Föstudagur 28.8.2015 - 08:02 - Rita ummæli

Borgin er illa rekin

Á fundi borgarráðs 27. ágúst var lagt fram 6 mánaða uppgjör fyrir A og B hluta Reykjavíkurborgar. Þ.e. borgarsjóð og fyrirtæki.

Í stuttu máli er reksturinn í mjög alvarlegri stöðu. Skatttekjur duga ekki fyrir rekstri borgarinnar. Ef þetta væri einungis að koma fram núna væri maður rólegri en svona er þetta búið að vera síðan Besti flokkurinn og Samfylking mynduðu meirihluta árið 2010 að undanteknu einu ári. Reksturinn er búinn að versna stöðugt hjá þessum meirihluta. Og núna á hálfu ári er tapið rúmir þrír milljarðar. Þrjú þúsund milljónir eða 700.000 kr. á hverjum einasta klukkutíma frá 1. janúar til 30. júní 2015.

Við borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðum fram þessa bókun við framlagningu 6 mánaða uppgjörsins:

,,Alvarleg staða á rekstri Reykjavíkurborgar

Uppgjör fyrir rekstur fyrstu 6 mánuði ársins 2015 sýnir að áfram er mikið tap á A-hluta Reykjavíkurborgar eða sem nemur rúmum 3 milljörðum króna sem er næstum tvöfalt meira tap en reiknað var með í fjárhagsáætlun. Staðan er því orðin mjög alvarleg sem er því miður í samræmi við viðvaranir borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins á undanförnum árum.

Veltufé frá rekstri A-hluta sem er það fjármagn sem reksturinn skilar í peningum er 1,4% af rekstrartekjum en þarf að lágmarki að vera 9% miðað við greiningu fjármálaskrifstofu í tengslum við ársreikning 2014.

Fjármálaskrifstofa Reykjavíkurborgar segir í skýrslu sinni að þessi slæma niðurstaða kalli á viðbrögð í fjármálastjórn borgarinnar. Mikill þungi er í þeim orðum fjármálaskrifstofunnar og undirstrikar þörf þess að markviss vinna verði sett strax af stað við að taka á rekstrarvandamálum Reykjavíkurborgar. Við afgreiðslu ársreiknings ársins 2014 lögðu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins til að slík vinna færi strax af stað.“

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 18.5.2015 - 20:59 - Rita ummæli

Harður áfellisdómur

Ömurleg niðurstaða í  nýrri skýrslu Innri end­ur­skoðunar Reykja­vík­ur­borg­ar um yf­ir­töku Strætó á ferðaþjónustu fatlaðs fólks kemur því miður ekki á óvart. Í skýrslunni kemur fram samkvæmt fjölmiðlum að stjórn­un breyt­ing­anna á ferðaþjón­ustu fatlaðs fólks eft­ir að hin raun­veru­lega innleiðing átti að hefjast hafi mis­far­ist verulega. Yf­ir­um­sjón með breyt­ing­un­um var ekki á hendi eins ákveðins aðila sem samræmdi alla fleti breyt­ing­anna, bæði þá sem sneru að not­end­um ferðaþjón­ust­unn­ar, starfs­mönn­um ferðaþjón­ustu fatlaðs fólks, starfs­mönn­um vel­ferðarsviða sveit­ar­fé­lag­anna og starf­semi Strætó bs. Þá kemur fram hörð gagnrýni á að starfsfólki með reynslu skuli hafa verið sagt upp og að byrjað hafi verið um áramót í stað þess að byrja að vori eða sumri til.

Við borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðum til 20. janúar í borgarstjórn að Innri endurskoðun yrði falið að gera úttekt á öllu málinu.

Tillaga Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn 20. janúar
Mikilvægt er að læra af þeim mistökum sem gerð hafa verið með breytingum á ferðaþjónustu fatlaðra og greina sem flesta þætti þess máls. Innri endurskoðun Reykjavíkurborgar er falið að leggja mat á útboðsferli og skilmála vegna útboðs fyrir ferðaþjónustu fatlaðra. Útboðið verði skoðað í heild sinni. Lagt verði til dæmis mat á hvort tími sem gefinn var til fjárfestingar hafi verið fullnægjandi, reynsla bílstjóra og annars starfsfólks hafi verið nægilega hátt metin og hvort gefinn hafi verið nægilegur tími til þjálfunar þess. Þá verði skoðað hvort svigrúm Strætó bs. við mat á þátttakendum í útboðinu hafi verið nægilegt.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 12.5.2015 - 18:57 - Rita ummæli

Rekstrartap A-hluta borgarinnar

Við vorum að ljúka borgarstjórnarfundi þar sem ársreikningur borgarinnar fyrir árið 2014 var til síðari umræðu og staðfestingar.

