Laugardagur 25.4.2009 - 17:21 - 1 ummæli

Kjördagur

Á kjördag hér vestra er hið besta veður. Veturinn minnir á sig með föl yfir öllu og hleypir sólinni ekki í gegnum skýin til að hita snjófölina í burtu.

Fólk mætir á kjörstað í sínu fínasta pússi. Ég mætti þremur ungum mönnum sem voru áberandi vel til hafðir. Einn þeirra í smóking, með pípuhatt og sveiflaði montpriki. Mjög flottur.

Fyrir utan kjörstað voru Lionsmenn í fjáröflun sinni að selja harðfisk sem þeir verka sjálfir. Eiga til þess hjall úti í Arnardal þar sem þeir verka af mikilli list. Þeir töldu sig nægilega langt frá kjörstað til að trufla ekki. Eitt kosningaárið voru þeir látnir taka niður gulu Lions húfurnar og fánann. Í miðju merkisins er ,,L“ en það árið var einmitt L-listi í framboði. Harðfisksalarnir voru taldir með áróður á kjörstað.

Þó ákveðinn drungi hvíli yfir þessum kjördegi vegna þess hversu aðstæður eru erfiðar í þjóðfélaginu þá er líka hátíðarbragur yfir öllu. Það eru auðvitað forréttindi að búa í lýðræðisþjóðfélagi og það skulum við ávallt muna.

Kosið er í 6 kjördeildum í Ísafjarðarbæ. Þrjár á Ísafirði og Hnífsdal sem eru í íþróttahúsinu á Torfnesi, Ísafirði. Hinar þrjár eru á Suðureyri, Flateyri og Þingeyri.

Samkvæmt skoðanakönnunum og yfirlýsingum Samfylkingar og VG verður vinstri stjórn eftir kosningar. Þó það skýrist auðvitað ekki fyrr en eftir talningu atkvæða og samningaviðræður þá liggur þetta í loftinu og hefur haft áhrif á kosningabaráttuna og afstöðu kjósenda.

Hver sem stjórnin verður þarf henni að ganga vel. Það er mikil vantrú á stjórnmálum og flokkum við þessar aðstæður. Og það er alveg öruggt að stjórnmálamenn munu valda kjósendum vonbrigðum vegna þess að þeir ráða ekki við allt sem er að gerast.

Erfiðleikarnir eru þess eðlis að við þurfum að vinna okkur í gegnum þá skref fyrir skref. Það snarar enginn þeim bagga á klakk fyrir okkur. Við verðum að gera þetta allt saman sjálf.

Veturinn mun að lokum víkja og hleypa sólinni að hér fyrir vestan. Þá kemur vorið af miklum krafti og svo sumar. Því hefur mátt treysta til þessa. Hvenær vorar eftir hrunið mikla veit ég ekki frekar en aðrir. En það kemur að því.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 24.4.2009 - 23:31 - 10 ummæli

Erfitt val?

Ég man alveg eftir hárri verðbólgu og annarri óáran í þjóðfélaginu. Mig rámar í óstöðugleika í stjórnmálum og ríkisstjórn eftir ríkisstjórn sem náði ekki tökum á ástandinu.

Svo kom langt tímabil stöðugleika og góðæris þar sem við Íslendingar vorum (mörg a.m.k.) farin að trúa því sjálf að aðferðir okkar eða öllu heldur íslensku útrásarvíkinganna væru svo góðar að við gætum kennt það í öðrum löndum.

Við brotlentum þeirri hugmyndafræði og misstum fyrr vélarafl en flestar aðrar þjóðir.

Og nú er bent á Sjálfstæðisflokkinn og sagt að hann sé ábyrgur fyrir öllu saman. Já sá flokkur ber mikla ábyrgð en hún hefur verið viðurkennd og flokkurinn leitast við að sigla réttan kúrs þar sem gömlu góðu gildin ráða ferðinni.

Hinn almenni flokksmaður hefur ekki sleppt þeim gildum. Miklu frekar má segja að við höfum alltof víða sofið á verðinum og ekki áttað okkur á að fjármálakreppa heimsins færi svo illa með okkur sem raun ber vitni.

