Miðvikudagur 15.09.2010 - 20:45 - FB ummæli ()

Skýrsla þingmannanefndarinnar II

Umræðan um skýrslu þingmannanefndarinnar hélt áfram í dag.  Umræðunni lauk svo síðdegis og á föstudag verður tekið til við að ræða tillögur þingmannanefndarinnar um ákærur á hendur ráðherrana fjögurra.  Umræðan um skýrsluna hefur verið ágæt og menn virðast sammála um að það þurfi að hrinda því í framkvæmd sem nefndin leggur til.  Varðandi ákærurunar leikur hins vegar allt á reiðiskjálfi og það eru engar líkur á að sátt náist um það mál, enda var aldrei reiknað með því og í raun fráleitt að ætla sér það.  Það hefur hins vegar farið af stað mikill leikur inn á þingi til að reyna að eyðileggja málið með flækjum og klókindum þannig að niðurstaða nefndarinnar, þ.e. þeirra fimm sem mynda meirihluta hennar, fái ekki að koma til atkvæðagreiðslu í þinginu.  Ég mun skýra betur frá hvað þar er í gangi á morgun þegar fleiri kurl verða komin til grafar.  Við þessu var svo sem að búast og það kæmi mér alls ekki á óvart að Alþingi næði ekki að klára þetta mál.  Hvað um það, meira á morgun.

Ég flutti ræðu um skýrsluna í daga og læt hana fylgja með hér fyrir neðan eins og hún er skrifuð en ég vék í einhverjum mæli frá textanum í ræðunni sjálfri.  Hefði líka sett tengil inn á ræðuna á vef þingsins en sá vefur hefur enn ekki verið uppfærður með ræðum dagsins.

Ræða vegna skýrslu þingmannanefndar Alþingis, 15. september 2010.

Virðulegur forseti.

Við ræðum hér skýrslu þingmannanefndarinnar sem Alþingi skipaði til að fara ofan í saumana á skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis vegna bankahrunsins.  Skýrsla þingmannanefndarinnar er mikið og vandað verk og með ólíkindum að nefndinni skuli hafa tekist svo vel upp á þeim skamma tíma sem hún hafði.  Ég vil byrja á því að þakka formanni nefndarinnar Atla Gíslasyni fyrir mjög gott starf og þrautseigju í því að viðhalda þeirri samstöðu sem honum fannst svo mikilvæg.  Sú samstaða mun vonandi skila sér í þeim úrlausnum sem fram undan eru og eru tilgreindar í þingsályktunartillögunni á blaðsíðu fimmtán.

Í nóvember á síðasta ári þegar verið var að ræða lögin og það umhverfi sem þingmannanefndin átti að starfa í hafði Hreyfingin alveg frá upphafi efasemdir um að þetta væri heppilegasta leiðin til að fjalla um skýrsluna og komast að niðurstöðu um ráðherraábyrgðina vegna þeirra nánu tengsla sem eru milli þingmanna sem sumir hverjir hafa þekkst og jafnvel starfað saman í áratugi.  Við lögðum því fram breytingartillögur við frumvarpið um þau atriði.  Þær tilögur mættu mikilli andstöðu innan forsætisnefndar sem hafði með málið að gera og einnig í þingsalnum þar sem ég sjálfur sætti harðri atlögu fyrir að vanmeta Alþingi og þingmenn.   Sem betur fer gengu efasemdir okkar ekki eftir nema að hluta og þá varðandi þau atriði er tengjast beint þingmönnum og ráðherrum, þ.e. þegar kom að því að þingmenn tækju afstöðu til félaga sinna. Nefndin hefur því skilað af sér mjög vönduðu og góðu verki.

Sjálfur hef ég lúslesið skýrslu þingmannanefndarinnar og tillögur hennar og lýsi mikilli ánægju með hversu nefndin er ákveðin í gagnrýni sinni, ekki síst á vinnubrögðin á sjálfu Alþingi og vona ég innilega að þingmenn leggist nú á árarnar og rói saman í þá átt sem tillögurnar vísa.  Nefndin segir með mjög afgerandi hætti varðandi Alþingi að það þurfi að auka sjálfstæði þess gagnvart framkvæmdavaldinu og að leggja beri meiri áherslu á eftirlitshlutverk þingsins.  Nefndi segir og að Alþingi þurfi að taka starfshætti sína til endurskoðunar og að það þurfi að marka skýr skil milli löggjafarvaldsins og framkvæmdavaldsins og að Alþingi eigi ekki að vera verkfæri í höndum framkvæmdavaldsins og oddvitaræðis.  Nefndin telur einnig að sjálfstæði þingsins verði að auka með því að setja á fót nýja sjálfstæða ríkisstofnun í anda fyrrum Þjóðhagsstofnunar en þó undir stjórn Alþingis en Þjóðhagsstofnun var sem kunnugt er sem lögð var niður á sínum tíma vegna þess að hún var ekki sammála Sjálfstæðislokknum.

Eins segir nefndin um Alþingi, að Alþingi og alþingismenn verði að endurheimta traust þjóðarinnar með orðum sínum og athöfnum og að alþingisþingmenn þurfi að setja sér siðareglur en eins og staðan er í dag eru þingmenn einungis vanhæfir í málum er snúa að fjárveitingum til þeirra sjálfra.  Þetta atriði er sérstaklega mikilvægt þegar haft er í huga að einungis 13 prósent þjóðarinnar bera traust til Alþingis.  Því eru það mikil vonbrigði að Alþingi skuli í síðustu viku hafa samþykkt samhljóða, utan þingmanna Hreyfingarinnar, ný lög um fjármál stjórnmálamanna og stjórnmálaflokka sem gera ráð fyrir áframhaldandi framlögum frá fyrirtækjum til stjórnmálaflokka og stjórnmálamanna sem og áframhaldandi nafnlausum framlögum til stjórnmálamanna.  Þetta var skref í ranga átt og helgast af því einu að meint peningaþörf stjórnmálamanna og -flokka er gríðarlega mikil.  Sú löggjöf er að mínu mati vanvirðing við lýðræði og gagnsæi.

Eins og staðan er núna situr hér enn á þingi fólk sem þegið hefur fúlgur fjár frá fyrirtækjum og bönkum og sem hefur víðtæk og djúp tengsl við viðskiptalífið hvers sömu þingmenn taka svo að sér að hafa aðkomu að löggjöf um.  Nægir að nefna áratuga tengsl Sjálfstæðisflokksins við LÍÚ og tengslin við Landsbankann eftir að hann var einkavæddur til vina flokksins, vina sem fyrrverandi formaður flokksins og forsætisráðherra þjóðarinnar talaði stoltur um að kæmu á hans fund jafnvel oft í viku hverri.  Einnig er rétt að minna á tengsl fyrrverandi varaformanns Sjálfstæðisflokksins við bankakerfið gegnum hjúskap þar sem tæplega níu hundruð milljóna króna lán sem þarf ekki að borga til baka rataði í faðm fjölskyldunnar.  Níu hundruð milljónir eru árslaun verkamanns í um 300 ár.  Þannig að áhuginn á að endurheimta traust þjóðarinnar með athöfnum er augljóslega ekki til staðar hjá öllum þingmönnum þessa þings, alla vega ekki fram að þessu.

Það er því brýnt að þær úrbætur sem nefndin náði samstöðu um nái fram að ganga og að náð verði samstöðu um siðareglur og e.t.v.  einhvers konar siðaráð fyrir Alþingi og alþingismenn.  Siðaráð þetta gæti verið álitsgjafi til þingsins um öll þau álitamál er snúa að þingmönnum og Alþingi og sem þingmönnum sjálfum er ekki endilega best treystandi til að afgreiða.  Hér mætti nefna mál eins og fjármál stjórnmálaflokka og stjórnmálamanna, aðkomu þingmanna með tengsl við viðskiptalífið eða hagsmunasamtök að ýmissi löggjöf, sem og þá sjálftöku sem á sér stað í fjárlögum hvers árs þegar sumir stjórnmálaflokkar úthluta sjálfum sér hundruðum milljóna króna á ári af almannafé umræðulaust.

 Virðulegur forseti.

Eins og fram kemur í skýrslu nefndarinnar hefur stjórnsýslan brugðist mjög víða og að stjórnarráðið sjálft, þ.e.  forsætis-, fjármála- og viðskiptaráðuneytin hafi hringsnúist stefnulaust í marga mánuði í aðdraganda hrunsins vegna þess að stjórnmálaflokkarnir sjálfir áttu svo mikið undir því að allt færi vel.  Hér koma skýrt fram afleiðingarnar af því að hafa flokkspólitíska stjórnsýslu og stjórnarráð þar sem oftar en ekki er ráðið í stöður eftir flokksskírteinum fremur en hæfi.  Stjórnsýslu og stjórnarráð sem þjónar fyrst og fremst ráðherrum og þingflokkum á þingi en hefur ekki hagsmuni almennings að leiðarljósi.  Það var þetta stjórnaráð og þessi stjórnsýsla sem auk ráðherrana og fjölda þingmanna leyndi því fyrir almenningi í a.m.k. átta mánuði að hér væri væntanlegt hrun.  Þetta sama stjórnaráð og þessi sama stjórnsýsla horfði á almenning mánuðum saman taka íbúðalán á kjörum sem vitað var að aldrei myndu standast og sem myndu keyra þessar sömu fjölskyldur í þrot á örsotsstundu þegar allt hryndi.  Þetta sama stjórnarráð og þessi stjórnsýsla gerði ekkert til að gæta að almannahag.  Það er því þetta sama stjórnaráð og þessi sama stjórnsýsla sem ber ekki síður ábyrgð á hörmungum fólks en fjárglæframennirnir og ráðherrarnir sem verða, ef Alþingi stendur undir nafni, ákærðir innan nokkurra daga.

 Virðulegur forseti.

Skýrsla þingmannanefndarinnar þegar kemur að stjórnsýslunni er dapurleg lesning og vert að hafa hluta hennar eftir hér í ræðustól með leyfir forseta, En á bls 8 segir t.d.:

Rík tilhneiging var til að túlka valdheimildir þröngt og nýta þær ekki.  Vettvangsathuganir þekktust varla, athugasemdum regluvarða og innri endurskoðenda var ekki fylgt eftir og eftirlitsaðilar höfðu litla sem enga yfirsýn yfir kerfisáhættuna í fjármálakerfinu.  Bönkum var auðveldað að fara sínu fram og sniðganga reglur og stjórnvöld og jafnvel eru þess dæmi að alvarleg brot á lögum sættu ekki kæru til valdstjórnar.  Þá átelur þingmannanefndin að ekkert mat hafi farið fram af hálfu íslenskra eftirlitsaðila á fjármögnunarleiðum bankanna og hvaða áhætta kynni að fylgja þeim fyrir fjármálakerfi Íslands.

 Þingmannanefndin gagnrýnir sérstaklega að Seðlabanki Íslands og Fjármálaeftirlitið hafi ekki kallað eftir formlegum áætlunum og aðgerðum um flutning erlendra innlánsreikninga frá útibúi yfir í dótturfélag.  Þá telur þingmannanefndin það gagnrýnisvert að Seðlabankinn hafi veitt víðtæk veðlán án viðeigandi trygginga þegar hann gerði sér grein fyrir veikleikum fjármálafyrirtækjanna.  Lán til fjármálafyrirtækja með veði í skuldabréfum og víxlum þeirra námu um 300 milljörðum kr. í október 2008 og leiddu til tæknilegs gjaldþrots bankans í október 2008.

Það er mat þingmannanefndarinnar að Seðlabanki Íslands hafi ekki haft nægar upplýsingar til að meta stöðu Glitnis rétt þegar bankastjórnin lagði til við ríkisstjórnina að Glitnir yrði keyptur.  Því verður ekki séð að Seðlabankinn hafi haft forsendur til að meta hvort forsvaranlegt væri að eyða 600 milljónum evra í kaup á 75% hlut í Glitni.  Bankastjórn Seðlabanka Íslands hafði frá nóvember 2007 verulegar áhyggjur af stöðu bankanna.  Þrátt fyrir það var þeim áhyggjum aðeins komið á framfæri með óformlegum hætti og þannig fór ekki saman mat bankans á hinni alvarlegu stöðu og rökrétt viðbrögð og tillögur byggðar á því mati.  Þingmannanefndin telur að mikið hafi skort á að samskipti á milli bankastjórnar Seðlabankans og stjórnvalda hafi verið eðlileg og í samræmi við góða stjórnsýslu.  Tilvitnun lýkur.

Einnig kemur fram í skýrslu nefndarinnar að Seðlabankinn hafi ekki kallað eftir nauðsynlegum upplýsingum frá Fjámálaeftirlitinu og að aðalbankastjóra og starfsmönnum hafi ekki verið kunnugt heimildir bankans sem hann á þó að starfa eftir.  Einnig virkar einkennilega sú ákvörðun formanns bankastjórnarinnar að hætta reglubundnum samskiptum við forsvarsmenn bankanna. Ákvörðun sem virðist stafa af mismunandi skilningi á hlutverki fundanna hjá Seðlabankanum annars vegar og bönkunum hins vegar.  Kemst þingmannanefndin að þeirri niðurstöðu að pólitískar stöðuveitingar svo sem hafa verið viðhafðar við val Seðlabankastjóra sé ekki æskileg skipan mála.

Fjármálaeftirlitið hefur einnig brugðist að mati nefndarinnar og starfsmenn þess sýndu ekki þá festu og ákveðni sem til þurfti við úrlausn og eftirfylgni mála.  Sérstaklega er eftirtektarvert það afskiptaleysi sem Fjármálaeftirlitið sýndi Tryggingarsjóði innstæðueigenda, afskiptaleysi sem á endanum kostaði almenning á Íslandi stórfé og sér ekki fyrir endann á vegna t.d. Icesave.

Um starfshætti í forsætis- fjármála og viðskiparáðuneytum tekur þingmannanefndin undir með Rannsóknarnefndinni að ýmislegt aðfinnsluvert sé að í stjórnsýslunni og segir m.a. með leyfi forseta:

Almennt var ekki til að dreifa innan ráðuneytanna mörgum starfsmönnum með sérþekkingu sem gerði þeim kleift að takast á við verkefni af þeim toga sem aðdragandi bankahrunsins hafði í för með sér, t.d. var ekki ráðinn sérstakur efnahagsráðgjafi í forsætisráðuneytið fyrr en 1. ágúst 2008.

Rannsóknarnefndin segir einnig að íslenska stjórnkerfið hafi verið illa í stakk búið til að takast á við fjármálaáföll ársins 2008 og augljóslega þurfi að fjölga í hópi vel menntaðra og þjálfaðra starfsmanna sem hafa getu til að takast á við flókin verkefni. Það verði varla gert á annan hátt en að sköpuð séu þau starfsskilyrði í Stjórnarráði Íslands að þangað fáist til starfa fólk sem hefur þessa kosti til að bera. Gengið sé út frá því að hinir ópólitísku embættismenn séu sérfræðingar á sínu sviði hvað varðar menntun og reynslu og þeim sé ætlað að bera uppi skilvirka og málefnalega stjórnsýslu í þágu almenings.

 Einnig segir á blaðsíðu 11, með leyfi forseta:

 Það er mat þingmannanefndarinnar að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis sé áfellisdómur yfir íslenskri stjórnsýslu, verklagi hennar og skorti á formfestu jafnt í ráðuneytum sem sjálfstæðum stofnunum sem undir ráðuneytin heyra. Svo virðist sem aðilar innan stjórnsýslunnar telji sig ekki þurfa að standa skil á ákvörðunum sínum og axla ábyrgð, eins og fram kemur í skýrslu rannsóknarnefndarinnar.  Vegna smæðar samfélagsins skiptir formfesta, skráning upplýsinga, verkferlar, tímamörk og skýr ábyrgðarsvið enn meira máli en í stærri samfélögum. Í ljós kemur að upplýsingaskylda ráðuneyta og stofnana, innbyrðis og út á við, virðist ekki hafa verið virk né heldur frumkvæðisskylda, gagnsæi og rekjanleiki.

Oddvitaræðið og verklag þess sem tíðkast hefur í íslenskum stjórnmálum undanfarna áratugi dregur úr samábyrgð, veikir fagráðherra og Alþingi og dæmi eru um að mikilvægar ákvarðanir hafi verið teknar án umræðna í ríkisstjórn. Slíkt verklag er óásættanlegt.

 Frú forseti.

Slík stjórnsýsla sem hér er lýst er einu orði sagt hörmuleg, ekki síst þegar t.d. er haft er í huga að árið 2001 var sett á stofn í Seðlabanka Íslands sérstakt Fjármálastöðugleikasvið með svo færu og hátt launuðum starfsmönnum að hækka þurfti laun bankastjórnanna þriggja. Eina starf þessa nýja sviðs og starfsmanna þess var að fylgjast með fjármálastöðugleika á Íslandi. Eina starfið. Gefnar voru út a.m.k. tvær viðamiklar skýrlsur á ári um fjármálastöðugleika og alveg fram á mitt ár 2008 var hvergi, hvergi nokkurs staðar hægt að merkja að eitthvað vandamál væri í aðsigi í íslensku fjármálalífi.  Hér hrundi svo fjármálakerfið til grunna fyrir tæpum tveimur árum og Seðlabankinn hefur enn ekki verið rannsakaður.  Allt sama fólkið og starfaði þar fram að hruni er þar enn og Fjármálastöðugleikasviðið líka.  Það er þó rétt að geta þess að eina nóttina þegar engin sá til að nafninu var breytt í Fjármálasvið.  Þetta eru staðreyndirnar og þetta eru lausninrnar sem boðið hefur verið upp á hingað til.

Þá kemur fram hér að ofan að Seðlabankinn hafi veitt víðtæk veðlán, þ.á.m. lánað ríkisskuldabréf gegnum deild sem heitir Lánamál ríkisins með veði í verðlausum pappírum.  Þess má geta að Lánamál ríkisins hét áður Lánasýsla ríkisins og var sjálfstæð fagstofnun sem sá um skuldastýringu ríkissjóðs. Lánasýsla ríkisins hafði verið stofnsett á sínum tíma eftir langan aðdraganda þar sem ákveðið var að færa skuldastýringu ríkissjóðs inn í faglegt umhverfi. Það var gert með hiðsjón af því sem var að gerast í nágrannalöndum Íslands og sem rannsóknir Efnahagssamvinnu- og þróunarstofnunarinnar, OECD, sýndu að gæfu góða raun og sem OECD mælti með sem s.k. “Best practices” í skuldastýringu ríkissjóða.  Vegna áralangrar andstöðu skrifstofustjóra í fjármálaráðuneytinu við Lánasýsluna, andstöðu sem aldrei hefur upplýsts hvers vegna var, sem og vegna áhuga Seðlabankans á að fá meiri völd var Lánasýsla ríkisins lögð niður þann 1. október 2007.

Athyglisvert er að lesa rök þáverandi fjármálaráðherra Árna Mathiesen með þessari breytingu en þar kemur fram að verið sé að færa skuldastýringu ríkissjóðs til sambærilegs umhverfis og væri í nágrannalöndum eins og Danmörku.  Rétt er að geta þess að það er rétt að í Danmörku er skuldastýring ríkissjóðs í sérdeild í danska seðlabankanum.  Það sem fjármálaráðherrann fyrrverandi og skrifstofustjóri hans sögðu hins vegar ekki er að OECD notar Danmörku sem dæmi um hvernig skuldastýringu ríkissjóða á ekki að vera fyrirkomið.

Þessi stofnun hverra starfsmenn voru nú sviptir sínu sjálfstæða fagumhverfi og komnir undir stjórn Davíðs Oddsonar lánaði svo fúlgur fjár ríkisverðbréfa til bankanna gegn ónýtum veðum.  Enn eitt dæmið um stjórnarráð og stjórnsýslu sem brást algerlega og hefur enn ekki verið rannsökuð.

 Frú forseti.

Sem betur fer leggur þingmannanefndin til að fram fari stjórnsýsluúttekt á Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitinu, úttekt sem Hreyfingin hefur ítrekað kallað eftir á vettvangi fjárlaganefndar og forsætisnefndar í heilt ár en ekki fengið undirtektir við.  Til viðbótar þessu mun Hreyfingin leggja til að stjórnsýsluúttekt verði einnig gerð á starfsháttum forætis- fjármála- og viðskiptaráðuneyta í aðdraganda hrunisins og eftir það.

Frekari niðurstöður þingmannanefndarinnar eru t.d. að fram fari endurskoðun á stjórnsýslulögum, upplýsingalögum og lögum um Stjórnaráð Íslands og að fram komi hvaða reglur eigi að gilda um pólitíska starfsmenn ráðherra.  Nefndin leggur einnig til að brýnt sé að í ráðuneytum sé til staðar sú fagþekking og reynsla sem nauðsynleg er til að sinna þeim verkefnum sem ráðuneytum ber og að ætíð sé ráðið í stöður embættismanna á faglegum forsendum.

Þingmannanefndin fjallar einnig mikið um aðkomu fyrirtækja að háskólum og þær hættur sem felast í því að fyrirtæki eða hagsmunasamtök kosti skýrslur, stofnanir eða stöður á háskólastigi.  Skýrsla rannsóknarnefndarinnar fjallar einnig um siðferði út frá ýmsum sjónarhornum og leggur áherslu á að menntun í siðfræði verði gert hærra undir höfði.  Hreyfingin telur að ein meginorsök þeirrar vanburða umræðuhefðar í samfélaginu og á Alþingi liggi í menntunarleysi á sviði heimspeki þar sem rökhugsun og siðfræði eru viðfangsefni.  Menntun á Íslandi hefur í mjög auknum mæli færst yfir í að þjáfa upp vinnuafl frekar en að mennta einstaklingana.  Stefna sem leiðir á endanum, og hefur í raun þegar gert, til illa menntaðs samfélags.  Hér verður að gera mun á magni og gæðum því þó Íslendingar sjálfir telji sig mikið menntaða þjóð er hægt að færa rök fyrir því að þjóðin sé það sem kallað er, mikið illa menntuð.  Því mun Hreyfingin leggja til viðbótartillögu um að Alþingi feli menntamálaráðherra að beita sér fyrir breytingum á námsskrám grunnskóla og framhaldsskóla þannig að kennsla í heimsspeki verði sett á viðeigandi stall og verði að meðaltali kenndur a.m.k. einn áfangi í heimspeki á hverju skólaári á báðum skólastigum.

 Virðulegur forseti.

Þann 20. janúar 2009 hófst hér fyrir utan þinghúsið hin svokallaða Búsáhaldabylting hvers aðal slagorð var “Vanhæf ríkisstjórn.”  Með þrautsegju sem varði í sex sólahringa, utan dyra í íslenskum vetri, tókst okkur að koma ríkisstjórninni frá.

Skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis sýndi svo ekki varð um villst að Búsáhaldabyltingin átti rétt á sér og þó fyrr hefði verið.  Niðurstaða þingmannanefndar Alþingis sýnir einnig að Búsáhaldabyltingin átti rétt á sér og þó fyrr hefði verið.  Ef Alþingi samþykkir tillögur þingmannanefndarinnar mun Alþingi sjálft hafa sýnt að Búsáhaldabyltingin átti rétt á sér.

 Virðulegur forseti.

Búsáhaldabyltingin var aðhaldið sem almenningur taldi sig þurfa að veita stjórnvöldum.  Það aðhald virkaði og það var réttlætanlegt.  Næsta skref hlýtur því að vera að gera almenningi kleift að veita Alþingi og stjórnvöldum aðhald með siðmenntaðri hætti en að standa hér fyrir utan og öskra og kasta drasli í húsið.  Alþingi þarf að samþykkja lög um að tiltekinn hluti kjósenda geti með undirskrift sinni krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um tiltekið mál, og þar er vantraust á sitjandi stjórnvöld hverju sinni ekki undanskilið.  Þá fyrst verður Alþingi traustsins vert og þá mun fólkið treysta Alþingi, en fyrst verður Alþingi að treysta fólkinu.

 Frú forseti.

Vorið 2009 komu 27 nýir þingmenn til starfa á Alþingi.  23 þeirra gengu beint í björg fjórflokksins og einn gekk í Vinstri-græna.  Nú reynir á þessa nýju þingmenn að stíga út úr bjargi flokksræðisins og krefjast þess að tillögur þingmannanefndarinnar verði samþykktar og að þeim verði fylgt eftir.

Þá og þá fyrst er hægt að segja að Alþingi þjóðarinnar sé á réttri leið.  Á réttri leið til að verða betra Alþingi og á réttri leið til að auka traust þjóðarinnar á þinginu.  Þó að um langan veg sé að fara þá erum við þó á réttri leið.

Loksins.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Þór Saari
Hagfræðingur með lýðræðis- og stjórnmálavitund sem gerir kröfu um virka þátttöku í samfélaginu.

Er í framboði fyrir Pírata í SV kjördæmi (kraganum). Er fyrrverandi þingmaður í SV kjördæmi (kraganum) fyrir Hreyfinguna (2009-2013) og er einnig í stjórn Samtaka um lýðræði og almannahag.
Netfangið er: saari@centrum.is
RSS straumur: RSS straumur