Ársreikningur ársins 2014 sýnir 2,8 milljarða króna tap A-hluta Reykjavíkurborgar sem er öll meginstarfsemi Reykjavíkurborgar.

Í skýrslu Fjármálaskrifstofu borgarinnar segir um þennan taprekstur að mikilvægt sé að bregðast við. Undir það taka borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins með tillögu sinni um að farið verði í rekstrarhagræðingu og í framhaldi af árangri í því verði farið í lækkun útsvars í áföngum. Meirihlutinn samþykkti að vísa tillögunni til borgarráðs til úrvinnslu. Það var stutt af fulltrúum allra flokka í borgarstjórn.

Á fundinum fór ég sérstaklega yfir þróun stöðugilda hjá borginni 2010-2014 þar sem fjölgunin er skv. þeim gögnum sem ég fékk frá borginni 675 stöðugildi á þessu tímabili. Hluti af því er verkefnaflutningur málefna fatlaðs fólks frá ríkinu 404 stöðugildi og 93 stöðugildi vegna atvinnuátaksverkefna. Þá er óútskýrð fjölgun stöðugilda 178 alls sem kosta borgina rúman milljarð ef stöðugildið kostar með öllum launatengdum kostnaði 5,8 m.kr. á ári.

Í skýrslu Fjármálaskrifstofu segir um veltufé frá rekstri sem er einungis 5% á árinu 2014 að lágmarkið vegna skuldastöðu A-hluta borgarinnar sé 9%. Þetta eru þung viðvörunarorð til Pírata, VG, Samfylkingar og Bjartrar framtíðar sem skipa meirihlutann. (Sjá mynd)

Þegar rekstur A-hluta er skoðaður frá árinu 2002 má sjá að í tíð vinstri meirihluta 2002-2006 er taprekstur öll árin. Árin 2007-2010 er Sjálfstæðisflokkurinn í meirihluta og þá er jákvæð afkoma öll árin. Vinstri meirihluti tekur svo við vorið 2010 og eftir það er aftur taprekstur á A-hluta að frátöldu árinu 2013 sem verður að segjast að sé undantekningin sem sannar þá reglu að í tíð vinstri meirihluta við stjórn Reykjavíkurborgar er taprekstur á A-hluta. (Sjá mynd)

Samt er útsvar Reykjavíkurborgar í hámarki öfugt við nágrannasveitarfélögin sem flest hafa dregið úr álögum á íbúa sína.

Veltufe_2002_2014_arsreikn_2014 Rekstur_A_hluta_2002_2014_arsreikn_2014

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 7.5.2015 - 10:52 - Rita ummæli

Verð Landsvirkjunar 2006

Það er ánægjulegt að sjá að Landsvirkjun er að bæta stöðu sína jafnt og þétt. Í tengslum við ársfund talar forstjóri um að arðgreiðslur geti hugsanlega farið úr 1,5 milljörðum upp í jafnvel 20 milljarða. Þessar yfirlýsingar hafa orðið borgarstjóra tilefni til að rifja upp nærri 10 ára gamla ákvörðun um sölu borgarinnar á hlut sínum í Landsvirkjun. Hann segir að söluverð hafi verið of lágt á þeim tíma. Þessi ummæli hafa orðið til þess að ýmsir rifja upp að matsmenn allra eigenda fundu út verðið. Fyrir tæpum 10 árum var ekkert ljóst hvernig þróun Landsvirkjunar yrði og margir óvissuþættir til staðar. Á þessum tíma var líka búið að gefa framleiðslu og sölu á orku frjálsa þannig að Reykjavíkurborg gat ekki verið bæði eigandi Orkuveitu Reykjavíkur og Landsvirkjunar því þau félög eru í samkeppni á raforkumarkaði.

