Þriðjudagur 2.9.2014 - 22:29 - Rita ummæli

Gagnrýniverður meirihlutasamningur

Í dag sátum við okkar fyrsta fund í borgarstjórn eftir sumarfrí. Þetta er því minn annar borgarstjórnarfundur frá kosningum í vor. Nefndir og ráð hafa starfað í sumar og fundar t.d. borgarráð því sem næst vikulega yfir sumarið en að jafnaði vikulega allt árið. Við fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í borgarráði höfum flutt þar tillögur um endurskoðun aðalskipulags, að unnin verði stefnumótun í styrkjamálum borgarráðs, lagt fram gagnrýni á kostnað við stofnun nýs stjórnkerfis- og lýðræðisráðs, gagnrýni á 6 mánaða uppgjör borgarsjóðs og fyrirtækja ásamt fleiru sem við fylgjum svo eftir í borgarstjórn.

Bara borgarrekstur
Mestur tími á þessum borgarstjórnarfundi fór í að ræða um samstarfssáttmála þeirra fjögurra flokka sem mynda meirihluta í borgarstjórn. Af mörgu var að taka sem við borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins erum ekki fyllilega sátt við. Sumu erum við algjörlega andvíg og teljum sumt hreinlega ekki í takt við nútímann í rekstri borgarinnar. Nefna má sem dæmi að ákvæði er um það í sáttmálanum að meginreglan verði sú að borgin sjái um rekstur leik- og grunnskóla sem og velferðarþjónustu. Fyrirfram er verið að útiloka mögulegar leiðir hagkvæmni og betri þjónustu með samstarfi við einkaaðila á markaði.

Hvað er að marka þetta?
Í húsnæðismálum er talað um að borgin beiti sér fyrir því að 2.500-3.000 leiguíbúðir verði byggðar í Reykjavík á næstu þremur til fimm árum. Á sama tíma vantar a.m.k. 500 félagslegar leiguíbúðir enda stóð meirihlutinn sig ekki í þeim málum á síðasta kjörtímabili. Lágmarksviðmið um 100 íbúðir á ári var ekki virt og einungis bættust við 74 íbúðir allt kjörtímabilið en hefðu að lágmarki átt að vera 400. Sami en aukinn meirihluti, með tilkomu Pírata og VG til viðbótar við Samfylkingu og Bjarta framtíð, lofar núna allt að 3.000 leiguíbúðum. Það er eitthvað sem ekki gengur upp í því að lofa allt að 3.000 íbúðum en hafa ekki einu sinni getað fjölgað um 400 leiguíbúðir á síðustu fjórum árum.

Ekkert um rekstur og skattheimtu
Það vekur athygli að ekkert er talað um rekstur borgarinnar í sáttmála meirihlutans nema í ákvæði um að staða borgarsjóðs á síðari hluta kjörtímabilsins muni ráða því hvort frekari skref verði tekin til að bæta kjör barnafjölskyldna. Að öðru leyti er ekki fjallað um grunnþáttinn undir allt annað reksturinn sjálfan. Ekkert um mikilvægi hagræðingar og mikilvægi þess að draga úr skattheimtu í áföngum. Það er með ólíkindum að langsamlega stærsta sveitarfélag landsins skuli vera með útsvarið í hæstu leyfilegu prósentu. Liður í því að bæta almenna hagsæld borgarbúa er að leita leiða til að samræma betur skattheimtu á borgarbúa og þá þjónustu sem veitt er.

Auka þátttöku íbúa í ákvarðanatöku – fylgja efndir orðum?
Mikið er um stjórnkerfi og lýðræði í samstarfssáttmálanum. Það á að hlusta á allar raddir við að efla lýðræðið og skapa alls konar röddum vettvang. Auka á þátttöku íbúa í ákvarðanatöku og ýmislegt í þeim dúr. Þarna koma inn áherslur Pírata og þær eru um margt líkar áherslum Sjálfstæðisflokksins. En svo mun koma í ljós hvernig framkvæmdin verður hjá Pírötum í meirihluta. Fyrstu skrefin á kjörtímabilinu boða þó ekki neinar róttækar breytingar hvað þetta varðar.
Upplýsingar um framleiðslutölur Orkuveitunnar eru ekki birtar en fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í stjórn OR hafa flutt tillögur um það á þessu nýhafna kjörtímabili en án árangurs.
Ekki hefur verið samþykkt að taka aðalskipulagið upp að nýju í samræmi við 35. gr. skipulagslaga þrátt fyrir að margt þurfi að endurskoða, t.d. málefni flugvallar þar sem Íslandsmet var sett í fjölda undirskrifta gagnvart aðalskipulaginu. Meirihlutinn felldi tillögu okkar enn einu sinni á borgarstjórnarfundinum um að taka aðalskipulagið til endurskoðunar.
Nýtt stjórnkerfis- og lýðræðisráð verður undir formennsku Pírata. Þó það sé skoðun okkar borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins að hægt sé að vinda sér í þessi verk án þess að stofna um það sérstakt ráð verðum við að binda vonir við að margar góðar breytingar verði gerðar í því að efla þátttöku og áhrif borgarbúa á mikilvæg mál hjá borginni.

Meira um borgarmálefnin fljótlega. Kíkið á vef okkar Sjálfstæðisfólks í borginni – betriborg.is

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 27.5.2014 - 11:43 - Rita ummæli

Góð stefnumál Sjálfstæðisflokksins

Við frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík höfum á undanförnum vikum kynnt fyrir borgarbúum okkar stefnumál. Þar er einkunnarorðið valfrelsi, ábyrgð í rekstri og minni álögur á borgarbúa. Við leggjum áherslu á útboð verkefna og aukið samstarf við sjálfstætt starfandi aðila í þjónustu við borgarbúa. Þannig náum við fram betri þjónustu fyrir minna fé.

Í húsnæðismálum boðum við aðgerðir sem byggja á því að auka lóðaframboð og breyta gjaldskrám fyrir gatnagerðargjöld til að markaðurinn taki við sér og lögmálið um framboð og eftirspurn virki. Meirihluti vinstri manna hefur verið meira og minna við völd frá árinu 1994 og hefur ástundað lóðaskortsstefnu. Það þýðir hækkað verð á markaði umfram það sem eðlilegt getur talist. Lausnir okkar í Sjálfstæðisflokknum ganga út á að virkja heilbrigðan markað.

Í okkar stefnu snýr valfrelsið að þjónustu við barnafjölskyldur þar sem fé fylgir þörf þannig að bilið frá fæðingarorlofi að leikskóla er brúað. Þá nýtast greiðslur til foreldra til að lækka kostnað hjá dagforeldrum eða til að skiptast á að vera heima til að geta verið úti á vinnumarkaði.

Í málefnum aldraðra erum við líka að tala um að fé fylgi þörf þannig að aldraðir geti valið um form þjónustunnar og hvaðan hún kemur. Við munum beita okkur fyrir því að fjármagn fáist frá ríkinu til byggingar hjúkrunarheimilis og við ætlum að bæta heimaþjónustuna og tómstundastarfið.

Valfrelsið snýr líka að skipulags- og umferðarmálum. Við leggjum áherslu á að fólk hafi raunverulegt val um samgöngumáta. Sama hvort um er að ræða bílinn, strætó eða hjólreiðar. Í öllu þessu viljum við hafa val og fögnum fjölbreytni í þessum málum.

Hér er vefsíðan okkar. Þar er fjöldi myndbanda, stefnuskráin í heild sinni sem og brotin niður á málaflokka.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 18.5.2014 - 18:30 - 2 ummæli

Fyrir barnafjölskyldur

Þegar fæðingarorlofi lýkur lenda margir foreldrar í borginni í vandræðum vegna þess að barn þeirra kemst ekki inn á leikskóla nálægt því strax. Ef laust pláss er hjá dagforeldri er það mun dýrara en leikskólapláss vegna þess að borgin niðurgreiðir leikskólapláss miklu meira en hjá dagforeldrum.

Sjálfstæðisflokkurinn boðar þjónustutryggingu fyrir barnafjölskyldurnar. Hana geta foreldrar nýtt til að niðurgreiða kostnað hjá dagforeldri þannig að hann sé í samræmi við leikskólapláss. Einnig er hægt að nýta þjónustutryggingu til að vera heima þar til pláss losnar og/eða skipta við nærfjölskyldu um að gæta barns fyrir hvort annað og skiptast á um að fara út á vinnumarkaðinn. Þetta eykur valfrelsi, jafnar kostnað við mismunandi úrræði og virkar strax.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 9.5.2014 - 21:44 - Rita ummæli

Um rekstur

Það er hægt að tala sig hásan um góða rekstrarniðurstöðu borgarsjóðs á árinu 2013 og sleppa því að tala um hverju reksturinn skilar í peningum. Það er nefnilega minna árið 2013 en árið 2012. Þetta er sérstaklega nefnt í endurskoðunarskýrslu borgarinnar en er ekki talað um þegar ársreikningnum er hampað af meirihluta Samfylkingar og Besta flokksins.

