„“Talið var …“ og „Sagt er…“ er óþægilega oft grunnurinn að vafasömum fyrirsögnum og staðhæfingum í svokölluðum „úttektum“ DV – að ég tali ekki um Sandkorna. Formúlan er yfirleitt þessi: Hálf teskeið sannreyndra staðreynda. Bolli kjaftagangs af götunni (sem að hluta til getur verið réttur) 3 bollar orðagjálfurs þar sem gefið er í skyn eitthvað sem mögulega kannske er fótur fyrir en jafn oft staðlausir stafir, 3 bollar illkvitni, 1 bolli heimatilbúin vandlæting.“
Þessi athugasemd mín við „fréttaumfjöllun“ DV á dögunum varð til þess að nafn mitt prýðir hinn „vandaða“ dálk „Sandkorn“ í DV í dag. Ég hef reyndar um nokkurt skeið beðið eftir að DV „svaraði“ gagnrýni minni á slæleg og oft á tíðum óheiðarleg vinnubrögð blaðsins í umfjöllun um ýmsa athafnamenn og stjórnmálamenn.
Mér hefur oft og tíðum blöskrað algerlega vinnubrögð DV – og runnið blóðið til skyldunnar og gert athugasemdir við grófustu rangfærslurnar. Tók reyndar eitt sinn af handahófi saman nokkur dæmi um hrein ósannindi og misfærslur DV þar sem illfýsi frekar en sannleiksást var hvati „fréttaumfjöllunar“.
Það þola hinir skinheilögu DV menn illa og því var ekki spurningin hvort heldur hvenær DV reyndi að koma á mig höggi í Sandkorni. Höggið er reyndar sárameinlaust að þessu sinni – en blaðið beitir þó aðferð sem er í hávegum höfð þar á bæ – reynir að koma því inn hjá lesendum að annarlegar ástæður liggi að baki því að ég dirfist að gagnrýna óvönduð vinnubrögð blaðsins.
Staðreyndin er hins vegar sú að sem fyrrum blaðamaður og handhafi blaðamannaskírteinis #126 finnst mér blaðamenn DV setja svartan blett á blaðamannastéttina þegar þeir falla í þá gryfju að halda sig ekki við staðreyndir heldur flétta dylgjum og tilbúnum kjaftagangi inn í „fréttaumfjallanir“ sínar. Að ég tali ekki um fyrirsagnaleikinn þar sem ekkert samhengi er á milli sláandi fyrirsagnar og innihald „fréttarinnar“.
Ég veit að DV á ekki því að venjast að fólk óttist ekki ægivald blaðsins þegar höggva skal í „Sandkorni“ eða „fréttaskýringu“.
En ég er einu sinni þannig gerður að ég segi það sem mér finnst – hvort sem það kemur mér vel eða ekki. Ég mun því áfram gagnrýna óvandaðar „fréttaskýringar“ DV og ósannindi í „Sandkorni“ – þótt ég viti að verði til þess að næsta högg DV verði ekki eins saklaust og það sem er í „Sandkorni“ í dag.
Að lokum birti ég tengla á þrjá pistla sem ég hef skrifað á bloggi mínu vegna óvandaðrar blaðamennsku DV á tímabilinu 26. mars til 4. apríl – en þá missti ég þolinmæðina og ákvað að taka aðeins á DV bullinu. Pistlarnir eru í tímaröð:
„Illfýsi í garð Arnars og Bjarka“
Ég veit að DV sveið undan þessum pistlum – sem þeir eðli málsins geta EKKI hrakið frekar en athugasemd mína í inngangi þessa pistils – enda reynir Reynir það ekki.