Þá er fyrri umræðu lokið um þingsályktunartillögur þingmannanefndarinnar um hvort eigi að sækja til saka fjóra (þrjá) fyrrverandi ráðherra í hrunstjórn Geirs Haarde. Sjálfur talaði ég í gær og hér er tengill á ræðuna. Það var merkilegt að fylgjast með umræðunni og það kom skýrt fram hversu umræðuhefðin hér á landi er oft innihaldslaus og byggð á skoðunum og tilfiningum en ekki athugunum, mati og röksemdarfærslum. Sjálfstæðismenn töluðu í löngu máli um eitthvað allt annað en fjallað er um í tillögunum og Samfylkingingarfólk var svipað en þó meira á einhvers konar „egó flippi“ þar sem „hver þingmaður verður að líta í eigin barm og mynda sér skoðun“ bla, bla, bla.
Staðan er vissulega ekki eins og best verður á kosið vegna fyrningarákvæðanna í ráðherraábyrgðarlögunum sem gera ráðherra stikk frí eftir þrjú ár. Það fyrningarákvæði er skólabókardæmi um hvernig pólitísk yfirstétt í þessu landi hefur skipulega hagað löggjöf þannig að hún sleppi við ábyrgð og það hefur henni tekist. Það er samt ekki hægt að réttlæta það að lagaleg undankomuleið nokkurra eigi að gera alla stikk frí. Tillögur þingmannanefndarinnar eru skýrar og vel rökstuddar og tilraunir þingmanna og ráðherra hrunstjórnarninnar til að gera lítið úr þeim eru tilraunir til að bjarga eigin fólki og flokkum frá ábyrgð á hruninu.
Það eru enn 23 þingmenn á Alþingi sem voru stuðningsmenn hrunstjórnarinnar, 10 úr Samfylkingunni og 13 úr Sjáfstæðisflokknum og af þessum eru sjö enn á þingi sem voru ráðherrar í hrunstjórninni. Þar trónir forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir hæst allra. Það er ekki mikil von til þess að Alþingi nái að þokast nægilega mikið fram á við nægilega fljótt til að öðlast aftur traust þjóðarinnar með þetta fólk innanborðs. Sérstaklega þegar nú hefur komið í ljós að það hefur engann áhuga á að axla pólitsíska ábyrgð. Þess vegna höfum við í Hreyfingunni lagt áherslu á kosningar nú þegar skýrsla og niðurstöður rannsóknarnefndarinnar liggja fyrir og þegar skýrsla þingmannanefndar Alþingis liggur fyrir, en þar kemur skýrt fram hver gerði hvað, hver vissi hvað og hvenær þau vissu það.
Ábyrgðin er skýr og þó hún sé ekki í öllum tilfellum lagaleg þá er hún alltaf pólitísk og nú á almenningur að fá tækifæri til að segja álit sitt á þessum stjórnmálamönnum og þessu stjórnarfari sem var hér og sem 23 menningarnir rígalda ennþá í. Það sorglega er að hinir tíu nýju þingmenn Samfylkingar sem komu inn á þing í síðustu kosningum innmúruðust á fyrsta degi í flokks- og oddvitaræðið og virðast átta þeirra enga grein gera sér, eða vilja ekki viðurkenna, um hvað málið snýst.
Í dag verða greidd atkvæði um hvort tillögunar fara aftur til þingmannanefndarinnar milli fyrstu og annarrar umræðu eins og venja er til með mál, sem fara aftur til nefndarinnar sem flytur þau, eða hvort plott Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks gengur upp og málin verði send til Allsherjarnefndar þar sem þau verða eyðilögð. Verði svo þarf Samfylkingin að svara spurningunni: Hvað svo? Það verður nefnilega eftir að gera upp hrunið.
Nýlegar athugasemdir