En vorum við ein í stjórn? Nei reyndar ekki. Sjálfstæðisflokkurinn hefur aldrei náð því fylgi að geta verið einn í stjórn. Var þá samstarfsflokkurinn eða flokkarnir ekki með nein völd? Jú reyndar voru samstarfsflokkarnir með fjölda ráðuneyta og allan tímann með ráðuneyti bankamála, sjálft viðskiptaráðuneytið.

En andstæðingar Sjálfstæðisflokksins tala eins og við höfum verið ein í stjórn. Þannig hafa aðrir flokkar sloppið ótrúlega vel í gagnrýninni umræðu. Það verður svo að vera. Úr þessu fáum við því ekki breytt.

En fólk stendur frammi fyrir því að velja ákveðinn flokk á kjördag. Það getur verið mörgum erfitt val. Rykið eftir bankahrunið er ekki sest, upplýsingar þyrftu að vera meiri og kosningabaráttan skilar kannski ekki miklum upplýsingum.

Ég man eftir þeim merkilegu tímamótum þegar ég hafði aldur til að kjósa í fyrsta sinn. Og tók það alvarlega eins og allir gera áreiðanlega. Ég kynnti mér stefnuskrár en fór ekki á kosningaskrifstofur. Ég mætti á opna fundi og frambjóðendur komu á vinnustaðinn minn.

Þarna fannst mér tveir flokkar koma til greina. Alþýðuflokkurinn eða Sjálfstæðisflokkurinn. Hugmyndafræðin var mér að skapi. Niðurstaðan var að kjósa Sjálfstæðisflokkinn vegna þess að ég taldi stefnuna einbeittari og frambjóðendur líklegri til að framfylgja stefnunni. Síðan þetta var hefur Alþýðuflokkurinn eða a.m.k. starfsemi hans runnið inn í Samfylkinguna sem er miklu lengra til vinstri en gamli Alþýðuflokkurinn.

Ég les alltaf stefnuskrár flokkanna fyrir hverjar kosningar og ber þær saman. Mér finnst stefna Sjálfstæðisflokksins um eins lága skatta og mögulegt er og opið umhverfi fyrir atvinnulífið ennþá vera líklegust til árangurs fyrir Íslendinga.

Það er ekki mikil eftirspurn eftir þeirri skoðun að hrunið hefði orðið á Íslandi þó VG og Samfylking hefðu þá verið í ríkisstjórn. En samt er það staðreynd. Lítum bara til annarra landa. Þar er allt pólitíska litrófið en samt mikil vandræði sem víða eru að aukast.

Það er gott fólk í öllum flokkum. Ég er sannfærður um að allir frambjóðendur vilja leggja sig alla fram um að vinna þjóð sinni gagn. Hreinræktuð vinstri stjórn er í kortunum eftir þessar kosningar. Þá verður unnið eftir hugmyndafræði sem er mér ekki að skapi. Hugmyndafræði sem hentar að mínu mati Íslendingum ekki vel.

Ég ætla að leggja mitt af mörkum til þess að Sjálfstæðisflokkurinn fái sem flest atkvæði. Um leið og ég segi það óska ég öllum flokkum og frambjóðendum alls hins besta. En fyrst og fremst óska ég þjóðinni minni alls hins besta og vona að niðurstaða kosninganna verði Íslendingum til heilla.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 23.4.2009 - 15:45 - 2 ummæli

Fyrning loforða

Mikið ætla ég að vona að vinstri flokkarnir fyrni kosningaloforðin sín um fyrningaleiðina. Margir í þeim hópi segjast reyndar ekki styðja fyrningarleið. Samfylkingarfólk hefur sagt mér að ekki hafi staðið til að ræða sjávarútvegsmálin á síðasta landsfundi. Tillagan sem samþykkt var hafi bara verið skrifuð niður á munnþurrku á fundinum.

Getur það verið? Er þetta ekki grín hjá þessu ágæta Samfylkingarfólki?

Eftir að við þrír bæjarstjórar skrifuðum grein og vöruðum við fyrningarleiðinni, því hún hefði slæm áhrif á sjávarbyggðirnar, höfum við fengið mikil viðbrögð. Ég er sérstaklega ánægður með viðbrögðin frá fólki sem starfar við sjávarútveginn. Þar kemur mjög ákveðið fram að fólki finnst löngu kominn tími til að leyfa þessum grunnatvinnuvegi þjóðarinnar að vera í friði.

Næg önnur verkefni blasa við og óþarfi að vasast í fyrirtækjum sem standa sig eins og sjávarútvegurinn gerir.

