaratkvæði um auðlindir

Talað er um fiskimiðin sem sameiginlegar auðlindir og greiddur er af þeim sérstakur skattur til landsmanna af fiskveiðum. Fyrirtæki utan höfuðborgarsvæðisins greiða stærstan hluta af þeim skatti sem rennur í sameiginlegan sjóð landsmanna sem ráðstafað er í Reykjavík. Þá eru flest opinber störf tengd sjávarútveginum í Reykjavík sem nýtur þess í ýmsum tekjustofnum.

Orkuauðlindirnar eru sameiginlegar auðlindir. Við vitum að höfuðborgarbúar dæla ekki allri orkunni undan fótum sér heldur er hún líka sótt út fyrir svæðið úr sameiginlegri auðlind landsmanna. Að því gefnu er auðvitað eðlilegt að landsmenn njóti sambærilegs raforkuverðs. Það er reyndar ekki svo heldur nokkuð misjafnt og víða eru þéttbýlisstaðir á landsbyggðinni sem greiða niður kostnað við dreifikerfi á viðkomandi svæði. Á flestum stöðum er að auki hærra orkuverð en á höfuðborgarsvæðinu.´

Ef greiða á þjóðaratkvæði um auðlindina í hafinu er eðlilegt að taka fyrir allar auðlindir. Þeim er misskipt milli landsmanna, mjög áberandi er misskiptingin í húshitunarkostnaði.

Eða eru bara sumar auðlindir sameiginlegar?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 6.3.2010 - 20:57 - 6 ummæli

Hvað sameinar þjóð?

Ég renndi yfir nokkrar vef- og bloggsíður áðan og spurningin, hvað sameinar þjóð, kom upp í huga mér. Þar skiptast skoðanir nokkuð eftir flokkslínum en þó ekki alveg. Þórðargleði ríkir sums staðar, aðrir í fýlu, margir þó ánægðir með þjóðaratkvæðagreiðsluna sem fram fer í dag.

Um leið og ég hugsaði um hvað sameinaði þjóð þá velti ég því fyrir mér hvort fjölmiðlarnir og þeir sem blogga endurspegli þjóðina sem slíka. Nei ég er ekki með fullyrðingu eins og Ingibjörg Sólrún í Háskólabíói á sínum tíma. Ég er bara að velta þessu fyrir mér. Hvað ætli það sé stór hluti þjóðarinnar sem bloggar og færir athugasemdir við blogg? Er það þverskurður?

Hvað sameinar þjóð? Ja ef það verður þokkaleg mæting á kjörstað í dag má segja að þjóðin hafi sameinast um það. Gerir það forseta Íslands að sameiningartákni? Tæplega því þeir sem gátu ekki leynt Þórðargleðinni 2004 vegna fjölmiðlalaganna eru í fýlu núna.

Við þurfum að sameinast um margt. Eitt af því væri að vera sammála um að hífa alla umræðu upp á málefnalegra plan. Við þurfum ekkert að vera sammála um öll mál, ræðum þau bara málefnalega.

Og svo eigum við að sameinast um endurskoðun á stjórnarskránni.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 5.3.2010 - 08:43 - 5 ummæli

Að kjósa er vald

Það er vissulega rétt að erfitt getur verið að afgreiða flókin mál í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þess vegna þarf að undirbúa slíkt mjög vel og vanda til verka.

Á laugardaginn á að greiða atkvæði um hið svokallaða Icesave mál. Sú atkvæðagreiðsla kemur til vegna ákvörðunar forseta Íslands. Út frá því hvernig stjórnskipan í landinu er hugsuð er sú ákvörðun vægast sagt umdeild en hún hefur verið tekin og hefði í raun ekki átt að koma neinum á óvart. 

Forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar eru ekki ánægðir með að þjóðin eigi að greiða atkvæði um mál sem í raun sé búið að semja um betri niðurstöðu í á undanförnum vikum. En þjóðaratkvæðagreiðslan á að fara fram engu að síður.

Einhverjum gæti dottið í hug að spyrja, fyrst að ríkisstjórnin telur að betri samningur sé í hendi, hvort ekki sé þá hægt að breyta lögum, staðfesta þennan betri samning og sleppa þjóðaratkvæðagreiðslunni? Þetta er kannski of einföld spurning. Svarið er augljóst, það er ekki samstaða um slíka málsmeðferð innan ríkisstjórnarflokkanna.

