Sunnudagur 10.1.2010 - 19:13 - 12 ummæli

Betra að það sé sagt á útlensku

Fólk keppist við að hrósa sjónvarpsþættinum Silfri Egils vegna þess sem þar kom fram frá erlendum viðmælendum Egils Helgasonar. Mér finnst ástæða til að taka undir að þátturinn var upplýsandi.

Hins vegar eru viðbrögð þjóðarinnar í samræmi við umræðuhefðina hér á landi. Það sem kom fram í dag hefur komið fram áður og það margoft í leiðurum Morgunblaðsins í fleiri vikur. Og a.m.k. hefur Sjálfstæðisflokkurinn haldið því fram í umræðum á þingi að lagaumhverfi ESB varðandi innistæðutryggingar reikni ekki með bankahruni og þar af leiðandi þurfi að fara með þessi mál fyrir dóm.

En nú kemur þessi skoðun að utan, hún er sögð á útlensku og þá sperrum við eyrun. Það er fínt og verður vonandi til þess að hægt verði að bæta stöðu okkar í Icesave málinu en í samræmi við það að upphefðin þarf yfirleitt að koma að utan.

Svo er að sjá hvort ríkisstjórnin getur náð nýjum samningum eða hvort þjóðin hafnar þessu í þjóðaratkvæðagreiðslu og málið fer í biðstöðu. Umræðan núna hefur vonandi þau áhrif að alþjóðlegar stofnanir á borð við AGS aðstoði okkur við að vinna okkur út úr vandanum frekar en að taka þátt í að rukka þjóðina.

Skrýtin staða að vera sammála niðurstöðu forseta Íslands um að vísa þessu máli til þjóðarinnar en vera á móti því að sá réttur sé hjá forsetanum. Það verður að endurskoða stjórnarskrána hvað þetta varðar og færa þennan rétt til þjóðarinnar.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 9.1.2010 - 13:53 - 9 ummæli

Tilhlýðilega virðingu og skilning

Fyrirsögnin er úr nýlegum pistli mínum. Þar fjallaði ég um að við yrðum að komast upp úr skotgröfunum og hætta að meiða hvort annað. Umræðuhefðin á Íslandi er ekki nógu góð, það verður að segjast eins og er. Þetta er oft í Morfís stílnum. Láta andstæðinginn hafa það. Skipta um skoðun eftir því hvorum megin borðs maður situr.

Þessu þarf að breyta. Margir sem nú hafa verið kjörnir á Alþingi voru með yfirlýsingar í þá átt fyrir kosningar. Mér finnst margir þeirra ekki hafa fylgt eftir þeim yfirlýsingum. Ekki heldur um opin og gagnsæ vinnubrögð. Borgarahreyfingin, Hreyfingin eða hvað þessi flokkur heitir finnst mér vera dæmi um það.

Sumir leyfa ekki athugasemdir við bloggfærslur sínar. Það er val hvers og eins. Miðað við sumar athugasemdir, jafnvel hér á síðunni minni, skil ég það ósköp vel. Aðrir eru með þetta galopið og leyfa allar athugasemdir. Henda hugsanlega út því sem er persónulegt skítkast.

Þetta gengur alveg upp. Opið og lýðræðislegt.

En þeir sem halda úti bloggsíðum og leyfa bara jákvæðar athugasemdir eru að mínu mati á hálum ís ef taka á eitthvað mark á þeim. Viðkomandi ráða þessu auðvitað; en hvað er að marka athugasemdirnar ef bara þær jákvæðu eru birtar? Í raun er minna en ekki neitt að marka slíkar síður og þær eru í mínum huga ekki nothæfar fyrir opna og lýðræðislega umræðu.

En það er mín skoðun. Vona að einhverjir séu sammála mér.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 7.1.2010 - 16:53 - 2 ummæli

Framleiðsla á andstöðu við mál

Núverandi ríkisstjórn tók við á tímum þegar forgangsmál var að takast á við afleiðingar bankahrunsins hér á landi. Henni fylgdu góðar óskir landsmanna og vonir um að vel tækist til.

Samstarf Sambands íslenskra sveitarfélaga f.h. sveitarfélaganna í landinu hefur verið ágætt við þessa ríkisstjórn eins og fyrri ríkisstjórnir. Samráðsfundir hafa verið tíðir og upplýsingagjöf þokkaleg þó oft hafi verið gagnrýnt að upplýsingar kæmu seint fram. Ýmsar áherslur ríkis og sveitarfélaga fara vel saman og mikilvægt er að samstarf um stýringu opinberra fjármála sé sem allra best.

