Fimmtudagur 22.9.2011 - 09:24 - 31 ummæli

Þar kom DV hefndin!

„“Talið var …“ og „Sagt er…“ er óþægilega oft grunnurinn að vafasömum fyrirsögnum og staðhæfingum í svokölluðum „úttektum“ DV – að ég tali ekki um Sandkorna. Formúlan er yfirleitt þessi: Hálf teskeið sannreyndra staðreynda. Bolli kjaftagangs af götunni (sem að hluta til getur verið réttur) 3 bollar orðagjálfurs þar sem gefið er í skyn eitthvað sem mögulega kannske er fótur fyrir en jafn oft staðlausir stafir, 3 bollar illkvitni, 1 bolli heimatilbúin vandlæting.“

Þessi athugasemd mín við „fréttaumfjöllun“ DV á dögunum varð til þess að nafn mitt prýðir hinn „vandaða“ dálk „Sandkorn“ í DV í dag.  Ég hef reyndar um nokkurt skeið beðið eftir að DV „svaraði“ gagnrýni minni á slæleg og oft á tíðum óheiðarleg vinnubrögð blaðsins í umfjöllun um ýmsa athafnamenn og stjórnmálamenn.

Mér hefur oft og tíðum blöskrað algerlega vinnubrögð DV – og runnið blóðið til skyldunnar og gert athugasemdir við grófustu rangfærslurnar. Tók reyndar eitt sinn af handahófi saman nokkur dæmi um hrein ósannindi og misfærslur DV þar sem illfýsi frekar en sannleiksást var hvati „fréttaumfjöllunar“.

Það þola hinir skinheilögu DV menn illa og því var ekki spurningin hvort heldur hvenær DV reyndi að koma á mig höggi í Sandkorni.  Höggið er reyndar sárameinlaust að þessu sinni – en blaðið beitir þó aðferð sem er í hávegum höfð þar á bæ – reynir að koma því inn hjá lesendum að annarlegar ástæður liggi að baki því að ég dirfist að gagnrýna óvönduð vinnubrögð blaðsins.

Staðreyndin er hins vegar sú að sem fyrrum blaðamaður og handhafi blaðamannaskírteinis #126 finnst mér blaðamenn DV setja svartan blett á blaðamannastéttina þegar þeir falla í þá gryfju að halda sig ekki við staðreyndir heldur flétta dylgjum og tilbúnum kjaftagangi inn í „fréttaumfjallanir“ sínar. Að ég tali ekki um fyrirsagnaleikinn þar sem ekkert samhengi er á milli sláandi fyrirsagnar og innihald „fréttarinnar“.

Ég veit að DV á ekki því að venjast að fólk óttist ekki ægivald blaðsins þegar höggva skal í „Sandkorni“ eða „fréttaskýringu“.

En ég er einu sinni þannig gerður að ég segi það sem mér finnst – hvort sem það kemur mér vel eða ekki. Ég mun því áfram gagnrýna óvandaðar „fréttaskýringar“ DV og ósannindi í „Sandkorni“ – þótt ég viti að verði til þess að næsta högg DV verði ekki eins saklaust og það sem er í „Sandkorni“ í dag.

Að lokum birti ég tengla á þrjá pistla sem ég hef skrifað á bloggi mínu vegna óvandaðrar blaðamennsku DV á tímabilinu 26. mars til 4. apríl – en þá missti ég þolinmæðina og ákvað að taka aðeins á DV bullinu. Pistlarnir eru í tímaröð:

„Illfýsi í garð Arnars og Bjarka“

„Jákvæð hlið DV“

„DV elskar Finn Ingólfsson“

„Biður DV Finn afsökunnar“

Ég veit að DV sveið undan þessum pistlum – sem þeir eðli málsins geta EKKI hrakið frekar en athugasemd mína í inngangi þessa pistils – enda reynir Reynir það ekki.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 21.9.2011 - 07:27 - 19 ummæli

Bezta frjálslyndið?

Það hefur væntanlega komið mörgum á óvart að Guðmundur Steingrímsson og samstarfsmenn hans hafi átt í viðræðum við aðilja í Bezta flokknum, Næstbeztaflokknum. L-listanum á Akureyri og önnur óháð sveitarstjórnarframboð um stofnun nýs stjórnmálaflokks. En þegar nánar er skoðað eru þessar þreifingar ekki galnar.