Þeir örfáu sem hafa tjáð sig á móti grein okkar þremenninganna falla í þá gryfju sem við sáum fyrir og nefnum í grein okkar. Það er að gera okkur upp annarleg sjónarmið og gefa í skyn að við séum að standa vörð um aðra hagsmuni en byggðanna okkar. Við tókum fram í greininni að enginn okkar ætti kvóta og hefði aldrei átt. Þetta gerðum við vegna þess að við þekkjum orðræðu þeirra sem hafa fyrningarleið að áhugamáli.

Þeir sem tala fyrir fyrningarleiðinni falla í þá gryfju að skoða bara þau tilvik þar sem rekstur hefur gengið illa en líta framhjá þeim sem njóta velgengni. Þeir eru sem betur fer miklu fleiri.

Tókuð þið eftir frétt í Morgunblaðinu í dag þar sem talað er við Jóhann hjá 3X Technology á Ísafirði? Þetta er fyrirtæki sem þróar og framleiðir vörur fyrir sjávarútveginn hér heima og erlendis. Fjallað var um tækjabúnað sem fyrirtækið mun kynna á vörusýningu erlendis í næstu viku.

Fulltrúi fyrirtækisins lýsti yfir áhyggjum sínum af hugmyndum um fyrningarleið. Hann sagði þetta verða til þess að fyrirtækin héldu að sér höndum í fjárfestingum.

Þetta heyrir maður alls staðar. Það er ekki undarlegt þó sjávarútvegsfyrirtækin haldi að sér höndum þegar enn einar kosningarnar er talað um að taka af þeim möguleikann á afkomu.

Ágætu frambjóðendur sem lofið fyrningarleið! Vinsamlega fyrnið loforð ykkar.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 22.4.2009 - 23:35 - 2 ummæli

Atvinna

Það kom fram í erindi forsætisráðherra á aðalfundi Samtaka atvinnulífsins í dag að hjá Vinnumálastofnun væru skráð 600 laus störf. Einhverra hluta vegna vantar fólk í þessi störf þrátt fyrir að þúsundir séu skráðir atvinnulausir.

Á aðalfundi SA sem haldinn var undir kjörorðinu ,,Atvinnulífið skapar störfin“ var framtíðarsýn lýst og lögð áhersla á mikilvægi þess að skapa aðstæður fyrir atvinnulífið. Það er auðvitað hlutverk stjórnmálamanna að gera það sem í þeirra valdi stendur að skapa þær aðstæður. Þá skapar atvinnulífið störfin.

Liður í að skapa þær aðstæður munu þá ekki vera fólgnar í að hækka skatta þó það sé freistandi þegar mikill halli er á rekstri ríkis og sveitarfélaga. Tekjuaukning hins opinbera er fólgin í að stækka skattstofnana þegar veltan og umsvifin aukast.

Atvinnustefna Sjálfstæðisflokksins byggir á því að stækka skattstofnana með auknum umsvifum frekar en að auka álögur á óbreytta skattstofna.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 21.4.2009 - 16:25 - 10 ummæli

ESB sérstaðan farin?

Hverju munu kosningarnar skila þjóðinni að þessu sinni? Skoðanakannanir segja að núverandi ríkisstjórn muni halda velli og forsvarsmenn hennar, formenn VG og Samfylkingar ætla að vinna saman eftir kosningar.

Hvað fær þjóðin út úr því? Mun sú stjórn sem verður hreinræktuð vinstri stjórn vinna þjóðina út úr vandanum? Hún hefur ekki haft langan tíma til að sanna sig en þó – hún tók við 1. febrúar þannig að hún er búin að vera í tæpa þrjá mánuði.

Staðan hefur nú ekki batnað þessa þrjá mánuði. Reyndar hefur krónan veikst töluvert á þessum tíma, svo mikið að til vandræða horfir.

Kannski er ekki sanngjarnt að gefa ríkisstjórn sem hefur starfað svona stutt þá umsögn að staðan hafi ekki batnað. Kannski þarf lengri tíma. En staðan hefur versnað á þessum stutta tíma, þess vegna leyfir maður sér að segja þetta.