En mér finnst ríkisstjórnin fara í of mörg mál sem vinna gegn þeim markmiðum hennar sjálfrar að auka verðmætasköpun, draga úr atvinnuleysi og bæta stöðu fyrirtækja og heimila.

Dæmi um það er hækkun á virðisaukaskatti í 25,5%, breyting á einföldu og góðu skattkerfi með þrepaskiptingu og óþörfum flækjustigum. Einnig boðun fyrningarleiðar í sjávarútvegi gagnvart fyrirtækjum sem eru þar starfandi. Það hefur aukið verulega á óvissu í þeirri grein með þeim áhrifum að greinin bíður eftir niðurstöðu og framkvæmir bara það nauðsynlegasta. Það hefur aftur áhrif á fyrirtækin sem byggja tilvist sína á þjónustu við sjávarútveginn. Það hefur þau áhrif að störfum fækkar að óþörfu.

Svo er skipuð nefnd um mögulegar breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu en hann er varla byrjaður á vinnu sinni þegar hamrað er á því að fyrning aflaheimilda hefjist 1. september 2010.

Með þessu er ríkisstjórnin að framleiða mál til að skapa andstöðu. Þannig fara kraftar til spillis þegar við þurfum á eins samstilltu átaki að halda og mögulegt er meðal þjóðarinnar.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 6.1.2010 - 21:57 - Rita ummæli

Tiltekið hlutfall kosningabærra

Ég skrifaði um viðbrögð nokkurra við ákvörðun forseta Íslands í gær. Þau eru ólík því sem var þegar hann synjaði því að staðfesta fjölmiðlalögin. Svona er nú pólitíkin á Íslandi og því miður víðar, það fer eftir því hvorum megin við borðið fólk situr, hver afstaða þess er. Þetta er sem betur fer ekki algilt en of algengt.

Mér finnst eins og fyrr að breyta þurfi stjórnarskrá lýðveldisins þannig að einn einstaklingur, forseti Íslands, hafi ekki þann rétt að hafna staðfestingu laga sem 63 kjörnir fulltrúar á Alþingi hafa rætt fram og til baka og að endingu tekið ákvörðun um í atkvæðagreiðslu.

Öryggisventillinn þarf að vera hjá kjósendum þannig að tiltekið hlutfall kosningabærra manna geti krafist þess að atkvæði verði greidd um umdeild mál. Einnig þarf að ræða hvort ekki eigi að skilgreina í stjórnarskrá að ákveðin mál fari ávallt í þjóðaratkvæði.

Kerfið til að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu þarf að vera betra en undirskriftir Indefence hópsins. Þetta segi ég með fullri virðingu fyrir því framtaki en því miður voru á því gloppur. Fólk er á listanum án þess að hafa skrifað sig sjálft á hann.

Mér þykir miður ef kjósendur eru að senda þingmönnum, sama hvar í flokki þeir eru, hótanir vegna afstöðu þeirra með eða á móti Icesave. Við verðum að ná okkur upp úr skotgrafarfarveginum og geta rætt umdeild mál án þess að meiða hvort annað. Kannski hefur Alþingi ekki verið okkur góð fyrirmynd undanfarin misseri og vitanlega hefur erfitt ástand sín áhrif. En samt þá verðum við að sýna hvort öðru og skoðunum hvors annars tilhlýðilega virðingu og skilning. Það er oft erfitt, ég þekki það en nauðsynlegt.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag
Efnisorð:

Þriðjudagur 5.1.2010 - 22:22 - 5 ummæli

Það var þá

Fyrirsögnin er nokkurs konar samantekt á þeim viðræðum sem ég hef átt við nokkra ágæta Samfylkingarmenn í dag. Viðkomandi voru ansi reiðir forseta Íslands fyrir þá ákvörðun að skrifa ekki undir svokölluð Icesave lög.

Ég leyfði mér að minna viðkomandi á fagnaðarlæti þeirra vegna þeirrar ákvörðunar sama forseta fyrir fimm árum þegar hann staðfesti ekki fjölmiðlalögin.

