Miðvikudagur 17.8.2011 - 20:04 - 25 ummæli

Verðtrygging forsenda ISK!

… undarleg tilviljun að sjálfskipaður talsmaður fjárfesta skuli telja að hæpin útreikningur vísitölu sem ekki á sér trygga stoð í lögum sé bæði lögleg og réttlát 🙂

… sami ríkisstarfsmaður og hvatti fólk til að taka gjaldeyrislán og var 100% viss um að slík lán væru lögleg 🙂

 ‎… en hann hefur rétt fyrir sér þegar hann bendir á að einhverskonar verðtrygging er forsenda þess að við höldum ISK.

… en málið snýst ekki um það á þessari stundu – heldur hvort verðtryggð lán hafi verið rétt reiknuð.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 17.8.2011 - 09:08 - 6 ummæli

Formannstól frekar en sannfæringu!

Það sést alla leið frá Brussel að Bjarni Benediktsson hefur „skipt um skoðun“ í afstöðu sinni til mögulegrar inngöngu Íslands í Evrópusambandið fyrst og fremst til að halda í valdastól sinn sem formaður Sjálfstæðisflokksins. 

Það duldist engum að þegar Bjarni Ben hóf feril sinn sem formaður að þá var hann afar jákvæður fyrir aðildarviðræðum að Evrópusambandinu og að hann vildi sjá niðurstöðu slíkra viðræðna áður en hann tæki endanlega afstöðu til aðildar að Evrópusambandinu eða aðildar ekki.

Eins og að líkindum stór hluti Íslendinga þótt um þessar mundir sýni skoðanakannanir að meirihluti Íslendingar telji sig ekki munu samþykkja aðild að Evrópusambandinu. Enda ekki komin niðurstaða í aðildarviðræður til að taka afstöðu til.

Bjarni Ben varð hins vegar fyrir miklu áfalli á síðasta Landsfundi Sjálfstæðisflokksins þegar gallharður minnihluti harðra andstæðinga aðildarviðræðna að Evrópusambandinu sprengdi þá sáttaleið sem Bjarni Ben hafði lagt upp með tillögu að ályktun í Evrópumálum sem bæði andstæðingar aðildarviðræðna og fylgjendur aðildarviðræðna innan Sjálfstæðisflokks hefðu átt að geta sætt sig við.

En hinir stæku andstæðingar Evrópusambandsins náðu fram ályktun gegn Evrópusambandinu.

Viðbrögð Bjarna Ben voru svo sem eðlileg. Hann sem formaður Sjálfstæðisflokksins gat ekki gengið gegn ályktun landsfundar í Evrópumálum – þótt formenn og þingmenn sumra annarra flokka hafi þótt lítið mál að ganga gegn Evrópuályktunum sinna flokka. Þess vegna dró hann sig inn í skelina og hóf að reka einhvers konar „ekki tímabært að hefja aðildarviðræður“ stefnu.

Nú þegar Landsfundur Sjálfstæðisflokksins er framundan og ljóst að meirihluti Sjálfstæðismanna er orðinn harðari gegn aðildarviðræðum að Evrópusambandinu – enda sterkum lykilmönnum í Sjálfstæðisflokknum tekist að telja flokksmönnum trú um að stuðningur við aðildarviðræður sé það sama og stuðningur við Samfylkinguna – þá sér Bjarni Ben sitt óvænna og herðir á andstöðu sinni við aðildarviðræður. 

Nú segist Bjarni Ben vera orðinn harður andstæðingur aðildarviðræðna að ESB og inngöngu í ESB. Þannig hyggst hann tryggja stöðu sína sem formaður – því Bjarni Ben vissi vel að hinir hörðu og reyndu pólitísku refir sem leiða stæka andstöðu við ESB innan Sjálfstæðisflokksins myndu ekki veigra sér við að hjóla í sig ef þeir töldu hann

Jafnvel kann Bjarni Ben hafa  óttast að silfurrefurinn gamli kæmi fram á sjónarsviðið og hirti formannsstólinn á ný!