Staðreyndin er nefnilega sú að innan þessara flokka er fjöldi frjálslynds fólks sem á fullt erindi í stjórnmál og hefur staðið sig afar vel í grasrótinni á sveitarstjórnarstiginu. Fólk sem klárlega vill breyta óæskilegum vinnubrögðum í pólitík.  Fólk sem getur orðið mikilvægur hlekkur í nýrri frjálslyndri stjórnmálahreyfingu á miðju íslenskra stjórnmála.

Það má ekki gleyma því að Bezti flokkurinn er miklu meira en Jón Gnarr!

Tíminn mun leiða í ljós hvort þessar þreifingar Guðmundar Steingrímsson verða til þess að það myndist öflug fjálslynd stjórnmálahreýfing með þátttöku hans og þessa fólks úr sveitarstjórnarmálunum.  Prófsteinninn á það er hvort frjálslynt fólk sem ekki hefur stutt ádeiluframboðin komi til liðs við þetta nýja stjórnmálaafl á landsvísu.

Það sem mun ráða úrlitum í því verða annars vegar málefnin og stefnan – verður hún frjálslynd, alþjóðleg, umburðarlynd og byggð á samvinnu?  Hins vegar hvort Jón Gnarr hefur þroska til þess að láta af látalátunum sem borgarstjóri. Ég hef reyndar trú á því að hann geri það – því hann hefur aðeins skánað að undanförnu.

Það verður spennandi að sjá þróun næstu vikna og mánaða. En eitt er ljóst. Fjórflokkurinn er þegar farinn að skjálfa.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 20.9.2011 - 11:55 - 34 ummæli

Þjóðaratkvæði að sjálfsögðu

Að sjálfsögðu á að leggja frumvarp Stjórnlagaráðs að stjórnarskrá fyrir íslensku þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu. Alþingi er ekki treystandi til að klára málið eitt og sér.

Það skiptir engu að þótt Stjórnlagaráð sé ekki lagatæknilega það Stjórnlagaþing sem upphaflega var lagt upp með þá hefur mikil og afar merkileg vinna farið fram innan Stjórnlagaráðs. Reyndar hafa vinnubrögðin verið til fyrirmyndar og mættu stjórnmálaflokkarnir læra ef þeim.

Umræðan var opin og upplýst auk þess sem öllum var gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.

Afurð Stjórnlagaráðsins liggur fyrir. Frumvarp til nýrrar stjórnarskrár. Nú er komið að þjóðinni að segja sitt álit í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þjóðin vill það ef marka má viðhorfskönnun þar sem 3/4 vill fá að greiða atkvæði um frumvarpið.

Ég spái því hins vegar að flokkshundarnir á Alþingi muni margir hverjir berjast af alefli gegn slíkri þjóðaratkvæðagreiðslu og gegn því að margar þær breytingar sem lagt er til að gerðar verði nái fram að ganga enda má ætla að ný stjórnarskrá dragi úr flokksræði og auki lýðræði.

Nú þegar hefur helmingur þjóðarinnar kynnt sér niðurstöðu Stjórnlagaráðs ef marka má skoðanakannanir. Reyndar ekki nema hluti hennar ítarlega  – en þetta sýnir áhuga almennings á að breyta stjórnarksránni.

Fyrir þá sem vilja kynna sér efni frumvarps Stjórnlagaráðs betur bendi ég á frábæra pistla Stjórnarráðsmannsins Gísla Tryggvasonar á Eyjunni – en Gísli skrifar skýringar sínar við hverja grein frumvarpsins – eina á dag.

Í dag skrifar hann um 50.gr. sem fjallar um hagsmunaskráningur Alþingismanna og vanhæfi.

Hætt er við að sumir þingmenn viljui sleppa því ákvæði þótt þjóðin sé því efalaust sammála – en ákvæðið er svohljóðandi:

Alþingismanni er óheimilt að taka þátt í meðferð þingmáls sem varðar sérstaka og verulega hagsmuni hans eða honum nákominna. Um hæfi þingmanna skal mælt fyrir í lögum. Vanhæfi þingmanns hefur ekki áhrif á gildi settra laga.