En hvað fær þjóðin? Vinstri stjórn sem ætlar að ganga til aðildarviðræðna við ESB. Já segir Samfylkingin. Nei segir VG. Samt ætla þau í ríkisstjórn. Hvor flokkurinn ætlar að gefa eftir? Samfylkingin mun fallast á að greiða atkvæði um samningsmarkmiðin var laumað að mér í morgun.

Þá skiptir væntanlega ekki máli fyrir ESB sinnana hvort þeir greiða hinum flokkunum atkvæði sitt. Hinir flokkarnir, flestir a.m.k., eru tilbúnir að láta þjóðina ákveða næstu skref í atkvæðagreiðslu. Samfylkingin er eini flokkurinn sem ætlar í aðildarviðræður beint. Sé það gefið eftir í samningum við VG þá er Samfylkingin ekki með neina sérstöðu í ESB málum.

Sumir segja að ESB sinnar í Sjálfstæðisflokknum eigi að kjósa Samfylkingu að þessu sinni. Ég get ekki tekið undir það. Það eru svo ótal mörg atriði sem ég get ekki fellt mig við hjá Samfylkingunni, þó þarna sé vitanlega margt afbragðs fólk eins og í öðrum flokkum.

Ég sem er hlynntur aðildarviðræðum við ESB tel mínu atkvæði best varið hjá Sjálfstæðisflokknum vegna þess að stefna flokksins í málefnum atvinnulífsins er mikilvæg. Og vegna þess að það er í raun engin ESB sérstaða hjá Samfylkingunni. Hún mun semja um ESB málið við VG á forsendum VG.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 20.4.2009 - 17:04 - 6 ummæli

Feigðarleið vinstri flokkanna

Eftir kynningu vinstri flokkanna á fyrningarleið í sjávarútvegi ákváðum við bæjarstjórar þriggja bæjarfélaga sem byggja að stærstum hluta á sjávarútvegi að senda greinina hér að neðan í Morgunblaðið og birtist hún þar laugardaginn 18. apríl.

Við skrifuðum greinina vegna þess að okkur finnst fyrir löngu nóg komið af því að vega stöðugt að sjávarbyggðunum. Við skrifuðum hana vegna þess að við sjáum í gegnum þessa fyrningarleið. Hún er hugsuð til þess að úthluta aflaheimildum með ,,sanngjarnari“ hætti.

 

Sem þýðir í tilfelli Vestfjarða, Vestmannaeyja og Snæfellsness í þessu tilfelli að engin ,,sanngirni“ er á bak við að 5% íbúa landsins hafi yfir um 30% aflaheimildanna.

 

Þess vegna vilja þessir flokkar fara fyrningarleiðina. Þeir vilja skipta um útgerðarmenn og færa aflaheimildir handvirkt frá okkur og til annarra.

 

Hér er greinin:

Kosningabarátta sú sem nú stendur yfir hefur illu heilli hvorki snúist um menn né málefni. Engin gaumur er nú gefinn að þeirri staðreynd að vinstriflokkarnir hyggjast nú hrinda öllum þeim málum, sem þjóðin hefur ítrekað hafnað í framkvæmd. Þannig fá Vinstri grænir og Samfylkingin fullkominn frið til að boða að atvinnuuppbygging í tengslum við orkufrekan iðnað skuli stöðvuð, lagður skuli auka tekjuskattur á launþega, laun skuli lækkuð, lagður skuli á sérstakur eignaskattur sem helst bitnar á eldri borgurum og áfram mætti telja.  Ekki einu sinni kosningaloforð þessara flokka um að setja þær atvinnugreinar sem enn standa styrkum stoðum á hausinn fá gagnrýna umfjöllun fjölmiðlanna.

Landsbyggðin lifir á veiðum og vinnslu
Sú staðreynd kann að koma vinstriflokkunum á óvart að í sjávarbyggðum landsins býr enn drjúgur hluti þjóðarinnar.  Íbúar í heimabyggðum höfunda þessarar greinar, Vestfjörðum, Vestmannaeyjum og Snæfellsnesi, eru um 5% þjóðarinnar.  Með elju, útsjónarsemi og óþrjótandi trú á sjávarútveginn hefur íbúum þessara svæða tekist að eignast um 30% af aflaheimildunum Íslendinga. Megnið af þessum verðmætum hafa fyrirtæki og einstaklingar á þessum atvinnusvæðum keypt, því andstætt því sem vinstrimenn halda fram hafa á milli 80 og 90% af aflaheimildum skipt um eigendur frá því að aflamarkskerfinu var komið á.  Að gefnu tilefni og með tilliti til orðræðu vinstri flokkanna skal það tekið fram að enginn af höfundum þessarar greinar á gramm af kvóta né hefur átt slík verðmæti.  Allir búum við hinsvegar í bæjum þar sem allt stendur og fellur með sjávarútvegi og hagsmunir okkar, sjómanna, fiskverkafólks og útgerðarmanna fara því saman. Íbúar þessara svæða hafa frá því að byggð hófst haft metnað fyrir sjávarútvegi og lifað á veiðum og vinnslu.  Jafnvel þegar útrásin stóð sem hæst blinduðust þeir ekki af skjótfengnum gróða bankanna heldur héldu sínu striki. Á þeim tíma fengum við í sjávarbyggðum nokkuð góðan frið fyrir löngum ríkisvæðingarfingrum Samfylkingarinnar enda voru fingurnir þá notaðir til að klappa fyrir Baugi sem styrkti þá jú um þriðjung hverrar krónu sem kom í kassa þeirra.  Sjávarútvegurinn var ekkert annað en slorvinna sem við á landsbyggðinni gátum dundað okkur við á meðan elíta Samfylkingarinnar var að sinna alvöru atvinnugreinum á borð við listsköpun, bókaskrif, og vinnu á fjölmiðlunum.

Á að taka aflaheimilirnar af þeim sem hafa af þeim afkomu?
Nú horfir öðruvísi við.  Á ný hefur höfuðborgarelíta Samfylkingarinnar með varaformanninn og fyrrverandi borgarstjóra í broddi fylkingar áttað sig á að íslenskt hagkerfi stendur og fellur með sjávarútvegi.  Þar hefur hin raunverulega verðmætasköpun átt sér stað og enn eru þar verðmæti. Í landsfundarályktun Samfylkingarinnar segir ,,Allar aflaheimildir í núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi verða innkallaðar eins fljótt og auðið er”.  Þetta merkir að loforð Samfylkingarinnar er að taka aflaheimildirnar af íbúum sjávarbyggðanna og deila þeim út á “sanngjarnari máta”.  Getur verið að íbúar þessara byggða vilji stuðla að því að kosningaloforð þetta nái fram að ganga?

Feigðarleiðin
Stjórnendur og starfsmenn sjávarútvegsfyrirtækja hafa lýst yfir miklum áhyggjum af kosningarloforði Samfylkingarinnar því þrátt fyrir að ganga fram undir merkjum vinnu og velferðar lofa þeir íbúum sjávarbyggða gjaldþroti og atvinnuleysi.  Vönduð úttekt Deloitte á fyrningarleiðinni sýndi að það tekur stærstu og öflugustu sjávarútvegsfyrirtæki landsins einungis sex ár með fimm prósenta fyrningu að fara á hausinn.  Leiðina mætti því allt eins kalla feigðarleiðina. Verði hraðar farið tekur það skemmri tíma.  Slíkt hefði í för með sér hörmungar fyrir sjávarbyggðirnar því er hægt að lofa. Með loforð sem þetta í handraðanum þarf ekki að undrast að vinstri flokkarnir vilji ekki ræða málefni.

Staðreyndin er sú að þegar horft er bak við sykurhúðun vinstriflokka á ,,sanngjarnri” fyrningarleið blasir eftirfarandi við:

 * Fyrningarleiðin er í eðli sínu þjóðnýting. Aflahlutdeildir sem útgerðin hefur keypt verða gerðar upptækar og boðnar upp á almennum markaði.  

*Fyrningarleiðin vegur að rótum sjávarútvegsins; eykur óstöðugleika, kemur í veg fyrir markmiðssetningu og langtímahugsun og stórskaðar afkomumöguleika fyrirtækjanna. 

*Fyrningarleið leiðir til óhagkvæmni og sóunar. Fyrirtækin geta ekki gert langtímaáætlanir vegna óvissu um aflaheimildir og verð þeirra.

*Fyrningarleiðin kemur til með að valda fjöldagjaldþroti sjávarútvegsfyrirtækja og annarra fyrirtækja í sjávarbyggðum.

 

 

 

Elliði Vignisson er bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, Halldór Halldórsson er bæjarstjóri í Ísafjarðarbæ og Kristinn Jónasson er bæjarstjóri í Snæfellsbæ.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 19.4.2009 - 16:07 - 9 ummæli

sammala.is

Það hefur töluverður fjöldi skráð sig á vefinn sammala.is. Þar á meðal undirritaður ásamt fleira fólki úr Sjálfstæðisflokknum. Við erum þarna vegna þess að við teljum hagsmunum Íslands best borgið með því að fara í aðildarviðræður um ESB aðild og svo þjóðaratkvæði.

Þessa leið tel ég besta af ýmsum ástæðum, ekki síst myntsamstarf eftir einhvern tíma en fram að því vissu um stefnu í þá áttina.

Það þarf ekki að óttast að þjóðin velji ESB aðild í þjóðaratkvæðagreiðslu ef henni líst ekki á þá skilmála sem okkur standa til boða.

Við sem höfum skrifað undir á sammala.is erum væntanlega úr öllum stjórnmálaflokkum og eflaust margir utan flokka líka. Margir líklega ekki sammála um margt annað en þetta.

Þess vegna finnst mér undarlegt að sjá áhugamenn um ESB aðild hampa þessari síðu annars vegar en í sömu andránni hella sér yfir Sjálfstæðisflokkinn fyrir að hafa ekki samþykkt ESB aðild. Auk annars sem mönnum dettur í hug að fá útrás fyrir um leið.

Ég styð Sjálfstæðisflokkinn vegna þess að ég tel stefnu hans vera besta fyrir okkur Íslendinga. Það er mín bjargfasta skoðun og hefur verið alla tíð. Ég styð líka ESB aðildarviðræður eins og margt samflokksfólk mitt. Mér finnst skrýtin tilfinning að vera hampað fyrir það að skrifa undir á sammala.is en um leið hraunað yfir mann fyrir að styðja Sjálfstæðisflokkinn.

Munum að einn stjórnmálaflokkur er með ESB aðild að því er virðist án skilyrða á dagskrá. Sá flokkur er Samfylkingin og mælist skv. skoðanakönnunum með 30% fylgi. Það þýðir að 70% eru að styðja eitthvað annað.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 18.4.2009 - 12:35 - 5 ummæli

Þér hefur borist tilboð

Mér hefur borist yfirtökutilboð í hlut minn í Exista hf. Fyrirtækið BBR ehf. sem er í eigu Lýðs Guðmundssonar og Ágústs Guðmundssonar er tilbúið að kaupa hlut minn í Exista.

Þeir voru eigendur Exista er það ekki? Þeir eiga meirihlutann a.m.k. núna því að BBR ehf. á 77,9% og Bakkabræður Holding B.V. 10% af heildarhlutafé Exista.

Til að eignast minn hlut í Exista sem ég borgaði 340.000 kr. fyrir þá bjóða þeir 200 kr.

Jú vissulega átti ég ekki að kaupa þennan hlut á sínum tíma. Það er hægt að vera vitur eftir á. Já og auðvitað var þetta áhættufjárfesting.

En manni verður hugsað til allra þeirra sem keyptu hlut í þeim félögum sem eru að fara eða eru farin. Venjulegt fólk fjárfesti í hlutafélögum og sjóðum. Ekki bara það heldur voru sjóðir í okkar eigu, lífeyrissjóðirnir að fjárfesta í þessu.

Ég fæ væntanlega athugasemdir hér á síðunni um að þetta sé allt flokknum mínum að kenna. Hann var á vaktinni með Samfylkingunni sem stýrði Viðskiptaráðuneytinu. Ég tel mikla ábyrgð hvíla á þessum flokkum.

En ekki síður á þeim sem stýrðu fyrirtækjunum sem tóku við öllum þessum fjármunum almennings og hafa tapað þeim að mestu leyti. Því sem ekki tapaðist eru hinir sömu að kaupa til sín á einhver prómill.

Flokkar: Viðskipti og fjármál

Föstudagur 17.4.2009 - 18:54 - 8 ummæli

Stjórnarskráin

Stjórnarskrármálið verður tekið af dagskrá og að ekkert verður af breytingum á stjórnarskránni í bili. Í tengslum við það er Sjálfstæðisflokknum kennt um allt saman. Þær ásakanir eru ekki réttmætar því áherslur þingmanna Sjálfstæðisflokksins sneru fyrst og fremst að því að ekki yrðu gerðar breytingar á grundvallarlögum lýðveldisins að vanhugsuðu máli. Hefðin er sú að viðamiklar breytingar á stjórnarskránni þarf að undirbúa vel og ná um þær samstöðu. Stjórnarskráin er grundvallarlög sem okkar lýðræði byggir á.

Höfum í huga að ríkisstjórnin féll frá stjórnarskrármálinu en samþykkti ekki tillögu Sjálfstæðisflokksins um að sett yrði inn auðlindaákvæði. Ekki heldur að sú breyting yrði gerð að einfaldara yrði að breyta stjórnarskránni. Þá þyrfti ekki að rjúfa þing og kjósa að nýju.

Fyrst að vilji var til að gera breytingar er skrýtið að ekki hafi verið fallist á þetta af hálfu ríkisstjórnarflokkanna né heldur að kjósa 25 manna nefnd til að endurskoða stjórnarskrána.

Af u.þ.b. 30 umsagnaraðilum sem komu fyrir sérnefnd um stjórnarskrármál til þess að gefa álit sitt á málinu voru aðeins 2-3 umsagnaraðilar sem studdu breytingarnar heilshugar, allir aðrir höfðu ýmist efnislegar athugasemdir eða athugasemdir við orðalagið.

Í moldviðrinu sem nú er í íslenskum stjórnmálum er því þyrlað upp til viðbótar að Sjálfstæðisflokkurinn hafi skemmt fyrir mikilvægum breytingum.

Staðreyndin er sú að Sjálfstæðisflokkurinn stóð vörð um lýðræðið í landinu.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 16.4.2009 - 22:02 - 8 ummæli

Fjölgun fiska?

Þegar maður hlustar á pólitískar umræður þessa dagana þá er átakanlegt hversu lítið er um lausnir eða a.m.k. hugmyndir um lausnir. Gömlu góðu slagorðin eru á sínum stað, gamli góði Steingrímur J. er flottur, líka í slagorðunum.

Lausnirnar geta varla verið fólgnar í mikið hærri sköttum en eru nú þegar. Fólk er að verða fyrir launalækkunum. Þær eru veruleiki. Bætum ekki sköttum ofan á það. Ef ég skildi Steingrím J. rétt í kvöld á borgarafundinum á Akureyri þá er verið að tala um aukaskatt ofan á laun yfir 300 þús. kr. Getur það verið? Lendir það ekki að mestu á barnafjölskyldum og ungu fólki sem er að basla við að koma yfir sig húsnæði og er núna að reyna að halda í við hækkun á öllum sköpuðum hlutum?

Kristján Þór lagði áherslu á að ekki væri bæði hægt að lækka laun og hækka skatta. Þetta er lykilatriði. Við eigum að reyna eftir bestu getur að hlífa fólki við enn frekari álögum.

Á fundinum var talað um að fleiri þúsund fyrirtæki stefndu í gjaldþrot. Og það var talað um að skapa fyrirtækjum lífvænlegt umhverfi. Allir töluðu um þetta.

En um leið töluðu ótrúlega margir um að þjóðin ætti að fá fiskinn til baka. Þar mun vera átt við að svokölluð fyrningarleið um að taka veiðiheimildirnar af fyrirtækjum í sjávarútvegi skapi réttlæti og að því er mér skildist fleiri störf.

Í mínum huga er réttlætið ekki fólgið í því að taka veiðiheimildir af fyrirtækjum sem hafa áunnið sér nýtingarrétt með því að greiða fyrir þessar heimildir.

Og ef störfum fjölgar við að skipta um útgerðarmenn (sem hlýtur að vera ætlunin með því að taka veiðiheimildir af núverandi útgerðarmönnum) þá hlýtur þessi feigðarleið (vinstri menn kalla hana fyrningarleið) að fjölga fiskunum í sjónum.

Ef fiskunum fjölgar ekki í sjónum við þessa leið þá skilar hún engu nýju fyrir þjóðarbúið.

Mér finnst að frambjóðendur eigi að einbeita sér að fyrirtækjum sem þurfa á því að halda en láta sjávarútveginn sem er undirstöðuatvinnuvegur þjóðarinnar í friði.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Halldór Halldórsson
Talsmaður málefnalegrar umræðu.
RSS straumur: RSS straumur