Fimmtudagur 17.11.2011 - 21:42 - 6 ummæli

Smá Denni í Hönnu Birnu!

Það er smá Denni í Hönnu Birnu. Þess vegna er betra að Hanna Birna verði næsta forsætisráðherraefni Sjálfstæðisflokksins en hinn annars ágæti drengur Bjarni Ben. Svona fyrir þjóðina. Því fylgi fjórflokksins + fimmta framboðsins hverju sinni gerir það að verkum að það verða alltaf samsteypustjórnir á Íslandi. 

Þess vegna þarf góða leiðtoga til að leiða og samhæfa ríkisstjórnir næstu ára.  Fólk með eiginleika Steingríms Hermannssonar sem ber höfuð og herðar yfir alla forsætisráðherra samsteypustjórna á Íslandi fram til þessa þegar litið er til samvinnustjórnmála, vinnslu sameiginlegs skilnings innan ríkisstjórnar, sáttavinnu og breiðrar samstöðu um sameiginlegrar niðurstöðu ólíkra flokka og stjórnmálaviðhorfa í samsteypustjórn mismunandi viðhorfa.

Með fullri virðingu fyrir vini mínum Davíð Odssyni sem var bara allt öðruvísi forsætisráðherra.

Hanna Birna sýndi það sem borgarstjóri að hún hefur í sér þessa hæfileika Steingríms Hermannssonar þótt hún komist ekki í skóna hans Denna – allavega ekki ennnþá. Hanna Birna sem í upphafi keyrði að mínu mati dálítið harkalega pólitík „a la Davíð“ lagði þá pólitíska framtíð sína að veði með því að taka höndum saman með Óskari Bergssyni og framsóknarfólki að gerbreyta vinnubrögðum í borgarstjórn og leggja áherslu á samvinnustjórnmál!

Það tókst og það tókst vegna þess að VG og Samfó – sem eiga mikinn heiður skilið – veðjuðu á að Hanna Birna meinti það sem hún sagði. Að hún vildi alvöru samvinnustjórnmál þar sem alltaf yrði fyrst reynt að ná sameiginlegri niðurstöðu meirihluta og minnihluta í lykilmálum. Það gerði hún í samstarfi við minnihlutan í borgarstjórn. Hún hefur þegar sýnt að hún er með forsætisráðherrahæfileika „a la Denni“!

Það getur vel verið að Bjarni Ben hafi einnig þá forsætisráðherrahæfileika þótt framganga þess ágæta drengs hafi ekki sýnt það á Alþingi. Við vitum það ekki. En við vitum að Hanna Birna er með það sem þarf til að leiða farsæla samsteypustjórn sem vill vinna með stjórnarandstöðunni eins og kostur er. Með þjóðarhag að leiðarljósi.

Þess vegna eiga landsfundarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins að kjósa Hönnu Birnu sem formann Sjálfstæðisflokksins. Þjóðarinnar vegna.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 16.11.2011 - 11:42 - 19 ummæli

Sterkri OR rústað á 2 árum!

Þótt það hafi verið óþarfa fitulag á Orkuveitu Reykjavíkur í tíð Alfreðs Þorsteinssonar fyrrum formanns stjórnar OR þá er ljóst að staða fyrirtækisins var afar sterk þegar hann skilar af sér stjórnartaumunum vorið 2006.  

Þegar Hanna Birna Kristjánsdóttir tók við sem borgarstjóri sumarið 2008 með samstarfi við Óskar Bergsson og Framsóknarmenn þá var staða Orkuveitunnar orðin erfið. Enda var það eitt fyrsta verk Hönnu Birnu og Óskars að taka frá  milljarða í varasjóð til að takast á við vanda Orkuveitunnar. Það er þessi varasjóður sem hefur bjargað Orkuveitunni.

Svört skýrsla um rekstur Orkuveitunnar sýnir að frá því Alfreð skilaði af sér vorið 2006 og þar flokksbróðir hans Guðlaugur Sverrisson tók við stjórnartaumunum síðla sumarið 2008 höfðu forsvarsmenn og stjórnendur Orkuveitunnar skuldsett Orkuveituna upp úr öllu valdi með fjárfestingum sem mögulega þarf að afskrifa að miklu leiti. 