Í lögum skal kveðið á um skyldu alþingismanna til að veita upplýsingar um fjárhagslega hagsmuni sína.

Smellið hér til að nálgast pistla Gísla.   Pistlarnir eru skýrir og á mannamáli.

Smellið hér til að nálgast frumvarpið ásamt ítarlegum skýringum skrifstofu Stjórnlagaráðs með frumvarpinu.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 19.9.2011 - 17:54 - 5 ummæli

Bezti að styrkjast sem stjórnmálaafl

Bezti flokkurinn er að styrkjast og þróast sem stjórnmálasamtök og hefur alla burði til þess að verða áhrifamikið stjórnmálaafl til framtíðar – einn og sér – eða sem hluti nýrrar frjálsyndrar fylkingar sem gefur hefðbundnu leiðtogaræði í stjórnmálum langt nef.

Ágreiningur um vinnubrögð sem nú er að koma fram á sjónarsviðið er ekki vísbending um veikleika Bezta. Þvert á móti er um að ræða styrkleikamerki þeirra stjórnmálamanna innan flokksins sem vilja vera trúir því sem þeir lofuðu kjósendum sínum – ný og betri vinnubrögð í stjórnmálum.

Það kemur ekki á óvart að hinn annars ágæti leiðtogi Beztaflokksins hafi fallið í gryfju hefðbundinna leiðtoga stjórnmálaflokka og talið sig geta ákveðið – einn og sér – stefnuna og kynnt hana í björtu fjölmiðlaljósinu án samráðs. Á þeim nótum hóf hann vegferð sína í stjórnmálum.

En hins vegar mótaði hann – með öflugu fólki sem ekki hafði áður rekið þátt í stjórnmálum – það merkilega stjórnmálaafl sem Bezti flokkurinn og sambærilega sveitarstjórnarframboð eru.

Stórefnilegir stjórnmálamenn innan flokksins hafa nú staldrað við og gert athugasemdir við einræðisleg vinnubrögð leiðtogans. Því eins og ég hef sagt allt frá því fyrir borgarstjórnarkosningarnar þá er innan Bezta flokksins hópur fólks sem eiga mikið erindi í pólitík.

Þetta fólk á eflaust eftir að fá leiðtogann til að breyta kúrs og taka upp lýðræðislegri vinnubrögð. Auka upplýsingaflæði innan flokksins. Innleiða betri vinnubrögð í Bezta.

En það segir meira um þessa lofandi stjórnmálamenn en leiðtoga Bezta.

Best að setja punkt hér í bili …

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 17.9.2011 - 09:24 - 13 ummæli

Að heimta fé af fjalli

Það er einstök upplifun og alltaf jafn gefandi að heimta fé af fjalli. Að reka safnið síðasta spölinn heim að bæ er alveg sérstakt.  Náði síðustu kílómetrunum í smalamennskunni úr Hlíðarmúlanum og Oddastaðalandinu. Stóri  í dag þegar heimaafrétturinn í Hallkelsstaðahlíð verður smalaður.

Hnappadalurinn alltaf jafn fallegur – Geirhnjúkurinn gnæfir yfir hann í austri – Hlíðarvatnið nánast slétt – glittir í Tröllakirkju á Kolbeinsstaðafjalli yfir Heggstaðamúla Þverfell.  Sandfellið smart. Rauðamelskúlur í forgrunni og Ljósufjöll í bakgrunni í vestri.  Náttúruundrið Þríhellurnar – hinir stóru og fallegu berggangar í Hlíðarmúla fanga augað.  Hnúkarnir við suðvesturhorn Hlíðarvatnsins alltaf jafn flottir.

Veðrið frábært – og lofar góður fyrir göngurnar.

Það verður góður dagur í dag – og frábært að koma heim þreyttur með á annað þúsund fjár.

Svo verður dregið á morgun.

Þar á meðal væntanlega lífgimburinn Evra sem við félagarnir gáfum G Vald í 50 ára afmælisgjöf í vor. Hennar bíður að eyða ævinni í í Staumfirði og sjá G Vald og fjölskyldu fyrir sunnudagssteikinni.