Þess vegna yfirgaf Bjarni Ben endanlega fyrri sannfæringu sína um að kanna ætti kosti Íslands við inngöngu í Evrópusambandið – og mun endanlega ganga inn í hóp stækra andstæðinga Evrópusambandsins á næsta Landsfundi.

Spurningin er – nægir það Bjarna Ben til að festa sig í sessi í formannsstólnum til framtíðar?  Munu gömlu refirnir sætta sig við formann til lengri tíma sem ekki er staðfastari á eigin skoðunum en Bjarni Ben hefur sýnt? Verða þeir saddir og ánægðir yfir því að hafa formann Sjálfstæðisflokksins í vasanum og get stýrt honum – eða leita þeir að sterkum og staðföstum foringja fyrir þarnæsta Landsfund?

Það verður tíminn að leiða í ljós.

En það mun á Landsfundinum væntanlega losna um flokksbönd margra Sjálfstæðismanna sem hafa þá sannfæringu að klára skuli aðildarviðræður að Evrópusambandinu og taka afstöðu til aðildarsamnings þegar þar að kemur – að ég tali ekki um þá Sjálfstæðismenn sem hafa þegar tekið afstöðu og vilja í Evrópusambandið.

… það gæti því molnað úr Sjálfstæðisflokknum – enda mögulega framundan hrun 100 ára flokkakerfis!

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 16.8.2011 - 19:39 - Rita ummæli

Uppgefið leiguverð of lágt

Uppgefið leiguverð á íslenskum íbúðamarkaði er afar oft miklu lægra en raunverulegt leiguverð.  Ástæðan er annars vegar glórulaus skattastefna ríkisins og hins vegar glórulaus viðmiðun leigubóta samhliða afnámi vaxtabóta ef eigendur húsnæðis búa ekki í eigin íbúð.

Það er afar algengt að þinglýstir leigusamningar hljóði upp á fjárhæð sem dugi til þess að leigjandi fái greiddar fullar húsaleigubætur. Leigufjárhæðin sem er umfram þá fjárhæð er síðan greidd svört – eins og í gamla daga.

Ástæðan er sú að með 100% hækkun skatts á leigutekjur úr 10% í 20% fer verulega að muna um skattgreiðslurnar auk þess sem leigutekjur geta orðið til þess að eigandi leiguíbúðarinnar hækki um skattþrep vegna leigutekna. Þá er það betra fyrir leigjandan að greiða hluta leigunnar svart í stað þess að greiða hærri leigu sem nemur aukinni skattheimtu ríkisins.

Þá er ákveðnum hluta leigusamninga ekki þinglýst þar sem um er að ræða leigu á eigin húsnæði og þinglýsing verður til þess að sá sem leigir frá sér íbúð – mögulega til að standa undir stökkbreyttum lánum – missir vaxtabætur sem lúta allt öðrum lögmálum en húsaleigubótum.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 16.8.2011 - 01:10 - 12 ummæli

Beztafólkið að byrja í pólitík!

Ég er þess fullviss að hluti þess ágæta fólks sem ætlaði sér aldrei inn á pólitíska sviðið en gerði það í ádeilduframboði Bezta flokksins og sambærilegra framboða víða um land er rétt að byrja í pólitík!

Það sem meira er – ég tel að í röðum þessa fólks sé að finna finna stjórnmálamenn sem eiga eftir að láta mikið að sér kveða í næst árum og eiga eftir að breyta íslenskum stjórnmálum.

Vonandi til hins betra.

Það voru ekki margir sem töldu að Jón G. Kristinsson myndi gerbreyta hinu pólitíska landslagi í borgarstjórn Reykjavíkur þegar hann kom fram í útvarpi og sagðist ætla að verða borgarstjórinn í Reykjavík. En hann og samstarfsfólk gerði það samt – þökk sé lýðræðinu sem við eigum að verja með kjafti og klóm – þótt okkur finnist niðurstöður kosninga ekki alltaf gáfulegar!

Það vita það flestir sem fylgst hafa með pistlum mínum að mér finnst Jón G. Kristinsson ekki hafa staðið sig sem skyldi sem borgarstjóri – ég hafði miklu meiri væntingar til hans. Finnst hann hafa brugðist í pólitík þótt hann klikki ekki í sífelldum listgjörningi sínum.

En þeir sem hafa fylgst með pistlum mínum – og ekki gersamlega misst sig þegar ég hef gagnrýnt Jón G. Kristinsson borgarstjóra – vita einnig að ég hef mikið álit á mörgu samflokksfólki Jóns G. Kristinssonar í Bezta flokknum.

Ég hef fylgst með þessum nýju stjórnmálamönnum – bæði í Bezta og í sambærilegum ádeiluframboðum sem náðu árangri. Enda hefðbundið 100 ára flokkakerfi að hrynja eins og ég hef oft bent á.

Og ég verð að segja mér finnst ákveðinn hluti þess fólks nákvæmlega það sem ég hef verið að vonast til að sjá á sjónarsviðinu.

Frjálslynt fólk sem leggur sig fram við að vinna hugmyndum sínum framgang með hag almennings að leiðarljósi.

Frjálslynt fólk sem lætur ekki hefðir og valdakerfi stöðva sig í því sem það vill koma á framfæri.

Frjálslynt fólk sem ég væri svo mikið reiðubúinn að vinna með í pólitík – ef ég væri ekki hættur í pólitík 🙂

Ég er þess fullviss að vænn hluti þess ágæta fólks sem ætlaði sér aldrei inn á pólitíska sviðið en hefur verið að ganga gegnum eldskírn sína í stjórnmálum á undanförnum mánuðum mun taka þátt í því nýja frjálslynda stjórnmálafli sem óhjákvæmilega mun myndast á Íslandi á næstu mánuðum eða misserum.

Frjálslyndu stjórnmálaafli þar sem mun sameinast sá mikli og ferski kraftur fólks sem aldrei ætlaði í pólitík en Jón G. Kristinsson dró inn á stjórnmálasviðið, sá mikli kraftur og dýrmæta reynsla sem frjálslynt fólk sem hefur og mun segja skilið við 100 ára flokkakerfi og  vinna í þágu þjóðar en ekki sérhagsmuna hefur fram að færa, og sá mikli kraftur sem frjálslynt fók í samfélaginu sem hingað til hefur einungis verið áhorfandi að stjórnmálum.

Frjálslynt afl sem 100 ára flokkakerfi óttast mest af öllum – með réttu!

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 14.8.2011 - 16:10 - 4 ummæli

Lögga á nærbuxunum!

Lögreglan hefur nú verið án samninga í 255 daga. Það er ólíðandi. Endurbirti af því tilefni pistil minn um málefni lögrelgunnar frá því 2.desember 2010 – Lögga á nærbuxunum!  Það hefur nefnilega ekkert breyst frá því þá!
„Ég gleymi aldrei þegar Grana löggu var sagt upp í Spaugstofunni og sendur heim á nærbrókinni einni saman vegna fjárskorts lögreglunnar. Það var fyrir hrun – í mars 2008. Þetta gráa gaman var á þeim tíma háalvarleg vísbending um það ófremdarástand sem þá var að skapast hjá íslensku lögreglunni vegna fjárskorts.
 
Síðan þá hefur enn verið gengið á lögregluna með óhóflegum niðurskurði. Á sama tíma og lögreglan hefur staðið í ströngu. Sýndi hetjudáð með faglegum vinnubrögðum og æðruleysi í búsáhaldabyltingunni í samstarfi við flesta mótmælendur. Þurftu samt að standa undir eggjakasti og hastarlegum árásum lítils hóps heigla sem huldu andlit sín og réðust með hörku að lögreglu.
 
Þarna stóðu þessir lögreglumenn – með skuldir sínar og brostnar vonir í persónulega lífinu – æðrulausir og gerðu skyldu sína með staðfastri en hóflegri löggæslu.
 
Og það þrátt fyrir að héraðsdómur hefði stuttu áður sýknað árásarmenn sem gengu í skrokk á óeinkennisklæddum lögreglumönnum sem ætluðu að handtaka meinta fíkniefnasala og gerðu grein fyrir stöðu sinni sem lögreglumenn – af kærum fyrir árás á valdstjórnina – lesist lögregluna.
Ég var á þeim tíma afar ósáttur með það skotleyfi sem héraðsdómur gaf óbeint á lögregluna með þeim dómi – þótt ég sé frekar á því að menn eigi að njóta vafans í sakamálum en að vera dæmdir að ósekju. 

Staða löggæslumanna veiktist við þetta – og þegar launin eru of lág – þá spáði ég því að við myndum til lengri tíma missa bestu mennina úr lögreglunni. Kjarnan úr lögreglunni sem vann þjóð sinni svo mikið gagn með faglegum og hóflegum viðbrögðum á örlagatímum.

Lögreglumönnum hefur fækkað. Lögregluliðið er að missa marga hæfa starfsmenn. Menn flýja álagið. Menn flýja ofbeldið sem þeir eru beittir. Og menn flýja launin þrátt fyrir slakt ástand á vinnumarkaði.

Hvort sem okkur líkar það betur eður verr þá verðum við að auka fjárframlög til lögreglunnar. Það dugir skammt að verja grunnþætti velferðarþjónustunnar, heilbrigðiskerfisins og menntakerfisins ef óöld skapast þar sem löggæslan er í molum. 

Við eigum góða og faglega lögreglu – en slík lögregla er ekki sjálfgefin. Það höfum við séð í ríkjum víða um heim.

Fagleg og öflug lögregla sem vinnur á grunni þess lýðræðis sem við byggjum samfélag okkar á er einn af hornsteinum samfélagsins. Þessi hornsteinn er að molna þar sem lögreglumenn eru hreint og beint að gefast upp vegna of mikils álags og allt of lágra launa.

Við verðum að hafa skilning á því að löggæslan kosti peninga – og ríkisvaldið verður að halda uppi faglegri lögreglu. Ríkisstjórn og Alþingi verða að gera sér grein fyrir þessari staðreynd.

Það verður að tryggja fjármagn til faglegrar löggæslu og það verður að tryggja lögreglumenn fyrir áföllum í starfi. Annars blasir ekki einungis við efnahagslegt hrun – heldur samfélagslegt hrun!

Árið 2008 var Grani lögga á nærbuxunum vegna sparnaðar. Ekki láta Grana löggu koma fram nærbuxnalausan árið 2011. Stöndum við bak faglegrar lögreglu á Íslandi.“

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 13.8.2011 - 21:12 - Rita ummæli

…í Súdan og Grímsnesinu

Þegar rætt er um Súdan kemur fyrst upp í hugan áralöng borgarastyrjöld, morð og ótrúleg grimmd – sem vonandi fer að minnka nú þegar friðarsamningar hafa náðst og nýtt ríki Suður-Súdan er að skapast.

Það var því nánast frelsandi að horfa á þátt Al-Jazeera um tónlist í Súdan.

Fallega og fjölbreytta tónlist sem unun var að hlusta á.

Sumir textarnir og lögin hefðu getað verið flutt á Omega sem kristin tónlist – einungis ef orðinu „Allah“ hefði verið skipt úr fyrir orðið „God“ eða „Jesus“. Boðskapurinn var sá sami.

Aðrir textar og lög voru veraldlegri. Fjölluðu um ástina, fjölskylduna, von um góða framtíð – og börnin!

Í stað þeirrar sorgar sem fréttir frá Súdan undanfarinna ára af hafa kallað fram vegna blóðugs ofbeldis og hundursneyða af mannlegum völdum – þá kallaði þátturinn og tónlistin fram von!

… og þá rifjaðist upp eitt af mannlegustu ljóðum Íslandssögunnar – orð Tómasar:

„Mér dvaldist við hennar dökku fegurð.
Samt dáðist ég enn meir að hinu,
hve hjörtum mannanna svipar saman,
í Súdan og Grímsnesinu.“

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 12.8.2011 - 19:55 - 33 ummæli

Lögreglufjáröflun Gnarrs í Víkinni

Framundan er væntanlega lögreglufjáröflun í boði Jóns borgarstjóra  í Víkinni. Disneymót Víkings og Arionbanka verður haldið á morgun.  800 til 900 börn 8 ára og yngri munu keppa. Líkur eru á að foreldrar og vinir hvaðan æfa að vilji koma og fylgjast með.

En þar sem einungis 60 lögleg bílastæði eru við Víkina – og Jón borgarstjóri vill ekki setja upp einföld bráðabirgðastæði á grasflötum kring um Víkina – þá er það næsta víst að einhverjir munu leggja ólöglega til að svíkja ekki börnin sín um að fylgjast með fótboltaleiknum.

Í ljósi reynslunar má búast við lögreglugeri með sektablokkina á lofti sækja í bíla ættingja barnanna – svona eins og mávagerið á Tjörninni sækir í brauðið sem ætlað er öndunum.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 12.8.2011 - 11:46 - 7 ummæli

Embættismannaveldi Borgarinnar

Uppbygging stjórnskipulags Reykjavíkurborgar er á þann veg að í stað virks lýðræðislegs skipulags er hætta á öflugu embættismannaveldi. Þessi hætta eykst ef borgarstjóri er ekki öflugur stjórnandi og borgarstjórnin veik.

Ástæða þessa er sú að sviðsstjórar borgarinnar heyra stjórnskipulega beint undir borgarstjóra og þurfa einungis að standa skil á gerðum sínum gagnvart honum – ekki gagnvart formönnum þeirra fagráða og fagnefnda sem sviðsstjórarnir starfa með.

Að sjálfsögðu gera menn ráð fyrir því að samstarf fomanna fagráða og sviðsstjóra sé gott og að sviðsstjóri vinni alfarið í takt við fagráðin. Að sjálfsögðu er það yfirleitt þannig. En ef skerst í odda þá er leið fagráðanna og formanna þeirra ekki bein. Leiðin er – ef sviðsstjóri stendur fast á sínu í andstöðu við fagnefnd –  gegn um borgarráð, borgarstjórn og þaðan gegnum borgarstjóra að sviðsstjóra.

Það þarf þrautsegju fyrir meðlimi fagnefnda og formanna þeirra að fylgja áherslum sínum eftir alla þessa leið ef sviðsstjóri hunsar vilja ráðsins.

Það er miklu einfaldara fyrir nefndarmenn og formann raða að láta undan og gefa sviðsstjórum frítt spil.

Ég er ekki segja að þannig sé það – en stjórnskipulega er hætta á því. Sérstaklega ef borgarstjóri – yfirmaður sviðsstjóra er veikur stjórnandi.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 11.8.2011 - 19:42 - 5 ummæli

Möllerinn að meika það!

Því fór fjarri að ég væri stuðningsmaður Kristjáns Möllers þegar hann var samgönuráðherra. Reyndar gagnrýndi ég hann oft mjög hart. En nú er Möllerinn að meika það. Eini stjórnarliðinn sem þorir að segja það sem þarf að segja og benda á það sem þarf að gera.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 11.8.2011 - 11:26 - 20 ummæli

Stjórnarskrárfrumvarp skýrt

Það er til fyrirmyndar hvernig Gísli Tryggvason stjórnlagaráðsmaður skýrir á bloggi sínu hverja einustu grein tillögu stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá. Þótt skýringar fylgi tillögu stjórnlagaráðs þá eru þær ekkert allt of aðgengilegar fyrir almenning.  Því er framtak Gísla vel þegið.

Hvet fólk til að lesa daglega pistla Gísla – en hann hyggst skrifa um allar greinar tillögu stjórnlagaráðs að stjórnarskrá – 114 talsins – eina skýringu á dag.

Gísli gerir þetta næstum á mannamáli – þótt hann sé lögfræðingur 🙂

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur