Fólk keppist við að hrósa sjónvarpsþættinum Silfri Egils vegna þess sem þar kom fram frá erlendum viðmælendum Egils Helgasonar. Mér finnst ástæða til að taka undir að þátturinn var upplýsandi.
Hins vegar eru viðbrögð þjóðarinnar í samræmi við umræðuhefðina hér á landi. Það sem kom fram í dag hefur komið fram áður og það margoft í leiðurum Morgunblaðsins í fleiri vikur. Og a.m.k. hefur Sjálfstæðisflokkurinn haldið því fram í umræðum á þingi að lagaumhverfi ESB varðandi innistæðutryggingar reikni ekki með bankahruni og þar af leiðandi þurfi að fara með þessi mál fyrir dóm.
En nú kemur þessi skoðun að utan, hún er sögð á útlensku og þá sperrum við eyrun. Það er fínt og verður vonandi til þess að hægt verði að bæta stöðu okkar í Icesave málinu en í samræmi við það að upphefðin þarf yfirleitt að koma að utan.
Svo er að sjá hvort ríkisstjórnin getur náð nýjum samningum eða hvort þjóðin hafnar þessu í þjóðaratkvæðagreiðslu og málið fer í biðstöðu. Umræðan núna hefur vonandi þau áhrif að alþjóðlegar stofnanir á borð við AGS aðstoði okkur við að vinna okkur út úr vandanum frekar en að taka þátt í að rukka þjóðina.
Skrýtin staða að vera sammála niðurstöðu forseta Íslands um að vísa þessu máli til þjóðarinnar en vera á móti því að sá réttur sé hjá forsetanum. Það verður að endurskoða stjórnarskrána hvað þetta varðar og færa þennan rétt til þjóðarinnar.