Sunnudagur 19.09.2010 - 10:48 - FB ummæli ()

Ráðherraábyrgð I

Það fór ekki beint vel af stað umræðan um ráðherraábyrgð og Landsdóm í þinginu s.l. föstudag.  Mikill grátkór Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar var nú kominn með gagnsæi á heilann og taldi ófært að umræðan hæfist án þess þingmenn væru búnir að fá að sjá öll gögn málsins og að fresta yrði umræðunni þangað til.  Gott og vel, gagnsæi er eitthvað sem við í Hreyfingunni höfum talað mikið um en oftast fyrir daufum eyrum inn á þingi og fagnaðarefni að aðrir þingmenn skuli nú loksins gera sér grein fyrir mikilvægi þess.  Því miður má þó leiða líkur að því í þessu tilviki að krafan um gagnsæi sé hugsanlega sprottin af einhverju öðru en djúpstæðum áhuga á fyrirbærinu.

Fyrir það fyrsta þá hefur legið fyrir síðan í apríl hverjar verklagsreglur þingmannanefndarinnar yrðu og þar var tillögum Hreyfingarinnar um gagnsæi og opna fundi hafnað af öllum nefndarmönnum fjórflokksins og engir aðrir þingmenn gerðu athugasemdir við þær verklagsreglur.  Í öðru lagi þá eiga bæði Sjálfstæðisflokkur og Samfylking tvo fulltrúa hver í nefndinni sem hafa undir höndum allar þær upplýsingar sem þarf og eru sérfræðingar flokkana í málinu og áttu að kynna málið fyrir þingflokkum á sérstökum þingflokksfundum síðastliðinn laugardag.  Í þriðja lagi töluðu þarna þingmenn og ráðherrar (fyrrverandi) hrunstjórnarinnar sem flest vissu þegar í febrúar 2008 að hrun væri yfirvofandi en þögðu um það þunnu hljóði og hugðu aldrei að gagnsæi og almannahag fram að hruninu í október það ár, þingmenn og ráðherrar sem á sama tíma horfðu á þúsundir manna taka lán á kjörum sem þau vissi að myndu setja fólkið lóðbeint á hausinn þegar hrunið kæmi.  Í fjórða lagi greiddu allir þingmenn á Alþingi nema þingmenn Hreyfingarinnar atkvæði með því að öllum gögnum Rannóknarnefndar Alþingis yrði komið fyrir í læstum hirslum Þjóðskjalasafns og utan seilingar almennings í a.m.k. fimmtíu ár.  Í fimmta lagi greiddu allir þingmenn á Alþingi nema þingmenn Hreyfingarinnar atkvæði með áframhaldandi heimild stjórnmálamanna og stjórnmálaflokka til að taka við nafnlausum fjárframlögum í ný afgreiddum lögum um fjármál stjórnmálaflokka þann 9. september síðastliðinn.  Þannig að lái mér það hver sem vill, en hljómurinn er í mínum eyrum að einhverju leiti holur þegar kemur að nýfengnum áhuga þessara flokka á gagnsæi.

Staðan er sú að Sjálfstæðisflokknum finnst það óþolandi tilhugsun að ráðherrar flokksins kunni að verða kvaddir fyrir Landsdóm og þeir hafa ýtt til hliðar fulltrúum sínum í þingmannanefndinni og tefla nú fram varaformanni flokksins sem helsta talsmanni sínum í málinu.  Þetta lýsir að sjálfsögðu fullkomnu vantrausti á fulltrúa flokksins í þingmannanefndinni sem eru þó helstu sérfræðingar flokksins í málinu.  Sjálfstæðisflokkurinn mun einfaldlega reyna allt sem hægt er til að tefja málið og það hugnast einnig hluta þingmanna Samfylkingarinnar sem virðast einnig líta á sína ráðherra sem óbrigðular heilagar kýr sem megi ekki fyrir nokkra muni fara fyrir Landsdóm.  Það var mjög áhugavert s.l. föstudag að sjá þingmenn beggja þessara flokka stinga saman nefjum í öllum skúmaskotum þinghússins og kætast svo sameiginlega þegar Sjálfstæðislokknum tókst með stuðningi Samfylkingarinnar að fresta umræðunni fram yfir helgi.  Frestunin sjálf var fordæmalaus og var vegna þess að framsögumaður Sjálfstæðisflokksins Ólöf Nordal var ekki nógu vel inn í málinu, en þrátt fyrir að sjö aðrir nefndarmenn sem allir gjörþekktu málið væru á mælendaskrá var umræðan samt stöðvuð.

Það verður fróðlegt að sjá hvert næsta útspil verður en ein hugmynd er að senda málið til Allsherjarnefndar milli umræðna í stað þess að senda það aftur til þingmannanefndarinnar eins og venjan er með mál, þ.e. þau fara aftur til nefndarinnar sem flytur þau.  Þetta þýðir að ef Allsherjarnefnd ætlar að vanda sig eins vel og þingmannanefndin þá klárast málið kannski í nóvember, en sem kunnugt er hélt þingmannanefndin 30 fundi um ráðherrábyrgðina og margir þeirra voru hálfu og heilu dagana og stundum langt fram á kvöld.

Sjálfur er ég frekar svartsýnn á að Alþingi takist að klára þetta mál eins og þarf.  Ég hef sjálfur svo sem aldrei búist við að Alþingi gæti afgreitt svona mál en þó kviknaði von hjá mér þegar ég las skýrsluna og tillögurnar og ég fylltist bjartsýni á að Alþingi tækist nú að reisa sig úr rústum vantraustsins.  En nú hefur Sjálfstæðisflokkur að því er virðist fengið stuðning inn í Samfylkingunni til að eyðileggja málið, akkúrat þegar Alþingi þarf meira en nokkru sinni fyrr að ganga fram af einurð og heiðarleika en ekki hrossakaupum og leikaraskap.

Í þessu máli hefur Atli Gíslason og þingmannanefndin öll staðið sig mjög vel og það verður fróðlegt að fylgjast með umræðunni um málið og þeim rökum sem koma fram á móti Landsdómi en meirihluta álit nefndarinnar er mjög vel rökstutt.  Þingheimur allur ber hins vegar ábyrgð á því að málið fái eðlilega meðferð en verði ekki einhverju plotti að bráð.

Alþingi, samfélagið og þjóðin stendur á tímamótum og afgreiðsla þingsins á hruninu næstu daga sker úr um tilverurétt Alþingis, hvorki meira né minna.  Þingmenn verða því að gera svo vel og hætta öllum fíflagangi og taka sig saman í andlitinu og láta hagsmuni almennings, heiðarleika og réttlæti ráða för en ekki endalausa klæki, undanbrögð, óheilindi og hrossakaup.  Alþingi hefur nú tækifæri og það gott tækifæri, til að réttlæta tilvist sína og starf.  Þingmenn og forseti þingsins verða hins vegar að gera sér grein fyrir því að þetta er jafnframt síðasta tækifærið

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Þór Saari
Hagfræðingur með lýðræðis- og stjórnmálavitund sem gerir kröfu um virka þátttöku í samfélaginu.

Er í framboði fyrir Pírata í SV kjördæmi (kraganum). Er fyrrverandi þingmaður í SV kjördæmi (kraganum) fyrir Hreyfinguna (2009-2013) og er einnig í stjórn Samtaka um lýðræði og almannahag.
Netfangið er: saari@centrum.is
RSS straumur: RSS straumur