Þrátt fyrir að atburðir undanfarinna ára í íslensku þjóðfélagi ættu að kenna okkur ýmislegt um samfélagslega umræðu þá virðist það hafa náð misvel í gegn. Í skýrslugerð um hrunið er talað um hvernig umræðunni var stýrt af nokkrum aðilum og flestir fylgdu á eftir og alla gagnrýni vantaði, bæði hjá okkur sjálfum og fjölmiðlum.
Þetta er rifjað upp í tilefni af mikilvægri umræðu um mengun frá sorpbrennslum í landinu. Þar hafa of margir fjölmiðlar fylgt þeirri reglu að sá háværasti stýri umræðunni. Í þessu tilfelli þingmaðurinn Ólína Þorvarðardóttir sem hefur sett fram mjög alvarlegar fullyrðingar um heilsu fólks þar sem hún segir að bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar og embættismenn hafi tekið fjárhagslega hagsmuni fram yfir hag og heilsu íbúanna.
Sjálfur bý ég í 1,5 km. loftlínu frá sorpbrennslunni og hef gert frá 1996. Þangað fluttum við með börnin okkar 2ja mánaða, 4 ára og 6 ára. Þingmaðurinn er þá að segja að ég hafi ásamt fleirum tekið fjárhagslega hagsmuni bæjarins fram yfir hag og heilsu barnanna minna og fjölskyldu um leið og annarra íbúa bæjarins. Þvílík framkoma gagnvart fólki en fjölmiðlarnir eru ánægðir með upphrópanir og koma sakfellingu þingmannsins áreynslu- og gagnrýnislaust á framfæri.
Útúrsnúningar
Ég skrifaði grein á Eyjuna og á bb.is um þetta mál á dögunum þar sem ég fór yfir málið og gagnrýndi þingmanninn fyrir þessi orð í viðtali á Stöð 2: ,,Og í þessu máli kann að vera að það hafi aðrir hagsmynir vegið þyngra, það er að segja, tillitssemi við rekstraraðila sorpbrennslustöðvarinnar, fjárhagslegir hagsmunir bæjarfélagsins og svo framvegis, að þeir hafi í raun og verið fengið fullmikla athygli, þessir hagsmunir, á kostnað þess sem var nærtækara, og það er líf og heilsa og velferð íbúanna í næsta nágrenni við sorpbrennslustöðina.“
Í greininni sagði ég málið mjög alvarlegt, það yrði að nálgast faglega. Ég rifjaði upp að minnihlutinn hefði viljað endurbyggja Funa þrátt fyrir mikla umræðu um að erfitt yrði að byggja eða endurbyggja sorpbrennslustöð þannig að hún myndi ekki menga. Slík stöð er auðvitað ekki til. Á þetta benti ég ítrekað í umræðum um þetta mál á bæjarstjórnarfundum, hljóðupptaka fundanna er á vef Ísafjarðarbæjar.
Ég sagði líka í greininni að ákveðin viðbrögð væru til fyrirmyndar m.a. þau að umhverfisnefnd Alþingis að frumkvæði Ólínu ætlaði að fjalla um málið. Ýmislegt fleira segi ég í þessari grein og fer m.a. yfir mælingu í öðrum sorpbrennslum og minni á að Funi var undanþeginn díoxínmælingum skv. ákvörðun íslenskra stjórnvalda. Og ég minni á mikla umræðu um þessi mál í fjölmiðlum og á fundum hjá Ísafjarðarbæ undanfarin ár. Þetta málefni var alltaf í fjölmiðlum og því þýðir lítið fyrir bæjarfulltrúa sem sátu í bæjarstjórn síðasta eða síðustu kjörtímabil að halda því fram að þeir hafi ekki vitað eitt eða neitt.
Hægt væri að setja inn nokkra tugi slóða um þessi mál til að sýna fram á hversu mikið þetta mál var í umræðunni og hversu mikið var fylgst með því að mengun væri innan þeirra marka sem starfsleyfi stöðvarinnar mælti fyrir um. Sjáið sem eitt lítið dæmi frétt frá 5. september 2006. Í þessari frétt segir m.a. þetta: ,, Meðal þeirra fyrirspurna sem bæjarfulltrúar Í-listans lögðu fram á aukafundi bæjarstjórnar í síðustu viku var fyrirspurn um hvort farið hefðu fram rannsóknir á útblæstri frá sorpeyðingarstöðinni Funa, og ef ekki hvort þá stæði til að fara í slíkar rannsóknir. Í svari bæjarstjóra kemur fram að reglulega eru framkvæmdar mælingar á útblæstri Funa og niðurstöður þeirra bornar saman við þær mengunarkröfur sem gerðar eru til stöðvarinnar. Segir að mælingar séu innan viðmiðunargilda. „Undantekning var varðandi þungmálma í útblæstri en mjög nálægt viðmiðunarmörkum engu að síður.“ Umsagnar- eða athugasemdafrestur vegna auglýsingar um nýtt starfsleyfi fyrir Funa rann út 1. september. Stöðin fær ekki starfsleyfi ef útblástur er ekki innan viðmiðunarmarka. Þá segir að vandamál fylgi útblæstri stöðvarinnar hvort sem mengun er innan viðmunargilda eður ei.“
Þennan pistil sem fjallaði um staðreyndir í málinu kallar þingmaðurinn Ólína afneitunarpistil í nýlegu bloggi sínu hér á vefnum.
Dæmi hver fyrir sig. En orðræðan hefur ekki breyst. Ennþá hefur sá hávaðasamasti orðið í íslenskum fjölmiðlum.