Framtíð margra annarra lamba er að lenda á diski okkar Íslendinga – og sumra að verða étin af íbúum Evrópusambandsins!

Það er mikið tækifæri fyrir íslenskan sauðfjárbúskap ef við göngum í Evrópusambandið. Þar eru markaðir sem tryggja að þessu þúsund ára hefð okkar Íslendinga – göngur og réttir – mun lifa um ókomna tíð.

Já, það verður góður dagur í dag!

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 16.9.2011 - 08:03 - 6 ummæli

Frjálslyndir sigurvegarar í Danmörku

Hinir frjálslyndu Radikale Venstre eru sigurvegarar dönsku kosninganna en stórsigur þeirra varð til þess að hið svokallaða Rauða bandalag felldi ríkisstjórnina og ruddi hinum glæsilega leiðtoga jafnaðarmanna Helle Thorning brautina að forsætisráðherraembættinu.  Án sigurs Radial Venstre hefði ríkisstjórnin ekki fallið.

Stórsigur Radikal Venstre er ákaflega mikivægur fyrir dönsk stjórnmál því hann tryggir frjálslyndar áherslur í nýrri ríkisstjórn sem mótvægi við hinn vinstrisinnaðar flokk Enhedspartiet sem einnig vann stórsigur. En sá sigur byggði fyrst og fremst á tilflutningi atkvæða yst á vinstri væng danskra stjórnmála þar sem Sósíalíski þjóðarflokkurinn systurflokkur VG  hrundi.

Það vekur einnig athygli að Venstre flokkur fráfarandi forsætisráðherra sem einnig er hluti hreyfingar evrópskra frjálslyndra flokka bætir við sig manni þrátt fyrir að hafa leitt miðhægri ríkisstjórn í Danmörku í áratug. 

Það var kominn tími á stjórnarskipti í Danmörku. Það var tími kominn til að binda endi á setu hins ofurþjóðernissinnaða Danska þjóðarflokks í ríkisstjórn Danmerkur – en þátttaka þeirra í fráfarandi ríkisstjórn sló skugga á frjálslyndar áherslur innan Venstre – sem leiddi þá ríkisstjórn.

Norðmenn höfnuðu þjóðernisöfgum og sóttu inn á hina frjálslyndu miðju í kosningum til sveitarstjórnar í síðustu viku.  Danir snúa nú baki við þjóðernisöfgum og styrkja hina frjálslyndu miðju.

Nú þurfa Íslendingar að fá tækifæri til þess að feta í fótspor frænda sínna í austri – hafna þjóðernisöfgum og styrkja hina frjálslyndu miðju. Hvaða stjórnmálasamtök sem munu verða staðsett þar í næstu Alþingiskosningum.

PS. Ég hafði boðað pistil þar sem ég skýri möguleika búseturéttarkerfisins í kjölfar tveggja pistla sem þegar hafa birst um húsnæðismál „Félagslegur misskilningur Jóhönnu“ og „Búseturéttur er rétta leiðin“ .  Húsnæðispistillinn mun birtast á næstu dögum.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 15.9.2011 - 07:48 - 14 ummæli

Búseturéttur er rétta leiðin

Kröftug uppbygging búseturéttarkerfis þar sem samhliða er boðið upp leiguleið innan húsnæðissamvinnufélaga á borð við Búseta og Búmenn ætti að vera meginstefið í húsnæðisstefnu stjórnvalda.

Fjölbreyttir raunverulegir valkostir í húsnæðismálum innan almenns húsnæðiskerfis þar sem ekki er ýtt undir stéttaskiptingu með sértæku „félagslegu“ húsnæði er sú framtíðarsýn sem flestir ættu að geta komið sér saman um.

Núverandi ofuráhersla sem núverandi stjórnarflokkar leggja á uppbyggingu lítt skilgreinds leiguhúsnæðs   – að ég tali ekki um „félagslegt“ leiguhúsnæði – er röng.

Sú ofuráhersla er ekki til þess að byggja upp fjölbreytni og raunverulegt val auk þess sem hugmyndir um „félagslegt“ húsnæði ýtir undir sjáanlega stéttaskiptingu á Íslandi.

