Þriðjudagur 28.09.2010 - 23:57 - FB ummæli ()

Ráðherraábyrgð IV, Alþingi bregst.

Alþingi brást hlutverki sínu í dag þegar það klúðraði afgreiðslu þingsályktunartillögu þeirrar þingmannanefndar sem Alþingi sjálft kaus til að fjalla um þátt ráðherra og þátt Alþingis í hruninu.  Þetta var endapunkturinn á sérstaklega dapurlegu ferli þar sem meirihluti þingmanna einfaldlega  hafnaði því að þrír af þeim fjórum ráðherrum sem þingmannanefndin lagði til að færu fyrir Landsdóm bæru nokkra ábyrgð.  Sjálfur var ég með stutta ræðu í þinginu svona í lokin þar sem ég varaði við þessari afgreiðslu, sjá hér.  Ég hef búið við þau forréttindi að geta hlustað á allar umræður um þingmál á fullu kaupi og hef lagt mig sérstaklega fram í þessu máli að fylgjast vel með því sem þingmenn hafa haft fram að færa.  Það verður því miður að segjast eins og er að enginn, enginn þeirra þingmanna sem greiddi atkvæði gegn ábyrgð ráðherrana gat fært fyrir því málefnaleg rök sem stóðust, borið saman við þau rök sem þingmannanefndin lagði fram.  Það varð ljóst strax í upphafi umræðunnar að Sjálfstæðisflokkurinn ætlað gegn niðurstöðu þingmannanefndarinnar alveg sama hvað.  Þrátt fyrir sextán þingmenn og marga þeirra lögfræðinga, var málflutningur þeirra að mestu leiti út og suður um eitthvað sem kom þessu máli ekkert við eða þá einhvers konar alhæfingar í þá veru að þeir höfnuðu röksemdum þingmannanefndarinnar, punktur.  Þó gera megi ráð fyrir að eftir tveggja áratuga Davíðsku sem eyðilagði alla hæfileika sjálfstæðismanna til að eiga í rökræðum séu þeir einhvern tíma að ná sér á strik, þá hafa þeir ekki ennþá náð að tileinka sér aðferðir rökræðuhefðar, en eru enn fastir í þeim hroka og yfirgangi Davíðskunnar sem gerði þeim kleyft að vera með innantómar stórkarlalegar yfirlýsingar og komast upp með það.

Þetta sama má segja um þá þingmenn og ráðherra Samfylkingunnar sem reyndu að vernda sitt fólk.  Málflutningur þeirra var alveg á sömu nótum og sjálfstæðismanna og það átti að afgreiða málið með yfirlýsingum og illa rökstuddum málflutningi.  Hvað Samfylkinguna varðar varð ég sérstaklega fyrir vonbrigðum með forseta Alþingis Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur sem greiddi atkvæði gegn öllum tillögunum, en það var einmitt Ásta sem beitti sér fyrir því sem forseti þingsins að þetta mál yrði afgreitt með þessum hætti og þingmannanefndin var barn Ástu meira en nokkurs annars.  Samt hélt hún ekki einustu ræðu um ráðherrábyrgðina og rökstuddi aldrei hvers vegna hún greiddi atkvæði gegn tillögum nefndarinnar um ábyrgð ráðherra.  Þetta er ekki hægt að skilja á annan veg en að forseti þingsins hafi lýst algeru vantrausti á þingmannanefndina hvað þessa niðurstöðu nefndarinnar varðar og sem hún þó bar ábyrgð á.

Þegar lesið er í atkvæðin kemur í ljós að hér er um ræða samtryggingu hrunstjórnarþingmanna og hrunstjórnarráðherra meira en nokkurt annað mynstur þó leiða megi líkur að því að vinskapur og ættarsaga pólitískrar yfirstéttar hafi líka ráðið ferðinni í sumum tilfellum.  Það sem er þó verst er að Alþingi ákvað í dag að hvað stjórnmálamenn varðar beri að sópa hruninu undir teppið og gera þá stikkfrí og örlög Geirs Haarde í atkvæðagreiðslunni breyta þar í raun engu um.  Uppgjöri við hrunið er því ekki lokið og sú ætlan ríkisstjórnarinnar og þess þingliðs sem henni veitir stuðning að það sé hægt að setja hér nýtt þing þann 1. október næstkomandi eins og ekkert hafi í skorist er í meira lagi undarleg.

Alþingi er alveg rúið trausti og það ber að sjálfsögðu að leyfa almenningi að segja álit sitt á þessum stjórnmálum og þessu stjórnarfari strax með því að boða til kosninga.  Það er ekki endilega gleðiefni eða heppiegt að hafa kosningar strax og við í Hreyfingunni erum ekki frekar en aðrir undir það búin.  En það skiptir ekki máli.  Nú þegar niðurstöður rannsóknarnefndar Alþingis liggja fyrir, þegar niðurstöður og tillögur þingmannanefndar Alþingis liggja fyrir og þegar liggur fyrir með hvaða augum Alþingi lítur ábyrgð stjórnmálamanna, en ekkert af þessu var ljóst fyrir kosningarnar vori 2009, þá er það einfaldlega eðlilegt skref að almenningur fái að segja álit sitt í kosningum.  Annað er bara hreinn og beinn yfirgangur.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Þór Saari
Hagfræðingur með lýðræðis- og stjórnmálavitund sem gerir kröfu um virka þátttöku í samfélaginu.

Er í framboði fyrir Pírata í SV kjördæmi (kraganum). Er fyrrverandi þingmaður í SV kjördæmi (kraganum) fyrir Hreyfinguna (2009-2013) og er einnig í stjórn Samtaka um lýðræði og almannahag.
Netfangið er: saari@centrum.is
RSS straumur: RSS straumur