Verð og viðmið
Fyrir hluti borgarinnar og Akureyrar fengust 30,25 milljarðar árið 2006. Miðað við 44,5% hlut borgarinnar eru það 27 milljarðar sem leggjast á 45 milljarða á núvirði. Vaxtahagræðið af skuldabréfinu mv. 4% meðalvexti er 11,4 milljarðar sem þýðir að við erum að tala um 56,4 milljarða verðmæti í dag.
Svo er það spurningin um verð. Borgarstjóri er með spekúlasjónir um að það hafi verið of lágt þarna fyrir 10 árum. Það vissi auðvitað enginn árið 2006 hvernig Landsvirkjun og verðmæti hennar myndi þróast. Vinstri menn hafa nú meira og minna verið á móti öllum verkefnum Landsvirkjunar sem skapa henni arð þannig að árið 2006 höfðu borgarfulltrúar kannski áhyggjur af því að Landsvirkjun myndi dala í verði.
Borgarstjóri er væntanlega að tala um ef og þegar arðgreiðslur verða hugsanlega 20 milljarðar á ári þá komi í ljós að söluverðið árið 2006 hafi verið of lágt. En arðgreiðslur eru að jafnaði 1,5 milljarðar á ári, það er raunveruleikinn.

Vangaveltur um verð
Ef við tökum þumalputtareglu um verðmæti fyrirtækis út frá arðgreiðslu 1,5 milljarðar og erum í efri mörkum (P/Div = 25) gefur það 37,5 milljarða fyrir Landsvirkjun sem gæfi verðmæti hlutar borgarinnar í Landsvirkjun uppá 16,7 milljarða. Það er lægra verð en fékkst 2006 eða 45 milljarðar í dag.

Þannig að það má endalaust velta þessu fyrir sér. Það er a.m.k. ekki hægt að sýna fram á það ennþá að þetta hafi verið vondur díll þarna árið 2006. Það er kannski hægt ef arðgreiðslur verða 20 milljarðar. En þá þurfa slíkar arðgreiðslur að koma til á næstu árum. Hagnaður Landsvirkjunar var 10 milljarðar kr. árið 2014 þannig að ekki gefur það færi á svo háum arðgreiðslum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 25.3.2015 - 14:11 - Rita ummæli

Málefni fatlaðs fólks hjá sveitarfélögum – krossgötur

Ég skrifaði þennan leiðara í síðustu Sveitarstjórnarmál vegna þeirrar stöðu sem nú er uppi flutnings málaflokks fatlaðs fólks til sveitarfélaga. Nú stendur endurskoðun yfir á verkefninu og mikilvægt að vel takist til. Tvö landssvæði, Vestfirðir og Norðurland vestra hafa gert samþykktir um að skila málaflokknum aftur til ríkisins.

Leiðarinn:

Samband íslenskra sveitarfélaga í samvinnu við Jöfnunarsjóð stóð fyrir umræðu- og upplýsingafund 19. febrúar undir yfirskriftinni: ,,Málefni fatlaðs fólks innan samþættrar nærþjónustu sveitarfélaga.“ Ekki fór hjá því að fjárhagsmálefni bæri á góma í erindi undirritaðs á fundinum enda óaðskiljanlegur hluti flutnings þessa stóra verkefnis sem nú er á fimmta ári hjá sveitarfélögunum. Á rúmum fjórum árum eru málefni fatlaðra farin að festa sig í sessi sem hluti af samþættri nærþjónustu sveitarfélaga. Viðræður ríkis og sveitarfélaga um endurmat á yfirfærslunni standa yfir og á að vera lokið í apríl. Markmið þeirra viðræðna er að leiða til lykta hvernig fjármögnun málaflokksins verður háttað til framtíðar. Og finna út hver útsvarsprósenta verður til framtíðar sem ætlað er að standa undir aðstoð við fatlaða innan samþættrar nærþjónustu sveitarfélaga.

Flutningur flókinna verkefna milli stjórnsýslustiga tekur alltaf langan tíma og yfirleitt þarf að bíða lengur en ætlað er í upphafi eftir því að raunveruleg niðurstaða um kosti og galla verkefnisins liggi fyrir. Þessi lærdómur hefur m.a. leitt til þess að yfirfærsla á málefnum aldraðra hefur verið sett í annan farveg. Það er einfaldlega þannig að áður en kemur að mögulegri yfirfærslu verkefna verður að móta skýra stefna í viðkomandi málaflokknum, gera þjónustusamninga þar sem við á og koma málaflokknum svo breyttum í framkvæmd hjá ríkinu áður en kemur til breytinga á verkaskiptingu.

Mikil undirbúningsvinna átti sér stað áður en gengið var frá samningi um yfirfærslu málefna fatlaðs fólks frá og með 1. janúar 2011 er ljóst að of margt er varðar stefnumótun og auknar kröfur í málaflokknum kom frá ríkinu eftir flutninginn. Sveitarfélögin munu ekki taka þátt í því aftur að fyrst komi verkefnaflutningur og síðan í kjölfarið stefnumörkun, framkvæmdaáætlanir og reglugerðarbreytingar. Sá háttur er ávísun á togstreitu og að ríkið telji sér óhætt að gera síauknar kröfur á sveitarfélögin án þess að tryggt sé að faglegar og fjárhagslegar forsendur séu fyrir hendi til þess að mæta slíkum kröfum. Við teljum okkur sjá að þessar kröfur eru oft mun meiri en ríkið hefði sjálft treyst sér til þess að standa undir. Stór hluti vandans við verkefnaflutning er að nýjar kröfur koma frá ríki eftir flutning verkefnis í framkvæmdaáætlunum, löggjöf, reglugerðum og stefnumörkun án þess að fjármagn fylgi með. Svo er sveitarfélögunum ætlað að fara með betlistaf til fjárveitingavaldsins til þess að kría út peninga fyrir svo standa megi undir þessum kröfum. Eitt ráðuneyti gerir þannig kröfur en það næsta neitar að fjármagna þær. Sveitarfélögin lenda svo þarna á milli eins og skilnaðarbörn.

Þetta nær engri átt og felur í sér neikvæðasta þátt yfirfærslunnar á málefnum fatlaðs fólks sem hefur leitt til þess að víða af sveitarstjórnarstiginu heyrast raddir um að sveitarfélögin eigi að skila málaflokknum. Undirritaður hefur fullan skilning á þeim viðbrögðum en telur á hinn bóginn að reyna beri til þrautar að ná ásættanlegu samkomulagi við ríkisvaldið um fjármögnun málefna fatlaðs fólks sem er faglega séð í góðum höndum metnaðarfullra sveitarfélaga.

Halldór Halldórsson
formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 29.1.2015 - 19:44 - Rita ummæli

Reglur gegn öryggi og fræðslu

Að undanförnu hefur verið umræða um að reglur Reykjavíkurborgar koma í veg fyrir að grunnskólabörn megi fá reiðhjólahjálma að gjöf og að kynning á tannhirðu frá Tannlæknafélagi Íslands sé ekki heimil.

Af þessu tilefni lögðum við borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins eftirfarandi tillögu fram í borgarráði 22. janúar sl. Tillögunni var frestað en mun vonandi fá eðlilega málsmeðferð af hálfu meirihlutans. Það er mikilvægt að endurskoða þessar undarlegu reglur.

Tilagan:
,,Reglur um kynningar í skólum þarf að endurskoða með tilliti til þeirrar reynslu sem safnast hefur frá því þær voru settar haustið 2013. Reglurnar hafa reynst of þröngar og hafa komið í veg fyrir að kynningar í öryggis- og heilbrigðismálum fái að fara fram innan veggja skólanna. Það á t.d. við um hjólahjálma sem gefnir hafa verð um árabil en hefur nú verið hafnað og kynningar á tannhirðu af hálfu Tannlæknafélags Íslands vegna þess að félagið gefur tannkrem og tannbursta í fræðsluskyni. Lagt er til að reglur þessar verði endurskoðaðar og túlkun þeirra rýmkuð þar til endurskoðun er lokið og nýjar reglur hafa verið birtar.“

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 2.12.2014 - 17:04 - Rita ummæli

Samstarf sveitarfélaga við kjarasamninga er mikilvæg

Leiðari í Sveitarstjórnarmál nóvember 2014.

