Það er smá Denni í Hönnu Birnu. Þess vegna er betra að Hanna Birna verði næsta forsætisráðherraefni Sjálfstæðisflokksins en hinn annars ágæti drengur Bjarni Ben. Svona fyrir þjóðina. Því fylgi fjórflokksins + fimmta framboðsins hverju sinni gerir það að verkum að það verða alltaf samsteypustjórnir á Íslandi.
Þess vegna þarf góða leiðtoga til að leiða og samhæfa ríkisstjórnir næstu ára. Fólk með eiginleika Steingríms Hermannssonar sem ber höfuð og herðar yfir alla forsætisráðherra samsteypustjórna á Íslandi fram til þessa þegar litið er til samvinnustjórnmála, vinnslu sameiginlegs skilnings innan ríkisstjórnar, sáttavinnu og breiðrar samstöðu um sameiginlegrar niðurstöðu ólíkra flokka og stjórnmálaviðhorfa í samsteypustjórn mismunandi viðhorfa.
Með fullri virðingu fyrir vini mínum Davíð Odssyni sem var bara allt öðruvísi forsætisráðherra.
Hanna Birna sýndi það sem borgarstjóri að hún hefur í sér þessa hæfileika Steingríms Hermannssonar þótt hún komist ekki í skóna hans Denna – allavega ekki ennnþá. Hanna Birna sem í upphafi keyrði að mínu mati dálítið harkalega pólitík „a la Davíð“ lagði þá pólitíska framtíð sína að veði með því að taka höndum saman með Óskari Bergssyni og framsóknarfólki að gerbreyta vinnubrögðum í borgarstjórn og leggja áherslu á samvinnustjórnmál!
Það tókst og það tókst vegna þess að VG og Samfó – sem eiga mikinn heiður skilið – veðjuðu á að Hanna Birna meinti það sem hún sagði. Að hún vildi alvöru samvinnustjórnmál þar sem alltaf yrði fyrst reynt að ná sameiginlegri niðurstöðu meirihluta og minnihluta í lykilmálum. Það gerði hún í samstarfi við minnihlutan í borgarstjórn. Hún hefur þegar sýnt að hún er með forsætisráðherrahæfileika „a la Denni“!
Það getur vel verið að Bjarni Ben hafi einnig þá forsætisráðherrahæfileika þótt framganga þess ágæta drengs hafi ekki sýnt það á Alþingi. Við vitum það ekki. En við vitum að Hanna Birna er með það sem þarf til að leiða farsæla samsteypustjórn sem vill vinna með stjórnarandstöðunni eins og kostur er. Með þjóðarhag að leiðarljósi.
Þess vegna eiga landsfundarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins að kjósa Hönnu Birnu sem formann Sjálfstæðisflokksins. Þjóðarinnar vegna.