Þegar ársreikningur er lesinn þarf að átta sig á því hverju reksturinn skilar. Hagnaður eða tap skv. rekstrarreikningi er ekki endanlegur dómur um það vegna þess að þar eru svo margar svokallaðar reiknaðar stærðir. Dæmi um það eru afskriftir, áætlaðar lífeyrisskuldbindingar o.fl. Þegar allir þeir liðir eru teknir frá sést veltufé frá rekstri. Á myndinni hér að neðan má sjá þetta í einföldu og aðgengilegu formi.

Það er nefnilega ekki allt sem sýnist í þessum efnum.

Veltufé_2002_2013

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 2.5.2014 - 21:43 - Rita ummæli

Á móti sjálfum sér

Það gerðist í borgarráði í dag að meirihluti Besta flokksins og Samfylkingar greiddi atkvæði gegn eigin tillögu sem þau höfðu sjálf samþykkt í um­hverf­is- og skipu­lags­ráði. Tillagan sem þau höfðu samþykkt með mótatkvæðum Sjálfstæðisflokksins var skipu­lags- og mats­lýs­ing­ fyr­ir hverfi borg­ar­inn­ar. Þar mátti sjá hugmyndir um þéttingu inn á grónum lóðum. Íbúum var brugðið og mótmæltu vitanlega svona gerræðislegum hugmyndum.

Hefði meirihlutinn greitt atkvæði gegn sjálfum sér ef það væru ekki kosningar eftir einn mánuð? Svarið er vitanlega nei og auðvelt að rökstyðja það með því að vísa til þess hvernig íbúalýðræðið hefur verið virt eða öllu heldur ekki virt á kjörtímabilinu. Ekkert gert með 70 þúsund undirskriftir vegna flugvallar eða hávær mótmæli vegna sameiningar skóla.

Sjálfstæðisflokkurinn greiddi atkvæði einn flokka gegn þessum hugmyndum um að gjörbreyta grónum hverfum. Þó því sé fagnað að meirihlutinn hafi lagst gegn sjálfum sér í þessu máli þá er engu að treysta í því.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 25.4.2014 - 14:59 - Rita ummæli

Hvað skiptir þig máli?

Umræðan tekur oft á sig skrýtna mynd í aðdraganda kosninga. Ég hef spurt mig þeirrar spurningar að undanförnu hvort stefnumálin komist ekki örugglega á framfæri. Tilefni þess var m.a. að Framsóknaflokkurinn ætlaði að leggja áherslu á úthverfin og flugvöllinn og myndi fá atkvæði út á það. Nú er Sjálfstæðisflokkurinn með stefnuskrá þar sem öll málefni eru lögð fram, ekki bara einhver tvö, en það er skýr stefna um hverfin og flugvöllinn. Hér fyrir neðan má sjá það orðrétt upp úr stefnuskránni.

Við opnuðum skemmtilega heimasíðu http://xdreykjavik.is/ sem útskýrir í texta og myndum okkar helstu stefnumál.

Við erum með skýra stefnu í öllum málaflokkum. Ég sá að ritstjóri Fréttablaðsins hafði kynnt sér stefnuna því hann skrifaði leiðara um að Sjálfstæðisflokkurinn væri að bjóða upp á raunverulega valkosti þar sem kostir einkamarkaðarins væru nýttir meira en aðrir flokkar í framboði vilja gera. Okkar aðferðir ganga út á að bæta þjónustuna, fjölga valkostum og einfalda

Fjölbreytt hverfi og fjölskylduvæn borg
Við viljum hafa fjölbreytt hverfi, þar sem sérkenni hvers hverfis fær að njóta sín. Stuðla þarf að því að þjónusta þrífist í hverfunum og að íbúar hafi aðgengi að grænum svæðum sem við viljum vernda. Íbúar geti notið náttúru og útivistar, göngu- og hjólaleiða og dregið verði úr umferðarhraða inni í hverfum. Þannig sköpum við örugga, hreina, græna og góða fjölskylduborg.

Reykjavíkurflugvöllur
Flugvöllurinn er í Vatnsmýri og verður þar um fyrirsjáanlega framtíð. Nefnd um staðarval er að störfum og mun skila af sér á þessu ári. Við stöndum föst á því að innanlandsflug fari ekki til Keflavíkur. Við teljum að virkja beri íbúalýðræðið miklu meira í stórum málum og munum berjast fyrir því að borgarbúar komi að endanlegri ákvarðanatöku um flugvöllinn í íbúakosningum.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 21.4.2014 - 19:14 - Rita ummæli

Málefni XD

Málefnaskrá okkar Sjálfstæðisfólks í Reykjavík er metnaðarfull enda viljum við leggja okkar af mörkum við að bæta aðstöðu borgarbúa. Hér á eftir fer ég í stuttu máli yfir nokkur helstu stefnumál okkar í borginni. Meira efni og kynningamyndbönd eru á vefsíðu framboðs okkar Sjálfstæðisfólks. Það er kominn tími til breytinga í borginni þar sem vinstri flokkarnir hafa verið í meirihluta síðan árið 1994 fyrir utan síðasta kjörtímabil en þar voru vinstri flokkarnir líka hluta kjörtímabilsins.

Þjónustutrygging
Við viljum að foreldrar hafi frelsi til að velja það sem börnunum er fyrir bestu hvort sem það er dagforeldri, ungbarnaleikskóli eða t.d. nærfjölskylda. Í þeim tilgangi ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að koma á þjónustutryggingu til að dekka tímabilið frá því að fæðingarorlofi lýkur þar til barn kemst á leikskóla. Með þessari aðferð er hægt að bæta stöðu fjölskyldna sem eru á biðlista strax. Minni bið, meiri þjónusta.

Fé fylgi þörf fyrir þjónustu
Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að bæta þjónustu við eldri borgara. Aldraðir eiga að geta valið um hvar þeir sækja þjónustu, þegar fé er látið fylgja þörf geta einstaklingar haft meira um það að sjálfir. Bæta þarf heimaþjónustu með því að bjóða hana út og sníða hana betur að þörfum hvers og eins. Sama gildir um heimsendan mat. Með því að samnýta þjónustu veitta af borginni og einkaaðilum eykst sveigjanleiki og þjónusta batnar.

Lækkum skatta
Reykjavík er langstærsta sveitarfélag landsins sem á að njóta hagkvæmni stærðarinnar í rekstri. Betri rekstur skapar svigrúm til lækkunar skatta sem skilar sér í auknu ráðstöfunarfé fjölskyldna. Við ætlum að lækka skatta á borgarbúa enda skilar það sér til allra og er mesta kjarabótin fyrir fjölskyldurnar.

Skólamál – nemandinn í fyrsta sæti
Nýja hugsun þarf í skólamálum til að styðja betur við nemendur og kennara grunnskólans. Ungt fólk í Reykjavík á að hafa tækifæri til að skara fram úr og öðlast þá hæfni og getu sem þarf í nútímasamfélagi. Við eigum ekki að sætta okkur við að allt of hátt hlutfall barna geti ekki lesið sér til gagns við lok grunnskóla. Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að stuðla að því að fjölga valkostum í menntun reykvískra barna. Við viljum efla samkeppni og fjölbreytni með sjálfstæðari skólum og fleiri sjálfstætt starfandi skólum.
• Fjárframlag fylgi nemenda til að tryggja að foreldrar geti valið skóla fyrir börnin sín.
• Við viljum stuðla að auknu sjálfstæði grunnskólana og draga úr miðstýringu.
• Við viljum endurmeta skóla án aðgreiningar og fjölga valkostum fyrir foreldra og börn þeirra í samræmi við óskir foreldra.
• Tryggja að skólarnir hafi samræmd og mælanleg markmið svo hægt sé að fylgjast með árangri þeirra.

Húsnæðismál
Úthlutun á lóðum í Reykjavík hefur á undanförnum árum ekki dugað til að svara eftirspurn. Þessu vill Sjálfstæðisflokkurinn breyta strax með því að bjóða hagstæðari lóða- og gatnagerðargjöld en gert er í dag. Sjálfstæðisflokkurinn vill gefa fólki val um hvort það kaupir eða leigir. Reykjavíkurborg á að tryggja að grundvöllur skapist fyrir öflugan leigumarkað og að einkaaðilar sjái hag sinn í því að byggja upp góðan og traustan leigumarkað í borginni.

Reykjavíkurflugvöllur
Flugvöllurinn er í Vatnsmýri og verður þar um fyrirsjáanlega framtíð. Nefnd um staðarval er að störfum og mun skila af sér á þessu ári. Sjálfstæðisflokkurinn stendur fastur á því að innanlandsflug fari ekki til Keflavíkur. Virkja ber íbúalýðræðið miklu meira í stórum málum og mun Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík berjast fyrir því að borgarbúar komi að endanlegri ákvarðanatöku um flugvöllinn í íbúakosningum. Fulltrúar okkar í umhverfis- og skipulagsráði borgarinnar greiddu atkvæði gegn nýju deiliskipulagi flugvallarins vegna þess að við teljum að ekki eigi að hreyfa við flugvellinum og starfsemi sem honum tengist fyrr en ný staðsetning sem sátt er um liggur fyrir. Höfuðborgin sinnir mestallri miðlægri þjónustu við landsbyggðina og þarf því að vera vel tengd henni með allar samgöngur. Innanlandsflugið er því gríðarlega mikilvægt og mun ekki fara til Keflavíkur höfum við Sjálfstæðisfólk eitthvað um það mál að segja.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 15.4.2014 - 15:02 - 1 ummæli

Húsnæðismál í ógöngum

Eitt stærsta kosningamálið hér í borginni í vor eru húsnæðismálin. Það vantar fleiri þúsund íbúðir inn á markaðinn. Fólk býr lengur heima eða í ósamþykktu húsnæði í iðnaðarhúsnæði. Meirihluta Samfylkingar og Besta flokksins hefur haft heilt kjörtímabil til að bregðast við en ennþá er verið að setja upp nefndir og starfshópa til að koma með hugmyndir. En það er ljóst hver grunnhugmyndin er. Það er að borgin gerist stærri leigusali en hún er í dag. Það er vond stefna því sagan segir okkur frá misheppnuðum tilraunum sveitarfélaga við að reka húsnæði. Með því er borgin komin inn á samkeppnismarkað þar sem hún verður ávallt undir í samkeppninni við sveigjanlega aðila á markaði. Til að standast samkeppnina þarf því að niðurgreiða leigu og handvelja leigjendur. Það getur svo sem verið draumur einhverra stjórnmálamanna en það nýtist ekki hinum almenna leigjanda.

Leið okkar í Sjálfstæðisflokknum gengur út á að borgin geri það betur sem hún á að gera. Það er að tryggja nægt framboð af lóðum en það hefur ekki verið gert. Með því fjölgar íbúðum á markaði sem leiðir af sér meiri samkeppni og lægra verð til neytenda.

Okkar leið er líka sú að bjóða út lóðir fyrir leiguíbúðir til aðila sem vilja hasla sér völl á leigumarkaði. Lægstbjóðendur í leiguverð fá þá samning við Reykjavíkurborg um að greiða niður lóðaverð á 25 árum gegn því að leiguverð verði sanngjarnt á tímabilinu. Með því tryggjum við framboð á langtíma leiguhúsnæði í Reykjavík án þess að nýta skattfé til að niðurgreiða leigu fyrir suma.

Með þessari aðferð koma margir að byggingu húsnæðis bæði til kaups og leigu. Stúdentar, húsnæðisfélög, einkaaðilar og aðrir sem hafa beina tengingu við markaðinn og búa yfir þeim sveigjanleika og hraða sem þarf einmitt núna til að bæta ástandið á húsnæðismarkaðnum.

Það er heillavænlegra að nota aðferðir okkar í Sjálfstæðisflokknum en það sem núverandi meirihluti segist ætla að gera núna en hefur samt ekki nýtt heilt kjörtímabil til að gera.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 26.2.2014 - 23:14 - Rita ummæli

Húsnæði er of dýrt

Margt ungt fólk er orðið þreytt á að leigja með mörgum öðrum og þráir að komast í eigið húsnæði hvort sem það er í leigu eða til eignar. Fasteignaverð og þar með leiguverð hefur hækkað mikið í Reykjavík undanfarin misseri. Orsökin er skortur á húsnæði sem orsakast af lóðaskorti í borginni.

Það eru til lausnir
Við sem bjóðum okkur fram fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Reykjavík erum með metnaðarfullar hugmyndir til að takast á við þetta vandamál. Við vitum að markaðurinn er snöggur að koma með lausnir ef borgin passar upp á að skapa rétta umhverfið með því að vera með tilbúnar lóðir. Á morgun (27. febrúar) verða t.d. tvær kynningar einkaaðila um hvernig reisa megi ódýrar smáíbúðir. Á sama tíma hefur meirihluti Samfylkingar og Besta flokksins tekið allt kjörtímabilið í að skoða hinar og þessar lausnir með hinum og þessum án þess að nokkur afurð hafi litið dagsins ljós. Og þau eru frekar upptekin af því að borgin sjálf þurfi að byggja og reka leiguhúsnæði. Borgin er ekkert sérlega góð í þeim bransa og á frekar að reyna að standa sig í lóðamálum og lóðaverði. Það má benda á að þrátt fyrir mikla trú meirihlutans á borgarrekstur á leiguhúsnæði hefur samt ekki verið passað upp á að standa við markmið um fjölgun um 100 íbúðir á ári hjá Félagsbústöðum á þessu kjörtímabili.

Ódýrari húsnæðislausnir, einstaklingurinn í öndvegi
Næstu misserin verður töluvert um skóflustungur og tilkynningar um þessa eða hina framkvæmdina. Slíkir atburðir fylgja oftast kosningum jafn örugglega og aðventan jólum. Flestar íbúðir sem eru í byggingu eða eru að fara í byggingu og meirihlutinn í borginni talar mikið um þessa dagana eru frekar dýrar. Það vantar ennþá ódýrari lausnirnar. Þær ætlum við að koma með hjá Sjálfstæðisflokknum. Við ætlum að lækka lóðaverð og ná niður byggingarkostnaði og beita okkur fyrir því að hagkvæmt verði að koma með lausnir sem ungt fólk í húsnæðisleit þarf á að halda.

Tími til að breyta
Það er kannski allt í lagi að leigja með öðrum í smá tíma en til lengdar verður það þreytandi. Við setjum að venju einstaklinginn í öndvegi og ætlum að breyta þessu ástandi.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 10.11.2013 - 20:22 - 1 ummæli

Einkarekstur á vel heima innan opinberrar þjónustu

Stundum er ágætt að einfalda hlutina og velta fyrir sér rekstri sveitarfélags eins og heimilis. Þó heimilisfólk langi til að smíða sér sumarbústað þarf það ekki að kaupa sér trésmíðaverkstæði. Það þarf ekki heldur að kaupa sér smurstöð til að láta smyrja bílinn sinn eða matvöruverslun til að hafa aðgang að matvælum. Það kaupir þessa þjónustu af öðrum. Sama getur gilt oft um þá þjónustu sem sveitarfélag þarfnast. Hana má kaupa af öðrum.

Í rekstri borgarinnar þarf að velta við hverjum steini til að leita hagræðingar. Stundum notum við kerfi sem einu sinni var gott og við höldum að sé það ennþá. Þess vegna þarf að rýna í það sem við gerum með gagnrýnum hætti reglulega og spyrja spurninga um hvort ekki séu til aðrar og hagkvæmari leiðir.

Sveitarfélög á Íslandi nýta sér einkarekstur við sorphirðu, snjómokstur, slátt og aðra umhirðu í mun ríkari mæli en sjálf höfuðborgin. Þetta gera þau vegna þess að það er hagstætt að þeirra mati. Það á ekki að flytja verkefni yfir í einkarekstur af því bara heldur þegar það er hægt að sýna fram á góða, jafnvel betri þjónustu fyrir lægra verð. Borgin er að reka ýmislegt sem mér finnst að skoða þurfi hvort ekki mega hætta með eða breyta og færa yfir í einkarekstur. Þá getur borgin keypt þá þjónustu sem þarf og leitað hagræðingar. Ef ekki er sýnt fram á hagræðingu er einkareksturinn ekki samkeppnisfær en reynslan sýnir að hann er það mjög oft án þess að þjónustan versni.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Halldór Halldórsson
Talsmaður málefnalegrar umræðu.
RSS straumur: RSS straumur