Björgunarstarf Orkuveitunnar hófst haustið 2008 þegar nýr meirihluti Framsóknar og Sjálfstæðisflokks tók við. Fyrsta skrefið var sú ákvörðun Hönnu Birnu og Óskars að setja milljarða til hliðar í varasjóð vegna Orkuveitunnar. Guðlaugur Sverrisson og félagar hófu vinnu við endurskipulagningu á fjármálum Orkuveitunnar í samráði við erlenda skuldunauta. Nýr meirihluti tók við þeirri vinnu – og gerði nokkur mistök í upphafi – en virðast hafa klárað fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækisins.

Orkuveitunni virðist vera bjargað. Þökk sé milljarða varasjóði sem Hanna Birna og Óskar Bergs stóðu fyrir að setja á fót og þeirri vinnu sem farið hefur fram á undanförnum misserum.

En stóra spurningin er. Hvernig í ósköpunum var unnt að setja öfluga Orkuveitu Reykjavíkur ársins 2006 nánast í þrot á tveimur árum?

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 9.11.2011 - 20:20 - 11 ummæli

Karlremban ofaná í xD?

„Það eru þrjú embætti þar sem karlremban verður alltaf ofaná. Það er forseti Bandaríkjanna, það er byskup Íslands og  það er formaður Sjálfstæðisflokksins“.  Þetta heyrði ég haft eftir manni sem er með mikla reynslu og mikla innsýn í stjórnmálin.

Nú er að sjá hvort þetta er rétt hvað varðar formann Sjálstæðisflokksins.

Það er ljóst að fylgi almennra Sjálfstæðismanna og almennings í landinu er miklu meira við Hönnu Birnu en Bjarna Ben. En eins og ég hef áður bent á þá er almennur flokksmaður eitt en flokkseigendafélag annað.

Bjarni Ben veit þetta. Í viðtali við hann á dögunum kom fram að þótt Hanna Birna hafi mikinn meirihlutastuðning meðal almennra Sjálfstæðismanna þá skipti það engu máli.

Það eru nefnilega hinir íhaldssömu Landsfundarfulltrúar sem velja formanninn. Bjarni hefur verið að tala inn í þann hóp að undanförnu.  Karlremburnar.  Stundum þvert gegn eigin sannfæringu. Því Bjarni er flottur nútíma maður – sem veit nákvæmlega að ef eitthvað er – þá gefa konurnar körlunum ekkert eftir í stjórnmálum.

Einn helsti styrkur Hönnu Birnu er að hún hefur sýnt það í verki að hún veldur mjög erfiðu embætti og hefur allt í að geta staðið sig í stykkinu sem forsætisráðherra. Ekki hvað síst á grundvelli samvinnustjórnmála sem Hanna Birna rak ásamt Framsóknarmönnum í meirihluta borgarstjórnar og með Samfylkingunni og VG sem tóku af heilum hug þátt í þeim samvinnustjórnmálum meðan Hanna Birna var við stjórnvölinn.

Þessi eiginleiki Hönnu Birnu gerir hana að vænlegu ráðherraefni í mögulegum samsteypustjórnum framtíðarinnar. Bjarni Ben er hins vegar algerlega óskrifað blað hvað þetta varðar. Þótt allir viti að hann sé góður drengur.

Reyndar hefur Bjarni valið leið átaka á Alþingi frekar en samvinnustjórnmála. Honum er reyndar vorkun þar sem Jóhanna og Steingrímur hafa heldur ekki verið mikið fyrir samvinnustjórnmál enda stjórnmálamenn gamla tímans. Þetta eru karlrembustjórnmál þótt Jóhanna og fleiri konur hafi tekið þau upp í stað þess að leggja áherslu á samvinnustjórnmál.

Samvinnustjórnmál er leið almennings og Hönnu Birnu.

Karlrembuátakastjórnmál er leið íhaldssamra landsfundarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Bjarna Ben.