Það var þá var svarið.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag
Efnisorð:

Miðvikudagur 25.11.2009 - 18:21 - 3 ummæli

Grunnþjónusta og hagræðing

Sveitarfélög landsins vinna nú að gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2010. Öllum hefur verið það ljóst að draga þyrfti áfram úr útgjöldum vegna mikils samdráttar tekna í kjölfar hrunsins í fyrra.

Frá hruni höfum við sveitarstjórnarfólk sagst leggja áherslu á að verja grunnþjónustuna. Sem er meira en að segja það þegar mjög stór hluti verkefna sveitarfélaga er grunnþjónusta.

10. október 2008 skrifaði ég sem formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga og Kristján Möller sveitarstjórnarráðherra undir þessa yfirlýsingu:
,,Tryggja verður að grunnþjónusta hins opinbera skerðist ekki, þrátt fyrir tekjusamdrátt og kostnaðarhækkanir. Sveitarfélögin gegna afar mikilvægu hlutverki í velferðarþjónustunni á sviði fræðslu- og félagsþjónustu sem á tímum sem þessum er nauðsynlegt að njóti forgangs.“

Í framhaldi af þessu voru samdar viðmiðanir um grunnþjónustu fyrir sveitarfélögin. Þessar viðmiðanir má vinna á www.samband.is t.d. ef slegið er inn leitarorðið grunnþjónusta. Ljóst er að sitt sýnist hverjum um það hvort tónlistarskólar og íþróttastarfsemi séu hluti af grunnþjónustu eða ekki. Enda er þetta viðmið sem haft er til hliðsjónar.

Það sem sveitarfélögin reyna að gera við þessar aðstæður er að draga úr rekstrarkostnaði á öllum sviðum. M.a. með því að fækka kennslustundum í grunnskólum, draga úr yfirvinnu, lækka laun stjórnenda, draga úr innkaupum og þannig má lengi telja. Starfsfólk hefur staðið vel að þessum málum og lagt mikið á sig enda vinnst þetta ekki með öðrum hætti.

Þjónustan breytist, hún minnkar jafnvel en alls staðar er reynt að halda í grunnþjónstuna þannig að öll sú þjónusta sé til staðar og hún sé ekki skert þannig að íbúar hafi ekki aðgang að henni eða geti ekki nýtt sér hana. Þetta hefur tekist og það er markmið sveitarstjórnarfólks að það takist alls staðar þó víða sé erfitt.

Okkur er sagt af stjórnvöldum að vandinn sé ekki stærri en svo að við séum að spóla til baka um nokkur ár. Sumir hafa sagt til ársins 2000 eða 2002. Ég veit ekki hvað er rétt í því en það er ljóst að aðgerðir sveitarfélaganna snúa að því. Það er verið að vinda ofan af þeirri viðbót sem kom á þjónustu sveitarfélaganna á góðæristímabilinu.

Við verðum að gera þetta svona og því fyrr sem það er gert því fyrr eigum við möguleika á að ná okkur upp úr lægðinni sem við erum í. Sveitarfélögin leggja sig fram við það.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag
Efnisorð:

Laugardagur 10.10.2009 - 20:58 - 1 ummæli

Fáanlegt um allt land – ha?

Fréttablaðið hefur aldrei verið borið í hús í mínu sveitarfélagi Ísafjarðarbæ. Það liggur frammi (stundum) í innkaupakörfu framan við Bónus. Ég sé það tvisvar í mánuði.

Ég heyrði að nú yrði Fréttablaðið fáanlegt um allt land. Mér fannst það ágætis fréttir því þetta er fríblað með auglýsingum sem væntanlega eiga að ná til allra landsmanna. Svo auglýsir blaðið að það sé mest lesna blaðið.

Við nánari skoðun kom í ljós að blaðið verður fáanlegt gegn greiðslu. Það er þá sums staðar fríblað. Ekki í Ísafjarðarbæ né heldur víðast um landið utan höfuðborgarsvæðisins.

Ég hefði alveg viljað að fréttin hefði verið rétt og blaðið færi að berast til okkar í Ísafjarðarbæ, skrif Þorsteins Pálssonar eru a.m.k. áhugaverð og oft fleira í blaðinu. Þó maður hafi aðgang að þessu á vefnum notar maður blaðið ekki mikið þar.

En Morgunblaðið berst daglega inn um lúguna. Það hefur ekki breyst og verður vonandi áfram um ókomna tíð.

Talandi um Morgunblaðið. Sumir segja að áskrifendum hafi fækkað þar en aðrir að þeim hafi fjölgað. Ég veit af mörgum sem hafa gerst áskrifendur en bara af einum sem hætti áskrift en er mikið að velta fyrir sér að gerast áskrifandi aftur.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 9.10.2009 - 14:33 - Rita ummæli

Er allt í fína lagi?

Það hlýtur allt að vera í fína lagi í þjóðfélaginu.

Hreyfingin telur að nú sé rétt að fjölga svo verulega í sveitarstjórnum að í Reykjavík fari fulltrúafjöldinn úr 15 í 61. (Jenný Anna Baldursdóttir skrifar um það hér á Eyjunni með sínum hætti.)

Umhverfisráðherra ætlar ekki að fara fram á undanþágur fyrir Ísland á næstu loftslagsráðstefnu. Samt erum við með um 70% af okkar orku frá endurnýjanlegum orkugjöfum þegar ESB ríkin stefna að 20% árið 2020. Sem þýðir að okkar staða var allt önnur og betri þegar viðmiðun er tekin í loftslagsmálum, sem þýðir aftur að við eigum að sækja um undanþágu til að verja hagsmuni okkar.

Og landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra telur að leggja eigi bara á skatta á höfuðborgarsvæðinu en ekki á landsbyggðinni, í nafni jafnræðis.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag
Efnisorð:

Mánudagur 5.10.2009 - 11:55 - 4 ummæli

Stjórnkænska?

Miklar vangaveltur eru um það hvort ríkisstjórnin muni hafa næstu daga og vikur af. Viðfangsefnin eru mjög erfið og verkefnin hafa tafist. Mér finnst ríkisstjórnin hafa aukið á erfiðleika sína með því að fara í verkefni sem stjórnin er sjálf ekki sammála að fara í. Eitt slíkt dæmi er aðildarviðræður við ESB. Það er ekki mjög sannfærandi að sækja um aðild að ESB en láta fylgja að hálf ríkisstjórnin sé andvíg aðild þó hún leyfi hinum ríkisstjórnarflokknum að koma aðildarumsókn í gegn.

Til að gera málið enn erfiðara er ákveðið í stjórnarsáttmálanum að fá þann hluta atvinnulífsins sem mest er á móti aðild að ESB, sjávarútveginn, algjörlega mótfallinn samstarfi við ríkisstjórnina. Það er gert með því að boða fyrningarleið sem vegur skiljanlega gegn starfsemi þeirra fyrirtækja sem eru í sjávarútveginum í dag. Og sjávarútvegurinn ásamt landbúnaðinum eru stærstu vafaatriðin varðandi það hvort aðild að ESB er heppileg fyrir Ísland eður ei.

Stjórnkænska?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag
Efnisorð:

Laugardagur 3.10.2009 - 12:36 - Rita ummæli

Fjármálaráðstefnan

Sveitarstjórnarfólk og fjármálastjórar af öllu landinu komu 1. og 2. október saman á árlegri fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna. Að þessu sinni 1 1/2 mánuði fyrr en oftast áður til að fá sem bestar upplýsingar inn í fjárhagsáætlunarvinnu ársins 2010.

Það segir sig sjálft að staða 77 sveitarfélaga í landinu er afar misjöfn. Sum afgreiddu árið 2008 með jákvæðum rekstrarafgangi. Flest voru reyndar með taprekstur enda var viðsnúningurinn vegna hrunsins mikill. Það segir til sín þegar erlend lán hækka um 70-80%.

Flest reiknuðu svo með því að krónan myndi styrkjast í ár, þau fóru bara eftir opinberum spám hvað það varðaði. Okkur er það ljóst að þessi styrking verður ekki í ár þannig að sá þáttur fjárhagsáætlana 2009 mun reynast rangur. Hins vegar er tekjuþátturinn betri en reiknað var með og í það heila tekið er staðan betri en svartsýnustu spár gerðu ráð fyrir.

Það kom fram á fjármálaráðstefnunni að þegar staða sveitarsjóðanna í landinu er borin saman við stöðu ríkissjóðs þá standa sveitarfélögin í heild betur. Það eru ánægjuleg tíðindi en reyndar er samanburðurinn ekki við stöndugan ríkissjóð heldur frekar laskaðan.

En það er gott og nauðsynlegt að halda líka á lofti jákvæðu teiknunum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag
Efnisorð:

Höfundur

Halldór Halldórsson
Talsmaður málefnalegrar umræðu.
RSS straumur: RSS straumur