Íslenska húsnæðiskerfið á að byggja á eðlilegu jafnvægi milli búseturéttarleiðar, eignarleiðar og leiguleiðar.  Íslenskur almenningur á að hafa raunverulegt val um þessar þrjár leiðir.

Húsnæðisstefna undanfarinna áratuga hefur fyrst og fremst byggst á leið eigin húsnæðis.  Síðastliðinn áratug hefur jafnframt verið lögð áhersla á uppbyggingu skipulags leiguhúsnæðis með misjöfnum árangri.

En heilbrigð búseturéttarleið sem í raun getur uppfyllt þarfir alls almennings hefur setið á hakanum. Það er miður því búseturéttarleiðin getur hentað öllum. Hátekjufólki, fjölskyldum í lægri tekjuhópum, öldruðum, stúdentum og fólki með sértækar þarfir eins og hreyfihömluðum.

Búseturéttaformið er rekið í lýðræðislegum húsnæðissamvinnufélögum eins og Búseta og Búmönnum.  Það er ekkert því til fyrirstöðu að innan slíkra húsnæðissamvinnufélaga verði jafnframt boðið upp á leiguleið fyrir þá sem það kjósa.

Því getur kröftug uppbygging húsnæðissamvinnufélaganna tryggt eðlilegt jafnvægi í húsnæðismálum.

Það sem betra er – stuðningur ríkisins við uppbyggingu húsnæðissamvinnufélaga – þar sem megináhersla er lögð á búseturétt  en jafnframt tryggð örugg leiguleið fyrir þá sem það kjósa – brýtur ekki gegn ákvæðum EES samningsins. En Eftirlitsstofnun EFTA hefur hins vegar gert athugasemdir við núverandi fyrirkomulag lána Íbúðalánasjóðs.

Með kröftugri uppbyggingu samfélagslegra og lýðræðislegra húsnæðissamvinnufélaga sem rekin eru með sjálfbærni en ekki ofurhagnað að leiðarljósi næst eftirsóknarvert jafnvægi milli núverandi ríkjandi eignarhúsnæðisleiðar, búseturéttarleiðar og leiguleiðar.

Nánar um fjölbreytta möguleika búseturéttarkerfis fyrir alla í næsta pistli.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 14.9.2011 - 08:56 - 10 ummæli

Félagslegur misskilningur Jóhönnu

Um áratuga skeið hefur Jóhanna Sigurðardóttir og fylgismenn hennar lagt áherslu á sértækt „félagslegt“ húsnæði og gefið í skyn að fyrirmynd slíks ´“félagslegs“ húsnæðis sé úr „norræna velferðarkerfinu“.  Þetta er rangt. Það sem verra er þá er Jóhanna og fylgismenn hennar ennþá föst í ranghugmyndinni um „sértækt“ félagslegt húsnæði.

Það sem ennþá verra er er að Jóhanna og fylgismenn hennar eru nú á rangri vegferð í viðleitni sinni til þess að tryggja láglaunafólki „sértækt félagslegt húsnæði“ – vegna misskilnings. Slíkt kerfi byggir á hugmyndinni um stéttaskipt samfélag en ekki frjálslynt samfélag samvinnu og jafnaðarmennsku.

En það jákvæða er að Jóhanna og fylgismenn hennar hafa ráðrúm til að leiðrétta kúrsinn og byggja upp heilbrigt húsnæðiskerfi þar sem markmiðum um að tryggja láglaunafjölskyldum tryggt og öruggt húsnæði á bestu mögulegu kjörum innan almenna húsnæðiskerfisins.

Það sem betra er er að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttir hefur lagt mikilvægan grunn að því að unnt sé að byggja upp slíkt heilbrigt almennt húsnæðiskerfi með stefnumótun um nýtt húsnæðisbótakerfi sem taki við af núverandi vaxtabótakerfi.

Ólíkt því sem Jóhanna og fylgismenn hennar halda – þá er fyrirmynd sértæks „félagslegs húsnæði“ sótt í stéttskipt samfélög Bretlands og Bandaríkjanna en ekki norræn velferðarsamfélög. 

Þannig hefur Jóhanna ýtt undir sýnilega stéttaskiptingu á Íslandi með því að skilgeina tekjulágar fjölskyldur sem „félagslegar“ og þannig ýtt undir hugmyndina um að tekjulágar fjölskyldur séu „félagslegt  vandamál“ – þótt það hafi ekki verið ætlun Jóhönnu sem ég ætla að hafi rekið þessa stefnu í góðri trú.

Norræna velferðarleiðin í húsnæðismálum hefur – þvert á móti leið Jóhönnu – verið að byggja upp öflugt ALMENNT húsnæðiskerfi þar sem þörfum tekjulágra fjölskyldna hefur verið fullnægt við hlið þeirra fjölskyldna sem betur hafa staðið fjárhagslega. 

Ef við lítum til Svíþjóðar – þá er hið stóra og öfluga leiguíbúðakerfi þar kallað „almannanyttiga bostader“ – enda er það almennt leiguíbúðakerfi sem rúmar tekjulágar fjölskyldur. Í Danmörku er talað um „almene boliger“.  Ástæðan er einföld. Það eru engin tekjuviðmið sem stýra búsetu í þessum öflugu húsnæðiskerfum. Tekjujöfnunin fer gegnum húsnæðisbótakerfið.

Leið Páls á Höllustöðum með viðbótarlán til tekjulágra fjölskyldna í stað þess að byggja upp sértækt „félagslegt húsnæði“ var viðleitni til þess fara þessa norrænu velferðarleið – enda fyrirmyndin sótt til Noregs.

Hugmyndin var að lánið væri „félagslegt“ og að tekjulágar fjölskyldur byggju í bland við betur stæðar fjölskyldur. Leið Páls byggði  hins var á því að leysa vanda tekjulágra fjölkyldna innan eignarhúsnæðiskerfisins – enda var það stefna þeirrar ríkisstjórnar sem hann sat í að viðhalda hefðbundnu kerfi eigin húsnæðis.

Í dag eru flestir sammála um að of mikil áhersla hafi verið lögð á eigið húsnæði og farsælast sé að auka fjölbreytni húsnæðiskerfisins.

En því miður virðist Jóhanna og fylgismenn hennar vera á leið stéttskiptingar „félagslegs“ húsnæðis. Öll umræða miðar að stórkostlegri uppbyggingu á ódýru leiguhúsnæði – lesist „félagslegu“ leiguhúsnæði. Alþingismenn og borgarfulltrúar tala eins og kostnaður við byggingu húsnæðis minnki – einungis með því að kalla húsnæðið „félagslegt“. 

Hugmyndir eru á lofti um óskilgreinda tegund opinbers eða hálfopinbers leiguíbúðakerfis – og varað er við rekstri leigufélaga í hlutafélagsformi. Nú á allt að vera „leigu“ og „félagslegt“ og „ódýrt“.  Síðan er skeytt við „að norrænni fyrirmynd“ – þótt sú norræna fyrirmynd sé ekki skýrð nánar.

Þessi ofuráhersla á uppbyggingu leiguíbúðakerfis er röng.  Ofuráhersla á uppbyggingu leiguhúsnæðis er jafn hættuleg og ofuráherslan á uppbyggingu eiginhúsnæðisstefnuna.

Við eigum að byggja upp blandað kerfi eigin húsnæðis, búseturéttarhúsnæðis og leiguhúsnæðis.

Við eigum EKKI að byggja „félagslegt“ húsnæði. Við eigum að byggja „samfélagslegt“ húsnæði með fjölbreyttum valkostum fyrir fjölskyldurnar í landinu. Valkostum sem byggja á mismunandi formi sem rúma alla – ekki stéttskipt húsnæðisform „félagslegs“ húsnæðis.

Félagslegur stuðningur til að takast á við húsnæðiskostnað á að koma gegnum almennt húsnæðisbótakerfi sem gerir ekki greinarmun á búsetuformi. Þar er Jóhanna og fylgismenn hennar á réttri leið með stefnumörkun um upptöku slíks húsnæðisbótakerfis sem á að taka við af vaxtabótakerfinu sem er skilgetin afurð eignarstefnunnar.

