Fimmtudagur 16.09.2010 - 15:37 - FB ummæli ()

Skýrsla þingmannanefndarinnar III

Þar sem ræðurnar frá í gær voru ekki komnar inn á vef þingsins er ég skrifaði færsluna mína set ég  hér tengil á ræðuna.  Þetta er að mínu eigin mati sennilega besta innleggið mitt á þingið hvað ræður varðar og ég reyndi að vanda mig enda tilefnið mjög mikilvægt.  Við, það er Alþingi, samfélagið og þjóðin stöndum á ákveðnum tímamótum og nú meira en nokkru sinni fyrr er mikilvægt að draga andann og vanda sig.

Nú þegar er að skýrast hvernig meðferð Alþingis verður á tillögum meirihluta þingmannanefndarinnar um ákærur vegna ráðherraábyrgðarinnar finnst mér rétt að minna á að nefndin fundaði 54 sinnum þar af 30 sinnum út af ráðherrábyrgðinni.  Fundirnir voru oft hálfu og heilu dagan og oft langt fram á kvöld.  Til voru kvaddir allir helstu sérfræðingar þjóðarinnar um málið og niðurstaða meirihlutans er í samræmi við það.  Í öllu ferlinu fékk Sjálfstæðisflokkurinn allt sem hann vildi hvað varðar gesti, álit og umsagnir.

Þeirra hálmstrá hafa síðan verið nokkur svo sem að vísa í lög um sakamálarannsóknir, ónýtan Landsdóm og fleira.   Atriði sem öll voru hrakin fyrir nefndinni.  Ótal „álitsgjafar“ flokksins hafa verið fengnir til að gera málið tortryggilegt og rengja niðurstöður nefndarinnar.  Þetta er í raun furðuleg afstaða því framtíð flokksins byggist á því að hann komi frá uppgjöri hrunsins með hreint borð en ekki með því að eyðileggja uppgjörið eins og þeir eru einatt að reyna að gera.  Nú hefur Sjálfstæðisflokkurinn gripið til þess ráðs að reyna að eyðileggja málið í þingsal og krefjast þess að það fari til Allsherjarnefndar milli annarrar og þriðju umræðu.  Eyðileggja segi ég því Allsherjarnefnd hefur enga burði til að móta sér afstöðu nema með því að endurtaka vinnu þingmannanefndarinnar og ég fæ ekki séð að Allsherjarnefnd muni funda 30 sinnum um málið.  Samkvæmt þingsköpum á mál að fara aftur til þeirrar nefndar sem leggur það fram en hér hafa þeir fundið enn einn lagaflækjukrókinn sem þeir hamra á (hljómar kunnuglega ekki satt).  Með stuðningi einhverra þingmanna Samfylkingar, þar á meðal formanns Allsherjarnefndar sem hefur gengið fram og vill fá málið inn í nefndina „í nafni sáttar“ eins og hann segir, er Alþingi nú að takast að eyðileggja málið.  Ef svo verður munu Samfylking og Sjálfstæðisflokkur sem saman mynda meirihluta í Allsherjarnefnd og ná einhvers konar moðsamkomulagi sem fríar alla.

Ég hef sjálfur svo sem aldrei búist við að Alþingi gæti afgreitt svona mál en þó kviknaði von hjá mér þegar ég las skýrsluna og tillögurnar.  En nú hefur Sjálfstæðisflokkur fengið stuðning inn í Samfylkingunni til að eyðileggja málið akkúrat þegar Alþingi þarf meira en nokkru sinni fyrr að ganga fram af einurð og heiðarleika en ekki hrossakaupum og leikaraskap.  Ekki bætir úr sú furðulega hugmynd Samfylkingarinnar að bjóða öllum „sakborningunum“ en þó fyrst og fremst Ingibjörgu Sólrúnu að hitta þingmenn Samfylkingarinnar á sérstökum prívatfundi nú í kvöld.  Ég hef oft haldið ýmislegt um þingmenn á Alþingi en hér tekur samt alveg steininn úr í dómgreindarleysinu.

Alþingi, samfélagið og þjóðin stendur á tímamótum og afgreiðsla þingsins á hruninu næstu daga sker úr um tilverurétt Alþingis, hvorki meira né minna.  Þingmenn verða því að gera svo vel og hætta öllum fíflagangi og taka sig saman í andlitinu og láta hagsmuni almennings, heiðarleika og réttlæti ráða för en ekki endalausa klæki, undanbrögð, óheilindi og hrossakaup.  Alþingi hefur nú tækifæri og það gott tækifæri, til að réttlæta tilvist sína og starf.  Þingmenn verða hins vegar að gera sér grein fyrir því að þetta er jafnframt síðasta tækifærið,

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Þór Saari
Hagfræðingur með lýðræðis- og stjórnmálavitund sem gerir kröfu um virka þátttöku í samfélaginu.

Er í framboði fyrir Pírata í SV kjördæmi (kraganum). Er fyrrverandi þingmaður í SV kjördæmi (kraganum) fyrir Hreyfinguna (2009-2013) og er einnig í stjórn Samtaka um lýðræði og almannahag.
Netfangið er: saari@centrum.is
RSS straumur: RSS straumur