Þriðjudagur 13.9.2011 - 19:46 - Rita ummæli

Fjöldi fulltrúa – sveitarstjórnarlög

Þó frumvarp að sveitarstjórnarlögum sé unnið í nánu samráði ríkis og sveitarfélaga er það ekki óumdeilt. Breytingar hafa verið gerðar í meðförum Alþingis og þó samstarfið við samgöngunefnd þingsins sé ágætt koma inn nýjar áherslur frá þingmönnum, áherslur sem við á sveitarstjórnarstiginu erum ekkert alltaf sammála.  Endanlega niðurstöðu löggjafarvaldsins verðum við auðvitað að sætta okkur við.

Dæmi um mál sem ekki er samstaða um meðal sveitarstjórnarmanna eru tillögur í frumvarpinu um fjölgun fulltrúa. Þetta hefur mest áhrif í Reykjavík eins og fram hefur komið. Í umræðum í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga hafa komið fram efasemdir um þessa breytingu en við höfum þó ekki lagt fram breytingatillögu enda stjórnin ekki sammála varðandi þetta atriði.

Persónuleg afstaða mín er neikvæð gagnvart þessari breytingu. Ég tel að fjöldi fulltrúa eins og hann er skilgreindur í núgildandi sveitarstjórnarlögum sé nægjanlegur.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 12.9.2011 - 10:09 - Rita ummæli

Skuldahlutfall – sveitarstjórnarlög

Ný sveitarstjórnarlög hafa verið í vinnslu í u.þ.b. tvö ár. Samvinna var milli ríkis og sveitarfélaga við vinnslu frumvarpsins og höfðu sveitarstjórnarmenn tækifæri til þess á fleiri en einu landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga að gera tillögur að breytingum og koma á framfæri athugasemdum. Nýttu sveitarstjórnarmenn sér þetta vel sem og athugasemdaferlið eftir að málið var komið til Alþingis.

Þó Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi vissulega beitt sér gagnvart ríkisstjórninni gagnvart skuldum almennt, þ.á.m. skuldum sveitarfélaga þá var öllum ljóst að skuldir yrðu að lækka hjá mjög mörgum sveitarfélögum. Til þess þurfti ekki heilt efnahagshrun og AGS. Sem dæmi má nefna að í mars 2007 undirrituðu Samband íslenskra sveitarfélaga og fjármálaráðuneytið yfirlýsingu um aðgerðir til að lækka skuldir sveitarfélaga og að þau myndu setja sér strangari fjármálareglur en eru í núgildandi sveitarstjórnarlögum. Þetta var í mars 2007 eða einu og hálfu ári fyrir hrun, ríkissjóður nánast orðinn skuldlaus en skuldir sveitarfélaga höfðu farið vaxandi vegna mikilla framkvæmda og vaxtar í mörgum þeirra en í öðrum vegna erfiðleika og fólksfækkunar.

Það er ekki annað að heyra en að sveitarstjórnarfólk vítt og breitt um landið sé tiltölulega sátt við að setja þrengri ramma um fjármál sveitarfélaga og margir hafa kallað eftir því lengi vel. Jafnframt gerum við okkur öll grein fyrir því að það tekur tíma að ná skuldum í þetta jafnvægi, frumvarpið var með sex ára aðlögunartíma en sérstök nefnd sem vann tillögur um fjármálareglur talaði um 10 ár. Ég tel 10 ár vera lágmarkstíma til að ná þessu fram og tel að í sumum tilfellum þurfi jafnvel lengri tíma en það.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 17.6.2011 - 20:00 - 1 ummæli

Útskrift 17. júní á Hrafnseyri

Áður en hátíðardagskrá 17. júní og sérstök afmælisdagskrá vegna 200 ára ártíðar Jóns Sigurðssonar hófst á Hrafnseyri í dag, var útskrift á vegum Háskólaseturs Vestfjarða.

Annað árið í röð útskrifast mastersnemar úr Haf- og strandsvæðastjórnun sem kennd er á Ísafirði við Háskólasetur Vestfjarða. Námið er alþjóðlegt og allt kennt á ensku (e. Coastal and Marine Management). Að þessu sinni útskrifuðust 13 nemar af 20 sem voru í náminu í vetur. Í fyrra voru 10 nemar en það var fyrsti árgangurinn í mastersnámi við Háskólasetur Vestfjarða.

Útskriftin var hátíðleg og einkar ánægjuleg. Útskrift á Hrafnseyri þann 17. júní er einkar heppilegur vettvangur að mínu mati.

Þá undirstrikar útskriftin mikilvægi þess að byggja upp menntastofnun á borð við Háskólasetur Vestfjarða hér fyrir vestan. Mikilvægt er að vel takist til við að byggja áfram upp í tengslum við mastersnámið. Á borðum stjórnar Háskólaseturs Vestfjarða eru klárar tillögur um næstu skref í þeim málum.

Forsætisráðherra tilkynnti í ræðu sinni á Hrafnseyri í dag um prófessorsstöðu við Háskóla Íslands sem verður tileinkuð Jóni Sigurðssyni. Ætlunin er að staðan verði á Ísafirði eða nágrenni við Fræðasetur Háskóla Íslands. Hvernig sem það verður útfært er þetta ánægjuleg ákvörðun og vonandi munu Háskólasetur Vestfjarða sem er kennslustofnun og Fræðasetur Háskóla Íslands á Vestfjörðum eiga gott samstarf um þessi mál sem og önnur.

Gleðilegan þjóðhátíðardag.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 10.3.2011 - 14:33 - 9 ummæli

Geggjaður populismi

Þingmenn vita sem er að við kjósendur vitum lítið um þeirra störf nema þeir séu duglegir að skrifa greinar (sem við lesum kannski ekki) eða þeir fái óskipta athygli fjölmiðla. Margir þingmenn eru áreiðanlega ekki að velta þessu daglega fyrir sér og vinna sín störf með heildarhag þjóðarinnar að leiðarljósi. Kannski verða þeir endurkjörnir – kannski ekki.

En svo eru einhverjir þingmenn sem eru mjög meðvitaðir um að þeir þurfa að skora í fjölmiðlum – helst daglega og þá er um að gera að setja fram djarfar tillögur sem vekja athygli og umtal. Skítt með hvort það gagnast þjóðinni eða heildarhag.

Ég hef á tilfinningunni að þannig sé það með tillögur um ofurskatt á laun yfir einni milljón eða einni komma tveimur milljónum. Það eru kölluð ofurlaun sem verði að skattleggja með ofurskatti. Vissulega eru 1,2 m.kr. há laun, ekki síst í samanburði við lægstu laun en það verður að horfa á þetta í samhengi.

Hvað með einstaklinga sem hafa verið að byggja upp fyrirtæki í fjöldamörg ár og nánast þurft að borga með sér í uppbyggingarferlinu en geta núna loksins greitt sér góð laun? Á að taka 80% af þeim í skatt? Hvað með þá sem hafa menntað sig í fjöldamörg ár og safnað skuldum vegna þess? Á að taka 80% af þeim í skatt? Hvað með lækna? Á að taka 80% af þeim í skatt? Hvað með sjómenn sem komast í þokkalegur tekjur sum árin en ekki önnur? Á að taka 80% af þeim í skatt?

Þessi umræða er í boði alþingismanna á hinu háa Alþingi sem ná trúlega ekki alveg upp í 1,2 m.kr. á mánuði. Þeir telja sig væntanlega örugga með endurkjör.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 20.2.2011 - 15:41 - Rita ummæli

Vandmeðfarið vald en rétt ákvörðun að mínu mati

Eins og oft áður er upphrópunarumræðan á Íslandi tilviljunarkennd. Afstaða til hlutanna fer hjá mjög mörgum eftir því með hvaða knattspyrnuliði – nei stjórnmálaflokki ætlaði ég að segja – þeir halda. Núna segja fjölmargir vinstri menn, ekki allir, að forsetinn eigi ekki að komast upp með að synja Icesave lögunum staðfestingar. Sama fólkið fagnaði ógurlega fyrir nokkrum árum þegar hann synjaði því að staðfesta fjölmiðlalögin. Svona er nú umræðan merkileg hjá sumum og afstaðan til hlutanna fastmótuð – eða hitt þó heldur. Það er hreinlega ótrúlegt að fylgjast með ákveðnum þingmönnum, sérstaklega í Samfylkingunni í þessu máli og mörgum fleirum. Ég ætla ekki að nefna nein nöfn, það er óþarfi, en ég á eftir að skrifa meira um þetta næstu misserin og þá í samhengi við fleiri mál.

Um synjunarvald forseta Íslands hef ég skrifað áður, síðast 17. febrúar þar sem ég taldi að hann ætti að leyfa þjóðinni að kjósa um þennan Icesave samning.

Miðað við hversu umdeilt þetta mál er og að þjóðin hafnaði hinum samingnum með nánast 100% atkvæða þá tel ég forsetann gera rétt í því að vísa málinu aftur til þjóðarinnar. Í atkvæðagreiðslunni getur þjóðin sjálf lagt mat á samninginn og samþykkt hann eða hafnað honum. Niðurstaðan verður þá þjóðarinnar og það er liður í því að vinna okkur upp úr þeirri hugarfarslegu kreppu sem ríkir jafnt og hin fjármálalega og í raun ekki síður.

En svo þarf að taka á þessu með synjunarvald yfirleitt. Við búum við fulltrúalýðræði og verðum að skilgreina betur hvernig eigi að setja mál í þjóðaratkvæði. Núverandi forseti hefur skrifað nýjan kafla í sögu forsetaembættisins. Því fögnuðu vinstri menn þegar hann gerði það í fyrsta skipti – en ekki lengur. Það er hluti af því að vera ósamkvæmur sjálfum sér. En það þarf að vera annað kerfi á þessu en að einstaklingur, jafnvel þó hann sé forseti lýðveldisins, geti eða þurfi að taka þessar ákvarðanir. Það verður að hvíla á fleirum en einum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 17.2.2011 - 22:28 - 12 ummæli

Undirskriftarlistar

Það er merkilegt hvað fólk getur haft ólíkar skoðanir á undirskriftarlistum eftir því hver leggur þá fram. Nú á undirskriftarlisti, þar sem fjölmargir Íslendingar hafa ritað nafn sitt í þeim tilgangi að fá forseta Íslands til staðfesta ekki lög um Icesave, að vera ómögulegur. Ég hef lesið mótbárur nokkurra gegn listanum og heyrði ótrúlegt viðtal við Teit nokkurn í Svíþjóð í Kastljósinu áðan. Þegar hann var eiginlega orðinn rökþrota gagnvart Frosta Sigurjónssyni sem er einn aðstandenda þessa undirskriftarlista fór hann að tala um persónur tengdar þessu átaki. Þær væru ómögulegar og hann treysti þeim ekki fyrir horn. Sérstakur málflutningur svo ekki sé meira sagt.

Það eru vankantar á öllum undirskriftarlistum. Sama hvort þeir eru á netinu eða liggja frammi á opinberum stöðum. Það skrifa alltaf einhverjir í gríni inn á slíka lista en við yfirferð er slíkt leiðrétt. Það er engin ástæða til að ætla annað um þennan undirskriftarlista og reyndar útskýrði Frosti það ágætlega í Kastljósinu í kvöld.

Það er önnur umræða um þetta undirskriftarátak en t.d. undirskriftarátak Bjarkar Guðmundsdóttur um daginn. Voru engir vankantar á því? Eða var það svona undirskriftarátak sem lagðist betur í þá sem nú eru á móti svona undirskriftarbrölti? Þó var undirskriftarlisti Bjarkar söngkonu á móti sölu á auðlindum sem þegar nánar er að gáð röng fullyrðing. Það var engin sala á auðlindum en samt skrifuðu þúsundir Íslendinga undir það.

Nú er þó undirskriftarlisti í gangi gegn mjög umdeildu máli. Staðfestingu á skuld Íslendinga upp á a.m.k. 47 milljarða króna og jafnvel miklu meira. Margir telja að við eigum ekki að borga þetta vegna þess að um skuld einkafyrirtækis sé að ræða og það eigi ekki að ríkisvæða skuldir einkafyrirtækis. Mér finnst það mjög veigamikil rök og algjörlega viðeigandi að Íslendingar skrifi undir lista þar sem forseti Íslands er hvattur til að staðfesta ekki slík lög.

Þar sem forseti Íslands er kominn í ágæta æfingu við að staðfesta ekki lög frá Alþingi finnst mér að hann ætti að leyfa okkur að kjósa um þessi lög. Viðbrögðin sem ég hef heyrt við umræddum undirskriftarlista hafa frekar styrkt mig í þeirri trú.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 16.2.2011 - 11:20 - Rita ummæli

Samræmdar aðgerðir í skólamálum hefðu verið betri

Það er að vonum mikil umræða um skólamálin þessa dagana. Sveitarfélögin hafa þurft að draga saman í rekstri vegna tekjulækkunar.

Þess misskilnings hefur gætt og hefur sést í greinaskrifum að sveitarstjórnarfólk hafi ekki byrjað á öðrum aðgerðum en þeim að hagræða í skólakerfinu. Staðreyndin er sú að strax við hrun haustið 2008 brugðust sveitarfélögin mjög hratt við og hófu að lækka rekstrarkostnað þar sem því varð við komið. Laun stjórnenda voru lækkuð, fjárfestingar voru stöðvaðar eða dregið mikið úr þeim, viðhaldskostnaður var lækkaður og þannig mætti lengi telja. Það hefur verið skorið miklu meira niður á öðrum sviðum en í félagsþjónustu og skólamálum. Vandamál sveitarfélaga er auðvitað að það lætur nærri að 80% verkefna sveitarfélaga geti kallast grunnþjónusta.

Samband íslenskra sveitarfélaga óskaði eftir samstarfi við menntamálaráðherra um breytingar á lögum og reglugerðum til að geta farið í tímabundnar hagræðingaraðgerðir. Þær gætu skv. tillögum sambandsins verið fólgnar í fækkun kennslustunda eða styttingu skólaársins. Aðeins væri verið að tala um tímabundnar aðgerðir eða þar til samfélagið færi að færast upp úr öldalnum sem kreppan skellti okkur niður í. Þá væri verið að tala um að fara til baka um nokkur ár varðandi tímafjölda eða lengd skólaársins. Við skulum ekki gleyma því að á síðustu 16 árum jafngildir fjölgun kennslustunda og lenging skólaársins tæplega tveggja ára lengingu grunnskólanámsins.

Ef samstarf sveitarfélaga og ríkisins hefði náðst væri verið að verja skólastarfið, verja grunnþjónustuna og tryggja samræmdar aðgerðir þannig að skólabörn vítt og breitt um landið væru í sambærilegri stöðu. Þannig væri jafnrétti til náms best tryggt.

Því miður náðist ekki árangur í þessum viðræðum við menntamálaráðherra. Kennaraforystan leggst gegn þeim breytingum sem sambandið hefur lagt til og telur þær til skaða fyrir grunnskólanemendur. Tilgangur sambandsins er auðvitað ekki sá að skaða skóalstarf heldur að verja eins og hægt er það mikilvæga starf.

Við hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga höfum margoft lýst þeim áhyggjum okkar að ef ekki næðist samstarf við ríkið um samræmdar aðgerðir í lækkun rekstrarkostnaðar myndu sveitarfélögin neyðast til að fara þær leiðir sem væru færar í hverju sveitarfélagi. Það er að gerast núna.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 13.2.2011 - 22:47 - 12 ummæli

Ómerkilegt

Það er ómerkilegt af alþingismanninum Merði Árnasyni að saka sveitarstjórn Flóahrepps um mútuþægni. Það er ótrúlegt að hann skuli halda slíku fram þegar hann á að vita betur. Skipulagsmál eru málaflokkur þar sem ferlið er opið og íbúar bæði innan og utan sveitarfélags geta haft áhrif á niðurstöðuna.

Þegar sveitarfélag þarf að breyta skipulagi vegna einstakrar framkvæmdar sem í tilfelli sveitarfélaganna við Þjórsá er mjög stór framkvæmd þá er ekki óeðlilegt að sá sem óskar breytinga  á skipulaginu greiði slíkan kostnað. Þær breytingar eru svo auglýstar og það er aldrei vitað fyrirfram hvort niðurstaðan verður sú að breyta skipulaginu eða ekki. Lögformlegt ferli sem lýkur með staðfestingu umhverfisráðherra (sem tafðist töluvert í þessu tilfelli) er með aðkomu almennings og niðurstaðan getur orðið sú að auglýst breyting verði ekki samþykkt.