Ég óttast að karlrembustjórnmálinn verði ofan á í Sjálfstæðisflokknum eins og hinn vísi stjórnmálarýnir sem ég vísaði til í upphafi heldur fram. En ég vona að samvinnustjórnmálin verði valin.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 8.11.2011 - 18:03 - 3 ummæli

Guðni Ág. féll fyrir lambakjöti!

Guðni Ágústsson féll fyrir lambakjötinu og var festur á filmu við iðju sína þar sem hann lét vel að innra læri, bóg og lambaskönkum. Ráðherrann fyrrverandi var ásamt konu sinni Margréti Hauksdóttur í heimsókn hjá Guðmundi Gíslasyni matreiðslumanni sem hefur að undanförnu haldið úti frábærum matreiðsluþáttum á ÍNN!

Guðmundur hefur í þáttum sínum „Eldhús lambsins“ á einfaldan og skýran hátt sýnt hvernig unnt er að matreiða ljúffengt íslenskt lambakjöt á mismunandi vegu.  Skylduáhorf fyrir matgæðinga og þá sem vilja gera góða rétti úr íslensku  lambakjöti!

Eins og áður segir var ástsælasti landbúnaðarráðherra þjóðarinnar gegnum tíðina- Guðni Ágústsson og kona hans Margrét Hauksdóttir- gestir í „Eldhúsi lambsins“ í gærkvöldi og smökkuðu á kræsingunum. Það var greinilegt að innra lærið, bógurinn og skankarnir smökkuðust frábærlega. Það var nánast hægt að finna lyktina gegnum skjáinn!

Þau yrðu góð saman Nigela og Gummi Gísla 🙂

Eldhús Lambsins – eldað úr lambi. Myndskeið

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 4.11.2011 - 22:26 - 14 ummæli

Kvenfyrirlitning Bjarna Ben?

 „Við höfum lagt gríðarlega mikla vinnu í að móta okkar efnahagsstefnu og kynnt hana á undanförnum vikum. Ég hef svosem ekki séð neitt sérstakt í þeim efnum frá mótframbjóðandanum í þessu tilviki og get ekki sagt að ég hafi átt von á neinu ákveðnu í þeim efnum þannig að það er ekkert sem kemur mér á óvart í þessu“

Er Bjarni Ben að gefa í skyn að konur hafi ekkert fram að færa í efnahagsmálum?

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 3.11.2011 - 17:15 - 1 ummæli

Hanna amma – Im memoriam

Sigríður Jóhanna Andrésdóttir 15.12.1923 – 26.10.2011

Það var æðislegt að fá að gista hjá afa Bóbó og Hönnu ömmu á Austurgötu 40 í Hafnarfirði. Reyndar algert ævintýri!  Langafi Sigurjón og langamma Rannveig í jarðhæðinni í fyrstu minningum – og síðan bara langamma Rannveig eftir að langafi dó 1969. Langamma löngu síðar.

 Hrjúfi en elskulegi afi Bóbó á efri hæðinni – og í kjallaranum innanum öll verkfærin, grásleppunetin og allt það forvitnilega sem þar var að finna. Og hlýja brosmilda Hanna amma sem alltaf sá það broslega og skemmtilega í tilverunni.

Amma Hanna sem að kvöldinu leiddi litla drenginn hennar Hrefnu hans Bóbó sem var að gista hjá afa og ömmu í Hafnarfirði að spennandi bókahillunni.  Á mildilegan hátt hjálpaði Hanna amma  stráknum að velja góða bók til að taka með í rúmið eftir skemmtilegt kvöld – þar sem kúrt var á gamla þurrkloftinu fyrir framan sjónvarpið – með fulla sælgætisskálina fyrir framan okkur.

Sælgætisskálin tóm. Strákurinn alsæll og ánægður. Afi Bóbó stundum á vakt í hliðinu hjá Ísal. En Hanna amma með afastrákinn hans Bóbó að skoða allar spennandi bækurnar. Með mildum róm og kímni talað með virðingu um hverja bók fyrir sig. Stundum lesið ljóð. Enda alin upp í bókabúð á Sigló.  Þar sem afi Bóbó sigldi inn með síldina, fann Hönnu ömmu og tók hana með sér til Hafnarfjarðar. Rómantískt upphaf í huga lítils drengs sem fær að gista hjá afa og ömmu á Austurgötunni.

Núna hefur Hanna amma yfirgefið þennan heim. Farin að gantast við afa Bóbó á Austurgötu 40 hinum megin við móðuna miklu. Eða kannske á Jófríðarstaðarveginum þar sem þau bjuggu fyrri hluta búskapartíðar sinnar – fyrir mitt minni.

Sé fyrir mér kímnina í augunum hennar Hönnu ömmu og hlýtt brosið. Sé hvernig hrjúfi afi Bóbó bráðnar allur og ljómar eins og sólin yfir því að fá Hönnu sína aftur, rauðbirkinn, rauðhærður og ótrúlega myndarlegur.

 Ég er svo ríkur að hafa átt afa Bóbó og Hönnu ömmu sem var að yfirgefa þennan heim!

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 2.11.2011 - 13:56 - 7 ummæli

Bláfjöll opin fyrir skíði!

Ætli höfuðborgarbúar geri sér grein fyrir því að skíðasvæðin í Bláfjöllum hefðu opnað í dag ef þar væri fullkominn búnaður til snjógerðar?  Búnaður og framleiddur snjór sem ekki hefði nein áhrif á vatnsverndarsvæði höfuðborgarsvæðisins!  Búnaður sem gæti tryggt skíðafæri fram á vormánuði?

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 1.11.2011 - 21:21 - 12 ummæli

Lebensraum og UNESCO

„Ísraelsk yfirvöld ætla að bregðast af hörku við þeirri ákvörðun Sameinuðu þjóðanna að veita Palestínu fulla aðild að UNESCO. Benjamin Netanyahu ákvað á fundi með ráðherrum ríkisstjórnar sinnar í dag að byggja 2.000 ný heimili fyrir landnema á Vesturbakkanum og í Austur-Jerúsalem.

Aðgerðirnar eru bein viðbrögð við ákvörðun SÞ, að því er fram kom í útvarpsfréttum í Ísrael í kvöld. Þá ætla ísraelsk yfirvöld að beita refsiaðgerðum með því frysta skattaendurgreiðslur til palestínskra yfirvalda. Var sú ákvörðun einnig tekin á fundi Netanyahu með 8 ráðherrum í dag.“  mbl.is 1.nóv.2011.

„So wie unsere Vorfahren den Boden, auf dem wir heute leben, nicht vom Himmel geschenkt erhielten, sondern durch Lebenseinsatz erkämpfen mußten, so wird auch uns in Zukunft den Boden und damit das Leben für unser Volk keine völkische Gnade zuweisen, sondern nur die Gewalt eines siegreichen Schwertes…“   Adolf Hitler. 1923.  Mein Kampf. S. 741.

„Damit ziehen wir Nationalsozialisten bewußt einen Strich unter die außenpolitische Richtung unserer Vorkriegszeit. Wir setzen dort an, wo man vor sechs Jahrhunderten endete. Wir stoppen den ewigen Germanenzug nach dem Süden und Westen Europas und weisen den Blick nach dem Land im Osten. Wir schließen endlich ab die Kolonial- und Handelspolitik der Vorkriegszeit und gehen über zur Bodenpolitik der Zukunft“ Adolf Hitler. 1923.  Mein Kampf. S. 742.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 1.11.2011 - 07:46 - 13 ummæli

Frítt handklæði!

„Ókeypis í sund fyrir alla og frí handklæði. Þetta er eitthvað sem allir ættu að falla fyrir og er það kosningaloforð sem við erum stoltust af“

Bezti flokkurinn. Stefnumál #10.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 31.10.2011 - 08:06 - 11 ummæli

Stjórnarslit í uppsiglingu?

Eftir landsfund VG læðist að manni sá „ótti“ að það séu stjórnarslit framundan. Nema Steingrímur J. ætli enn og aftur að vinna þvert gegn eigin stefnu. Eða Jóhanna að yfirgefa grundvallarstefnu Samfylkingarinnar. Annað hvort þarf að gerast ef ríkisstjórnin ætlar að lifa.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur