Föstudagur 8.11.2013 - 11:30 - Rita ummæli

Húsnæðismálin

Mikil þörf er fyrir byggingu húsnæðis í borginni. Ekki síst fyrir unga fólkið. Skortur þrýstir bæði kaupverði og leiguverði upp og getur skapað óeðlilega verðmyndun á markaði. Grunnurinn að viðráðanlegu kaup- og leiguverði er að byggingarkostnaður sé ekki alltof hár.

Álit fagfólks á nýrri byggingarreglugerð er að hún hækki byggingarkostnað. Endurskoðun hennar er liður í því að vinda ofan af kerfisvillum sem geta unnið gegn markmiði um eðlilegan byggingarkostnað.

Mjög mikilvægt er að ekki sé gert upp á milli þeirra aðila sem áhuga hafa á að byggja íbúðir til endursölu eða útleigu. Þar eiga allir að koma jafnréttháir að borðinu. Hægt er að gera kröfur um leigutíma og/eða endursölu en ekki á að útiloka fyrirfram einkaaðila eða húsnæðissamvinnufélög enda er skynsamlegt að þessir aðilar byggi og reki leiguhúsnæði. Þáttur borgarinnar í því er að takast á við lóðaverð og leita skynsamlegra leiða til að hafa það hóflegt og viðráðanlegt.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 1.11.2013 - 16:46 - Rita ummæli

Hagkvæmni stærðarinnar nýtist ekki

Þessi grein birtist í Morgunblaðinu í dag 1. nóvember.

Sjálfstæðisfólk í Reykjavík hefur úr 20 manna fjölbreyttum og hæfileikaríkum hópi að velja í prófkjöri þann 16. nóvember nk. Frambjóðendur eru með ólíkar áherslur og þar af leiðandi er munur á því hvernig þeir vilja nálgast viðfangsefnin. Stefnumál Sjálfstæðisflokksins sameina hópinn.

Ég býð mig fram til fyrsta sætis í prófkjörinu en ég hef langa reynslu af sveitarstjórnarmálum, jafnt á vettvangi Ísafjarðarbæjar sem og á landsvísu hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Ég kom til starfa sem bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar vorið 1998 og var þá sjötti bæjarstjórinn á sjö árum. Því starfi sinnti ég í þrjú kjörtímabil eða í 12 ár uns ég tók þá ákvörðun að bjóða mig ekki fram að nýju. Ég hef aldrei litið á sveitarstjórnarmálin sem stökkpall inn í landsmálin heldur þvert á móti þykir mér þau svo áhugaverður málaflokkur að við þau vil ég starfa.
Þótt mörgum finnist fjármál sveitarfélaga kannski ekki mjög áhugaverð þá er ábyrgur rekstur engu að síður grunnurinn að möguleikanum til að veita góða þjónustu og geta um leið lækkað útgjöld íbúa. Í dag er staðan hins vegar þannig í Reykjavík að borgin virðist vera töluvert langt frá því að nýta sér þá stærðarhagkvæmni í rekstri sem ég tel að svo stórt sveitarfélag eigi að geta nýtt sér. Borgin er yfir landsmeðaltali í launakostnaði og undir landsmeðaltali í afgangi af rekstri (veltufé). Sé hægt að breyta þessu fylgja því ný tækifæri fyrir borgarbúa. En til að breyta þarf að fylgja pólitískri stefnu eftir af ákveðni og hafa hugfast að hlutverk borgarfulltrúa að maður tali nú ekki um borgarstjóra er að sjá til að það sé gert.

Halldór Halldórsson

 

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 26.9.2013 - 20:28 - Rita ummæli

Náttúruverndarlög úr gildi?