Auk þess vill þjóðin fá tækifæri til að kjósa á laugardaginn. Fólk er ekki fífl þó sumir haldi öðru fram. Íbúar þessa lands gera sér alveg grein fyrir því að staðan er snúin og að þjóðaratkvæði mun ekki staðfesta betri samning umfram verri eða öfugt.

Nei þjóðin vill fá að kjósa og nota það vald sem í því felst. Í því er fólgin réttlætistilfinning sem íslensk þjóð þarf svo mjög á að halda.

Ég ætla að nýta mitt tækifæri og segja nei á laugardaginn. Að kjósa er vald og  að kjósa er tilfinning.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 1.3.2010 - 21:29 - 31 ummæli

Breytingar í sjávarútvegi

Mín tilfinning er að flestir sem setja inn athugasemdir við greinar mínar um sjávarútveg, nú eða greinar annarra þar sem reynt er að útskýra stöðu atvinnugreinarinnar og mikilvægi, haldi að sjávarútvegur hafi ekkert breyst á undanförnum árum. Ég varð vitni að heilum þætti í sjónvarpinu um daginn þar sem tveir þingmenn töluðu um sjávarútveginn og vitnuðu til gamalla tíma þegar allir voru að vinna í sjávarútvegi og nóg var fyrir alla að gera eins og þau orðuðu það.

Þau gleymdu reyndar að við erum að veiða rétt um 1/3 af því sem veitt var á þeirra viðmiðunartíma. Þetta er algengt í umræðunni og líka að fólk virðist ekki gera sér grein fyrir tækniundrunum í sjávarútvegi, bæði veiðum og vinnslu sem hafa orðið til þess að fækka störfum umtalsvert. Á löngu tímabili virtist ekki veita af því erfitt reyndist að fá fólk til starfa nema erlendis frá. Aðalástæðan er hins vegar sú að tækninýjungar gera okkur samkeppnishæfari. Okkar sjávarútvegur er að keppa við ríkisstyrktan sjávarútveg og þarf að standa sig á mörkuðum erlendis og um leið að standa undir lífsgæðum íslensku þjóðarinnar.

Á fundi Viðskiptaráðs um daginn var Þorsteinn Pálsson fv. ritstjóri með meiru spurður um afstöðu til fyrningar aflaheimilda í sjávarútvegi, svokallaðari fyrningarleið, og svaraði Þorsteinn Pálsson „Þar er verið að hverfa frá markaðslausnum í stjórn sjávarútvegs yfir í félagslegar lausnir“. Þetta þýðir minni framleiðni fyrir eigendur auðlindarinnar og þarf því almenningur að greiða fyrir það með hærri sköttum. 

Svo mörg voru þau orð. Ég hef heyrt að þarna hafi Þorsteinn verið að tala um útgerðarmenn sem eigendur auðlindarinnar. Það held ég að geti ekki verið vegna þess að eigandi auðlindarinnar er íslenska þjóðin og það veit Þorsteinn Pálsson jafnvel og við hin. Margir sem athugasemdirnar færa á hinum ýmsu bloggsíðum halda því fram að útgerðarmenn segist eiga auðlindina. Ekki hef ég heyrt þá segja það heldur að þeir hafi lagt í mikinn kostnað til að fá afnotarétt af auðlindinni. Rentuna fær þjóðin svo í formi atvinnu við sjávarútveginn, vegna tengdra þjónustugreina, ýmiss konar afleiddra starfa og í formi skatta.

Ekki veit ég hvort það þýðir eitthvað að skrifa um þetta á þeim nótum sem ég geri. Áfram skal þó reynt vegna þess að ég hef miklar áhyggjur af áformum ríkisstjórnarinnar um fyrningarleiðina. Við hér fyrir vestan höfum orðið fyrir barðinu á kerfisbreytingum í sjávarútvegi áður. Forverar núverandi stjórnarflokka settu t.d. framsalið á í kringum 1990 og nú ætla þeir að stað með enn eina kerfisbreytinguna. Það mun að mínu mati vinna gegn okkar hagsmunum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 28.2.2010 - 23:42 - 1 ummæli

Skemmtilegur landbúnaðarráðherra

Mér fannst landbúnaðarráðherrann skemmtilegur þegar hann fann að auglýsingu Símans þar sem nokkrir lopapeysuklæddir karlmenn leggja ekki í þorrabakkann. Ætli þetta hafi verið lattelepjandi lopapeysukarlar? Mér finnst auglýsing Símans mjög skemmtileg líka, ekki síðri en ráðherrann.

Ætli það séu engar landbúnaðarafurðir í pizzum?

Annars er myndin hérna í hausnum af Snæfjallaströndinni norðan Ísafjarðardjúps.

Flokkar: Spaugilegt

Föstudagur 26.2.2010 - 18:29 - 11 ummæli

ESB og sjávarútvegsmálin

Ég hef um langa hríð verið hlynntur því að íslenska þjóðin færi í aðildarviðræður við Evrópusambandið, þar væri látið reyna á það hvernig samning þjóðin gæti fengið og kosið svo um þá niðurstöðu. Um þetta hef ég skrifað greinar og það löngu fyrir bankahrunið. Hrunið hafði sem sagt ekki þau áhrif að ég væri hlynntur aðilarviðræðum um tíma, væri svo á móti þeim og svo aftur hlynntur þeim og svo aftur á móti þeim. (Eru sveiflurnar ekki einhvern veginn svona?)

Nei ég hef verið hlynntur aðildarviðræðum og hugsanlega inngöngu í ESB ef samningur um slíkt fellur að hagsmunum þjóðarinnar og það á hún sjálf að meta. Þar mun sjávarútvegurinn og landbúnaðurinn ráða mestu.

Sjávarútvegurinn er okkar stóri undirstöðuatvinnuvegur. Innan ESB er hann ákaflega lágt hlutfall af verðmætasköpun. Á þeim forsendum hafa margir haldið því fram að Ísland gæti haft töluverð áhrif á sjávarútvegsstefnu ESB. Ekki með atkvæðamagni því það verður ekki nema brot af heildaratkvæðum, heldur með vinnu að málum í undirbúningsferli áður en þau fara í atkvæðagreiðslu.

Utanríkisráðherra hefur sagt að ESB telji sjávarútveginum vel stjórnað á Íslandi. Það vel að til fyrirmyndar geti orðið í ESB.

Ef þetta er rétt hvers vegna stefnir ríkisstjórnin þá að því að gjörbreyta þessu íslenska sjávarútvegskerfi sem það segir úti í Brussel að sé til fyrirmyndar? Segir okkur hér heima að þau í Brussel segi kerfið til fyrirmyndar. En segja við okkur Íslendinga þegar ekki er talað um ESB í sömu andránni að þessu kerfi verði að breyta. Það verði að stokka upp frá A-Ö.

Ekki sannfærandi.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 25.2.2010 - 19:59 - 11 ummæli

Afneitun

Það er ótrúlegt að lesa fréttir af grein Ingibjargar Sólrúnar. Ég hef nefnilega ekki lesið greinina sjálfa en sé að marka fréttir fer fv. formaður Samfylkingarinnar með himinskautum í afneitun vegna þess ástands sem hér skapaðist og kristallaðist í bankahruni haustið 2008.

Það er ljóst að ábyrgðin hvílir á mörgum, m.a. stjórnamálamönnum. Það er ekkert hægt að skrifa sig frá því. Svokölluð endurreisnarskýrsla Sjálfstæðisflokksins tekur á þessu og dregur fram mörg þeirra atriða sem talið er að Sjálfstæðisflokkurinn hafi gert rangt. Þar er engin afneitun á ferðinni.

Samfylkingin ber auðvitað mikla ábyrgð á ástandinu sem og aðrir flokkar sem komið hafa að landsstjórninni. Sjálfstæðisflokkurinn hefur aldrei verið einn í stjórn.

Ekki má gleyma því að kreppa og bankahrun varð víðar en á Íslandi. Í mörgum löndum er ekki búið að greiða úr vandanum ennþá og jafnvel lengra í það en hjá okkur á Íslandi sums staðar.

Ekki man ég eftir sérstökum varnaðarorðum Samfylkingarinnar í þessum málum. Ég held að þau hafi ekkert frekar en flestir aðrir gert sér grein fyrir því hvað væri í aðsigi. Ef það væri raunin hefði verið tekið öðruvísi á málum.

Það er nokkuð ljóst að alltof margir gerðu ranga hluti í rekstri fyrirtækja og banka. Það er verið að rannsaka núna og vonandi verður sú rannsókn vönduð og til þess að læra af í framtíðinni.