Framtíðarhúsnæðiskerfið á að byggja á eigin húsnæði, búseturéttarhúsnæði og leiguhúsnæði fyrir alla.  Það á ekki að aðskilja búseturéttarhúsnæði og leiguhúsnæði – heldur á að reka búseturéttarleiðina og leiguleiðina innan þekkts norræns húsnæðisforms – húsnæðissamvinnufélaga. Meira um það á næstu dögum.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 13.9.2011 - 08:24 - 12 ummæli

Tími öfgastjórnmála liðinn

Tími öfga í stjórnmálum Noregs er liðinn. Það kom afar skýrt fram í norsku sveitarstjórnarkosningunum. Sigurvegarar kosninganna eru hófsamir flokkar sitt hvoru megin við miðju auk þess sem hefðbundnu miðflokkarnir halda sínu. Hinn öfgafulli Framskrefsflokkur geldur afhroð og það sama má segja um Vinstri sósíalistaflokkinn sem er lengst til vinstri í norskum stjórnmálum.

Sama þróun á eftir að verða á Íslandi. Hin frjálslynd miðja er í stórsókn. Krafa um ný vinnubrögð – já, ný vinnubrögð í alvöru ekki í þykjustunni – er krafa dagsins.

Ég spái því að Sjálfstæðisflokkurinn muni breyta kúrs og halda inn á hina frjálslyndu miðju. Þá miðjusókn mun Hanna Birna væntanlega leiða með kröfuna um ný samvinnustjórnmál – samvinnustjórnmál sem hún vann eftir sem borgarstjóri í Reykjavík.

Samfylkingin mun einnig sækja inn á hina fjrálslyndu miðju. Árni Páll Árnason lagði um helgina skýra línu um sína framtíðarsýn um að þangað ætti Samfylkingin að fara. Björgvin G. hefur einnig lagt áherslu á það. Össur er þar staðsettur.

Þá er að myndast nýtt frjálslynt stjórnmálaafl á miðju stjórnmálanna þar sem meðal annars öflugt fólk sem kemur úr Framsóknarflokknum er að taka sér stöðu. Þá er stór hluti efnilegustu stjórnmálamanna hinna nýju andófsfarmboða í raun og veru frjálslynt miðjufólk.

Spurningin er bara hvort Framsóknarflokkurinn breytir núverandi vegferð sína og heldur á ný átt að frjálslyndinu.

Vinstri grænir komast ekki inn á hina frjálslyndu miðju – fortíðar sinnar vegna.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 12.9.2011 - 08:40 - 40 ummæli

Skynsemin ræður!

Skynsemin ræður hjá meirihluta íslensku þjóðarinnar sem vill halda áfram með aðildarviðræður Íslands að Evrópusambandinu. Þótt meirihluti íslensku þjóðarinnar sé um þessar mundir með efasemdir um að rétt sé að ganga í Evrópusambandið þá vill skýr meirihluti sjá endanlegan aðildarsamningi til þess að taka endanlega afstöðu.

Það er fullkomlega eðlilegt að hafa efasemdir um að rétt sé að ganga í Evrópusambandið – ekki síst á þeim umbrotatímum sem nú eru í alþjóðlegu efnahagslífi sem að sjálfsögðu hefur sett sitt mark á Evrópusambandið og evruna.

Það hefur ekki farið fram hjá lesendum mínum að ég er mikill talsmaður aðildarviðræðna og að ég vil að þjóðin taki afstöðu til aðildar að Evrópusambandinu eða aðild ekki í þjóðaratkvæðagreiðslu þegar aðildarsamningur liggur fyrir. Ég hef sjálfur ítrekað sagt að þá muni ég taka endanlega afstöðu til aðildar eða aðildar ekki.

Það er ljóst að meirihluti íslensku þjóðarinnar er á sömu skoðun. Vill láta skynsemina ráða – sjá hverjar niðurstöður aðildarviðræðna verða – og taka þá endanlega afstöðu í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Gallharður minnihlutahópur á ekki að komast upp með að taka þann rétt af íslensku þjóðinni. Þjóðinni er nefnilega treystandi!

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur