Miðvikudagur 8.12.2010 - 16:39 - Rita ummæli

Af hverju stóð ÍLS af sér hrunið?

Það er rannsóknarefni að Íbúðalánasjóður hafi staðið af sér hrunið á meðan allir stóru bankarnir urðu gjaldþrota sem og flest fjármálafyrirtækin og meira að segja Seðlabankinn sem varð tæknilega gjaldþrota!

Enda er áhugi hjá Alþingismönnum að gera óháða úttekt á Íbúðalánasjóði og rekstri hans.

Reyndar gerði Ríkisendurskoðun stjórnsýsluathugun á Íbúðalánasjóði árið 2006 þar sem sjónum var sérstaklega beint að fjárstýringu sjóðsins í kjölfar árásar bankanna á Íbúðalánasjóð haustið 2004 og 2005.  Niðurstaða þeirrar úttektar var  að rekstur sjóðsins á árunum 2003 til 2006 var í takt við lög og reglugerðir og að fjárstýring sjóðsins væri eðlileg og innan þess ramma sem sjóðnum var settur af löggjafarvaldinu, ráðuneyti og Fjármálareftirliti.

En sumir Alþingismenn telja Ríkisendurskoðun greinilega ekki óháða.

Það er jákvætt fyrir Íbúðalánasjóð og þá sem komið hafa að rekstri sjóðsins undanfarinn áratug að gerð verði óháð úttekt á sjóðnum og áhrifum hans á samfélagið. Svo fremi sem sú úttekt verði óháð en ekki pólitísk.

Starfsmenn og stjórnendur sjóðsins hafa nefnilega um langt árabil setið undir órökstuddum dylgjum af ýmsu tagi. Dylgjum sem reyndar hefur oftast verið hraktar, en einhverra hluta vegna hefur dylgjunum verið haldið á lofti í fjölmiðlum og á forsíðum blaða en minna farið fyrir því þegar dylgjurnar hafa verið hraktar með staðreyndum:

Það sem er nokkuð ljóst að komi út úr óháðri rannsókn verður væntanlega meðal annars:

Staðfesting á því að Íbúðalánasjóður hafði minnst með þenslu og fasteignabóluna haustið 2004 og árið 2005 að gera.  Sökin sé nær alfarið bankannana

Staðreyndir um þetta tímabil má meðal annars lesa í skýrslunni  “Aðdragandi, innleiðing og áhrif breytinga á útlánum Íbúðalánasjóðs 2004.” Smellið á heiti skýrslunnar til að lesa.

Staðfesting á fyrrnefndri niðurstöðu Ríkisendurskoðunar í stjórnsýsluathugun 2006 þar sem staðfest var að fjárstýring sjóðsins væri eðlileg.

Væntanlega mun til viðbótar koma fram að viðbrögð sjóðsins á þessu tímabili sé grunnur þess að Íbúðalánasjóður stóð af sér hrunið nánast einn alvöru fjármálastofnanna.

Staðfesting á því að það lausafé sjóðsins sem var til ávöxtunar í bönkum og fjármálafyrirtækjum við hrun fjármálakerfisins var annars vegar eðlilegt lausafé sem sjóðurinn þarf að hafa til reiðu til að standa undir afborgunum af fjármögnunarbréfum Íbúðalánasjóðs 6 mánuði fram í tímann, að kröfu lánshæfismatsfyrirtækjanna og í takt við eðlilega fjárstýringu og hins vegar fé sem sjóðurinn fékk úr reglubundnu fjármögnunarútboði og þörf var að ávaxta í skammtímaávöxtun þar til það var afgreitt til viðskiptavina sjóðsins í formi útlána.

Þá er ljóst að tap sjóðsins vegna lána til leiguíbúða verði rannsakað. Líkleg niðurstaða vegna þess er:

Staðfesting á því að Íbúðalánasjóður hafi lánað of mikið til byggingar leiguíbúða í  fjölbýlishúsum á Austurlandi, en að sjóðurinn hafi starfað í einu og öllu á grunni laga og reglugerða við úthlutun lánsvilyrða og  á grunni jafnræðisreglu ekki haft stöðu til að gera upp á milli leigufélaga sem stóðu að byggingu húsnæðisins þar sem umsóknir þeirra voru studd greiningu einstakra sveitarfélaga á húsnæðisþörf.