Að einfalda málið með þessum hætti og kenna frjálshyggjustefnu, sem engin var, um ástandið er yfirklór og er ekki til þess að koma pólitískri umræðu og almennri umræðu í landinu á hærra plan.

Í greininni er talað um að vinstri menn hafi ekki haft sjálfstraust til að gagnrýna ástandið og taka á því. Mín tilfinning er sú að flestir í Samfylkingunni hafi verið ánægðir með stöðu mála, vitna má til margra greina frá þessum tíma því til staðfestingar. Helsta baráttumálið var að ná stöðu Sjálfstæðisflokksins í landsmálunum ekki gagnrýni á frjálshyggju.

Svona upplifi ég þetta. Það kæmi mér ekki á óvart að margir séu mér sammála.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 24.2.2010 - 20:29 - Rita ummæli

Stórt verkefni

Í dag komu fulltrúar sveitarfélaganna í landinu saman til vinnufundar um málefni fatlaðra. Þessi fundur var sérstaklega hugsaður til að fjalla um málið frá sjónarhóli sveitarfélaganna. Við höfum haldið fundi með öllum hagsmunaaðilum og tökum alvarlega setninguna góðu: ,,Ekkert um okkur án okkar.“

En núna vorum við að ræða hvað þyrfti að gera þá rúmu 10 mánuði sem til stefnu eru þar til málefni fatlaðra flytjast frá ríki til sveitarfélaga. Sveitarfélögin eru að taka ákvarðanir um þessar mundir um það hvernig best verði staðið að verkefninu. Útfærslurnar verða misjafnar. Sum stærri sveitarfélögin eiga þann möguleika að taka verkefnið beint til sín en önnur þurfa að vinna saman, jafnvel í heilu landshlutunum því miðað er við að lágmarksfjöldi íbúa á þjónustusvæði verði almennt ekki undir 7-8 þús. Frá því eru möguleg frávik en þetta er viðmiðunin.

Það kom fram á fundinum að á vettvangi landshlutasamtaka sveitarfélaga er verið að vinna af kappi að því hvernig best verði staðið að verkefninu á hverju svæði.

Öll sveitarfélög vinna eftir þeirri hugmyndafræði að málaflokkurinn verði eðlilegur hluti af þeirra starfsemi með þeim samlegðaráhrifum sem því fylgja.

Miðað er við skilgreiningu á málaflokknum eins og hann er rekinn í dag. Þannig er hægt að meta þjónustuþörfina í dag, biðlista o.fl. sem þarf að meta vegna þeirra tekna sem fylgja verkefninu frá ríki til sveitarfélaga. Svo má reikna með að þjónustan breytist og þróist hjá sveitarfélögunum enda eiga þau að geta verið sveigjanlegri en ríkið í þessari nærþjónustu. Auðvitað má ekki hífa væntingarnar upp úr öllu valdi við þær aðstæður sem nú eru í rekstri þjóðarbúsins en sveigjanleikinn og samlegðaráhrifin við aðra þjónustu sveitarfélaganna gefur möguleika á þróun þjónustunnar.

Árið 2014 er svo endurskoðunarákvæði um að ríki og sveitarfélög fari yfir það hvernig rekstur málaflokksins hefur þróast og hvort nægilegir fjármunir hafi fylgt. Þetta er mikilvægt ákvæði sem gerir okkur kleift að meta hvað hefur breyst og hvers vegna. Komi í ljós að einhver verkefni hafi verið vanáætluð þarf ríkið að bæta sveitarfélögunum það.

Þetta endurskoðunarákvæði og mjög vönduð vinna sannfærir vonandi þá sveitarstjórnarmenn sem eru áhyggjufullir og vilja bíða með að taka yfir málaflokkinn um að það er rétt að halda ótrauð áfram í samræmi við markaða stefnu og færa málefni fatlaðra til sveitarfélaganna 1. janúar 2011.

Þeir tæplega 200 sveitarstjórnarmenn og aðrir fulltrúar sveitarfélaganna í dag ræddu þessar áhyggjur, stöðuna í dag og þann stutta tíma sem er til stefnu. Að loknum þeim umræðum kynntu hópstjórar niðurstöðu hvers hóps. Það var mikill samhljómur í þeim niðurstöðum. Áfram skal haldið með þetta metnaðarfulla verkefni, mikið er búið, mikið er eftir en við erum á réttri leið.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Halldór Halldórsson
Talsmaður málefnalegrar umræðu.
RSS straumur: RSS straumur