Föstudagur 24.7.2009 - 15:21 - Rita ummæli

Fjármál sveitarfélaga

Eftir svar samgönguráðherra á Alþingi, og upplýsingar um að Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga væri að grennslast fyrir um rekstur sveitarfélaganna, hefur verið nokkur umræða um stöðuna.

Á mbl.is mátti lesa fyrirsögn um að sveitarfélög væru komin á gjörgæslu. Það er of sterkt til orða tekið, reyndar alltof sterkt.

Þær upplýsingar í svari ráðherrans um rekstrarniðurstöðu A og B hluta hjá sveitarfélögunum hafa komið fram áður hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Í svarinu var þetta skilmerkilega tekið saman og gott að glöggva sig á því. Það sem var alveg nýtt voru upplýsingar um að nokkur fjöldi sveitarfélaga væru búin að fá erindi frá Eftirlitsnefndinni.

Við sem stýrum sveitarfélögum höfum þó gert okkur grein fyrir því alveg frá hruni í október í fyrra að Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga myndi hafa nóg að gera. Það er skylda nefndarinnar skv. sveitarstjórnarlögum að fylgjast með reikningsskilum og fjárhagsáætlunum og hafa eftirlit með að fjárstjórn sé í samræmi við lögbundnar viðmiðanir o.s.frv.

Þannig er Eftirlitsnefndin nokkurs konar IMF sveitarfélaganna og hefur verið í fjölda ára. Þetta er mikilvægt eftirlit sem ég held að flestir ef ekki allir sveitarstjórnarmenn vilji að sé virkt og öflugt.

En það er ekki hægt að segja að sveitarfélög séu í gjörgæslu þó þetta ferli sé í gangi. Þau eru öll að vinna að sínum málum af mikilli ábyrgð við erfiðar aðstæður. Jafnvel aðstæður þar sem ríkið, hinn aðilinn í opinberri þjónustu gerir okkur lífið erfiðara hjá sveitarfélögunum. Ég hef t.d. bent á það í fjölmiðlum að með hækkun tryggingagjalds sem ríkisstjórnin ákvað, er búið að núlla út rekstrarhagræðingu sveitarfélaganna af þeim erfiðu aðgerðum sem farið var í gagnvart stjórnendum og millistjórnendum, þ.e. lækkun launa þeirra.

Tekin hafa verið dæmi af Bolungarvík sem sé með samning við Eftirlitsnefndina. Það er einmitt rétta hugtakið. Samningur. Bæjarstjórnin í Bolungarvík er að vinna að sínum rekstrarmálum með samningi við Eftirlitsnefndina þannig að Bolungarvík er ekki á gjörgæslu.

Vildi nefna þetta vegna þess að það er óþarfi að sverta ástand sem er frekar þungt fyrir. Við munum vinna okkur út úr þessu að lokum, það tekur bara tíma og krefst þess að við stöndum nú sem fyrr vörð um grunnþjónustuna. Það þýðir hins vegar ekki að hún taki ekki einhverjum breytingum. Það er óhjákvæmilegt vegna þess að stærsti hluti af rekstrarkostnaði sveitarfélaga er grunnþjónusta.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag
Efnisorð:

Fimmtudagur 28.5.2009 - 13:44 - Rita ummæli

Háskólasetur Vestfjarða

Háskólasetur Vestfjarða var stofnað 2005 sem sjálfseignarstofnun eftir að nefnd á vegum menntamálaráðherra skilaði af sér tillögum um slíka stofnun. Mikil vinna hafði verið lögð í undirbúning og margir lagt hönd á plóg árin á undan við að þróa slíka starfsemi og leggja þannig grunn að framtíðinni. Duglegir nemar í fjarnámi og tilkoma Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða lagði grunninn ásamt mjög góðu samstarfi við aðra háskóla og þá sérstaklega Háskólann á Akureyri.

Á morgun, 29. maí, er aðalfundur Háskólaseturs Vestfjarða. Þetta er ung stofnun sem miklar væntingar eru gerðar til. Og stofnunin undir styrkri stjórn Peters Weiss hefur staðið undir miklu af þessum væntingum.

Auðvitað eru óskir um að gera meira, stíga stærri skref, stofna sjálfstæðan háskóla o.s.frv. En Háskólasetrið hefur reynt að gera sem mest án þess að reisa sér hurðarás um öxl.

Núna eru um 150 fjarnemar í háskólanámi, búsettir á Vestfjörðum. Háskólasetrið veitir þjónustu, aðstöðu o.fl. Þessir nemar eru í fjölbreyttu námi við ýmsa háskóla.

Frumgreinanám er kennt við Háskólasetur Vestfjarða. Það nám gefur möguleika á að fara í háskólanám og er þannig nokkurs konar ígildi stúdentsprófs en þykir henta fólki sem vill fara í nám að nýju. Í þessu námi eru heimamenn á Vestfjörðum en einnig fjarnemar á höfuðborgarsvæðinu sem sækja sitt nám til Háskólans í Reykjavík en fá kennsluna frá Ísafirði á fyrstu önn.

Þá eru 10 nemar í mastersnámi í Haf- og strandsvæðastjórnun og er það kennt staðbundið á Ísafirði. Námið er allt á ensku undir heitinu Coastal and Marine Management. Flestir nemarnir koma erlendis frá.

Á morgun höfum við í stjórn Háskólaseturs Vestfjarða boðið þingmönnum okkar kjördæmis til fundar við stjórnina áður en aðalfundurinn verður haldinn. Við viljum gera grein fyrir stöðunni og óska eftir stuðningi við að þróa okkar litlu stofnun áfram við þær erfiðu aðstæður sem nú eru í þjóðfélaginu. Starfsemi Háskólasetursins byggir upp og þróar. Á því þurfum við alltaf að halda en alveg sérstaklega núna.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 27.5.2009 - 15:59 - 4 ummæli

Ekki er mjallinn á

Það er eflaust að bera í bakkafullan lækinn að ætla sér að skrifa um sjávarútvegsmál enn eina ferðina. Það virðist sama hvað maður skrifar um þennan undirstöðuatvinnuveg okkar, alltaf finnast einhverjir sem eru til í að gera manni upp skoðanir og hvatir sem eiga ekkert skylt við umræðu sem leiða á okkur sem þjóð fram á við en ekki aftur á bak.

Mér fannst eftirtektarvert að lesa færslu Marðar Árnasonar í gær um að ekki væru allir sveitarstjórar og sveitarstjórnarmenn undir hælnum á LÍÚ eða útgerðareigendum. Hann tiltók tvo sem ekki væru undir þeim hælnum.

Með þessu er verið að setja sveitarstjórnarfólk um allt land, í öllum stjórnmálaflokkum, í þann flokk að þeim sé ekki sjálfrátt. Að þau hafi ekki sjálfstæðar skoðanir og láti ráðast af ótta, eymd og hótunum. Að LÍÚ (sem ég efast um að margir útgerðarmenn í mínu sveitarfélagi tilheyri) ráði yfir þeirra skoðunum og skyldu til að standa vörð um byggðina. Ég er ekki sáttur við svona alhæfingu.

Undirritaður hefur skrifað um fyrirhugaða fyrningarleið stjórnarflokkanna og varað við henni. Á þeim forsendum að ég hef séð okkar fyrirtæki og einstaklinga vera að byggja sig upp hér fyrir vestan með ansi góðum árangri á undanförnum árum. Árin á undan var mikil eftirgjöf. Mín varnaðarorð eru vegna þess að ég vil ekki að mitt samfélag lendi aftur í þessari miklu eftirgjöf. Mér finnst ekki verjandi fyrir tóman ríkissjóð að bæta á sig einhverjum hundruðum milljarða í skuldir vegna fyrningar aflaheimilda. Mér finnst að útgerðin eigi að sjá um sínar skuldir sjálf og eigi að geta starfað í eins stöðugu rekstarumhverfi og mögulegt er af hálfu löggjafans. Nóg er að berjast við náttúruna og duttlunga hennar þó ekki bætist við duttlungar löggjafans.

Þess sama löggjafa og setti þau lög sem útgerðin starfar eftir í dag.

Ég er hlynntur endurskoðun á þessu kerfi, ég vil finna leið til að tryggja betur hag byggðanna við sölu á aflaheimildum. En að taka aflaheimildir 5% á ári þannig að aflaheimildir fyrnist á 20 árum alveg, tel ég ekki vera leið sem tryggir hag byggðanna. Það er óþarfi að taka aflaheimildir af þeim sem eru ekki að selja þær frá sér heldur eru að sinna útgerð og fiskvinnslu.

Umræðan í þessum málum snýst nefnilega svo mikið um þá sem hafa selt og eru komnir út úr kerfinu en yfirfærslan yfir því ranglæti færist á þá sem keyptu og eru starfandi í greininni í dag.

Mörður segir gott að sjá að sums staðar úti á landi séu menn með öllum mjalla. Hann á þá væntanlega við þá tvo sem að hans mati eru ekki undir hæl LÍÚ. Aðrir eru þá ekki með öllum mjalla. Ég hef skilið það orðatiltæki þannig að þýddi að viðkomandi væri ekki í lagi, væri með minni skynsemi en aðrir.

Ég ætla að leyfa mér að segja að ekki sé mjallinn á hugmyndum um fyrningarleiðina.

Dæmi svo hver fyrir sig.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 19.5.2009 - 16:17 - 4 ummæli

Flutningskostnaður

Jöfnun flutningskostnaðar á Íslandi hefur ekki fengið mikinn hljómgrunn hingað til þrátt fyrir að þörfin fyrir slíkt sé til staðar.

Flutningskostnaður er það mikill fyrir heimili og fyrirtæki á landsbyggðinni að takast þarf á við það mál. Samkvæmt gjaldskrá kostar t.d. 460.000 kr. að koma 40 feta gám á milli Reykjavíkur og Ísafjarðar.  Fyrirtæki sem þarf að flytja 150 slíka gáma á ári fær væntanlega afslátt frá gjaldskrá en engu að síður er þetta svo mikill kostnaður að hann skekkir samkeppnisstöðu fyrirtækisins. Þar með er samkeppnisstaða landsbyggðarinnar skert.

Í umræðunni er þetta oft afgreitt með því að húsnæði sé ódýrara úti á landi. Það er oftast rétt en það munar bara ekki svona miklu.

Í Vestfjarðaskýrslu sem unnin var í samstarfi okkar heimamanna og ríkisstjórnarinar árið 2007 eftir töluvert hrun hér í atvinnulífinu, var fjallað um jöfnun flutningskostnaðar. Unnið var áfram með það mál en síðan virðist það hafa dottið niður í einhverja dvalarskúffuna í stjórnarráðinu.

Á Alþingi í gærkvöldi var aðeins komið inn á þetta í eldhúsdagsumræðum og vona ég að haldið verði áfram með málið.

Mér þykir ekki ólíklegt að einhver geri þá athugasemd að þetta sé mál sem ekki eigi að takast á við þegar efnahagslífið er svo slæmt sem raun ber vitni. En jú, það á einmitt að takast á við þetta núna til að þau fyrirtæki sem eru að skapa verðmæti og útflutningstekjur hafi til þess aðstæður að halda því áfram. Það er nefnilega erfitt við núverandi aðstæður og hefur orðið erfiðara með hverju árinu í takt við hækkandi flutningskostnað.

Nú segir kannski einhver að lausnin sé sjóflutningar. Það kann að vera ef þeir eru hagkvæmari en landflutningar. Ágætt væri að draga úr umferð flutningabíla en staðreyndin er sú að þeir veita mjög góða daglega þjónustu sem skipaflutningar eiga erfitt með að keppa við.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 12.5.2009 - 22:15 - 2 ummæli

Persónukjör

Ríkisstjórnin er með áætlanir um persónukjör í næstu sveitarstjórnarkosningum. Það fellur að stefnumörkun Sambands íslenskra sveitarfélaga sem staðfest var á síðasta landsþingi sem haldið var 13. mars sl.

Á landsþinginu skilaði lýðræðishópur sambandsins af sér tillögum. Meðal þeirra var tillaga um aukið lýðræði í sveitarfélögum, þ.á.m. persónukjör.

Þessi tillaga fór svo inn í endurskoðaða stefnumörkun og aðgerðaráætlun stjórnar sambandsins 2009-2010:

,,Auka lýðræði í sveitarfélögum

Lýðræði – Persónukjör
Stjórn sambandsins láti taka saman yfirlit um kosti og galla mismunandi leiða til að efla lýðræði og stuðla að beinni aðkomu og þátttöku íbúa við stjórn og ákvarðanatöku á vettvangi sveitarstjórna.

Stefnt verði að því að yfirlitið leggi grunn að víðtæku samráði, tillögugerð og hugsanlegum lagabreytingum í tæka tíð fyrir sveitarstjórnarkosningar vorið 2010.

Aðgerð:
Sviðsstjóri þróunar- og alþjóðasviðs og lýðræðishópurinn vinni að málinu og leggi niðurstöður sínar fyrir stjórn sambandsins í nóvember 2009.

Rannsóknarverkefni á íbúalýðræði í 22 sveitarfélögum sem unnið er að á vegum Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands getur nýst í þessu sambandi. Unnið er að því í samræmi við samstarfssamning um verkefnið sem sambandið er aðili að og er vonast til að niðurstöður hafi komið fram fyrir landsþing 2010.“

Þó þetta sé óútfært liggur fyrir vilji sveitarfélaganna til að láta reyna á persónukjör. Á okkar vettvangi hefur verið rætt um hvort gera eigi tilraun í nokkrum sveitarfélögum frekar en að byrja með þetta í öllum sveitarfélögum landsins á sama tíma. Ekki er verið að útiloka að breytt lög nái til allra sveitarfélaga en það er spurning með svona mikla breytingu hvort ekki eigi að gera tilraun fyrst hjá þeim sem gefa sig fram sem tilraunasveitarfélög.

Með þeim hætti stendur til að gera tilraun með rafrænar kosningar í sveitarstjórnarkosningum. Gefa tilraunasveitarfélögum kost á að prófa þetta áður en farið verður að framkvæma rafrænar kosningar alls staðar. Þó flestir séu tölvuvanir og tæknin sé áreiðanlega til staðar eru þetta flókin og um leið viðkvæm mál þegar hvert atkvæði skiptir máli og ekkert má verða til þess að upp komi kerfisgallar sem geti spillt kosningum eða a.m.k. ímynd þeirra.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 10.5.2009 - 21:48 - 4 ummæli

Gangi ykkur vel

Nýrri ríkisstjórn vil ég óska alls hins besta. Það er mikilvægt að stjórninni gangi vel að vinna úr þeim fjöldamörgu málum sem nauðsyn er að leysa og það helst strax.

Mest aðkallandi eru efnahagsmálin með efnahag heimilinna og fyrirtækjanna í forgrunni. Almenningur hefur miklar væntingar til nýrrar ríkisstjórnar og þau heimili og fyrirtæki sem standa verst þurfa að fá úrlausn sinna mála hratt.

Ég hef ekki lesið stjórnarsáttmálann nákvæmlega en finnst við fyrstu sýn mikilvægt að hafa skýr markmið eins og 100 daga til að takast á við dýpsta efnahagsvandann.

Sameining ráðuneyta með fækkun úr 12 í 9 um næstu áramót hljómar vel. Mér sýnist hugmyndir um sveitarstjórnarráðuneyti koma til móts við hugmyndir sveitarstjórnarmanna. Það á að enda í nýju innanríkisráðuneyti sem er áhugavert. Maður á auðvitað eftir að átta sig betur á þessu en mér finnst mikilvægt að sameina málaflokka sem tengjast sveitarstjórnarmálum betur.

ESB málin eru í nokkrum vanda hjá þessari ríkisstjórn. Ég vona auðvitað að Alþingi veiti aðildarviðræðum við Evrópusambandið brautargengi. Það verður væntanlega hlutverk stjórnarandstöðu að ákveða það. Ég vona svo sannarlega að mínir flokksfélagar í Sjálfstæðisflokknum greiði því atkvæði. Svo er það þjóðarinnar að taka endanlega ákvörðun. Mér finnst Alþingi ekki geta staðið í vegi fyrir því.

Svo hefur maður auðvitað áhyggjur af fyrningarleið í sjávarútvegi. Mér finnst almenningur og fyrirtæki í sjávarbyggðunum hafa barist svo lengi. Ekki síst hér á Vestfjörðum þar sem of lengi var barist gegn kvótakerfinu. En nú þegar fyrirtækin hafa náð vopnum sínum innan þess kerfis þá kemur breyting. Ég hef mestar áhyggjur af þeim sem eru nýir í kerfinu og minni fyrirtækjum.

En forystumenn ríkisstjórnarinnar lofa samráði vegna þessarar leiðar. Við skulum vona að það fari allt saman vel.

Þarna sest gott fólk að borði ríkisstjórnarinnar. Fyrstu vinstri stjórnarinnar sem er með hreinan meirihluta á lýðveldistímanum. Verkefnin eru erfið. Við þurfum öll að taka á árunum með þeim og gefa stjórninni tækifæri til að sýna hvað í henni býr.

Gangi ykkur vel.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 8.5.2009 - 18:47 - 18 ummæli

Áhyggjur í útgerðarbæjum

Nú heyrir maður af áhyggjum víða af landsbyggðinni vegna fyrirhugaðrar fyrningarleiðar hjá ríkisstjórninni sem verið er að mynda.

Nokkrar sveitarstjórnar hafa nú þegar samþykkt bókanir þar sem lagst er gegn fyrningarleið. T.d. Grindavík þar sem allir bæjarfulltrúar samþykkja slíka bókun, þ.á.m. tveir fulltrúar Samfylkingar og einn fulltrúi Frjálslynda flokksins.

Ekki skrýtið að fulltrúar almennings í sjávarútvegsbæjum samþykki mótmæli gegn fyrningarleið því hún vegur að fyrirtækjum í rekstri og setur atvinnuveginn í uppnám. Allir halda að sér höndum og það hefur svo öfug keðjuverkandi áhrif í þjóðfélaginu. Einmitt þegar við þurfum á því að halda að starfhæf fyrirtæki eins og í sjávarútveginum séu að athafna sig sem mest.

15 fulltrúar útgerðarmanna og fiskverkenda í Ísafjarðarbæ óskuðu eftir fundi með bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar í dag. Á þeim fundi komu fram áhyggjur þeirra af fyrningarleið og bentu þeir á að í hópi þeirra væru hlutfall nýliða hátt og langflestir ef ekki allir byrjuðu eftir að kvótakerfinu var komið á. Þessir útgerðarmenn og fiskverkendur sögðu okkur að þeirra rekstur yrði í uppnámi ef fyrningarleið yrði farin. Þá þarf nefnilega að takast á við rekstur og skuldir vegna kaupa á aflaheimildum og svo að leigja til baka aflaheimildir sem þeir hafa fjárfest í. Fyrsta árið 5%, næsta ár 10%, þriðja árið 15%, fjórða árið 20% o.s.frv. alveg þangað til alveg verður búið að taka aflaheimildirnar af þeim.

Þá standa eftir skuldirnar og óvissan um hvort þeim tekst að leigja til sín aflaheimildir á markaði þar sem hæstbjóðandi fær þær heimildir sem hann býður í.

Þetta fólk sem kom til okkar var fulltrúar fyrir mjög stóran hluta af útgerð og fiskvinnslu í Ísafjarðarbæ. Þau lögðu fram eftirfarandi áskorun:

,,Áskorun til bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar.

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, áréttaði í viðtali þann 6. maí sl. að áform um að fara svokallaða fyrningarleið í sjávarútvegi væru enn í fullu gildi og að þeim yrði beitt.

Útvegsmenn og fiskverkendur um land allt, hvort sem þeir gera út stór skip eða smá, hafa eindregið varað við að þessi leið verði farin. Með fyrningarleið er verið að gera að engu þá hagræðingu sem nauðsynleg hefur verið í sjávarútvegi undanfarin ár. Þessi leið er aðför að rekstrargrundvelli atvinnugreinarinnar og þar með undirstöðu lífsafkomu fjölda Vestfirðinga sem starfa í sjávarútvegi eða þjónustugreinum tengdum honum. Við núverandi aðstæður í þjóðfélaginu er glapræði að vega að undirstöðuatvinnugrein landsbyggðarinnar.

Við skorum á bæjaryfirvöld að beita áhrifum sínum til að koma í veg fyrir þess aðför. Við skorum á ykkur að standa vörð um stöðugleika sem er forsenda afkomu atvinnugreinarinnar og gjaldeyrisöflunar þjóðarinnar.

Vestfirskur almenningur þarf á því að halda að raddir ykkar heyrist á opinberum vettvangi til stuðnings sjávarútvegi.“

Undir rita 15 fulltrúar útgerðar og fiskvinnslu í Ísafjarðarbæ.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 3.5.2009 - 18:36 - 5 ummæli

Verðhjöðnun

,,Held það sé í lagi að það verði verðhjöðnun í einhvern tíma hérna á Íslandi“ sagði maður einn við mig í dag þegar við vorum að spjalla um þessa hrikalega erfiðu stöðu sem við erum í gagnvart lánum flestra ef ekki allra.

Hann átti við að í verðhjöðnun lækka verðtryggð lán og það væri góð tilbreyting frá því sem við höfum upplifað nánast alla tíð. Þ.e. hækkun verðtryggðra lána vegna verðbólgu. Að vísu komu nokkur ár með hófstilltri verðbólgu en við Íslendingar höfum oftar fengist við verðbólgudrauginn.

Í fljóti bragði gæti verðhjöðnun verið eftirsóknarverð fyrir skuldpínda þjóð. Hugsanlega gæti verðhjöðnun í örfáa mánuði verið ,,góðkynja“ en til lengri tíma litið er hún ávísun á minnkandi eftirspurn, lækkun eignaverðs og lækkun launa. Nóg er samt orðið nú þegar þó verðhjöðnun bættist ekki við aðra óáran.

Hagstæðasta staðan er því væntanlega sem allra lægst verðbólga en ekki verðstöðvun.

Svo eru erlendu skuldirnar auðvitað sérkapítuli en þar hefur fólk horft upp á húsnæðis- og bílalán, tekin í erlendum myntum, tvöfaldast. Gengisvísitalan hækkaði um rúm 80% frá 1. jan. 2008 til 31. des. sama ár. Það er vonandi að ný ríkisstjórn verði sem allra fyrst starfhæf og taki á gengismálunum. Því var lofað af öllum stjórnmálaflokkum – ekki rétt?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 29.4.2009 - 20:34 - 2 ummæli

Sveitarstjórnarráðuneyti

Stjórnarmyndunarviðræður standa yfir og þar er vonandi margt annað en ESB rætt. Vinstri flokkarnir hljóta að hafa komið sér saman um það fyrir kosningar hvaða aðferð verður viðhöfð svo báðir flokkar komist þokkalega frá ESB málinu. A.m.k. held ég það og vakti athygli á því fyrir kosningar að ESB sérstaða Samfylkingarinnar væri ekki endilega eins mikil og ætla mætti.

Ný ríkisstjórn hlýtur að skoða sameiningu ýmissa stofnana í hagræðingarskyni. Hið sama þurfa sveitarfélögin að gera.

Samband íslenskra sveitarfélaga hefur sett fram þá skoðun oftar en einu sinni að við breytingu á Stjórnarráðinu verði gerðar breytingar á skipulaginu hvað varðar ráðuneyti sveitarstjórnarmála.

Þessi áhersla var lögð fram af hálfu sambandsins við stjórnarmyndunarviðræður 2007 og hefur verið kynnt tilvonandi stjórnarflokkum núna.

Lengi vel voru sveitarstjórnarmálin í félagsmálaráðuneytinu. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar setti þau í samgönguráðuneytið. Nafni ráðuneytisins var samt ekki breytt í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið eins og við hjá sambandinu lögðum til.

Tillaga sambandsins er sú að stofnað verði ráðuneyti sveitarstjórnar- og byggðamála sem fari m.a. með samgöngumál og skipulags- og byggingarmál.

Vonandi verður þetta skoðað af þeim sem nú hyggjast mynda nýja ríkisstjórn.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 26.4.2009 - 19:37 - 3 ummæli

Stjórnarmyndun og kosningaúrslit

Það fór eins og skoðanakannanir gáfu til kynna. Fyrsta tveggja flokka vinstri stjórnin á lýðveldistímanum í kortunum.

Mér finnst ólíklegt annað en að VG og Samfylking nái saman þrátt fyrir ESB málin. Ég skrifaði um það hérna á dögunum að mögulega væri ESB sérstaða Samfylkingarinnar ekki eins mikil og halda mætti. Ástæðan væri sú að semja yrði við VG og þá frekar á forsendum VG um aðferðina.

Þetta kemur í ljós. Ég er reyndar sammála því að fara eigi í aðildarviðræður og leggja niðurstöðu þeirra í dóm þjóðarinnar. VG vill tvennar kosningar og það gæti orðið niðurstaðan í stjórnarmyndunarviðræðum því VG vann mun stærri sigur en Samfylkingin.

Það er ástæða til að óska vinstri flokkunum til hamingju með þessa niðurstöðu og óska þess að nýrri ríkisstjórn gangi vel að vinna að hag okkar landsmanna.

Ég vil líka nefna Borgararhreyfinguna sem vann auðvitað mikinn sigur með því að fá fjóra þingmenn kjörna. Það verður áhugavert að fylgjast með þeim og sjá hvernig þau nálgast viðfangsefnið sem við þeim blasir.

Sjálfstæðisflokkurinn fékk mikinn skell í kosningunum eins og við máttum eiga von á. Kjósendur eru að refsa honum fyrir efnahagshrunið, styrkjaruglið og fleira. Samstarfsflokkar okkar hafa sloppið við þetta þó þeir séu ekki með hreinan skjöld í þessum málum. Sjálfstæðisflokkurinn var 18 ár samfleytt í ríkisstjórn og margt hefur komið í ljós sem flokkurinn á eftir að vinna endanlega úr. Það mun takast.

Reyndar bætir Samfylkingin litlu við sig, sérstaklega ef við eigum að reikna með því að fylgi hafi farið þangað vegna ESB.

Hér í okkar kjördæmi er Sjálfstæðisflokkurinn með mest fylgi og Ásbjörn oddviti okkar hér í kjördæminu fyrsti þingmaður. Íbúar í þessu kjördæmi bera traust til frambjóðenda flokksins og hugmyndafræðinnar enda er fólk meðvitað um mikilvægi atvinnulífsins og að umhverfi þess þarf að vera eins gott og mögulegt er. Þá kemur allt hitt á eftir.

Þessi niðurstaða segir okkur að kjósendur í Norðvesturkjördæmi voru ekki að velja þá flokka sem vilja fyrna aflaheimildir. Öðru nær. Sjálfstæðisflokkurinn með mesta fylgið. Frjálslyndi flokkurinn sem hefur verið sterkastur í þessu kjördæmi og barist fyrir því að innkalla aflaheimildir hverfur af þingi og vinstri flokkarnir bæta litlu við sig í fylgi.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Halldór Halldórsson
Talsmaður málefnalegrar umræðu.
RSS straumur: RSS straumur