Mögulega munu koma fram einhverjir smávægilegir hnökrar og einstaka vafamál í rekstri sjóðsins eins og alltaf þegar gerðar eru heildstæðar stjórnsýsluúttektir á fyrirtækjum og stofnunum. Úr þeim væntanlega unnið í umbótarferfli innan sjóðsins eins og gert hefur verið reglulega innan sjóðsins allt frá stofnun hans.

Enn og aftur.

Það er rannsóknarefni að Íbúðalánasjóður hafi staðið a sér hrunið á meðan allir stóru bankarnir urðu gjaldþrota, flest fjármálafyrirtækin og meira segja Seðlabankinn varð tæknilega gjaldþrota.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 7.12.2010 - 21:31 - 5 ummæli

15 milljarðar í ÍLS „af því bara“!

Það hafa enn ekki komið fram haldbær rök fyrir því af hverju ríkisstjórnin vill leggja Íbúðalánasjóði til 15 milljarða af þeim 33 milljörðum sem fjárlaganefnd hefur samykkt að renni til sjóðsins.
 
Rökin fyrir 18 milljörðum af 33 milljörðunum eru sú að það sé kostnaður við að færa niður lán í 110% af fasteignamati íbúða.
 
Gott og vel. Það eru rök.
 
En það hafa engin rök verið færð fyrir því af hverju verið sé að bæta hinum 15 milljörðunum við þá 8,7 milljarðar eigið fé sem sjóðurinn hafði yfir að ráða um mitt ár. Að vísu er bent á að reglugerð geri ráð fyrir að langtímamarkmið Íbúðalánasjóðs sé að eiginfjárhlutfall skuli vera 5% í CAD.
 
Það er ekki skylda – heldur langtímamarkmið!
 
 
Ef þingmönnum og ríkisstjórn líður svona illa að langtímamarkmiði í reglugerð sé ekki náð – þá er einfalt að breyta reglugerð – í stað þess að henda milljörðum inn í sjóðinn að óþörfu.
 
Þótt reglugerð um fjárstýringu Íbúðalánasjóðs geri ráð fyrir að langtímamarkmið sjóðsins sé að eiginfjárhlutfall sé 5 CAD, þá er engin sérstök fjárhagsleg ástæða til þess að halda því marki. Reglugerðin kveður á um að CAD hlutfall sé tvisvar sinnum hærra en sérfræðingar Deutsche Bank töldu að þyrfti þegar breytingar voru gerðar á fjármögnunarfyrirkomulagi Íbúðalánasjóðs árið 2004.
 
Deutsche Bank taldi æskilegt að eiginfjárhlutfallið væri 2,5% CAD til lengri tíma, en að kröfu fjármálaráðuneytisins var langtímamarkmið í reglugerð haft 5% CAD til að minnka líkurnar á að ríkissjóður þyrfti að leggja Íbúðalánasjóði til fé til að standa undir skuldbindingum sínum.
 
Því skýtur það skökku við nú þegar við þurfum að velta hverri krónu fyrir okkur að fjármálaráðuneytið vilji leggja Íbúðalánasjóði til 15 milljarða umfram þá 18 sem menn segja að þurfi vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar um niðurfærlu lána – eingöngu til að ná markmiði um CAD hlutfall sem sett var til að koma í veg fyrir að það þyrfti að leggja sjóðnum til fé úr ríkissjóði!
 
Við skulum hafa í huga að eiginfjárhlutfall Íbúðalánasjóðs var 2,1% CAD við 6 mánaða uppgjör í sumar – örlítið lægra en ráðlegging Deutsche Bank.
 
Staðreyndin er sú að sjálfu sér ekkert sem krefst þess að eiginfjárhlutfall Íbúðalánasjóðs sé jákvætt meðan sjóðurinn nýtur ríkisábyrgðar, þótt staða og kjör sjóðsins styrkist eftir því sem eiginfjárhlutfall er hærra. Það eina sem þarf að tryggja er að sjóðurinn geti staðið undir afborgunum af fjármögnunarbréfum sínum. Ekkert bendir til þess að greiðslufall sé framundan hjá Íbúðalánasjóði.
 
Það versta í málinu er þó að þingmenn og ríkisstjórn vita ekki af hverju þeir standa í þessu og hafa ekki fært fyrir því rök – þótt á þá hafi verið gengið!
 
Halló!
 
15 milljarðar „af því bara“!
 
Er í lagi með þetta lið?
 
VIÐBÓT:
 
Mér hefur verið bent „af hverju“ verið sé að veita óþarfa 15 milljörðum til Íbúðalánsjóðs.
 
Ástæðan er sú að Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn vill það!
 
Af því bara!
 
Eftirfarandi er tekið af vef Íbúðalánasjóðs:
 
„Breytingatillögur við frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2010 eru nú til umræðu í fjárlaganefnd Alþingis, sem og í félags- og tryggingamálanefnd. Í frumvarpinu er m.a. heimilað að efla eiginfjárstöðu Íbúðalánasjóðs um allt að 33 milljarða króna. Með því er stefnt að því aðeiginfjárstaða sjóðsins geti orðið allt að 5% af áhættugrunni sjóðsins við árslok 2011. Þessi
eiginfjáraukning sjóðsins er í samræmi við viljayfirlýsingu Alþjóða gjaldeyrissjóðsins og stjórnvalda frá september 2010, en þar er gert ráð fyrir að eiginfjáraukningu til Íbúðalánasjóðs verði lokið fyrir árslok 2010.

Eigið fé sjóðsins skv. árshlutauppgjöri 2010 var jákvætt um 8,4 milljarða króna sem þýðir að eiginfjárhlutfall hans var 2,1%, en langtímamarkmið sjóðsins skv. reglugerð 544/2004 er að hafa hlutfallið yfir 5%.

Til að ná langtímamarkmiði sínu um 5% eiginfjárhlutfall í árslok 2011 er ljóst að ríkissjóður þarf að leggja Íbúðalánasjóði til aukið eigið fé. Sem stendur er verið að undirbúa aðgerðir til aðstoðar þeim heimilum í landinu sem eru í greiðsluerfiðleikum. Þessar aðgerðir munu hafa áhrif á áætlaðar afskriftir lána og þar með á eiginfjárþörf sjóðsins.“

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 7.12.2010 - 08:44 - 5 ummæli

Gæðastund í morgunsárið

Ég var frekar argur þegar borgarstjórn Reykjavíkur ákvað í sparnaðarskyni að hætta með aukakennslustundir í grunnskólum borgarinnar í fyrra og stjórnendur Breiðagerðisskóla brugðust við með því að seinka upphafi skólastarfsins á morgnanna. Í stað þess að hefja skólastarfið klukkan 8:10 þá hefst það nú kl. 8:35.

En nú er ég afar ánægður. Því þessi seinkunn hefur gefið mér kost á gæðastund í morgunsárið með yngstu börnunum mínum þremur sem öll eru í Breiðagerðisskóla í vetur.

Við höldum áfram að vakna á sama tíma og áður – en fáum rúman og góðan tíma til að borða morgunmat, lesa blöðin – sem reyndar eru bútuð niður svo allir geti lesið – líka Gréta 6 ára sem er að læra að lesa og vill stauta sig gegnum fyrirsagnirnar – spjalla saman og klæða okkur í rólegheitunum. Skutla þeim síðan í skólann. Sjaldnast stress því tíminn nægur.

Þessi gæðastund í morgunsárið er mikilvæg. Sérstaklega núna þegar æfingar strákanna eru tvist og bast í eftirmiðdaginn – stundum ekki búnar fyrr en í miðjum matartíma – og matartíminn því tætingslegri en áður.

Já, stundum breytist ergelsið í gleði. Og það er nú gott!

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 6.12.2010 - 09:18 - 3 ummæli

Sóknarfæri í ríkisstjórnartillögum

Það er sóknarfæri í því samkomulagi sem ríkisstjórnin og aðiljar í fjármálakerfinu gerðu fyrir helgi um aðgerðir vegna greiðsluvanda heimilanna þótt það sé óþægilega mikið til í því hjá leiðarahöfundi Moggans í morgun þegar hann segir: „“Aðgerðir“ ríkisstjórnarinnar voru ekki í umbúðum, þær fólust í umbúðum um ekki neitt…“.
 
Það er rétt sem Mogginn ýjar að – samkomulagið er fyrst og fremst samkomulagsrammi um aðgerðir sem þegar voru í gangi hjá fjármálafyrirtækjunum.
 
En það að ríkisstjórnin og fjármálakerfið formgeri þær aðgerðir í undirrituðu samkomulagi hefur gildi út af fyrir sig. Þá má ekki gleyma að með samkomulaginu er Íbúðalánasjóður formlega kominn að borðinu og mun taka þátt í að færa skuldir yfirveðsettra heimila niður 110% af fasteignamati.
 
Reyndar er lítill hluti lána ÍLS á höfuðborgarsvæðinu yfir fasteignamatsmörkum þar sem hámarkslán sjóðsins var það lágt að það náði sjaldnast hámarkslánshlutfalli sjóðsins. Aftur á móti er yfirveðsetning algengara út á landi þar sem fasteignaverð er og var það lágt að hámarkslán náði hámarkslánshlutfalli. En á móti á landsbyggðinni um mun lægri fjárhæðir að ræða.
 
Það skiptir máli að fjölskyldum sé tryggð niðurfærsla lána í 110% svo fremi sem það dugi til þess að tekjur heimilisins standi undir afborgunum af slíkri greiðslubyrði.
 
Það er reyndar rétt að með slíkri niðurfærslu er ríkisstjórnin og fjármálafyrirtækin ekki að leggja til alfarið „nýtt“ fé, heldur er um að ræða að stórum hluta fjármuni sem þegar voru fjármálafyrirtækjunum tapaðir.
 
En með aðgerðarammanum er komið í veg fyrir að fjármálafyrirtækin gangi að fjölskyldunum með nauðungarsölu, eignist húsnæðið og afskrifi tap sitt í kjölfarið. Þess í stað halda fjölskyldurnar húsnæði sínu.
 
Hins vegar eru gefnar falsvonir í samkomulaginu. Gefið er í skyn að lífeyrissjóðirnir geti lækkað stofnkostnað „félagslegs“ húsnæðis með kaupum á sérstökum fjármögnunarbréfum Íbúðalánasjóðs.
 
Staðreynd málsins er sú að með óbreyttum lögum geta lífeyrissjóðirnir ekki veitt Íbúðalánasjóði lán á lægri vöxtum en 3,5% – sem eru nánast sömu vextir og sjóðurinn fjármagnar almenn útlán sín um þessar mundir.
 
Þá má ekki gleyma að ríkisstjórnin hyggst auka við vaxtabætur sem kemur heimilunum til góða og svo mun ríkisstjórnin „… beita sér fyrir því að framlög ríkisins til húsaleigubóta verði ekki skert á næsta ári.„!!!
 
Reyndar er gagnrýnivert að ríkisstjórnin hafi ekki notað tækifærið og endurhannað húsnæðisbótakerfið frá grunni. En vonandi gengur hún í það mál á næsta ári. Meira um nýtt húsnæðisbótakerfi síðar.
 
En eins og áður segir er sóknartækifæri í samkomulaginu svo fremi sem ríkisstjórnin nýti nú tækifærið og útfæri rammann á skynsamlegan hátt. Ég mun kynna félagsmálaráðherra tillögur mínar í þá átt og geymi því að kynna þær á opinberum vettvangi.
 
 

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 5.12.2010 - 13:18 - 9 ummæli

Afsökun Jóhönnu Sig. og Framsóknar

Jóhanna Sigurðardóttir formaður Samfylkingarinnar bað þjóðina afsökunar á hlut Samfylkingarinnar í hruninu og þeim mistökum sem flokkurinn gerði í ríkisstjórnarsamstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn.
 
Jóhanna er maður af meiru að viðurkenna mistökin sem urðu þjóðinni dýrkeypt og biðjast afsökunar.
 
Með þessu er Jóhanna að feta í fótspor formanna Framsóknarflokksins sem einnig hafa beðist afsökunar vegna fyrri mistaka þess annars ágæta flokks.
Fyrst Jón Sigurðsson sem lýsti því yfir að ákvörðun fyrirrennara síns Halldórs Ásgrímssonar að setja Ísland á lista hinna viljugu ríkja í aðdraganda Íraksstríðsins hefði verið röng.

Jón Sigurðsson sem formaður Framsóknarflokksins bað íslensku þjóðinar afsökunar á þessum mistökum. Þetta var á fjölmennum miðstjórnarfundi og klapp Framsóknarmanna ætlaði aldrei að þagna. Enda var mikill meirihluti Framsóknarmanna á móti ákvörðun Halldórs og hvernig hún var tekin.

Þá Valgerður Sverrisdóttir formaður Framsóknarflokksins sem á flokksþingi í janúar 2009 bað þjóðina afsökunar á hlut Framsóknar í aðdraganda hrunsins. Það var einmitt á því flokksþingi sem Framsóknarmenn fyrstir allra gerðu upp mistök fortíðarinnar og fylgdu því eftir með því að skipta algerlega út flokksforystunni. Algerlega.

Með því að skipta út forystunni sýndu Framsóknarmenn ekki einungis iðrun sína í orði heldur einnig á borði. Slíkt hefur hvorki Samfylking né Sjálfstæðisflokkur gert. Formannsskipti í þeim flokkum voru vegna alvarlegra veikinda fyrrum formanna. Ekki vegna iðrunar.

Nú þegar Jóhanna biðst afsökunar fyrir hönd Samfylkingar eru gerendur í fyrrnefndri ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks enn á sviðinu. Jóhanna sjálf var ráðherra í ríkisstjórn. Undir hana heyrði Íbúðalánasjóður. Enda var hún í efnahagsteymi ríkisstjórnarinnar.

Össur Skarphéðinsson núverandi utanríkisráðherra var iðnaðarráðherra í ríkisstjórninni og steig hrunadansinn með forystu Sjálfstæðisflokksins síðustu klukkustundirnar þar sem Ingibjörg Sólrún var úr leik vegna veikinda.

Kristján L. Möller var samgönguráðherra og hélt því embætti þar til í haust. Kristján er enn þingmaður og ekkert fararsnið á honum.

Þórunn Sveinbjarnardóttir var umhverfisráðherra og er nú formaður þingflokks Samfylkingarinnar. Heldur ekkert farasnið á henni.

Sá eini sem tók einhverja ábyrgð er Björgvin G. Sigurðsson sem var viðskiptaráðherra í aðdraganda hrunsins og í hruninu. Hann hafði manndóm í sér að segja af sér ráðherraembætti. Hann hafði einnig manndóm til þess að hverfa af þingi meðan rannsóknarnefnd Alþingis fór yfir hrunið.

Björgvin G.  hefur aftur tekið sæti á Alþingi – enda af hverju ætti hann ekki að gera það á meðan allir aðrir ráðherrar Samfylkingarinnar í hrunadansstjórn Geirs Haarde sitja enn á Alþingi og jafnvel í ríkisstjórn!

Framsóknarflokkurinn fylgdi afsökunarbeiðninni eftir í verki. Mér finnst að sá ágæti flokkur eigi að njóta þess – en svo virðist ekki vera ef marka má umræðuna. Flokkurinn er sífellt gagnrýndur fyrir fyrri tíma – fyrir verk sem ráðherrar fyrri tíma stóðu fyrir – fólk sem hætt er í pólitík.

En enn og aftur. Jóhanna Sigurðardóttir formaður Samfylkingarinnar er maður af meiru að viðurkenna mistök Samfylkingarinnar og biðjast afsökunar.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 4.12.2010 - 11:22 - 2 ummæli

„Félagslegir“ vextir bara 0,08% lægri!

Ríkisstjórnin ætlar ráðast í uppbyggingu á „félagslegu“ húsnæði og hyggst lækka fjármögnunarkostnað slíks húsnæðis með því að lífeyrissjóðirnir kaupi íbúðabréf af Íbúðalánasjóði á lægri ávöxtunarkröfu en áður.
 
Til þess að það sé unnt verður ríkisstjórnin að breyta lögum sem kveða á um 3,5% raunávöxtun lífeyrissjóðanna því annars lækka vextir af „félagslegum“  íbúðalánum Íbúðalánasjóðs nánast ekkert.
 
Staðreyndin er nefnilega sú að stofnkostnaður og rekstrarkostnaður íbúðarhúsnæðis lækkar ekkert við það að bæta „félagslegt“ fyrir framan orðið – eins og ég benti á í pistli mínum „Félagslegt húsnæði ekki ódýrara“.
 
Það er rétt hjá stjórnvöldum að með lægri ávöxtunarkröfu á fjármögnunarbréfum Íbúðalánasjóðs þá lækkar fjármagnskostnaður og afborganir af lánum verða lægri en ella.
 
Vandamálið er hins vegar að ef stjórnvöld hyggjast lækka fjármögnunarkostnað svo einhverju nemur þá verður ávöxtunarkrafa lífeyrissjóðanna við kaup á fjármögnunarbréfum að vera langtum lægri en 3,5%.
Ávöxtunarkrafa íbúðabréfa hefur nefnilega undanfarið verið nærri 3,5%. Var í síðasta útboði Íbúðlánasjóðs 3,58%.
 
Vextir á útlánum Íbúðalánasjóðs hefur nú um langt skeið verið 4,5% en hefðu verið 4,2% ef vaxtaálag væri það sama nú og í upphafi árs 2010 þar sem félagsmálaráðherrar hafa hækkað vaxtaálag um 0,30% á árinu að tillögu stjórnar Íbúðalánasjóðs.
 
Ef lífeyrissjóðirnir eiga að fjármagna nýja „félagslega“ kerfið með kaupum á íbúðabréfum Íbúðalánasjóðs á lögbundinni lágmarksávöxtun sjóðanna, þá yrðu útlánsvextir til „félagslegra“ íbúðalána 4,1% sem er einungis 0,1% lægra en almenn íbúðalán Íbúðalánasjóðs erun nú.
Það eru nokkrar krónur á mánuði.

Það er því deginum ljósara að ríkisstjórnin þarf að breyta lögum og lækka lögbundna kröfu lífeyrissjóðanna um 3,5% ávöxtun á ári ef hún ætlar að lækka fjármögnunarkostnað vegna „félagslegs“ húsnæðis.

Ef ekki – þá er ríkisstjórnin að gefa falsvonir með yfirlýsingum sínum.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 3.12.2010 - 18:24 - 16 ummæli

„Félagslegt“ húsnæði ekki ódýrara

Byggingarkostnaður lækkar ekki þótt húsnæði sé kallað „félagslegt“. Rekstrarkostnaður lækkar ekki þótt húsnæði sé kallað „félagslegt“.
 
Húsnæðiskostnaðurinn hverfur ekki. Hann þarf að greiða. Ef íbúar í „félagslegu“ húsnæði greiða ekki allan kostnaðinn þá verða einhverjir aðrir að gera það.
 
„Félagslegt“ húsnæði á Íslandi var fjármagnað gegnum Byggingarsjóð verkamanna til ársins 1998. Sá ágæti sjóður var tæknilega gjaldþrota þegar hann var látinn renna inn í Íbúðalánsjóð við stofnun sjóðsins 1999. Þá var neikvætt fé Byggingarsjóðs verkamanna rúmlega 30 milljarðar að núvirði.
Já, tap „félagslega“ sjóðsins nam rúmlega 30 milljörðum!
Það var kostnaður „félagslega“ húsnæðiskerfisins sem ekki hafði verið greiddur. Tap Byggingarsjóðs verkamanna át upp allt eigið fé Byggingarsjóðs ríkisins þannig að við stofnun Íbúðalánasjóðs byggði eigið fé sjóðsins einungis á eigin fé húsbréfadeildar, 6,9 milljörðum. Sem er lægra eigið fé en sjóðurinn býr við í dag þrátt fyrir áföll og efnahagshrun.

Það voru sem sagt þeir sem greiddu af lánum Byggingarsjóðs ríkisins – almenningur í landinu – sem greiddu ógreiddan kostnað „félagslega“ kerfisins gegnum vaxtálag húsnæðislánanna.

Þetta ber að hafa í huga þegar töfraorðið er sagt „félagslegar leiguíbúðir“ og „félagslegt húsnæði“.

Það þarf einhver að borga brúsann.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 2.12.2010 - 20:46 - 1 ummæli

Lögga á nærbuxunum!

Ég gleymi aldrei þegar Grana löggu var sagt upp í Spaugstofunni og sendur heim á nærbrókinni einni saman vegna fjárskorts lögreglunnar. Það var fyrir hrun – í mars 2008. Þetta gráa gaman var á þeim tíma háalvarleg vísbending um það ófremdarástand sem þá var að skapast hjá íslensku lögreglunni vegna fjárskorts.
 
Síðan þá hefur enn verið gengið á lögregluna með óhóflegum niðurskurði. Á sama tíma og lögreglan hefur staðið í ströngu. Sýndi hetjudáð með faglegum vinnubrögðum og æðruleysi í búsáhaldabyltingunni í samstarfi við flesta mótmælendur. Þurftu samt að standa undir eggjakasti og hastarlegum árásum lítils hóps heigla sem huldu andlit sín og réðust með hörku að lögreglu.
 
Þarna stóðu þessir lögreglumenn – með skuldir sínar og brostnar vonir í persónulega lífinu – æðrulausir og gerðu skyldu sína með staðfastri en hóflegri löggæslu.
 
Og það þrátt fyrir að héraðsdómur hefði stuttu áður sýknað árásarmenn sem gengu í skrokk á óeinkennisklæddum lögreglumönnum sem ætluðu að handtaka meinta fíkniefnasala og gerðu grein fyrir stöðu sinni sem lögreglumenn – af kærum fyrir árás á valdstjórnina – lesist lögregluna.
Ég var á þeim tíma afar ósáttur með það skotleyfi sem héraðsdómur gaf óbeint á lögregluna með þeim dómi – þótt ég sé frekar á því að menn eigi að njóta vafans í sakamálum en að vera dæmdir að ósekju. 

Staða löggæslumanna veiktist við þetta – og þegar launin eru of lág – þá spáði ég því að við myndum til lengri tíma missa bestu mennina úr lögreglunni. Kjarnan úr lögreglunni sem vann þjóð sinni svo mikið gagn með faglegum og hóflegum viðbrögðum á örlagatímum.

Lögreglumönnum hefur fækkað. Lögregluliðið er að missa marga hæfa starfsmenn. Menn flýja álagið. Menn flýja ofbeldið sem þeir eru beittir. Og menn flýja launin þrátt fyrir slakt ástand á vinnumarkaði.

Hvort sem okkur líkar það betur eður verr þá verðum við að auka fjárframlög til lögreglunnar. Það dugir skammt að verja grunnþætti velferðarþjónustunnar, heilbrigðiskerfisins og menntakerfisins ef óöld skapast þar sem löggæslan er í molum. 

Við eigum góða og faglega lögreglu – en slík lögregla er ekki sjálfgefin. Það höfum við séð í ríkjum víða um heim.

Fagleg og öflug lögregla sem vinnur á grunni þess lýðræðis sem við byggjum samfélag okkar á er einn af hornsteinum samfélagsins. Þessi hornsteinn er að molna þar sem lögreglumenn eru hreint og beint að gefast upp vegna of mikils álags og allt of lágra launa.

Við verðum að hafa skilning á því að löggæslan kosti peninga – og ríkisvaldið verður að halda uppi faglegri lögreglu. Ríkisstjórn og Alþingi verða að gera sér grein fyrir þessari staðreynd.

Það verður að tryggja fjármagn til faglegrar löggæslu og það verður að tryggja lögreglumenn fyrir áföllum í starfi. Annars blasir ekki einungis við efnahagslegt hrun – heldur samfélagslegt hrun!

Árið 2008 var Grani lögga á nærbuxunum vegna sparnaðar. Ekki láta Grana löggu koma fram nærbuxnalausan árið 2011. Stöndum við bak faglegrar lögreglu á Íslandi.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 1.12.2010 - 20:46 - 2 ummæli

Að svíkja öll kosningaloforðin

Jón Gnarr er að svíkja helsta kosningaloforðið sitt. Það að svíkja kosningaloforðin sín.
Reyndar virðist hann ætla að svíkja öll önnur kosningaloforð sín en þetta.

En með því að standa við þetta kosningaloforð eins og hann virðist gera, þá er hann einmitt að svíkja þetta kosningaloforð. Með því að standa við það.

Þannig að Jón Gnarr virðist svíkja öll kosningaloforð sín.

Er þetta nýja Ísland?

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 1.12.2010 - 09:00 - 5 ummæli

Fullveldi Halls Magnússonar

Í dag er 1.desember. Fullveldisdagurinn. Mér þótti við við hæfi að endurheimta pólitískt fullveldi mitt á þeim degi. Eftir aldarfjórðung í Framsóknarflokknum. Meira en helming ævi minnar. Stundum virkur. Stundum ekki.

Ekki það að ég hafi ekki alla tíð fylgt hugsjónum mínum og pólitískum skoðunum mínum af festu. Hef alla tíð sagt það sem mér finnst og gagnrýnt Framsóknarmenn og Framsóknarflokkinn ekki síður en aðra. Og oft fengið bágt fyrir.

Hefði mögulega komið á þing ef ég hefði hagað málflutningi mínu í takt við persónulega hagsmuni. En það er ekki eðli mitt. Ég segi það sem mér finnst. Hvort sem það kemur mér vel eða ekki. Fæ stundum bágt fyrir.

Var embættismaður í 3 ár á Hornfirði og 8 ár í Íbúðalánasjóði.

Það að vera opinber embættismaður fer ekki saman við það að vera virkur í stjórnmálum.

Því lá ég meira og minna í dvala flokkspólitískt út á við í 11 ár af þessum rúmlega 25 árum sem ég var í Framsóknarflokknum. Mætti samt stundum á flokksþing og fundi til að hitta gott fólk. Vini mína.

En ekki sem virkur stjórnmálamaður heldur sem góður vinur og á stundum sérfræðingum í þeim málaflokkum sem ég vann við. Til að skýra út og svara spurningum. Á sama hátt og ég mætti oft á fundi ýmissa félagasamtaka sem sérfræðingur í þeim málaflokkum sem ég starfaði við. Oft hjá VG sem hafa ítrekað leitað til mín á faglegum forsendum. Ekki pólitískum. Þykir vænt um það.

En hin rúmu 14 ár sem ég var virkur flokkspólitísk út á við þá var ég líka virkur. Og harður. Og áberandi. Þess vegna halda sumir að ég hafi aldrei dregið mig í hlé frá stjórnmálum. Sem ég þó gerði í 11 ár á þessum rúma aldarfjórðungi.

Nú er þessu skeiði lífs míns lokið. Nú er ég utan flokka. Óska gamla flokknum mínu alls hins besta. En ég mun áfram segja það sem mér finnst. Hvort sem það kemur mér vel eða ekki.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur