Hvað varð um Réttlæti? Hvað varð um Loforð? Hvað varð um Heiðarleika? Hvað varð um Ábyrgð? Hvað varð um Jóhönnu? Hvað varð um Vinstri-græn?
Hvað varð um lýðræðisumbæturnar? Persónukjörið næst ekki í gegn. Lög um þjóðaratkvæðagreiðslur fást ekki samþykkt. Fjármál stjórnmálaflokka eru áfram gjörspillt með nýjum lögum fjórflokksins. „Úrræðin“ í skuldavanda heimilana eru á við pyntingarklefa. Dómskerfið allt virðist vera í herferð gegn réttlæti. Stjórnsýslan er í herferð gegn almenningi. Bankakerfið afskrifar milljarða til pólitískt tengdra sægreifa en hendir fjölskyldum út vegna nokkurra milljóna. Þingmenn á spena fjármálafyrirtækja sitja enn á þingi. Skuldir þingmanns sem verða ekki greiddar duga fyrir árslaunum verkamanns í rúmlega fimm hundruð hundruð ár eða fyrir 10 milljon króna afskrift af íbúðalánum um 170 fjölskyldna. Fyrrum samráðherrar og samþingmenn Hrunstjórnarinnar og meira að segja forseti Alþingis hafna því að gera upp Hrunið og líkleg lögbrot ráðherra þess. Hva? Jú, þau eru félagar og vinir, pólitísk yfirstétt. Þjóðin treystir ekki Alþingi.
Í dag á svo bara að halda áfram á sömu braut með setningu nýs löggjafarþings eins og ekkert sé. Bara si svona. Sömu þingmenn og sömu ráðherrrar með meira að segja biskupinn með sér í broddi fylkingar sækja sér guðsblessun í Þjóðkirkjuna (já, þá sömu og þið vitið) og hylla svo sjálfa sig í þinghúsinu á eftir. „Hrunið? Ha? Það. Já þú meinar. En við erum búin að afgreiða það. Við erum íslensk stjórnmálamenni.“
Ágætu samþingmenn, ágætu samlandar. Seremoníurnar í dag eru vel skipulagðar og vel varðar af lögreglu en keisarinn er samt ekki í neinum fötum. Meðvirknin og firringin verður að hætta. Í dag viðrar vel til útiverka.
Nýlegar athugasemdir