Umræðan um náttúruverndarlög nr. 60/2013 sem taka eiga gildi 1. apríl 2014 hefur verið mikil síðan umhverfisráðherra boðaði upptöku þeirra á þingi. Einhverjir vildu skilja ráðherra þannig að hann væri að boða einvaldsákvörðun um upptöku laga en flestir vita nú væntanlega að slíkt er ekki hægt. Alþingi eitt getur breytt lögum eða sett ný en ekki ráðherrar. Í umræðunni hefur verið fullyrt að lítil sem engin rök séu fyrir því að breyta lögunum. Mig langar í þessari grein að nefna nokkur rök sem snúa að sveitarfélögunum fyrir því að breyta lögunum. Ef þörf reynist er hægt að týna til enn fleiri rök en rúmast í grein sem þessari.

Það er mat okkar hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga að taka megi ákveðna þætti laganna til endurskoðunar og vonumst við til að það verði gert í góðu samstarfi við sveitarstjórnarstigið þar sem það á við. Að okkar mati munu ákveðin ákvæði laganna skerða skipulagsvald sveitarfélaganna. Við vorum reyndar mjög ánægð með samstarfið við umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis á lokastigum frumvarpsins sem varð að þessum lögum. Okkur þótti þáverandi varaformaður, Mörður Árnason, leggja sig fram um að finna lausnir en þá var ferlið á lokstigum. Betra hefði verið að sambandið hefði átt aðkomu að gerð frumvarpsins strax í upphafi enda var óskað eftir því af okkar hálfu enda varða lögin sveitarfélögin á margvíslegan hátt, ekki síst samspil þeirra við hlutverk sveitarfélaga á sviði skipulagsmála. Sveitarfélögin áttu ekki aðkomu að málinu fyrr en í umsagnarferli í september 2012, þ.e. rúmu hálfu ári áður en lögin tóku gildi.

Það er þó mat okkar að heilt á litið hafi frumvarpið lagast mikið í meðförum þingsins, en álit sambandsins var þó að nauðsynlegt væri að nefndin fjallaði aftur um málið á milli 2. og 3. umræðu. Viðbótarumsögn sambandsins var þess vegna send Alþingi 8. mars 2013. Þar eru enn gerðar verulegar athugasemdir við nokkur atriði. Þar vega þyngst athugasemdir við 57. gr., um sérstök verndarsvæði, sem að áliti sambandsins geta falið í sér alvarlega skerðingu á skipulagsvaldi sveitarfélaga. Sambandið hefur raunar ítrekað lagst gegn breytingum á þeirri grein (37. gr. eldri laga) en sjónarmið þess hafa ekki mætt skilningi.

Í viðbótarumsögninni segir um þessa grein:
„3. mgr. 57. gr. Skýringar í nefndaráliti á orðalaginu „brýn nauðsyn“ eru til ákveðinna bóta en samt alls ekki nægjanlegar. Sambandið ítrekar því óánægju með orðalagið „Óheimilt er að raska….nema brýna nauðsyn beri til.“ Eðlilegt væri að lagatextinn endurspegli þá hugsun sem fram kemur í nefndaráliti, þannig að ljóst sé að heimilt er að leyfa framkvæmdir sem eru eðlilegur þáttur í nýtingu landeigenda, svo sem heimarafstöðvar og viðlíka framkvæmdir.
Sambandið leggur sérstaka áherslu á að orðalag greinarinnar verði ekki til þess að nánast allar ákvarðanir sveitarfélaga um leyfisveitingar verði kærðar á þeim grundvelli að framkvæmd þyki ekki nauðsynleg. Í þessu sambandi vill sambandið minna á að meginreglur II. kafla frumvarpsins fela að mörgu leyti í sér sömu reglu. Einnig eru breytingar fyrirhugaðar á lögum um mat á umhverfisáhrifum sem ættu að leiða til þess að áhrif fyrirhugaðra framkvæmda á svæði sem njóta sérstakrar verndar liggi ljósar fyrir áður en kemur að leyfisveitingarferlinu. Afstaða sambandsins er því sú að sú breyting sem felst í 3. mgr. 57. gr. sé með öllu óþörf.
6. mgr. 57. gr. Orðalagsbreyting nefndarinnar er alls ekki til bóta. Er ástæða til að benda á að umsagnir eru alls ekki alltaf svo skýrar að hægt sé að tala um „niðurstöðu“ umsagnaraðila. Verður raunar að telja það orðalag einstaklega óheppilegt m.t.t. hlutverks umsagnaraðila almennt, þar sem álit þeirra er almennt aðeins leiðbeinandi fyrir það stjórnvald sem ákvörðun tekur í hverju máli. Betra orðalag væri: „….fari hún gegn áliti eða tillögum umsagnaraðila.“
Sömuleiðis taldi sambandið mikilvægt að útfæra nánar 37. gr. laganna, sem heimilar ráðherra að banna tímabundið framkvæmdir eða nýtingu svæða. Í viðbótarumsögn segir um þessa grein:
„Að áliti sambandsins eru breytingar sem gerðar hafa verið á greininni til bóta en ákvæðið þyrfti samt að vinna betur. Í greininni er t.d. ekkert tekið fram um hvaða vinna þurfi að fara fram á þeim þrem mánuðum sem bráðabirgðabann er í gildi. Ekki er heldur nefnt hvaða samráðsferli þurfi að fara í gang áður en ákvörðun er tekin um ítrekun banns. Sambandið telur brýnt að tryggja aðkomu sveitarfélaga sem málið varðar að slíkum ákvörðunum.“
Í viðbótarumsögninni eru gerðar ábendingar við fleiri greinar og hefur sambandið m.a. kallað eftir viðræðum um hlutverk náttúruverndarnefnda, sem sveitarstjórnir skipa.
Einnig er það álit sambandsins að veigamikil ákvæði eins og 42. gr., sem fjallar um rétt til skaðabóta, hefðu þurft að fá frekari umræðu áður en frumvarpið varð að lögum. Sama á við um ýmsar skilgreiningar og fleiri útfærsluatriði í lögunum.

Hér eru nefnd örfá dæmi til að benda á að réttlætanlegt er að mati Sambands íslenskra sveitarfélaga að taka lögin til endurskoðunar. Til þess gefst tími enda eiga þau ekki að taka gildi fyrr en á fjórða mánuði næsta árs. Við endurskoðunina leggjum við áherslu á mikilvægi þess að ráðuneyti og Alþingi eigi gott samstarf við sveitarstjórnarstigið í landinu.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 24.9.2013 - 17:42 - 3 ummæli

Húsnæðismál, samstarf ríkis og sveitarfélaga

Það eru komin tvö ár síðan enn einni skýrslunni um húsnæðismál var skilað af þverpólitískum hópi. Í þeirri vinnu náðist samstaða um helstu mál. Fyrstu skref voru tekin við undirbúning upptöku húsnæðisbóta með sameiningu vaxtabóta og almennra húsaleigubóta í samvinnu við sveitarfélögin. Einn milljarður var settur í málaflokkinn í þeim tilgangi að jafna í áföngum húsnæðisstuðning við leigjendur og kaupendur íbúðarhúsnæðis. Þessi skýrsla ásamt ótal öðrum skýrslum, nefndarálitum og sameiginlegum niðurstöðum þeirra sem láta sig húsnæðismál varða á að gagnast sem grunnur undir aðgerðir í húsnæðismálum. Fulltrúar sveitarfélaga hafa verið virkir aðilar í þessari stefnumótun og átt fulltrúa í öllum nefndum sem unnið hafa á þessu sviði.

Ráðherra húsnæðismála telur þetta ekki nægja til að hefjast nú þegar handa til að leysa úr vanda fjölda fólks á húsnæðismarkaði og hefur sett af stað nýja stefnumótunarvinnu sem mun taka einhvern tíma. Lausnir þurfa að byggja á samvinnu og þær þurfa að grundvallast á því að hægt sé að reisa húsnæði og reka það sem leiguhúsnæði á viðráðanlegu verði fyrir leigutaka. Í því samhengi þarf að hafa þátt einkaaðila í huga vegna þess að það þarf ekki endilega ríkis- og sveitarfélagavæða allar lausnir. Samfélagið datt í þann gírinn eftir hrun að helst yrði allt að vera á vegum opinberra aðila. Við þurfum ekki annað en að líta í kringum okkur til þeirra landa sem við viljum helst miða okkur við til að sjá að þar er þáttur einkaaðila mikilvægur. Okkur hættir til að festast í flækjustigi hins opinbera og gefast upp fyrir verkefnum af því að þau þurfa alltaf meira fjármagn. Stundum er það ekki svo heldur er kerfið og villur þess að þvælast fyrir okkur. Þegar ætlunin er að bæta það slæðist oft eitthvað með sem vinnur gegn umbótum. Byggingarreglugerð í tíð síðustu ríkisstjórnar bætti t.d. verulega við byggingarkostnað þannig að ekki hjálpaði það til við að bregðast við húsnæðisvandanum.

Félags- og húsnæðismálaráðherra hefur lýst áhuga sínum og vilja til að vinna hratt og örugglega í húsnæðismálum, það er gott. Hins vegar hefur valdið mér og fleirum vonbrigðum að í þeirri vinnu virðist ekki áhugi fyrir því að kalla eftir beinni þátttöku sveitarfélaga sem þó eru ábyrg fyrir stórum hluta húsnæðismála. Í verkefnisstjórn ráðherra sem móta á húsnæðisstefnu eru einungis fulltrúar frá stjórnarflokkunum, velferðarnefnd og þremur ráðuneytum. Sveitarfélögin eru staðbundið stjórnvald í húsnæðismálum. Þau taka stjórnvaldsákvarðanir um húsaleigubætur og veita stuðning til húsnæðismála skv. lögum um félagsþjónustu. Það er því augljóst að sveitarfélögin eru stór aðili að húsnæðismálum og þurfa að koma að stefnumótun í málaflokknum.

Ráðherra hefur ákveðið að hleypa sveitarfélögum ekki að stefnumótun í málaflokknum með öðrum hætti en í gegnum einhvers konar samvinnuhóp með u.þ.b. 30 hagsmunaaðilum. Sveitarfélögin eru framkvæmdaaðili og stjórnvald en ekki venjulegur hagsmunaðili. Vegna þessarar afstöðu ráðherra bókaði stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga eftirfarandi á stjórnarfundi sínum 13. september sl.: ,,Það er algjör nýlunda af hálfu ráðherra húsnæðismála að halda sveitarfélögunum frá starfi nefnda sem fjalla um framtíðarstefnu í húsnæðismálum. Stjórn sambandsins leggur því þunga áherslu á að ráðherra endurskoði afstöðu sína í þessu máli og taki upp þau samskipti við fulltrúa sveitarfélaga á sviði húsnæðismála sem verða að teljast eðlileg m.t.t. til verkefna og skyldna ríkis og sveitarfélaga á þessu sviði.“

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 19.9.2013 - 18:26 - 1 ummæli

Reykjavíkurflugvöllur og skipulagsmál

Allt landið er skipulagsskylt og samkvæmt skipulagslögum er sveitarfélögunum falið að annast gerð skipulagsáætlana. Sömu lög og tengdar reglugerðir eiga að tryggja vandað og frekar langt kynningar- og umsagnarferli við breytingu skipulags eða innleiðingu á nýju. Allir eiga umsagnarrétt um skipulag án tillits til þess hvar lögheimili þeirra er. Þess vegna er ekki óalgengt að sjá umsagnir fólks búsett í Reykjavík um skipulagsmál á Vestfjörðum eða Austfjörðum svo dæmi sé tekið. Nú eða umsagnir fólks búsett um allt land vegna skipulagsmála í höfuðborginni okkar. Fólk hefur sínar skoðanir á skipulagsmálum og oft á tíðum ríka hagsmuni.

Skipulagsvald sveitarfélaga byggir, eins og annað vald þeirra, á lögum frá Alþingi Íslendinga. Þar taka 63 þjóðkjörnir þingmenn ákvarðanir en það nægir reyndar að 32 séu sömu skoðunar til að ná lagabreytingu í gegn. Í sveitarstjórnum landsins eru um 500 einstaklingar sem kosnir hafa verið af almenningi til að stýra sveitarfélögunum og gæta hagsmuna íbúanna.

Alþingi hefur því miður nýtt sér vald sitt til að breyta lögum og takmarka skipulagsvald sveitarfélaganna. Þess sér stað í náttúruverndarlögum, að nokkru leyti einnig í vegalögum og það er að gerast með rammaáætlun um orkunýtingu. Nýverið kom ákvæði um landsskipulagsstefnu inn í skipulagslögin og er nokkuð víst að með tíð og tíma mun þrýstingur aukast á að knýja ákvarðanir, sem snúa að öllum eða flestum sveitarfélögum í einu, í gegnum þá stefnumörkun. Líkleg dæmi um slíkt eru línulagnir og vegagerð. Eignaupptaka á grundvelli kröfugerðar ríkisins við rekstur mála fyrir óbyggðanefnd, sbr. lög um þjóðlendur hefur líka áhrif á sveitarfélögin.

Sumir telja að þjóðkjörnir alþingismenn séu betur fallnir til ákvarðanatöku en kjörnir sveitarstjórnarmenn. Þeir hinir sömu tala jafnvel um að Alþingi eigi að seilast enn frekar inn á skipulagsvald sveitarfélaganna. Það nýjasta í því eru hugmyndir um að taka skipulagsvaldið af borginni til að tryggja Reykjavíkurflugvöll þar. Það hentar í dag þeim sem vilja að höfuðborgin sé áfram miðstöð almenningssamgangna í landinu, m.a. undirrituðum. En hvað vilja hinir sömu þegar meirihluti verður á Alþingi fyrir því að beita skipulagsvaldinu á þann veg að Reykjavíkurflugvöllur verði lagður niður? Það getur auðvitað gerst. Þá yrði umræðan sennilega svipuð og varðandi neitunarvald það sem forseti Íslands tók sér fyrst með synjun fjölmiðlalaga. Þá var ákveðinn hópur mjög ánægður með það, sérstaklega vinstri menn. Þegar forsetinn beitti svo neitunarvaldi á mál þegar vinstri stjórn var komin til valda breyttist umræðan eins og fólk þekkir og óþarfi er að rifja frekar upp hér.

Það er full ástæða til þess að mótmæla hugmyndum um enn frekari inngrip í skipulagsvald sveitarfélaganna. Hvað kemur næst í því samhengi? Taka skipulagsvald af sveitarfélögum á öllum reitum þar sem ríkiseignir standa? Taka skipulagsvald af sveitarfélögum sem vilja ekki hafa virkjun í sínu sveitarfélagi? Eða taka skipulagsvaldið af þeim sveitarfélögum sem vilja hafa virkjun í sínu sveitarfélagi, svona allt eftir því hvernig hinir pólitísku vindar á Alþingi blása. Nei, best er að halda áfram að treysta sveitarstjórnarfólki fyrir þessum málum sem ágætlega hefur verið staðið að hjá sveitarfélögunum þó misjafnar skoðanir séu á einstaka þáttum. Kosningar eru til að útkljá um slík mál hverju sinni. Þá leggja menn mál sín í lýðræðislegan dóm kjósenda og una þeim dómi.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 16.9.2013 - 14:35 - 2 ummæli

Hærra hlutfall tekna af ferðaþjónustu þarf að renna til sveitarfélaga

Neðanritað er leiðari sem ég skrifaði í Sveitarstjórnarmál sem komu út á dögunum. Eftir að ég skrifaði leiðarann kynnti Boston consulting group niðurstöður sínar á ráðstefnu í Hörpu. Þar er margt áhugavert að finna. Eitt af því er einmitt áhersla á mikilvægi þess að nærsamfélagið, sveitarfélögin, fái hluta tekna af ferðaþjónustu vegna þess stóra hlutverks sem sveitarfélögin spila í þessu samhengi.