Kjarasamningsgerð sveitarfélaganna

Það er alltaf léttara yfir þegar samningalotu við kjarasamningaborðið lýkur með undirritun. Þetta á sérstaklega við ef verkfall hefur skollið á og staðið í einhvern tíma. Þess vegna var einstaklega ánægjulegt þegar skrifað var undir kjarasamning tónlistarkennara nú í lok nóvember þegar verkfall Félags tónlistarkennara hafði staðið í fimm vikur. Vonandi verður samningurinn samþykktur í atkvæðagreiðslu.

Öllum þykir erfitt þegar verkfall stendur yfir því það hefur áhrif á daglegt líf mjög margra. Þessi áhrif eru mismikil en alltaf töluverð enda næðust markmið með verkfalli varla fram ef svo væri ekki.

Sveitarfélögin eru fyrirferðarmikil á vinnumarkaðnum en hjá þeim vinna 54% opinberra starfsmanna en 46% hjá ríkinu. Samanlagt eru ríki og sveitarfélög með 23% af heildarvinnumarkaðnum. Samband íslenskra sveitarfélaga sér um alla kjarasamningagerð fyrir sveitarfélögin í landinu með þeirri undantekningu að Reykjavíkurborg sér sjálf um aðra samninga en við félög innan Kennarasambands Íslands og slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn.

Mikið álag er á okkar samningafólki almennt enda fjöldi kjarasamninga yfirleitt í vinnslu. Sérstaklega mikið áreiti og álag er þegar verkfall stendur yfir á okkar samningafólki sem og sveitarstjórnarfólki út um land allt. Við slíkar aðstæður er úthald, þolinmæði og samstaða mikil nauðsyn. Samningar nást að lokum og það er lykilatriði að okkur takist að ljúka þeim innan þess ramma sem vinnumarkaðurinn miðar við. Hið opinbera, sveitarfélög og ríki fá tekjur sínar frá hinum almenna vinnumarkaði og geta því ekki boðið upp á meiri launahækkanir en þar verða. Undantekningin er þegar samningar nást um hækkun launa umfram almennar viðmiðanir á móti vinnuhagræðingu.

Það er ekki nokkur vafi í huga undirritaðs um að það er til bóta fyrir bæði sveitarfélögin og samningsaðila þeirra að samningagerð sveitarfélaganna er samræmd með einni samninganefnd eins og nú er.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 18.11.2014 - 21:01 - Rita ummæli

Húsnæðismálin í Reykjavík

Þessi fréttatilkynning var send út  frá Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík eftir umræður á borgarstjórnarfundi.

Gleymum ekki atvinnulífinu
Húsnæðisuppbygging Reykjavíkurborgar var tekin til umræðu á borgarstjórnarfundi í dag. Halldór Halldórsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, gagnrýnir að ekki sé meira tillit tekið til atvinnulífsins og að meirihlutinn sé að gleyma atvinnulífinu, eingöngu sé einblínt á lóðir fyrir íbúðarhúsnæði en skortur er á lóðum fyrir atvinnulífið. Það er eingöngu einblínt á lóðir fyrir íbúðarhúsnæði sem er mikilvægt en það þarf að sinna atvinnulífinu líka því atvinnulífið er grunnurinn að búsetu og lífsgæðum í borginni.

Hann talaði einnig um að stærri hópur vildi eiga sitt húsnæði og það væri mjög mikilvægt að stuðla að því að fólk geti keypt húsnæði á sómasamlegu verði. Fólk verði að hafa alvöru val í húsnæðismálum.

Þörf er á aukinni samkeppni á leigumarkaði
Halldór talaði einnig um að það þyrfti meiri samkeppni á leigumarkaði. Við getum ekki aukið samkeppni á leigumarkaði með því að handvelja samstarfsaðila. Reykjavíkurborg ætti frekar að bjóða út lóðir gegn því að lóðarhafar gangi að ákveðnum skilyrðum sem fallin eru til þess að fjölga leiguíbúðum. Þannig má stuðla að því að húsnæðisfélögum fjölgi og hafi langtímasjónarmið að leiðarljósi. Þá gagnrýndu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins meirihlutann fyrir að upplýsa ekki um útfærslu svokallaðra Reykjavíkurhúsa þrátt fyrir að búið sé að setja þau á dagskrá.

Hildur Sverrisdóttir, varaborgarfulltrúi, tók í sama streng. „Fikt hins opinbera í markaðnum þrýstir alltaf upp verði á endanum og borgin á ekki að taka áhættu með því að taka beinan þátt í samstarfi við bygginga- og leigufélög á almennum markaði fyrir almenna borgarbúa sem þurfa ekki félagslega aðstoð. Fyrir utan að íhlutun hins opinbera gagnvart hópum sem þurfa ekki á skilgreindum stuðningi að halda er ólögleg þar sem engin undanþága frá ESA út af reglum um bann við að borgin íhlutist um slíka opinbera niðurgreiðslu hefur verið veitt“, sagði Hildur í ræðu sinni.

Umræður um húsnæðisuppbyggingu Reykjavíkurborgar náðu vel yfir þriðju klukkustund og tóku allir borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins þátt í umræðunum.

Í lok umræðunnar var þessi bókun lögð fram af hálfu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja stefnu meirihluta borgarstjórnar í húsnæðismálum ekki skýra og aðgengilega enda stefnumótunarvinna meirihlutans lítt eða ekki aðgengileg minnihlutanum. Langflestar framkvæmdir sem kynntar hafa verið sem framtak meirihlutans í borginni eru að sjálfsögðu á vegum einkaaðila en ekki borgarinnar. Ljóst er eftir umræður í borgarstjórn að kosningaloforð snerust um að eigna sér uppbyggingu einkaaðila á um allt að 3.000 leiguíbúðum á kjörtímabilinu.
Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á eðlilega samkeppni á leigumarkaði og telur að ekki eigi að handvelja samstarfsaðila eins og nú virðist raunin. Reykjavíkurborg ætti frekar að bjóða út lóðir gegn því að lóðarhafar gangi að ákveðnum skilyrðum sem fallin eru til þess að fjölga leiguíbúðum. Aðalmarkmið borgarinnar á að vera að skapa ramma sem auðveldar einkaaðilum að byggja og leigja út ódýrari íbúðir.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 19.9.2014 - 17:43 - Rita ummæli

Staða almannavarnamála í Reykjavík – fyrirspurn í borgarráði

Við Íslendingar búum víða við náttúruvá af ýmsum toga. Víða þarf að gera ráðstafanir vegna ofanflóða hvort sem það eru skriður eða snjóflóð. Þá má reikna með sjávarflóðum og svo eru það jarðskjálftarnir og eldgosin.

Lykilatriði gagnvart náttúruvá er undirbúningur, forvarnir, fræðsla, áætlanir og þjálfun sem allra flestra. Upplýsingar til almennings skipta sköpum um að viðbrögð við sérstakar aðstæður séu rétt af hendi sem flestra. Röng viðbrögð geta nefnilega breytt viðráðanlegu ástandi í óviðráðanlegt.

Jarðhræringar og eldgos sem nú eru norðan Vatnajökuls rifja upp þá staðreynd að við búum við náttúrvá víða um landið. Þá vakna spurningar hjá mörgum um viðbúnað og viðbrögð vegna náttúruvár á þéttbýlasta svæði landsins. Ég hef fengið fyrirspurnir frá íbúum um hvernig staðið verði að málum ef eitthvað kemur upp á. Til að fá sem nákvæmastar og bestar upplýsingar þótti mér eðlilegt að fá upplýsingar um stöðu almannavarnamála í Reykjavík, höfuðborgarsvæðinu og nágrenni. Við Júlíus Vífill borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðum þess vegna fram fyrirspurn í borgarráði 18. september til að fá upplýsingar um stöðu mála í dag. Sérstaklega óskuðum við eftir upplýsingum um hver staðan er varðandi greiningu á hættu af náttúruvá eins og eldgosum, jarðskjálftum og sjávarflóðum og hvaða áhrif slík vá getur haft á búsetusvæði sem og veitu- og samgöngumannvirki eins og vegi, götur og flugvöllinn í Reykjavík sem gegnir lykilhlutverki í almannavarnamálum.

Við óskuðum eftir að fenginn verði sérfræðingur frá Almannavörnum á fund borgarráðs til að upplýsa um áhættumat fyrir höfuðborgarsvæðið og samstarf sveitarfélaga og viðbragðsaðila í þeim málaflokki.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 12.9.2014 - 19:35 - Rita ummæli

Gerum við ríkari kröfur til kvenna í stjórnmálum?

Ég eins og aðrir hef fylgst með hinu svokallaða lekamáli og furðað mig á því hversu margþvælt það mál er orðið. Það nýjasta í málinu er aðkoma umboðsmanns Alþingis sem spurt hefur spurninga um samtöl innanríkisráðherra við Stefán Eiríksson þáverandi lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins.

Hanna Birna Kristjáns­dótt­ir, inn­an­rík­is­ráðherra, hefur nú svarað umboðsmanni Alþings.  Í svarinu bendir hún réttilega á að þessi tiltekni undirmaður hennar stýrði ekki rannsókn lekamálsins.  Stjórn þeirrar rannsóknar var í höndum ríkissaksóknara.  Eftir sem áður er látið í veðri vaka að þessi samtöl hafi verið óeðlileg.  Því hefur verið hafnað og bent á að lögreglustjóri fylgdist ekki einu sinni með rannsókninni frá degi til dags enda var henni stýrt af ríkissaksóknara.

Eins og Hanna Birna hefur margoft sagt þá ræddi hún við Stefán Eiríksson á þeim tíma sem rannsókn stóð yfir.  Það gerði hún á þeim forsendum að hann fór ekki með forræði yfir rannsókninni.  Ekkert sem hún segði hefði þar áhrif á.  Samtölin voru fyrst og fremst til að bera und­ir Stefán hvað væru eðli­leg­ir hætt­ir í slík­um rann­sókn­um og hvernig ör­yggi rann­sókn­ar­gagna væru al­mennt tryggð.  Samtölin tóku að sjálfsögðu mið af því að Stefán fór ekki með stjórn rannsóknarinnar.  Það er ljóst í mínum huga.

Þegar bréf Hönnu Birnu til umboðsmanns er lesið er áberandi að upplifun hennar af samtölum við Stefán Eiríksson þáverandi lögreglustjóra var afar ólík þeirri mynd sem umboðsmaður alþingis dró upp í bréfi sínu. Þótt ótrúlegt sé telur ráðherra sig einnig þurfa að minna umboðsmann á að Stefán Eiríksson hefur sagt að honum þóttu samtölin á engan hátt óviðeigandi eða óþægileg eða til þess fallin að hamla störfum hans.

Ég hef þekkt Hönnu Birnu Kristjánsdóttur í fjöldamörg ár og starfað með henni. Aldrei hefur borið skugga á okkar samstarf enda einstaklega gott að vinna með henni. Hanna Birna er heiðarlegur stjórnmálamaður og einstaklega hreinskiptin.  Það þekki ég.  Það þekkir sjálfstæðisfólk almennt og það þekkja þeir sem fylgst hafa með störfum hennar í gegnum tíðina.  Hvað sem sagt hefur verið um þetta lekamál og hversu svo sem reynt er að útmála hana sem óheiðarlega þá hefur þessi trú mín á henni ekki breyst.

Rétt eins og samstarfsfólk Hönnu Birnu í ríkisstjórn og þingflokki hef ég fulla trú á heiðarleika hennar. En ég er hugsi yfir því hversu mikið hefur verið hamast á henni sem ráðherra í þessu máli og velti því fyrir mér hvort staða hennar sem konu í stjórnmálum, sterkrar konu í stjórnmálum sé erfiðari en ef hún væri karlmaður. Ég kemst ekki hjá því að velta þessu fyrir mér þegar ég hugsa til fleiri sterkra kvenna í stjórnmálum sem hafa vikið af sviðinu eftir gríðarlega gagnrýni á þær. Oft með mjög persónulegum og óvægnum hætti. Getur það verið að við styðjum síður við konur í stjórnmálum og gerum ríkari kröfur til þeirra en karla? Það er því miður mín tilfinning þegar ég rifja upp málefni fleiri stjórnmálakvenna sem höfðu erindi í stjórnmálin en tóku ákvörðun um að yfirgefa þau eftir mikinn þrýsting.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Halldór Halldórsson
Talsmaður málefnalegrar umræðu.
RSS straumur: RSS straumur