Að halda því fram að framkvæmdaaðili í þessu tilfelli hafi mútað sveitarfélaginu sýnir lítilsvirðingu alþingismanns gagnvart réttkjörnum fulltrúum í sveitarstjórn. Svo vonast alþingismenn eftir því að virðing fyrir hinu háa Alþingi aukist. Ekki var innlegg þingmannsins Marðar lóð á þá vogarskál.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 19.1.2011 - 12:53 - 10 ummæli

Hvernig?

Hvernig mun ríkið, sem ég tek fram að ég tel ekki nokkurn vafa leika á að er eigandi allra auðlinda, úthluta aflaheimildum verði þær innkallaðar? Umræðan snýst um réttlæti og ég tek undir að margar sjávarbyggðir hafa orðið fyrir miklu óréttlæti. En meginvandinn er sá að það hefur dregið svo mikið úr heildarveiðum að miklu minna er til skiptanna.

Þess vegna er orðalag um að við stöndum í fjöruborðinu og horfum út á fiskimiðin án þess að mega nýta þau í raun marklaust vegna þess að ekki verður farið í kerfi frjálsra veiða. Ég hef ekki heyrt neinn þingmann tala um það.

Þess vegna kemur upp spurningin hvernig á að úthluta aflaheimildum upp á nýtt? Leigja hæstbjóðanda? Þá munu margir missa af því. Úthluta á byggðirnar? Þá er það spurningin um sérhæfingu og hvað gerist ef aflabrestur verður á ákveðnum landssvæðum, þá kemur líka upp hætta á offjárfestingu í sjávarútvegi miðað við heildarafla á Íslandsmiðum.

Hvernig á að úthluta heimildum til veiða á uppsjávarfiski? Verður því kannski dreift á allar byggðir landsins? Það eru ekki margir sem sérhæfa sig í uppsjávarveiðum.

Á kannski að úthluta heimildum til hvers og eins Íslendings? Þá dragast aflaheimildir verulega saman út um landið. Á Vestfjörðum færu þær úr ca. 10% af heildarheimildum niður fyrir 3%.

Sama hvaða aðferð verður notuð þá hljóta heimildir til veiða verða teknar af einum og færðar öðrum. Annað heiti á fiskveiðistjórnunarkerfi fjölgar ekki fiskunum í sjónum.

Ég er hlynntur ákveðnum breytingum á fiskveiðistjórnunarkerfinu. En það verður að gæta þess að skemma ekki það góða starf sem unnið er í sjávarútvegi um allt land.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 9.1.2011 - 20:49 - 1 ummæli

Upphrópunarumræðan

Þrátt fyrir að atburðir undanfarinna ára í íslensku þjóðfélagi ættu að kenna okkur ýmislegt um samfélagslega umræðu þá virðist það hafa náð misvel í gegn. Í skýrslugerð um hrunið er talað um hvernig umræðunni var stýrt af nokkrum aðilum og flestir fylgdu á eftir og alla gagnrýni vantaði, bæði hjá okkur sjálfum og fjölmiðlum.

Þetta er rifjað upp í tilefni af mikilvægri umræðu um mengun frá sorpbrennslum í landinu. Þar hafa of margir fjölmiðlar fylgt þeirri reglu að sá háværasti stýri umræðunni. Í þessu tilfelli þingmaðurinn Ólína Þorvarðardóttir sem hefur sett fram mjög alvarlegar fullyrðingar um heilsu fólks þar sem hún segir að bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar og embættismenn hafi tekið fjárhagslega hagsmuni fram yfir hag og heilsu íbúanna.

Sjálfur bý ég í 1,5 km. loftlínu frá sorpbrennslunni og hef gert frá 1996. Þangað fluttum við með börnin okkar 2ja mánaða, 4 ára og 6 ára. Þingmaðurinn er þá að segja að ég hafi ásamt fleirum tekið fjárhagslega hagsmuni bæjarins fram yfir hag og heilsu barnanna minna og fjölskyldu um leið og annarra íbúa bæjarins. Þvílík framkoma gagnvart fólki en fjölmiðlarnir eru ánægðir með upphrópanir og koma sakfellingu þingmannsins áreynslu- og gagnrýnislaust á framfæri.

Útúrsnúningar
Ég skrifaði grein á Eyjuna og á bb.is um þetta mál á dögunum  þar sem ég fór yfir málið og gagnrýndi þingmanninn fyrir þessi orð í viðtali á Stöð 2: ,,Og í þessu máli kann að vera að það hafi aðrir hagsmynir vegið þyngra, það er að segja, tillitssemi við rekstraraðila sorpbrennslustöðvarinnar, fjárhagslegir hagsmunir bæjarfélagsins og svo framvegis, að þeir hafi í raun og verið fengið fullmikla athygli, þessir hagsmunir, á kostnað þess sem var nærtækara, og það er líf og heilsa og velferð íbúanna í næsta nágrenni við sorpbrennslustöðina.“

Í greininni sagði ég málið mjög alvarlegt, það yrði að nálgast faglega. Ég rifjaði upp að minnihlutinn hefði viljað endurbyggja Funa þrátt fyrir mikla umræðu um að erfitt yrði að byggja eða endurbyggja sorpbrennslustöð þannig að hún myndi ekki menga. Slík stöð er auðvitað ekki til. Á þetta benti ég ítrekað í umræðum um þetta mál á bæjarstjórnarfundum, hljóðupptaka fundanna er á vef Ísafjarðarbæjar.

Ég sagði líka í greininni að ákveðin viðbrögð væru til fyrirmyndar m.a. þau að umhverfisnefnd Alþingis að frumkvæði Ólínu ætlaði að fjalla um málið. Ýmislegt fleira segi ég í þessari grein og fer m.a. yfir mælingu í öðrum sorpbrennslum og minni á að Funi var undanþeginn díoxínmælingum  skv. ákvörðun íslenskra stjórnvalda. Og ég minni á mikla umræðu um þessi mál í fjölmiðlum og á fundum hjá Ísafjarðarbæ undanfarin ár. Þetta málefni var alltaf í fjölmiðlum og því þýðir lítið fyrir bæjarfulltrúa sem sátu í bæjarstjórn síðasta eða síðustu kjörtímabil að halda því fram að þeir hafi ekki vitað eitt eða neitt.

Hægt væri að setja inn nokkra tugi slóða um þessi mál til að sýna fram á hversu mikið þetta mál var í umræðunni og hversu mikið var fylgst með því að mengun væri innan þeirra marka sem starfsleyfi stöðvarinnar mælti fyrir um. Sjáið sem eitt lítið dæmi frétt frá 5. september 2006. Í þessari frétt segir m.a. þetta: ,, Meðal þeirra fyrirspurna sem bæjarfulltrúar Í-listans lögðu fram á aukafundi bæjarstjórnar í síðustu viku var fyrirspurn um hvort farið hefðu fram rannsóknir á útblæstri frá sorpeyðingarstöðinni Funa, og ef ekki hvort þá stæði til að fara í slíkar rannsóknir. Í svari bæjarstjóra kemur fram að reglulega eru framkvæmdar mælingar á útblæstri Funa og niðurstöður þeirra bornar saman við þær mengunarkröfur sem gerðar eru til stöðvarinnar. Segir að mælingar séu innan viðmiðunargilda. „Undantekning var varðandi þungmálma í útblæstri en mjög nálægt viðmiðunarmörkum engu að síður.“ Umsagnar- eða athugasemdafrestur vegna auglýsingar um nýtt starfsleyfi fyrir Funa rann út 1. september. Stöðin fær ekki starfsleyfi ef útblástur er ekki innan viðmiðunarmarka. Þá segir að vandamál fylgi útblæstri stöðvarinnar hvort sem mengun er innan viðmunargilda eður ei.“

Þennan pistil sem fjallaði um staðreyndir í málinu kallar þingmaðurinn Ólína afneitunarpistil í nýlegu bloggi sínu hér á vefnum.

Dæmi hver fyrir sig. En orðræðan hefur ekki breyst. Ennþá hefur sá hávaðasamasti orðið í íslenskum fjölmiðlum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Halldór Halldórsson
Talsmaður málefnalegrar umræðu.
RSS straumur: RSS straumur