Leiðarinn:

Ferðaþjónustan skiptir miklu máli fyrir hagkerfið. Tekjur af henni hafa aukist og störfum fjölgað og umræðan eykst um brýna þörf fyrir bætta aðstöðu á mörgum fjölsóttum stöðum. Bent var á það í nýlegri skýrslu Ferðamálastofu að tekjur af ferðamönnum stefni í að verða 27 milljarðar á árinu 2013 og að auki komi sértekjur á borð við tolla og vörugjöld. Ferðaþjónustan er með öðrum orðum ein mikilvægasta atvinnugreinin í landinu.

Hluti þessara tekna rennur til sveitarfélaga í formi útsvars frá starfsmönnum ferðaþjónustufyrirtækjanna, fasteignagjalda af mannvirkjum í ferðaþjónustu og í einhverjum mæli í gegnum farþegagjöld í höfnum. Meirihluti þessara tekna rennur til ríkisins í gegnum tekjuskatt starfsfólks, fyrirtækjanna sjálfra og svo í gegnum veltuskatta eins og virðisaukaskatt, eldsneytisgjöld og ýmsa fleiri skatta og gjöld sem ríkið innheimtir. Þessu til viðbótar er nú í umræðunni að taka upp gjaldtöku á fjölsóttum ferðamannastöðum.

Öll sveitarfélög koma með einhverjum hætti að ferðaþjónustunni og flest hver með afgerandi hætti. Þess sér stað í ákvörðunum í skipulagsmálum, rekstri upplýsingamiðstöðva, ráðningu ferðamálafulltrúa, rekstri tjaldsvæða, hreinlætismálum, markaðssetningu sveitarfélagsins og svæðisins, safnamálum, bæjarhátíðum og í sumum tilfellum aðstöðusköpun þar sem mikill átroðningur kallar á viðhald og rekstrarútgjöld. Margt af þessu starfi sveitarfélaganna er ekki mjög sýnilegt og þarf oft að minna á það til að fólk átti sig hreinlega á því að hversu mörgu þau koma. Aðkoma þeirra skiptir því miklu máli fyrir vöxt og viðgang ferðaþjónustunnar og var hreinlega nauðsynleg á frumbýlingsárum hennar. Kostnaður vegna þessa skilar sér víða til baka með auknum tekjum í ferðaþjónustunni og sveitarfélögin njóta þess á margan hátt að hafa tekið þátt í uppbyggingunni.

En það þarf að taka aukið tillit til sveitarfélaganna í þessum málum og gera sér grein fyrir því að það er ekki sjálfgefið að veltutekjur og gjöld vegna fjölsóttra ferðamannastaða renni óskipt í ríkissjóð. Sveitarfélögin þurfa sanngjarnan hlut í þessum tekjum til að geta staðið undir kostnaði við áframhaldandi uppbyggingu og aðstöðusköpun sem þarf að haldast í hendur við aukinn ferðamannastraum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 3.9.2013 - 14:55 - Rita ummæli

Kannanir um launamun kynjanna

Fyrir þá sem lesa bara fyrirsagnir eða hluta greina: ,,Greinarhöfundur er alfarið á móti því að kynjum sé gert mishátt undir höfði í launum. Slíkt á ekki að líðast. Þessi grein fjallar um vandann sem fylgir launakönnunum og mikilvægi þess að unnar verði betri kannanir sem byggi á gögnum hjá hverju og einu sveitarfélagi.“

Í dag er fjallað um nýja launakönnun BSRB sem dregur enn og aftur fram launamun kynjanna. Þessi könnun sýnir fram á að hjá sveitarfélögum sé meiri launamunur en hjá ríkinu. Síðasta könnun BSRB sem er varla ársgömul sýndi fram á að launamunurinn væri meiri hjá ríkinu en sveitarfélögum. Hvað hefur breyst? Varla hafa sveitarfélögin sem eru 74 talsins náð því á tæpu ári að breyta þessum hlutföllum svona mikið, eða hvað? Ný kjarakönnun BHM sem kynnt var 26. ágúst sl. segir að minni launamunur kynjanna sé hjá sveitarfélögum en hjá ríki. Þarna ber glænýjum könnunum ekki saman.

Vandamálið við aðferðafræðina er að þetta er könnun en ekki skoðun á gögnum. Ekki er verið að segja með því að niðurstaðan sé með öllu ómarktæk heldur er hér bent á að það eru frávik í könnunum. T.d. hefur oft verið bent á að konur eru nákvæmari í slíkum könnunum en karlar sem eigi það til að slá á sínar launagreiðslur út frá minni frekar en konur.

Undirritaður hefur lagt áherslu á að sveitarfélög þurfi að vinna launaúttekt frá grunni þar sem farið sé í öll gögn og allar greiðslur til að bera saman laun kynjanna. Reykjanesbær hefur gert þetta og niðurstaðan var sú að ekki fannst marktækur launamunur kynjanna enda á slíkt ekki að líðast nokkurs staðar að fólk fái ekki sömu laun að uppfylltum sambærilegum skilyrðum. Það er fáránlegt árið 2013 ef launamunur er til staðar vegna þess að fólk er ekki af sama kyni.

Sveitarfélögin nota starfsmat við ákvörðun launa. Það kerfi er algjörlega blint á kyn fólks og ætti umfram önnur kerfi að stuðla að auknum launajöfnuði. Þó ekki væri nema vegna þess telur undirritaður meiri líkur til þess að launamunur kynjanna sé minni hjá sveitarfélögum en ríki, rétt eins og þarsíðasta launakönnun BSRB leiddi í ljós. Og sem glæný könnun BHM sýndi fram á fyrir nokkrum dögum.

Ég hvet sveitarfélög til þess að skoða þessi mál ofan í kjölinn hjá sér. Fara í gegnum öll gögn, allar launagreiðslur og ef launamunur kynjanna er einhvers staðar að leiðrétta slíkan ósóma strax.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 7.3.2013 - 18:19 - 3 ummæli

Skiptir stærðin máli?

Það er a.m.k. sagt að fyrirsagnir skipti máli. Ég er gestur Skota á árlegri ráðstefnu Cosla sem eru sveitarfélagasamtök skoskra. Hér hefur margt vakið athygli mína, ekki síst ákveðnar staðreyndir um stærðir.

Mitt hlutverk er að tala um þá staðreynd að í núgildandi stjórnarskrá fjallar ein grein um hlutverk íslenskra sveitarfélaga. Þetta þykir Skotum vera til fyrirmyndar og vildu fræðast betur um það. Sveitarstjórnarstigið í Bretlandi er að þeirra mati mun veikara en í flestum löndum Evrópu, hvað þá þegar miðað er við Norðurlöndin. Vangaveltur þeirra snúa bæði að kerfinu eins og það er innan Bretlands en ekki síður vegna komandi þjóðaratkvæðagreiðslu á næsta ári um mögulegt sjálfstæði Skotlands frá Bretlandi.

Þó Skotland sé ekki fjölmennt miðað við flestar Evrópuþjóðir búa þar þó rúmlega fimm milljónir manna. Það sem vakti athygli mína að þar er meðalstærð sveitarfélaga með þeim allra mestu í Evrópu. Meðalstærð sveitarfélaga í Skotlandi, sem eru samtals 32, er 162.000 íbúar og næst kemur Wales með 132.000 íbúa. Danmörk er með 53.000 íbúa að meðaltali.

Þrátt fyrir þetta háa meðaltal eru vangaveltur um að fækka úr 32 sveitarfélögum niður í 15 í Skotlandi. A.m.k. er umræða um það en mér heyrist skosku sveitarstjórnarfólki ekki lítast vel á það.

En á Íslandi erum við með 74 sveitarfélög þar sem meðalstærðin er 4.300 íbúar og 2.700 íbúar ef við tökum Reykjavík frá. Það er í raun ótrúlegt hvað íslensk sveitarfélög veita mikla þjónustu þegar maður ber þau saman við sveitarfélög í flestum öðrum löndum. En myndu þau veita betri þjónustu við frekari sameiningu? Það er stóra spurningin og íslenskt sveitarstjórnarfólk er ekki sammála um svarið. Þess vegna er það mjög gild spurning hvort stærðin skipti máli?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 3.3.2013 - 20:47 - Rita ummæli

Enn opnari stjórnsýsla

Samband íslenskra sveitarfélaga leggur mikla áherslu á upplýsingagjöf til sveitarstjórnarmanna og almennings. Í því skyni er tímaritið Sveitarstjórnarmál gefið út mánaðarlega sem og vefrit um fjármál og nú er nýtt rafrænt fréttabréf að líta dagsins ljós.

Á stjórnarfundi sambandsins sl. föstudag var samþykkt að opna stjórnsýslu okkar enn meira en verið hefur. Þá var eftirfarandi bókun samþykkt: ,,Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga samþykkir að birta með fundargerðum sínum öll gögn sem lögð eru fram á fundum stjórnarinnar á opnum vef sambandsins og ekki falla undir persónuverndar- og höfundarréttarákvæði laga eða eru lögð fram sem trúnaðarskjöl. Ákvörðun þessi er liður í því að auðvelda aðgengi sveitarstjórnarmanna, starfsmanna sveitarfélaga og almennings að þeim mikla fjölda gagna sem lögð eru fram á fundum stjórnar sambandsins. Þessi gögn fjalla um flest þau verkefni sem sveitarfélögin annast. Sveitarstjórnarmenn eiga að því að geta nýtt sér þessi gögn í störfum sínum til hagsbóta fyrir sveitarfélögin og íbúa þeirra.“

Með þessu er stigið enn stærra skref en áður því fyrst eftir að við tókum upp svokallaða gagnagátt stjórnar var hún einungis opin stjórnar- og varastjórnarfólki. Næsta skref var að senda öllum sveitarfélögum aðgangsorð að gagnagáttinni svo allt sveitarstjórnarfólk landsins gæti nálgast gögn þau sem stjórnin fjallar um. Nú er það skref stigið að opna þetta algjörlega fyrir öllum. Hægt er að velja hvert og eitt fylgiskjal sem opnast þá sem pdf skjal.

Við hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga vonum að þetta eigi eftir að nýtast jafnt sveitarstjórnarfólki sem og öllum landsmönnum vel.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 13.1.2013 - 19:27 - 3 ummæli

Til skammar

Það er ótrúlegt og hreinlega til skammar að ritverk Hallgríms Helgasonar, Konan við 1000 gráður skuli tilnefnd til Norrænu bókmenntaverðlaunanna.

Eins og Guðrún Jónsdóttir bendir á í grein sinni í Fréttablaðinu og á visir.is þá er ævi móður hennar Brynhildar Björnsson notuð og skrumskæld. Höfundurinn hefur ítrekað að þetta sé skáldsaga. Við sem þekktum Brynhildi vitum að þetta er skáldsaga og vitum hvað er raunverulegt og hvað ekki. En hvað með fólk sem þekkti hana ekki? Hvernig eiga þeir lesendur að gera mun á raunveruleika og skáldskap? Í þessari sögu eru raunveruleg nöfn notuð. Það kemur fram að þetta sé byggt á ævi Brynhildar þó hún sé kölluð Herborg og svo eru nöfn margra ættingja hennar notuð óbreytt. Samt er þetta sögð skáldsaga. Það er ömurlegt að lesa þessa bók og sjá hvernig höfundurinn afskræmir ævi Brynhildar.

Það er til skammar að þetta sé framlag Íslands til bókmenntaverðlauna.

Flokkar: Dægurmál

Höfundur

Halldór Halldórsson
Talsmaður málefnalegrar umræðu.
RSS straumur: RSS straumur