Það sést alla leið frá Brussel að Bjarni Benediktsson hefur „skipt um skoðun“ í afstöðu sinni til mögulegrar inngöngu Íslands í Evrópusambandið fyrst og fremst til að halda í valdastól sinn sem formaður Sjálfstæðisflokksins.
Það duldist engum að þegar Bjarni Ben hóf feril sinn sem formaður að þá var hann afar jákvæður fyrir aðildarviðræðum að Evrópusambandinu og að hann vildi sjá niðurstöðu slíkra viðræðna áður en hann tæki endanlega afstöðu til aðildar að Evrópusambandinu eða aðildar ekki.
Eins og að líkindum stór hluti Íslendinga þótt um þessar mundir sýni skoðanakannanir að meirihluti Íslendingar telji sig ekki munu samþykkja aðild að Evrópusambandinu. Enda ekki komin niðurstaða í aðildarviðræður til að taka afstöðu til.
Bjarni Ben varð hins vegar fyrir miklu áfalli á síðasta Landsfundi Sjálfstæðisflokksins þegar gallharður minnihluti harðra andstæðinga aðildarviðræðna að Evrópusambandinu sprengdi þá sáttaleið sem Bjarni Ben hafði lagt upp með tillögu að ályktun í Evrópumálum sem bæði andstæðingar aðildarviðræðna og fylgjendur aðildarviðræðna innan Sjálfstæðisflokks hefðu átt að geta sætt sig við.
En hinir stæku andstæðingar Evrópusambandsins náðu fram ályktun gegn Evrópusambandinu.
Viðbrögð Bjarna Ben voru svo sem eðlileg. Hann sem formaður Sjálfstæðisflokksins gat ekki gengið gegn ályktun landsfundar í Evrópumálum – þótt formenn og þingmenn sumra annarra flokka hafi þótt lítið mál að ganga gegn Evrópuályktunum sinna flokka. Þess vegna dró hann sig inn í skelina og hóf að reka einhvers konar „ekki tímabært að hefja aðildarviðræður“ stefnu.
Nú þegar Landsfundur Sjálfstæðisflokksins er framundan og ljóst að meirihluti Sjálfstæðismanna er orðinn harðari gegn aðildarviðræðum að Evrópusambandinu – enda sterkum lykilmönnum í Sjálfstæðisflokknum tekist að telja flokksmönnum trú um að stuðningur við aðildarviðræður sé það sama og stuðningur við Samfylkinguna – þá sér Bjarni Ben sitt óvænna og herðir á andstöðu sinni við aðildarviðræður.
Nú segist Bjarni Ben vera orðinn harður andstæðingur aðildarviðræðna að ESB og inngöngu í ESB. Þannig hyggst hann tryggja stöðu sína sem formaður – því Bjarni Ben vissi vel að hinir hörðu og reyndu pólitísku refir sem leiða stæka andstöðu við ESB innan Sjálfstæðisflokksins myndu ekki veigra sér við að hjóla í sig ef þeir töldu hann
Jafnvel kann Bjarni Ben hafa óttast að silfurrefurinn gamli kæmi fram á sjónarsviðið og hirti formannsstólinn á ný!
Þess vegna yfirgaf Bjarni Ben endanlega fyrri sannfæringu sína um að kanna ætti kosti Íslands við inngöngu í Evrópusambandið – og mun endanlega ganga inn í hóp stækra andstæðinga Evrópusambandsins á næsta Landsfundi.
Spurningin er – nægir það Bjarna Ben til að festa sig í sessi í formannsstólnum til framtíðar? Munu gömlu refirnir sætta sig við formann til lengri tíma sem ekki er staðfastari á eigin skoðunum en Bjarni Ben hefur sýnt? Verða þeir saddir og ánægðir yfir því að hafa formann Sjálfstæðisflokksins í vasanum og get stýrt honum – eða leita þeir að sterkum og staðföstum foringja fyrir þarnæsta Landsfund?
Það verður tíminn að leiða í ljós.
En það mun á Landsfundinum væntanlega losna um flokksbönd margra Sjálfstæðismanna sem hafa þá sannfæringu að klára skuli aðildarviðræður að Evrópusambandinu og taka afstöðu til aðildarsamnings þegar þar að kemur – að ég tali ekki um þá Sjálfstæðismenn sem hafa þegar tekið afstöðu og vilja í Evrópusambandið.
… það gæti því molnað úr Sjálfstæðisflokknum – enda mögulega framundan hrun 100 ára flokkakerfis!