Þriðjudagur 28.09.2010 - 09:11 - FB ummæli ()

Ráðherraábyrgð III, lokadagurinn

Framundan er atkvæðagreiðsla um hvort nokkrir stjórnmálamenn íslenskir séu ábyrgir gerða sinna eða aðgerðaleysis í aðdraganda hrunsins í október 2008.  Þingmannanefndin undir forystu þingmanns Atla Gíslasonar hefur skilað ef sér tillögum um að útkljáð skuli um ábyrgð fjögurra ráðherra fyrir Landsdómi.  Tillögur þingmannanefndarinnar eru mjög ítarlegar og vel rökstuddar og eftir mikla umræðu og gagnrýni bæði hér í þingsal og utan þinghússins hefur enn ekki komið fram sannfærandi efnisleg gagnrýni sem gerir þingmönnum kleyft að hafna tillögunum á efnislegum grunni.

Þingmenn sem andsnúnir eru þessum tillögum hafa byggt málflutning sinn á persónulegum skoðunum sínum, á því að málið snúist um eitthvað allt annað en það raunverulega gerir svo sem um gömul lög eða of fáa ráðherra.  Þeir hafa byggt málflutning sinn á persónulegum tengslum sínum við viðkomandi ráðherra, eða á hinu gamalkunna flokksræði sem gegnsýrt hefur lýðræðið á Íslandi frá upphafi Lýðveldisins og meðal annnars leitt til víðtæks samtryggingarkerfis hins svo kallað fjórflokks um ákveðin mál.

Þetta sama flokksræði leiddi til þess að hér varð til pólitísk yfirstétt sem gerði sjálfa sig óábyrga í gerðum sínum og sem birtist meðal annars í slímsetu þingmanna vegna mála sem í öllum öðrum nágrannalöndum hefðu leitt til afsagnar þeirra.  Þessi sama pólitíska yfirstétt setti sér að auki svo eigin lög um fyrningarfrest ráðherrábyrgðar sem gerir ráðherra stikkfrí frá ábyrgð á gjörðum sínum eftir aðeins þrjú ár.  Hvaðan þessi hugmynd um þriggja ára fyrningarfrest kemur veit ég ekki, en ekkert, ekkert sýnir betur en þetta ákvæði að hér hefur ríkt pólitísk yfirstétt sem hingað til hefur fundist sjálfsagt að vera stikkfrí þegar kemur að eigin ábyrgð.  Það er því ekkert annað en hlálegt að hlusta á fyrrum ráðherra hrunstjórnarinnar og marga þá þingmenn sem studdu hana tala út og suður um þetta mál.

Ef gera á hrunið upp með sómasamlegum hætti ættu miklu fleiri ráðherrar og fjölmargir þingmenn einnig að svara til saka, auk þessara fjögurra ráðherra sem tilgreindir eru í tillögum þingmannanefndarinnar.  Löggjöf okkar býður hins vegar ekki upp á það og útskýringar þingmannanefndarinnar á því eru góðar og gildar.  Ef hins vegar siðferði og ábyrgð væru eðlilegur hluti af því að vera ráðherra og þingmaður á Íslandi þá ættu að mínu mati þeir þrír fyrrverandi ráðherrar Sjálfstæðisflokksins sem nú eru þingmenn og þeir fimm fyrrverandi og/eða núverandi ráðherrar Samfylkingar sem sumir eru nú þingmenn, skilyrðislaust að víkja úr embætti og af þingi.

Allir þingmenn stjórnarflokkana sem studdu þá ríkisstjórn ættu einnig að sjálfsögðu að íhuga stöðu sína, ekki síst þeir þingmenn Samfylkingar sem voru á þingflokksfundunum tveimur í febrúar 2008 þar sem yfirvofandi bankahrun var kynnt.  Þeir þingmenn, í stað þess að upplýsa kjósendur sína um yfirvofandi hættu héldu því leyndu fyrir þeim og horfðu á almenning mánuðum saman taka íbúðalán á kjörum sem vitað var að aldrei myndu standast og myndu keyra þessar sömu fjölskyldur í þrot á örskotsstundu.

Staðan er hinsvegar sú að allir, allir sem komu fyrir Rannsóknarnefnd Alþingis á sínum tíma, alls 147, sögðust enga ábyrgð bera og allir sem skiluðu inn svörum til þingmannanefndarinnar sögðust enga ábyrgð bera.  Þetta er dapurleg staðreynd um algert ábyrgðarleysi í íslenskum stjórnmálum og algert ábyrgðarleysi í íslenskri stjórnsýslu.

Ef tillögur þingmannanefndarinnar verða ekki samþykktar á Alþingi í dag verður þetta algera ábyrgðarleysi stjórnmálamanna endanlega staðfest af Alþingi. Munu þingmenn virkilega standa fyrir því að algert ábyrgðarleysi og jafnvel glæpsamlegt athæfi ráðherra fái ekki viðeigandi lögskipaða meðferð og fari ekki fyrir viðeigandi dómstól?  Það kemur í ljós í dag.

Hvað Samfylkinguna varðar þá komu tíu nýir þingmenn inn á þing fyrir Samfylkinguna í síðustu kosningum.  Tvö þeirra, fulltrúarnir í þingmannanefndinni, hafa sýnt mikinn kjark í þessu máli en hin vil ég spyrja eftirfarandi.  Komu þau hér inn á þing til að sópa hruninu undir teppið, og ef svo er.  Hvað ætla þau þá að gera næst.  Þeir þingmenn Samfylkingarinnar sem vilja koma í veg fyrir þessa vel rökstuddu og eðlilegu málsmeðferð verða að hugsa mál sitt og hvort þeir eigi yfir höfuð að vera hér í þingsalnum í dag.  Persónuleg tengsl þeirra við fyrrum ráðherra, samstarfsmenn til margra ára eða afnvel áratuga eða miskilningur á því um hvað þetta mál snýst, má ekki verða til þess að þeir reyni að stöðva þetta mál.  Við þá, þessa þingmenn Samfylkingarinnar vil ég segja:  Hér er um fyllilega eðlileg vanhæfisskilyrði að ræða og ykkur ber að vera heima í dag.  Þó vanhæfisskilyrðin séu ekki lagaleg þá verða menn að hafa í huga að þótt það þurfi lög til að byggja samfélög mannanna og tryggja ákveðna funksjón þeirra þá eru þessi sömu samfélög aldrei byggð á lögum eingöngu.  Alls konar önnur ekki síður mikilvæg viðmið, til dæmis siðferðileg, eru einnig notuð sem mælikvarðar og útskýringar á athöfnum mannana.  Það eru þau viðmið eiga einnig við í dag.

Um Sjálfstæðisflokkinn þarf ekki að hafa mörg orð.  Sú botnlausa leiðtogadýrkun sem alla tíð hefur verið aðal Sjálfstæðismanna gerir þeim ókleyft að taka faglega og siðferðilega afstöðu í þessu máli.  Ágætur maður lét eitt sinn svo um mælt að þótt leiðtogar Sjálfstæðisflokksins yrðu fundnir sekir um mannát á almannafæri myndu samt um þriðjungur þjóðarinnar kjósa þá.  Af sextán núverandi þingmönnum Sjálfstæðisflokksins eru þrettán ýmist ráðherrar hrunstjórnarninnar eða þingmenn sem studdu hana, og það með ráðum og dáð.  Afstaða þeirra allra til þessa máls er einfaldlega dæmi um forherðingu þeirra sem gripnir eru með góssið á leiðinni út úr búðinni þar sem þrætt er fyrir og lagst í afneitun fram í rauðan dauðan.  Verði þeim að góðu, þetta þekkja þeir best.  Alþingis vegna, kjósenda sinna vegna og ábyrgðar sinnar vegna, ættu Sjálfstæðismenn hins vegar að sjálfsögðu að sitja hjá, eða sitja heima í dag.

Og svo þurfa Vinstri-grænir náttúrulega að svara því hvort og þá á hvaða forsendum þeir haldi áfram þessu ríkisstjórnarsamstarfi.  Ætla  þingmenn VG virkilega að sitja í ríkisstjórn hverra hluti þingmannaliðs og jafnvel forsætisráðherran sjálf, hafnar því að gera upp hrunið?  Vonandi hafa þeir það sjálfsagða siðferðisþrek sem til þarf til að krefjast þá kosninga við slíkar aðstæður.

Og talandi um kosningar.  Það má færa góð og gild rök fyrir því að hvernig svo sem málin fara með ráðherraábyrgðina í dag að þá eigi almenningur skýlausan rétt á nýjum kosningum.  Þetta segi ég vegna þess að með tilliti til niðurstöðu Rannsóknarnefndar Alþingis og með tilliti til niðurstöðu þingmannanefndarinnar þá hefur komið skýrt í ljós hvað var hér í gangi.  Almenningur á núna, þegar þessar upplýsingar liggja fyrir skýlausan rétt til að segja álit sitt á ríkjandi stjórnvöldum, á fyrrverandi ráðherrum og á þeim þingmönnum sem studdu þá ríkisstjórn og á því stjórnarfari sem verið hefur hér við lýði undanfarin ár og hefur svo lítið breyst.  Kosningar til Alþingis sem fyrst væru því hið eðlilega lýðræðislega framhald í íslenskum stjórnmálum nú þegar þessum degi lýkur.

Þingmenn koma saman í dag og eins og endranær eru þeir hér í umboði kjósenda sinna.  Umboði sem þeim ber að fara vel með og sem þeim var veitt fyrir aðeins um sextán mánuðum síðan.  Í því umboði og engra annarra munu þeir greiða atkvæði í dag.

Alla þá þingmenn sem einhverra hluta vegna telja sig þurfa að greiða atkvæði gegn því að stjórnmálamenn þurfi að axla ábyrgð og mæta með hugsanleg brot sín fyrir dómstól vil ég því spyrja:  Komuð þið hingað inn á Alþingi vorið 2009 til þess að sópa hruninu undir teppið?  Til þess að koma í veg fyrir að hrunið yrði gert upp?  Koma í veg fyrir uppgjör mesta efnahags- stjórnmála- og siðferðishruns Íslandssögunnar.  Því það er einmitt það sem verið er að gera með því að stöðva þessar tillögur.  Það er verið að afgreiða pólitíska ábyrgð á hruninu, af hálfu Alþingis Íslendinga, með því að sópa því undir teppið.  Og ef það verður gert, ef að þingmenn stöðva þetta mál þá spyr ég: Hvað ætla þau þá að gera að því loknu?  Hvað svo?  Hvað næst ágætu þingmenn?  Á að reyna að setja Alþingi að nýju á föstudaginn 1. október eins og ekkert hafi í skorist?  Dettur einhverjum virkilega í huga að það sé hægt?  Hvað ætla menn að segja?  „Ha, já hrunið, við erum nú búin að afgreiða það.“   Bara si svona.

Ég hef engan sérstakan áhuga á að fyrrverandi ráðherrar, eða þingmenn væri það hægt, verði dæmdir til refsingar eða sekta.  Það varð hér hins vegar efnahagslegt, pólitískt, og siðferðilegt hrun og frammi fyrri þeirri staðreynd stöndum við.  Á því bera margir ábyrgð, mismunandi ábyrgð og sumir meira en aðrir.  Hver sú ábyrgð nákvæmlega er og hverjir bera hana er hins vegar annarra en okkar þingmanna að finna út og dæma.  Það er hins vegar okkar þingmanna að sjá til þess að eðlilegur farvegur fyrir slík mál sé til staðar og sú löggjöf sem til þarf verði notuð.  Sú vinna sem þingmannanefnd Alþingis hefur unnið er fordæmalaus, hún er vönduð og niðurstða nefndarinnar er rétt og eðlileg og þingmannanefndin og formaður hennar eiga miklar þakkir skilið fyrir starf sitt.  Þess vegna má það ekki gerast í dag að Alþingismenn láti persónuleg sjónarmið sín, pólitísk sjónarmið sín, eða órökrétt sjónarmið ráða því hvernig þeir greiða atkvæði.  Hér þurfa menn að vanda sig, vanda sig vel og taka efnislega afstöðu til málsins eða segja sig frá málinu ella.  Halda sig heima.  Hér er nefnilega meira í húfi en nokkru sinni fyrr.  Hér er framtíð sjálfs Alþingis í húfi.

Þetta er stóra tækifærið sem Alþingi hefur til að standa undir nafni sem æðsta stofnun lýðveldisins.  Þetta er stóra tækifærið sem Alþingi hefur til að efla traust þjóðarinnar á því að nýju.  Þetta er stóra tækifærið.  En þetta er jafnframt, ef illa fer, líklega einnig síðasta tækifærið.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Þór Saari
Hagfræðingur með lýðræðis- og stjórnmálavitund sem gerir kröfu um virka þátttöku í samfélaginu.

Er í framboði fyrir Pírata í SV kjördæmi (kraganum). Er fyrrverandi þingmaður í SV kjördæmi (kraganum) fyrir Hreyfinguna (2009-2013) og er einnig í stjórn Samtaka um lýðræði og almannahag.
Netfangið er: saari@centrum.is
RSS straumur: RSS straumur